Kornskurður gengur tregt vegna veðurs

Kornskurður stendur nú sem hæst en er seinna á ferðinni í ár en síðustu ár vegna kulda og þurrka í sumar. Þá hefur veðurfar síðustu daga hefur tafið kornskurð en mikið rignt síðustu daga auk þess sem hvasst hefur verið á Suður- og Vesturlandi. Kornöxin geta farið illa í roki en þó er rok og rigning skárri en hvassviðri í þurru veðri. Ljóst er þó að korn hefur víða lagst undan veðrinu.
Spáð er skúrum í dag en á morgun á að snúast í norðanátt og þá ætti þresking að geta farið í fullan gang.
Kornrækt hefur aukist síðustu ár og var uppskeran í fyrra um 16.000 tonn, sem er svipað og árið 2009. Þess er þó ekki að vænta að uppskera þessa árs verði neitt í líkindum við það sem verið hefur síðustu tvö ár. Eftir því sem næst verður komist er uppskera hvergi mjög góð, en víða sæmileg. Töluvert hefur verið um að bændur hafi ákveðið að skera ekki kornið heldur slá akrana og rúlla uppskeruna og nota sem grænfóður/heilsæði. Það á þó frekar við norðanlands en staðan er betri bæði sunnan- og vestanlands.


back to top