Hefur áhyggjur af peningahyggju og sýndarrmennskuþörf auðmanna

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda var settur í Bændahöllinni í gær. Meðal þess sem kom fram í máli Jóhannesar Sigfússonar, formanns Landssamtakanna, var að íslenskur landbúnaður hefur ekki bolmagn til að berjast um lönd og jarðir við peningahyggju og sýndarmennskuþörf auðmanna.
Á undanförnum árum hefur jarðarverð farið mjög hækkandi og fjársterkir aðilar keypt upp jarðir. Jóhannes sagði að taka þyrfti eignarhald á landi til gagngerrar endurskoðunar af ráðamönnum ef ekki ætti illa að fara. Hann sagði smátt og smátt þrengja að hefðbundnum landbúnaði og því byggðamynstri sem fyrir væri í dag. Landbúnaðurinn hefði hvorki fjármagn né greiðslugetu til að taka þátt í þessum leik.

Jóhannes sagði einnig ástæðu til að hafa áhyggjur af því hve mikið er um að torfæruhjól séu notuð við smalamennsku því þessi hjól geti valdið landskemmdum. Hann sagði gríðarlega breytingu hafa orðið á umgengni bænda um landið á undanförnum árum.


„Ég held til að mynda að notkun alls konar torfæruhjóla við smalamennsku sé orðin verulega umhugsunarverð a.m.k. á því svæði sem ég þekki best til. Og hygg að svo sé víðar farið. Ekki svo að skilja að slík tæki eigi ekki rétt á sér við ákveðnar aðstæður við smalamennsku, en mjög auðvelt er að misnota þau líka. Ef við á annað borð höfum skömm á landskemmdum af völdum utanvegaaksturs þurfum við að gæta þess að kasta ekki grjóti úr glerhúsi,“ sagði Jóhannes á fundinum.


back to top