Íslenskir lántakendur njóta mismunandi vaxtaálagskjara í bönkunum

Vextir á millibankamarkaði í London, svokallaðir LIBOR vextir, hafa lækkað verulega á undanförnum mánuðum í helstu myntum. Þessi þróun er jákvæð fyrir íslensk fyrirtæki og heimili þar sem vaxtabyrði af erlendum lánum lækkar. Mismunandi vaxtaálag íslensku bankanna hefur þó í för með sér að íslenskir lántakendur gjaldeyrislána njóta lækkunar LIBOR vaxtanna mismunandi mikið.

Fjallað var um málið í Morgunkorni greiningar Glitnis í gærmorgun (18.12.). Þar segir að frá miðjum októbermánuði hafa 3ja mánaða LIBOR vextir í Bandaríkjadollar lækkað úr 7% í ríflega 2%, samskonar vextir í evrum hafa lækkað úr 5,4% í 3,4%, í svissneskum franka hafa vextirnir farið úr 4,8% í 1,4% og vextir á 3ja mánaða millibankalánum í pundum úr rúmum 7% í 3,6% á tímabilinu. Vextir í japönskum jenum hafa hins vegar breyst tiltölulega lítið. Helsta ástæða þessarar þróunar er umfangsmikil lækkun stýrivaxta í flestum helstu myntum.

Þessi þróun LIBOR-vaxta er að öðru jöfnu góð tíðindi fyrir þau heimili og fyrirtæki sem skulda gengistryggð lán. Almennt eru vaxtakjör á slíkum lánum beintengd þróun 3ja mánaða LIBOR-vaxta í viðkomandi myntum, og síðan bætt við tilteknu álagi.


Sú vaxtaprósenta sem skuldarar gengistryggðra lána greiða breytist því alla jafna sem nemur prósentustigsbreytingu LIBOR-vaxtanna. Því er almennt spáð að vextir lækki frekar á evrusvæði og í Bretlandi, auk þess sem líklegt er að álag millibankavaxta gagnvart stýrivöxtum minnki jafnt og þétt eftir því sem ótti manna við frekara hrun fjármálastofnana minnkar. Gengisfall krónunnar hefur þó vissulega sett strik í reikninginn hvað greiðslubyrði af þessum lánum varðar og skapar ákveðna óvissu um greiðslubyrði þeirra í framtíðinni.

Samkvæmt visir.is hefur fólk haft samband við fréttamiðilinn og vakið athygli á því að þeir lántakendur sem eru með myntkörfulán hjá Kaupþingi njóta ekki eins mikillar lækkunnar og hjá öðrum bönkum.


Fram kom m.a. í frétt um málið að frá því í október hafa millibankavextir í svissneskum frönkum farið úr 4,8% í 1,4%. Einn viðmælandi visir.is benti á að samkvæmt þessu væri myntkörfulán hjá Byr í svissneskum frönkum nú með 4,65% vexti en hjá Kaupþingi væru þetta 7,89% vextir. Munaði þar því 3,24%. Hjá Byr væri álagið 3,25% og síðan bættust millibankavextirnir við en hjá Kaupþingi væri álagið 2,25% og síðan bættust kjörvextir við sem bankinn ákveður sjálfur en þeir nema nú 5,59%.


Kjörvextir Kaupþings voru til umræðu á vefsíðu Neytendasamtakanna í byrjun síðasta mánaðar eftir að samtökin höfðu fengið nokkur mál inn á borð vegna myntkörfulána Kaupþings til fasteignakaupa. Málið snýst um hækkun kjörvaxtaálags sem lántakendur telja að sé ekki samkvæmt lögum. Kaupþing hefur hækkað þetta álag á undanförnum tveimur árum.


Þar segir: „Vextir á myntkörfulánum Kaupþings kallast kjörvextir og eru samsettir úr millibankavöxtum (LIBOR) og sérstöku álagi sem Kaupþing ákveður einhliða og kallast kjörvaxtaálag.


Millibankavextir (LIBOR vextir) eru breytilegir og fara eftir kjörum á markaði hverju sinni. Ef t.d. evrópski seðlabankinn hækkar stýrivexti leiðir það oftast til þess að millibankavextir í evrum hækka. Myntkörfulán eru yfirleitt samsett úr tveimur eða fleiri myntum og millibankavextir á þeim geta hækkað og lækkað yfir lánstímann. Þetta þýðir að vextir á láninu eru breytilegir og ætti lántakendum að vera það ljóst.


Það sem lántakendur virðast ekki hafa vitað og ekki verið gerð grein fyrir er að Kaupþing er með sérstakt kjörvaxtaálag sem bætist ofan á millibankavextina. Ekki er hægt að sjá hvert kjörvaxtaálagið er hverju sinni því það kemur ekki fram í gjaldskrá eða á lánsamningi. Til að reikna kjörvaxtaálagið út þarf því að draga millibankavexti frá kjörvöxtum og þá sést hvert álagið er.“


Samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi kemur á móti þessum vaxtakjörum bankans að þau séu endurskoðuð mun örar en hjá öðrum bönkum eða á 3ja mánaða fresti. Næsta vaxtaákvörðun er um áramótin og þá verður tekið tillit til þess hve mikið millibankavextir hafa lækkað á ársfjórðungnum.

Frétt unnin upp úr eftirtöldum greinum:
Heimili og fyrirtæki njóta góðs af lækkandi millibankavöxtum
Kaupþing er með hæstu vextina á erlendum lánum
Myntkörfulán – óskýrir skilmálar


back to top