Haustfundur HS 2013

Fundargerð
Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands

Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn í Veitingahúsinu Kanslaranum á Hellu, fimmtudaginn 10. október 2013.

Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Kynning á Iceland horse expo, Hrafnkell Guðnason
3. Vetrarstarfið hjá Hrossaræktarsamtökum Suðurlands, Sveinn Steinarsson
Kaffihlé
4. Skýrsla starfshóps, markaðsmál, Eysteinn Leifsson
5. Nýliðin ráðstefna á Hvanneyri, Sveinn Steinarsson
6. Önnur mál

1. Fundarsetning
Sveinn Steinarsson setti fundinn og bauð fundarmenn og frummælendur velkomna á hinn árlega haustfund samtakanna. Kynnti frummælendur þá Hrafnkel Guðnason, Eystein Leifsson og Ingimar Baldvinsson. Hann kom með tillögu um að Ólafur Þórisson yrði fundarstjóri og Halla Eygló Sveinsdóttir fundarritari. Engar mótbárur komu fram við því. Að því búnu fór hann yfir dagskrá fundarins

2. Kynning á Iceland horse expo, Hrafnkell Guðnason
Hrafnkell byrjaði á því að kynna sig en hann er starfsmaður hjá Háskólafélagi Suðurlands og í meistaranámi í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst. Hann fór yfir hverjir væru samstarfsaðilar að verkefninu Iceland horse expo en það eru: Háskólafélag Suðurlands sem hann er starfsmaður hjá, Markaðsstofa Suðurlands, Hrossarækt ehf, Rúnar Þór Guðbrandsson, DMC Iceland, ýmsir ferðaþjónustu aðilar, Hrossaræktarsamtök Suðurlands, Félag tamningamanna, nokkur hrossaræktarbú á Suðurlandi og Ölfushöllin.
Skoða þarf markaðslegar forsendur á Íslandshestamarkaðnum. Talið er að hestaiðnaðurinn skapi 400.000 störf í Evrópu. Það þarf að skapa alþjóðlega árvissa viðburði á Suðurlandi og er það hugmyndin á bak við verkefnið Iceland horse expo. Ef vel tekst til getur verkefni eins og þetta laðað að sér fjölda gesta. Auðlindin er fyrir hendi en skipulögð markaðssetning og samvinna eru lykilorðin til að slíkt heppnist. Hagur ræktenda og þeirra sem starfa við hestamennsku er að þarna skapast aukin tækifæri fyrir til sölu á afurðum og ferðaþjónustan getur aukið tekjur sínar utan háannar.
Iceland horse expo er vikulangt prógram á Íslandi þar sem ferðamönnum gefst kostur á að kynnast sem flestum hestatengdum viðburðum. Viðburðir sem stefnt er að eru:
Opið bú hjá hrossaræktarbúum, 14 bú með í dag
Stóðhestaveisla
Töltfimi
Kennslusýningar, mikilvægt að selja þekkingu og markaðssetja kennslu.
Móttökur í fyrirtækjum tengdum hestamennsku
Viðburðir hjá Hrossaræktarsamtökum Suðurlands
Í dag er búið að útbúa bækling, logo og heimasíðu (www.horseexpo.is). Kynnig fór fram á HM í Berlín. Það er komin hugmynd að dagskrá og verið að semja við ferðaþjónustuaðila. Tækifæri fyrir ykkur geta verið sölusýningar, unghrossasýningar, sunnlensk topphrossasýning, stefnumót við ræktendur til að koma á kynnum o.fl.

Að þessu sögðu kynnti Hrafnkell Guðnason Markaðsstofu Suðurlands.
Markaðsstofur landshlutanna eru í hverjum landshluta. Tilgangur Markaðsstofu Suðurlands er að vera í fararbroddi í sameiginlegu markaðs- og kynningarstarfi fyrir Suðurland bæði innanlands og utan með áherslu á að auka atvinnustarfsemi og gjaldeyristekjur. Kostir Suðurlands til búsetu og ferðalaga eru hafðir að leiðarljósi og stuðlað er að aukinni eftirspurn eftir vöru og þjónustu. Lögð er áhersla á að styrkja ímynd Suðurlands, standa fyrir og styðja við fræðslu, ráðgjöf og nýsköpun. Tekið er tillit til allra atvinnugreina í viðkomandi landshluta og sérkennum einstakra svæða frá austri til vesturs. Samstarf allra atvinnugreina og svæða er lykilatriði við að ná árangri í eflingu Suðurlands. Markaðsstofa er sjálfeignarstofnun sem fyrirtæki og sveitarfélög eiga aðild að. Gefnir hafa verið út landshlutabæklingar og þjónustu og kynningarvefir www.south.is og www.winterwonderland.is
Á þessu ári hefur Markaðsstofa tekið þátt í sýningum og markaðskynningum s.s. Suðurlands-kynning á HM í Berlín. Að lokum sagði Hrafnkell frá því að meistaranám hans á Bifröst væri að skoða hestaiðnaðinn á Íslandi. Þeir þættir sem stæði til að skoða væru:
-Hverjir eru samkeppnisaðilar íslenskrar hrossaræktar? Önnur afþreging
-Hvernig er samkeppninni háttað og hver er samkeppnishæfni íslenskrar hrossaræktar sem atvinnugreinar
-Hvernig er hægt að bæta samkeppnishæfni
-Getur klasastarf aukið samkeppnishæfni íslenska hestsins á alþjóðamarkaði?
Klasasamstarf snýst um samvinnu í samkeppni. Klasi er þyrping fyrirtækja sem skapa samlegðaráhrif vegna nálægðar eða tengsla. Eru landfræðilega afmörkuð svæði en geta unnið á heimsvísu. Til að ná árangri er SAMVINNA LYKILORÐIÐ!!
Sveinn Steinarsson tjáði fundarmönnum hver hefði verið aðkoma HS að þessu verkefni og sagði að enn væri eftir að móta hvar Hrossaræktarsamtök Suðurlands yrðu með viðburði. Það liggur fyrir samkvæmt dagskrá Horse Expo að HS verði með föstudaginn fyrir sinn viðburð frá miðjum degi fram á kvöld. Stjórnin er búin að velta ýmsu fyrir sér en það þarf að ákveða sem fyrst hvað á að gera því viðburðurinn þarf að komast inn í dagskrána sem þarf að vera klár í þessum mánuði. Ungfolasýningin hefur fram að þessu fyrst og fremst verið hugsuð fyrir ræktendur. Spurning hvort það væri hægt að vera með sölusýningu í tengslum við hana. Að öllum líkindum þarf að velja inn á sýninguna með því að vera fyrst með sýningar úti í héruðunum og það besta kæmi síðan fram á sölusýningunni.
Fundarstjóri hvatti fundarmenn til að tjá sig og koma með hugmyndir.

3. Vetrardagskráin kynnt, Sveinn Steinarsson
Almennur félagsfundur verður 23. október sennilega í félagsheimili Sleipnis Hliðskjálf á Selfossi en hann er hugsaður til að undirbúa mál sem menn vilja að farið verði með á aðalfund Félags hrossabænda í nóvember næstkomandi. Í janúar verður fræðslukvöld hugsanlega í formi sýnikennslu. Aðalfundur verður síðan í febrúar. Ungfolasýning verður í mars, hugsanlega í tengslum við Icelandic horse expo. Sýningin Ræktun 2014 verður síðan síðasta laugardaginn í apríl.

4. Skýrsla starfshóps, markaðsmál, Eysteinn Leifsson og Ingimar Baldvinsson
Hópinn skipa: Eysteinn Leifsson, formaður, Hjörný Snorradóttir ritari, Bergljót Rist, Ingimar Baldvinsson, Katrín Sigurðardóttir, Kristbjörg Eyvindsdóttir, Rúnar Þór Guðbrandsson og Sigríkur Jónsson. Eysteinn kynnti verkefnið sagði að hópurinn hefði farið vítt og breytt til að byrja með og velt fyrir sér bæði mörkuðum innanlands og erlendis.
Eftirfarandi þætti voru skoðaðir varðandi innanlands markað:

Menntakerfið, nýliðun og félagskerfið:
-Reiðskólar starfi allt árið, þannig hestamennska sé valkostur til jafns við aðrar íþróttir. Slíkt myndi stuðla að fjölgun iðkenda.
-Úrræði fyrir byrjendur, leiguhestar eða eitthvað slíkt.
-Fjölbreytt námskeiðahald
-Kynna hestinn á hátíðum

Félagskerfið/Hagsmunaaðilar
Auka samvinnu milli þeirra. Klasasamstarf þar sem farið yrði í að greina markaði, gera markaðsáætlanir, efla tengsl við fjölmiðla og sækja um styrki.

Hestatengd ferðaþjónusta
-Koma hestinum svo ofarlega á blað að ferðamönnum finnist það tilheyra að kynnast íslenska hestinum.
-Stuðla að aukinni samvinnu greinarinnar við ferðaþjónstuaðila
-Gera menningu og sögu að stærri þætti í kynningu hestins
-Standa vörð um aðgengi hestamann að landinu
-Vanda val á hestum í ferðaþjónustu
-Leggja áherlsu á fagmenntun starfsfólks
Ef við vöndum okkur eru tækifæri í hestatengdri ferðaþjónustu óendanleg.

Hesturinn og heilbrigði
Vekja athygli ferðamanna á því að hesturinn er ekki bólusettur

Markaðssetning erlendis
Markmið að auka sölu á íslensk fæddum hrossum erlendis
Leiðir:
Ræktunarmarkmið þarf að samræmast markaðsþörf
Samræma þarf mat á kynbótahrossum milli landa
Virkja og efla kynningar og auglýsingastarf og leggja áherslu á markvissari fjölmiðlaumfjöllun
Gera Ísland sýnilegar sem upprunaland hestsins, kynning og rökstuðningur
Vefsíða með almennum upplýsingum um íslenska hestinn
Vera virkari í sýningarhaldi erlendis
Kynningarbæklingar og kynningarmyndbönd t.d. í flugvélum Icelandair
Lögð verði ríkari áhersla á einkenni og kosti hestins
Styðja við og kynna rannsóknir á sumarexemi
Efla samstarf við erlend hestamannafélög
Mikilvægt að greina markaðinn og fara í markaðsátak í framhaldinu.

Ingimar Baldvinsson kynnti hugmynd sína að sölukerfi „Sölufengur.is“ sem yrði tengdur við WorldFeng. Ingimar sagði að það væri einfalt að gera þetta og hugmyndin væri sú sama og hjá bílasölum (bilar.is). Söluaðilar keyptu sér aðgang að kerfinu og þyrftu að mæta á námskeið til að læra að setja hesta inn í kerfið. Þarna gætu kaupendur síðan leitað að hrossum sem væru til sölu. Bændasamtök Íslands ættu að eiga þetta kerfi rétt eins og WorldFeng, þannig væri tryggt að hlutlaus aðili hefði umsjón með kerfinu. Þarna yrðu öll hross sem væru til sölu í heiminum. Seinna mætti síðan hugsa sér að það þyrfti einhverja gæðavottun til að setja hross þarna inn.

Umræður
Kristinn Guðnason sagði að Ingimar hefði kynnt þetta fyrir fagráði og það hefði kannað hug nokkra ræktanda og niðurstaða orðið sú að réttara væri að efla heimaréttina.
Ingimar sagðist halda að það væri vegna þess að menn væru hræddir um að missa einhverja kúnna frá sér til annarra.
Svanhildur Hall spurði hvort ekki væri búið að gera þetta, hestaleit.is.
Flestum fundarmönnum leist vel á þessa hugmynd Ingimars og töldu fulla ástæðu til að þróa þetta áfram. Talsverðar umræður spunnust um gæðavottun og hvort hún þyrfti ekki að vera hluti af þessu kerfi. Spurningar eins og hver ætti að borga vottun komu upp og hver ætti að sjá um vottunina. Kaupendur hefðu misjafnan grunn og það þyrfti að taka tillit til þess. Hugmynd kom upp um að hafa þetta eins og á bílasölunum að einhver færi og skoðaði hvort lýsing á hestinum stæðist. Eðlilegast væri að þetta væri eins og með heilbrigðisskoðun að ef hestur stæðist skoðun greiddi kaupandinn vottunina en annars seljandi. Sú hugmynd kom upp að vera með námskeið fyrir þá sem eru að selja til að reyna að samræma þær skilgreiningar sem eru í gangi s.s. „alþægur góður töltari“. Slæmt fyrir ímynd íslenska hestsins ef gallagripir fara úr landi.
Bjarni Þorkelsson sagði nauðsynlegt að samræma dóma erlendis og hérlendis í markaðslegu tilliti. Beindi því til fagráð að þeir yrðu að gera eitthvað í málinu. Það mætti skerpa á þeirri tekjulind sem hestatengd ferðaþjónusta gæti verið. Í dag græddu ræktendur lítið á henni því hestaleigur keyptu hesta á algjöru undirverði.

5. Nýliðin ráðstefna á Hvanneyri, Sveinn Steinarsson
Sveinn byrjaði á að benda mönnum á grein frá Sigurbjörgu Þorsteinsdóttur í síðasta fréttabréfi HS, þar væru ákveðin tímamót. Síðan þakkaði hann nefndinni fyrir vel unnin störf, skýrsla hópsins yrði birt fljótlega og yrði gott veganesi á aðalfund Félags hrossabænda.
Hann sagðist hafa sótt málþing fagráðs á Hvanneyri, þann 6. september sl. og þar hefðu verið flutt góð erindi um uppbyggingu kynbótastarfsins í hrossarækt. Þó nokkrar uppræður hefðu skapast um erindin og síðan hefði verið hópavinna. Hópstjórum hefði verið falið að skila niðurstöðum á fundi með fagráði nokkru síðar. Hann sagðist fagna þessu frumkvæði fagráðs og teldi að það hefði verið til góðs, þó svo tilefnið hefði kannski orðið út af því leiðinda máli sem kom upp á kynbótasýningu á Selfossi í sumar. Menn voru sammála um að það yrði að vera samræmi milli dóma hér og erlendis. Anton Páll Níelsson sem einnig var hópstjóri á ráðstefnunni taldi að þessi ráðstefna hefði verið tímabær því að á fundinum í nóvember væru oft ekki mikill tími til umræðu. Það yrði fróðlegt að sjá hvað fagráð myndi gera með þær hugmyndir sem komu upp í hópunum.
Kristinn Guðnason upplýsti fundarmenn um að það væri verið að skoða samræmi í dómum milli landa og einnig hvernig megi meta af meira öryggi vilja og geðsla. Þetta væru mál sem fjallað yrði um á aðalfundi og kjörir fulltrúar tækju ákvarðanir um. Hann sagði einnig frá því að mikið hefði verið rætt um stöðu klárhrossa innan kerfisins og hvort ný uppgötvað skeiðgen breytti þar einhverju. Fagráð ákvað að leggja til að það yrðu 10 stiga lægri inntöku skilyrði inn á landsmót fyrir klárhross, þetta væri fyrsta skrefið. Misræmi í dómum milli landa getur skert okkar markaðsglugga og þarf því að leiðrétta. Meðaltöl segja ekki alla söguna. Flestar sýningar virðast vera í lagi og vissulega er leiðrétt fyrir sýninum í kynbótamatinu. En auðvitað standa einkunnir. Hann sagði einnig frá því að nú væri lögfræðingur að vinna að því með fagráði að útbúa hæfisreglur fyrir dómara. Nú væri það ekki lengur Bændasamtök Íslands og búnaðarsamböndin sem hefðu umsjón með kynbótasýningum heldur nýtt fyrirtæki Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) og landsráðunautur væri ekki lengur alsráðandi. Guðlaugur væri ábyrgðarmaður í hrossaræktinni en hefði ekkert umboð til að ráða menn eða reka. Við þessa uppákomu í vor hefðu menn hreinlega ekki verið með það á hreinu hvernig best væri að bregðast við.
Talsverðar umræður urðu um það hvers vegna menntunarkröfur til dómara væru ekki þær sömu hérlendis og erlendis. Spurt var hvort íslenskir dómarar sem dæmdu erlendis finndu ekki þennan mun. Nokkrir knapar sem sýna erlendis sögðu að það væri klárlega munur. Eins hefði mátt sjá það á HM í Berlín, væri ekki hægt að skoða hvaðan hrossin væru að koma sem ekki hefðu staðið við sínar einkunnir. Nauðsynlegt að safna gögnum svo hægt sé að sanna þennan mun.
Páll Imsland sagði að spurningarnar á ráðstefnunni hefðu verið yfirgripsmiklar. Vandinn væri sá að dómar væru persónulegir en ekki mælanlegir og því væri endalaust hægt að rífast um þetta. Þurfum að finna út hvað er hægt að mæla til að auðvelda þetta starf.

6. Önnur mál
Kristbjörg Eyvindsdóttir fór yfir þróun mála frá síðasta fundi og sagði nokkuð hefði áunnist og það væri framför að búgreinin væri farin að skoða markaðsmálin. Breytingar þurfa að vera vel ígrundaðar, það þarf að leitast við að minnka kostnað við dóma og endurskoða verksvið fagráðs. Dómkerfið þarf að skoða og hver dómari á að dæma fyrir sig. Ótrúverðuleiki dóma er að aukast, stytta þarf vinnutíma dómara og banna símnotkun á meðan á dómum stendur. Það hefur nokkuð þokast í áttina. Fagráð á að stuðla að samræmdu og hagkvæmu dómkerfi. Mjög mikið er um endursýningar og hross eru oft að hækka mikið á milli sýningar þó svo stutt sé á milli þeirra. Það er misræmi í dómum bæði milli sýninga hérlendis og erlendis. Hún velti því fyrir sér hvort dómarar væru betur í stakk búnir að dæma byggingu í það minnsta virtist sér að þær einkunnir breyttust minna á milli sýninga en hæfileikaeinkunnir. Með því að bæta dómkerfið má spara mikla peninga hjá ræktendum. Dómarar verða að dæma hver fyrir sig og það ætti að vera skráð hvaða dómari dæmi hvaða hross. Óeðlilegt að fagráð meti sín eigin störf. Þarf að skipa vinnuhóp sem fjallar um hæfni dómara. Dómarar eru oft á gráu svæði. Verðum að bæta kerfið ekki bara nóg að bæta tamningu, þjálfun og sýningarstaði. Fagráð þarf að setja heildarstefnu um velferð hestsins.
Páll Imsland sagðist í þetta sinn ekki ætla að fjalla um liti nú væri það skeiðgenið. Búið væri að birta greinar um það í virtum vísindaritum og önnur grein væri á leiðinni um ganghestakyn. Þurfum að viðhalda áhuga vísindamanna á ganghæfni íslenska hestsins. Þegar Dr. Leif Andersson prófessor var á ferð fyrir tæpu ári síðan kom upp hugmynd að finna hreina brokkara og hesta sem væru að einhverju leyti afbrigðilegir á gangi. Páll sagðist hér með auglýsta eftir slíkum hestum til að fá að safna hársýnum úr þeim til frekari rannsókna.
Áfram var talsvert rætt um hæfni dómara og hvort þeir ættu að starfa í dómnefnd eða dæma hver í sínu lagi. Ef menn dæmdu hver fyrir sig kæmi fljótt í ljós hverjir væri hæfir og hverjir ekki. Bjarni Þorkelsson hvatti Kristbjörgu til að senda fagráði ræðuna sem hún flutti því hún hefði verið glæsileg.
Jón Vilmundarson sagði að það væri nokkuð síðan hann dæmdi síðast erlendis en breytileiki í gæðum væri þar meiri en hérlendis. Hann teldi að það væri auðvelt að stjórna því í gegnum WF hvað sýningar væru viðurkenndar og hverjar ekki. Ef dómar færu ekki fram samkvæmt viðurkenndu kerfi færu þeir einfaldlega ekki inn í WF. Ef dómarar fara að dæma hver fyrir sig þurfa þeir að hafa ritara með sér sem er með réttindi. Allt í lagi að auka pressuna á dómara.
Hann kom með þá hugmynd að ef til vill væri nóg að vera með einn dómara ef sýningar væru í hverri viku yfir sumartímann, alla vega væri um að gera að velta upp sem flestum möguleikum.
Svanhildur Hall sagðist hafa dæmt mikið erlendis og fannst hún ekki finna þennan mun. Hins vegar hefði hún verið að dæma með reyndum dómara (erlendum) sem sagði að ákveðnar sýningar væru alltaf óeðlilega háar. Ekkert mál að dæma einn en þá verðum við að gera okkur grein fyrir því að þá minnkum við teygnina og þar með erfðaframförina.
Sveinn Steinarsson þakkaði góða umræður sem yrðu gott veganesti fyrir aðalfund FH og minnti á félagsfund 23. október. Það væri gott að nefna það sem vel væri gert s.s. miðsumarsýningu. Þurfum að fá enn meiri samfellu í sýningar. Þakkaði góðan fund og óskaði mönnum góðrar heimferðar.

/Halla Eygló Sveinsdóttir

 


back to top