Innflutningur landbúnaðarvara

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur svarað fyrirspurn Pétur H. Blöndal, alþm., um innlfutning landbúnaðarvara. Í fyrispurn Péturs kom m.a. fram að fyrir margt löngu gerðu ríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar með sér samning um frjálst flæði á landbúnaðarvörum og í því fólst að leyfa átti innflutning á bannvörum með tollkvótum til að tryggja lágmarksinnflutning. Í byrjun átti magnið að vera 3% af innanlandsneyslu á viðkomandi vöru en síðan skyldi það aukast í 5% á sex árum. Hugsunin á bak við þetta var sú að á þessum lokaða markaði ætti aukið framboð að lækka verðið en það er þekkt hagfræðilögmál.

Fyrispurnin var eftirfarandi:


1. Hvernig hefur innflutningur landbúnaðarvara með tollkvótum þróast sem hlutfall af innanlandsneyslu?


2. Hefur alltaf verið flutt inn það magn sem boðið var í? Ef svo er ekki, til hvaða úrræða hefur þá verið gripið?


3. Var ekki áætlað að með aðild Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni mundi innflutningur landbúnaðarvara aukast sem hlutfall af innanlandsneyslu og að aukið framboð mundi lækka verðið?


Í svari ráðherra kom fram að ekki liggur fyrir heildarúttekt á því hvernig innflutningur landbúnaðarvara með tollkvótum hefur þróast sem hlutfall af innanlandsneyslu. Hins vegar er ljóst að innflutningur á kjöti hefur aukist umtalsvert á síðustu árum. Innflutningur á nautakjöti nam t.d. 24 tonnum árið 2002 en árið 2006 nam sá innflutningur tæpum 550 tonnum. Það svarar til um 17% af heildarneyslu. Á sama tímabili hefur innflutningur á alifuglakjöti aukist úr tæpum 69 tonnum í tæp 115 tonn. Sem hlutfall af innanlandsneyslu er um að ræða tæp 2%.


Ráðherra sagði landbúnaðarvörur sem falla undir svokallaðan WTO-tollkvóta hafa undantekningarlítið verið fluttar inn enda hefur eftirspurn eftir þessum tollkvótum verið umtalsvert meiri en framboð þeirra. Við úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á landbúnaðarvörum frá ESB-löndum síðasta vor kom hins vegar í ljós að nokkur brögð voru að því að fyrirtæki buðu háar upphæðir í tollkvótann en stóðu síðan ekki við tilboð sín þegar til átti að taka. Þannig bauð eitt fyrirtækið 207 millj. kr. en innleysti ekki kvótann. Þetta leiddi til þess að neytendur fengu ekki að fullu notið aukins vöruúrvals og ekki heldur hagstæðari viðskiptakjara eins og að var stefnt með útboðinu. Þetta kom sér líka illa fyrir þau fyrirtæki sem þurftu á tollkvótanum að halda en gátu ekki flutt þessar landbúnaðarvörur inn á lægri gjöldum þar sem kvótinn var tepptur af þeim sem hæst buðu ef þannig mætti að orði komast.


Ráðherra sagðist hafa beitt sér fyrir tilteknum breytingum á fyrirkomulagi útboðsins á þann veg að til þess að tilboð teldist gilt skyldi fylgja því ábyrgðaryfirlýsing banka, sparisjóðs eða vátryggingarfélags þar sem fram kæmi að viðkomandi ábyrgðarveitandi tryggi að tilboðsgjafi geti staðið við tilboð sitt. Þá þyrfti tilboðsgjafinn, sá sem hæst bauð, að leysa til sín úthlutaðan tollkvóta með greiðsluandvirði hans innan sjö daga frá dagsetningu tilkynningar um niðurstöðu útboðs. Hafi tilboðsgjafi ekki leyst til sín tollkvóta innan þess tímafrests er landbúnaðarráðherra heimilt að bjóða næstbjóðanda óinnleystan tollkvóta. Þetta nýja fyrirkomulag hefur reynst mjög vel og mun það verða viðhaft um næstu útboð á tollkvótum. Í útboðinu síðasta haust kom greinilega í ljós að fyrirtækin vönduðu sig betur og voru tilboðin einnig umtalsvert lægri en verið hafði í fyrri útboðum. Þau tilboð sem bárust voru allt að 66% lægri en þau voru síðasta vor og það ætti að skila sér í lægra verði til neytenda á þessum innfluttu vörum. Ég tel ástæðu fyrir þá sem fylgjast með þróun vöruverðs í landinu, eins og verkalýðshreyfinguna, samkeppnisyfirvöld og aðra þá sem hafa það verkefni með höndum, að fylgjast með því að þetta skili sér í vasa neytenda.


Þriðja lið fyrirspurnarinnar svaraði ráðherra á þann veg að með aðild Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, sem tók gildi hér á landi um mitt ár 1995, hefði m.a. opnað fyrir innflutning á landbúnaðarvörum sem áður hafði verið bannaður og því nær enginn innflutningur á. Þessar vörur féllu undir svonefndan lágmarksaðgang en þar var heimilaður innflutningur á 3–5% af innanlandsneyslunni eins og hún hafði verið á viðmiðunarárunum 1986–1988. Á þeim tíma sem er liðinn síðan hefur orðið umtalsverð breyting á innanlandsneyslu en þess ber að geta að ekki hefur náðst nýtt samkomulag á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Þar sem ekki hefur náðst nýtt samkomulag hjá WTO sömdu íslensk stjórnvöld við ESB um tvíhliða viðskipti með landbúnaðarvörur.


back to top