Kornbirgðir heimsins aldrei verið minni

Kornbirgðir í heiminum hafa aldrei verið minni en nú og er ástæðan einkum aukin eftirspurn. Aðeins eru til birgðir til 53 daga en síðustu ár hafa þær stöðugt farið minnkandi. Fyrir aðeins átta árum síðan voru birgðir til 110 daga.

Ástæða minnkakndi kornbirgða er aukin eftirspurn en stöðugt fjölgar því fólki sem þarf að brauðfæða. Efnahagur fólks í t.d. Asíu fer mjög batnandi sem þýðir aukna neyslu á dýrari matvöru eins og kjöti. Það leiðir aftur til aukinnar eftirspurnar eftir fóðurkorni ásamt því að nú eykst eftirspurn eftir lífrænum orkugjöfum, sem annars mætti nýta til fóðurs, vegna hás olíuverðs. Þá hefur uppskera brugðist á nokkrum stöðum í heiminum, t.d. vegna þurrka í Ástralíu. Vegna þessa gengur nú mjög á kornbirgðir heimsins og það þýðir aðeins eitt – hækkandi verð.

Á móti kemur að kornframleiðsla eykst nú verulega í A-Evrópu og fyrrum lýðveldum Sovétríkjanna eins og t.d. Azerbajdan. Hvort að það dugir til að vega upp aukna eftirspurn á eftir að koma í ljós.


back to top