Haustfundur HS 2006

Fundargerð
Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands



Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn í Þingborg, kl 20:30 þann 31. október 2006.


Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Skýrsla formanns, Hrafnkell Karlsson
3. Hrossabóndinn, markaðsmál, Sigurður Sæmundsson
4. Hugleiðingar um ræktunarstarfið, Guðlaugur Antonsson
Kaffihlé
5. Vægi eiginleikanna, Guðlaugur Antonsson
6. Umræður og önnur mál


1. Fundarsetning
Hrafnkell Karlsson setti fundinn og bauð fundarmenn og frummælendur velkomna. Kári Arnórsson var skipaður fundarstjóri og Halla Eygló Sveinsdóttir fundarritari.


2. Skýrsla formanns, Hrafnkell Karlsson
Ég fjallaði nokkuð um starfsemi samtakanna síðasta misserið í fréttabréfi sem sent var með fundarboði til félagsmanna. Ég sleppi því að endurtaka það sem þar var skrifað en bið menn um að hugleiða vangaveltur mínar um hlutverk og hugsanleg verkefni samtakanna í framtíðinni og vænti ég að við getum tekið þá umræðu upp á næsta aðalfundi.
Fjárhagsleg staða samtakanna er sterk, en ég er þeirrar skoðunar að samtökin eigi að styðja með einhverjum hætti framfaramál í greininni. Við buðum fram aðstöðu okkar í Gunnarsholti á síðasta aðalfundi, til rannsóknarstarfs sem ekki hefur verið farið á stað með enn. Stjórnin vill halda því boði opnu enn um sinn, enda fjármunum og aðstöðu samtakanna vel varið í slík verkefni.
Helstu verkefni frá aðalfundi á síðasta vori, eru tvær sýningar, Ræktun 2006 og folaldasýningin sem haldin var 21. okt. Ungfolasýninguna færðum við hins vegar fram og héldum hana í marsmánuði og teljum við að meira rúm sé fyrir hana þar.
Ræktun 2006 var haldin í lok apríl og þótti takast vel. Aðsókn minnkaði nokkuð milli ára sem skýrist að öllum líkindum af því að í vikunni á undan var Hrafnssýningin á sama stað. Stjórnin hefur rætt möguleika á að leggja meira í þessar sýningar s.s að sýna myndskeið úr kynbótasýningum foreldra afkvæma sem fram koma á sýningunum, en þetta útheimtir talsverða vinnu og kostnað. Einnig hefur verið rætt um að fá hrossabónda sem náð hefur góðum árangri til að halda fyrirlestur um sína ræktun seinnihluta sýningardags og gætu þar mætt áhugasamir til skoðanaskipta. Folaldasýninguna sóttu á 3.hundrað manns þar sem sýnd voru 23 folöld. Á sýningunni var tilnefnd heiðurshryssa og afreksknapi ársins. Gola frá Brekkum var tilnefnd sem heiðurshryssa að þessu sinni. Hún er í eigu Sigurbjörns Bárðarsonar og þótti okkur við hæfi að heiðra hann einnig fyrir afrek hans sem tamninga- og sýningarmanns á áratuga farsælum ferli. Afreksknapi 2006 var útnefndur Daníel Jónsson og er hann vel að þeim titli kominn þó fleiri hafi bankað þar á. Jón Vilmundarsson og Örn Karlsson hafa, eins og fyrr, séð um valið.
Búið er að dagsetja sýningar vorsins. Ungfolasýningin verður 24. mars og Ræktun 2007 verður 28. apríl. Umsjónamaður og skipuleggjandi sýninganna fyrir okkar hönd verður sem fyrr Óðinn Örn. Gagnlegt væri að heyra álit eða ábendingar fundarmanna um fyrirkomulag og efni sýninganna því nauðsynlegt er að byggja þær þannig upp að þær nái þeim markmiðum sem til er ætlast og að þær verði ekki of langdregnar.
Fullt var undir Galsa þegar hann var hjá okkur í sumar og er það vafalaust vegna góðs gengis Stála í vor. Ekki er ástæða til að selja hlut samtakanna í hestinum meðan félagsmenn hafa áhuga á að nota hann.
Stjórn samtakanna samþykkti á fundi sínum 12. sept. sl. að óska eftir kaupum á stóðhestahúsinu í Gunnarsholti. Í stuttu máli var erindinu hafnað. Einnig var samþykkt að óska eftir áframhaldandi leigu á Reiðarvatnsgirðingunni til að samtökin geti endurleigt hana fyrir félagsmenn fyrir ungfola. Því erindi var einnig hafnað.
Ég læt hér með þessari stuttu yfirferð lokið, en tveir ágætir framsögumenn heiðra okkur með nærveru sinni í kvöld, Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur og Sigurður Sæmundsson hrossabóndi og vænti ég góðra umræðna um þeirra erindi hér á eftir.



3. Hrossabóndinn, markaðsmál, Sigurður Sæmundsson
Sigurður byrjaði á því að tilkynna að Holtsmúlabúið væri nú selt en þau Lisbeth hefðu haldið eftir 400 ha landi úr Köldukinn sem þau áttu fyrir. Þangað ætla þau að flytja næsta vor og verður byggð upp úrvalsaðstaða þar.
Ræktunin byggir á unghryssum sem keypt voru héðan og þaðan mest þó úr Skagafirði og er það stofninn sem ræktað er út frá í dag. Erum að rækta keppnishross fyrst og fremst. Höfum þá reglu að vera ekki lengi með gripi sem ekki skila arði þó svo það séu fyrstu verðlauna hryssur. Meira komið af klárhrossum undanfarin ár og það hefur skilað góðu að leiða saman góð klárhross. Draumurinn þó sá að eignast heimsmeistara í skeiði. Gerum mikið af því að bjóða fólki til okkar og höfum haft allt upp í 100 hross í okkar umsjá fyrir aðra. Mikill tími fer í það að vera í sambandi og þjónusta viðskiptavini, s.s. keyra hryssur til og frá stóðhestum. Okkar reynsla er sú að það sé nauðsynlegt að sinna mörgum sviðum, s.s. kennslu, sölu, þjálfun, ræktun. Þjónustan við viðskiptavinina skiptir gríðarlegu máli. Þegar verið er að selja dýr keppnishross verður þjónustan að vera mjög góð.
Sigurður sagðist mjög stoltur af Worldfeng og kynbótamatinu. Þarna hefði íslensk hrossarækt algjöra sérstöðu. Slíkt kerfi væri ekki til í öðrum hestakynjum. Hægt væri að fylgjast með dómum um allan heim. Varðandi gæðastýringuna tækju þau þátt í skýrsluhaldinu og örmerktu öll sín hross. Þau hefðu hins vegar ekki séð ástæðu til að vera með í landnýtingarþættinum. Bændur ættu að huga að því hvenær eftirlitsiðnaðurinn væri farinn að stjórna framleiðandanum en þannig væri það orðið í Svíþjóð. Hann sagðist ekki vera tilbúinn til að gefa allt frá sér. Sigurður sagðist nýverið hafa verið á járningaráðstefnu í Þýskalandi og þar hefði komið fram að í Þýskalandi yrði bannað með öllu að nokkrir nema menntaðir járningamenn mættu járna. Eigendur mættu meira að segja ekki járna sína eigin hesta, það væri nú orðið ansi langt gengið. Hann lét þess getið að Búnaðarsamband Suðurlands og Bændasamtök Íslands hefðu reynst vel hvað varðar þjónustu í kringum skýrsluhaldið. Varðandi sýningarhaldið mætti velta ýmsu fyrir sér og það þyrfti alltaf að vera í skoðun. Hversu miklu er sýningarhaldið að skila ræktendum? Greinilega einhverju miðað við styrkleika þeirra hrossa sem komu fram á LM2006. Hins vegar hlýtur alltaf að mega deila um hvort þær eru að skila nægu. Það væri nauðsynlegt öllum ræktendum að taka þátt í þeim og vera með sem mest af sýndum hryssum. Í dag er mikil eftirspurn eftir vel ættuðum trippum. Hryssurnar þurfa því að vera vel ættaðar og hátt dæmdar. Vægi á einstökum eiginleikum mætti breyta. Há viljaeinkunn gæti í sumum tilfellum verið söluletjandi. Mætti gjarnan skoða vægi á vilja og geðslagi og fegurð í reið. Hross sem eru tæp í geðslagi eru jafnvel að fá 9 fyrir vilja og geðslag. Ekki er einsdæmi að hross fari í stungum í upphitun en sýni síðan ekkert inn á braut. Ekki er við dómara að sakast í þeim efnum. Kynbótasýningar mætti gera meira aðlaðandi fyrir áhorfendur, yfirlitssýningar væru ekki eins vinsælar og áður. Hjá Rangárbökkum dreymir menn um að hægt verði að byggja upp aðstöðu þar sem hægt er að sýna hross inni og sýnendur þar með lausir við áhyggur af duttlungum veðurguðanna. Einkunnir væru birtar á tölvuskjá um leið og hrossið væri komið úr braut.
Í markaðsmálum er nauðsynlegt að fylgjast vel með. Umræðan um sumarexemið er víða notað gegn okkur. Svíar munu t.d. ætla sér inn á Evrópumarkað með þann áróður að ekki sé þorandi að kaupa hesta frá Íslandi. Hross þaðan fái öll sumarexem. Það er ekki nóg að setja peninga í rannsóknir heldur þurfa Íslendingar að koma með fræðsluefni um það hvernig má forðast og meðhöndla sumarexem. Heimasíða sem gerð væri af Íslendingum þar sem mætti leita sér að upplýsingum um sumarexem væri t.d. mjög til bóta. Umræðan á að koma frá Íslandi því víða eru miklar ranghugmyndir um sumarexemið.
Íslendingar þurfa að markaðsetja sig sem ræktendur. Sáum það á LM2006 að við erum bestir en það er ekki nóg að vera bestur, við verðum að láta aðra vita af því. Landsmótin eru markaðsgluggi sem við þurfum að nýta okkur sem best. Það er ekki ásættanlegt að sala til Þýskalands er t.d. alltaf að dragast saman, íslenskir ræktendur þurfa að vera ákveðnari inn á þann markað. Ræktendur þurfa að vinna saman.

4. Hugleiðingar um ræktunarstarfið, Guðlaugur Antonsson
Guðlaugur þakkaði boðið á fundinn, það væri ómetanlegt að fá að tækifæri til að heyra í ræktendum.

Skýrsluhaldið
Þáttakendur í skýrsluhaldi eru 3500 og um 90% ásettra folalda eru skráð í WF. Ásett folöld á landinu öllu 2005 voru 5138 en voru 4684 árið 2004. Greinilegt að ásetningur er að aukast. Sem fyrr eru folöldin flest á Suðurlandi eða 47% (voru 44% 2004). Eins og fram hefur komið í bréfi til skýrsluhaldara er stefnt að því að minnka pappírinn. Nú í haust er ekki send út yfirlitsskýrsla með kynbótamatinu enda auðvelt að nálgast þær upplýsingar í WorldFeng. Næsta haust er stefnt að því að minnka pappírinn enn frekar og koma því sem mest á tölvutækt form. Fagráð hefur ákveðið að frá og með næsta hausti, þ.e. 2007, fáist eingöngu A-vottun á þau folöld sem hafa sannað ætterni með DNA-greiningu. Þetta er vissulega afgerandi breyting sem rétt er að ræktendur kynni sér vel. Fram að þessu hafa folöld fengið A-vottun ef skilað hefur verið inn fangvottorði, folaldaskýrslu og örmerkingu fyrir ákveðinn tíma. Það verður því einungis árgangurinn í ár sem getur fengið A-vottun eftir þeirri leið.

Kynbótasýningar
Helsta breytingin þar í ár var að einum flokki var bætt við hjá stóðhestunum þ.e. 6. vetra. Þátttaka var góð og voru felldir 1615 dómar í allt sem er heldur minna en árið 2004 sem einnig var landmótsár. Hrossin sem hlutu dóm voru 1234 þannig endursýningar voru 28% ef landsmótið er haft með, annars 17%. Dreifing á aðaleinkunn fyrir byggingu var þannig að mestur fjöldi er á bilinu 7,90-7,99. Meiri dreifing er á aðaleinkunn fyrir hæfileika en þar liggja flestar einkunnir á bilinu 7,60-7,69.
Á síðsumarsýningunni á Gaddstaðaflötum var prófað að vera með tvær dómnefndir að störfum í einu og gekk það ljómandi vel. Dæmd voru 60 hross á dag í stað 40 áður. Á fundi fagráðs í hrossarækt í október sl. var ákveðið að stefna að því að vera með tvær dómnefndir að störfum í einu á vorsýningunni á Gaddstaðaflötum næsta vor og dæma 72 hross á dag, s.s. 6 holl á dag.
Lágmörkum inn á LM2006 náðu 247 hross en á mótið mættu 197. Af þessum 197 lækkuðu 102 eða 51,8% en 91 hross hækkuðu eða 46,2%. Fjögur hross stóðu í stað eða 2%. Afkvæmasýningar hryssna á landsmótum verða aflagðar, enda hafa þær lítið ræktunargildi. Hryssur sem hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi verða verðlaunaðar á hrossaræktarráðstefnu á haustin framvegis. Ný lágmörk kynbótamats varðandi afkvæmasýningar á stóðhestum hafa verið ákveðin sem hér segir: Til heiðursverðlauna 118 ( áður 116) sami fjöldi afkvæma eða 50. Til I. verðlauna miðað við 15 afkvæmi 118 (áður 116) og miðað við 30 afkvæmi 113 (áður 111). Smávægileg breyting var gerð á útreikningum á kynbótamatinu. Þannig er að hæsti dómur á hrossi var notaður við útreikninga á kynbótamatinu en ekki sá dómur sem gaf hæst kynbótamat. Nú hefur þessu verið breytt þannig að sá dómur sem kemur hrossinu best er notaður en það þarf ekki endilega að vera hæsti dómurinn því aldur hefur áhrif.
Framkvæmdar voru 400 skoðanir á eistnum og reyndust 10 hestar hafa alvarlega galla (eineistni, mikill stærðarmunur, bæði eistu snéru öfugt). Þessar upplýsingar hafa þegar verið skráðar í WF. Varðandi spattmyndatökurnar hefur framkvæmdin á því gengið nokkuð vel þó sumir dýralæknar hafi skilað myndum seint inn. Það hefur því verið ákveðið að frá og með árinu 2007 verði reglan sú að hestar fá ekki dóm nema lesið hafi verið úr myndunum og niðurstöður skráðar í WF. Þetta þýðir að nú dugir ekki að framvísa vottorði um að búið sé að taka mynd af hestinum. Ræktendur ættu því að hugsa fyrir því í tíma að láta mynda hestana. Varðandi blóðsýnin var ákveðið að létta kröfur þar um þannig að árið 2007 verður þess ekki krafist að tekið sé blóð úr yngri hestum en 5 vetra.
Austfirðingar ætla að halda Fjórðungsmót næsta sumar á Iðavöllum á Héraði og hafa boðið Eyfirðingum og Þingeyingum til þátttöku í kynbótasýningum sem og öðru.

DNA-greining
Alls voru 3177 stroksýni send til Prokaria í greiningu, auk þess voru send blóðsýni úr 171 eldri stóðhestum sem geymd voru á Keldum og 200 blóðsýni úr stóðhestum sem komu til dóms á árinu. Sama verð verður á greiningum hjá Prokaria til áramóta og eru ræktendur hvattir til að nota sér það.

Frjósemi
Varðandi þau mál hefur lítið þokast á árinu. Fagráð í samvinnu við nokkra dýralækna setti upp verkefni þar sem átti að velja nokkra hesta með lélega frjósemi og nokkra góða. Bréf var sent út til 238 stóðhesteiganda og hefur aðeins einn þeirra svarað. Stofnverndarsjóður ákvað í fyrra að láta 3 milljónir í verkefnið en ljóst er að þetta verkefni stendur og fellur með þátttöku stóðhesteiganda.

Af vettvangi FEIF
Þar var samþykkt að leyfa allt að 23mm breiðar skeifur. Hófar megi vera allt að 10 sm langir séu hrossin 145 sm eða hærri. Undirstrikað að skeifur skuli jafn breiðar að framan og aftan. Stóðhestar fæddir 2006 hafi DNA-greiningu.

Landsþing LH
LH vill fá fulltrúa inn í fagráð í hrossarækt. Til þess að svo geti orðið verður að breyta búnaðarlögum en einungis starfandi bændur geta setið í fagráði. Það er hins vegar þannig í dag að allir fulltrúar í fagráð eru í LH í gegnum sín hestamannafélög.

Ráðstefna hrossaræktarinnar
Dagskrá hennar var kynnt en hún verður laugardaginn 11. nóvember 2006. Þar verða meðal annars tilnefningar til ræktunarverðlauna og erindi um það nýjasta í rannsóknum. Þeir ræktendur sem nú eru tilnefndir til ræktunarverðlauna eru: Auðsholtshjáleiga, Árbær, Ásmundarstaðir, Bakkakot, Blesastaðir IA, Fet, Hólar í Hjaltadal, Ketilsstaðir, Miðsitja og Olil Amble.


5. Vægistuðlar í kynbótadómi, Guðlaugur Antonsson
Nokkur umræða hefur verið um það að undanförnu í hestatímaritum hvort ekki væri ástæða til að breyta vægi á einstaka eiginleikum í kynbótadómum. Sumir vilja jafna vægi á byggingar- og hæfileikaeinkunn. Trúlega yrði þungur róður að breyta því. Hugsanlega er ástæða til að gefa sérstaka einkunn fyrir hægt tölt og hægt stökk sem fengi þá eitthvert vægi. Hvað varðar vilja- og geðslagseinkunn finnst mörgum vægi á þeim eignleika of hátt þar sem erfitt sé að dæma hann. Bent hefur verið á að vægi á fegurð í reið sé of hátt þar sem þegar sé búið að gefa einkunn fyrir þennan eiginleika, þegar gefin sé einkunn fyrir gangtegundir. Aðrir hafa bent á að rétt sé að hækka vægi á feti. Nauðsynlegt er að ræktendur velti þessu fyrir sér og umræður eigi sér stað um þetta mál.
Varðandi erindi Sigurðar þakkaði hann góð orð í garð Worldfeng. Það gæti sjálfsagt komið til að há viljaeinkunn torveldaði sölu. Reiðlag Íslendinga væri talsvert frábrugðið reiðlagi útlendinga. Íslendingar væru með hrossin beittari. Taldi áhuga á kynbótasýningum síst að minnka hins vegar væru yfirlitssýningar í dag á föstudögum og því tæplega að vænta þess að eins margir geti sótt þær og áður þegar þær voru um helgar. Gott að fá reiðhöll á Gaddstaðaflötum. Bein lýsing á dómum eins og í Þýskalandi kannski eitthvað sem ætti að skoða. Svíar ganga mjög langt varðandi sumarexemið og hugmynd um að banna innflutning á hrossum frá Íslandi væri alveg út í hött. Staðsetning landsmóta á að ráðast af hagfræðilegum rökum, sá sem bíður bestu aðstöðuna á að fá mótið.


6. Umræður og önnur mál
Jens Einarsson hafði áhyggjur af spattskuggafaraldrinum. Það væri með ólíkindum hvað menn grípa þetta hrátt. Engin rök fyrir því að það sé að marka þessa spattskugga. Hann taldi að þetta spattsrugl hefði meiri neikvæð áhrif á markaðsmál heldur en sumarexemið.

Kári Arnórsson benti á að nú væru yfirlitssýningar á virkum dögum en ekki um helgar.

Kristinn Guðnason vildi að Jens Einarsson skýrði mál sitt betur.

Jens Einarsson sagði að í dag væru hestar verðfelldir af því það sæjust skuggar við röntgenmyndatöku. Samhengið á milli helti og skugga hefði ekki verið sannað. Mörg dæmi um hesta sem hefðu myndast með skugga en aldrei helst.

Guðlaugur Antonsson sagði að rannsóknir hefðu sýnt að spatt væri arfgengt. Þess vegna væri verið að mynda 5 og 6 vetra hesta. Nauðsynlegt að Íslendingar gerðu eitthvað í þeim málum. Sigríður Björnsdóttir er farin af stað með aðra rannsókn á spatti.

Kristinn Guðnason sagði að vissulega væri lítið af hrossum sem dytti út vegna helti. Varðandi eftirlitsiðnaðinn þá væri rétt að passa að hann færi ekki úr böndunum. Það væri ekki síður mikilvægt að vera á varðbergi varðandi sjúkdómavæðingu tískusjúkdóma. Dýralæknar væru duglegir við að predika slíkt, fólki væri talið trú um að hestar sem væri ómögulegir væru slæmir í baki, munni eða eitthvað slíkt.

Sigurður Sæmundsson sagði að í Svíþjóð væri bannað að nota spattaða stóðhesta.

Svanhildur Hall benti á að hægt væri að dæma vilja og geðslag þó vægi á því væri núll.
Magnús Lárusson sagði að oft þegar verið væri að gefa háa einkunn fyrir vilja og geð væri það bara skot út í loftið.

Brynjar Vilmundarson sagðist vera kjaftstopp og það gerðist ekki oft. Hér stæðu kynbótadómarar upp og tjáðu fundarmönnum að þeir vissu ekkert hvað þeir væru að dæma. Það væri nú þannig að á sýningarstað að ræktendum væri nánast bannað að ræða við dómara, bent væri á að þeir væru uppteknir við vinnu. Hvernig er þetta, á að ríða tómt fet!! Ræktendur ættu að hafa meira um það að segja hvernig staðið er að dómsstörfum.

Magnús Lárusson benti á að það væri þannig að dómarar mættu einungis dæma það sem færi fram á brautinni en ekki það sem gerðist þar fyrir utan. Það hefur of oft sést að hestar sem eru að fá háa dóma fyrir vilja og geð er síðan ekki hægt að stoppa fyrr en á næsta vegg.

Guðlaugur Antonsson benti á að það væri alveg ljóst að ekki væri hægt að dæma 60 hross á dag ef það þyrfti að rökræða hverja einkunn. Hef lagt mig fram um að opna dómana og ræða um einkunnir þegar verið er að byggingadæma.

Brynjar Vilmundarson sagði að sér hefði verið bent á tefja ekki dómstörf þegar hann hefði ætlað að ræða einstaka dóma. Sagðist vera ánægður með að ekki væri verið að hvísla við byggingardómana.

Kári Arnórsson benti á að hrossabændur væru í meirihluta í fagráði og sleit fundi að því búnu kl. 23:30.


/Halla Eygló Sveinsdóttir


back to top