Haustfundur HS 2005

 

Fundargerð
Haustfundur Hrossaræktarsamtaka SuðurlandsHaustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands í Þingborg þann 3. nóvember 2005. Að þessu sinni var fundurinn opinn öllum félagsmönnum.


Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Skýrsla stjórnar, Hrafnkell Karlsson
3. Hugleiðingar um ræktunarstarfið, Guðlaugur Antonsson
4. Nýtt átaksverkefni í hrossarækt. Kristinn Guðnason
5. Frjósemi, sæðingar, Páll Stefánsson
6. Umræður og önnur mál


1. Fundarsetning
Hrafnkell Karlsson setti fundinn og bauð fundarmenn og frummælendur velkomna. Bergur Pálsson var skipaður fundarstjóri og Halla Eygló Sveinsdóttir fundarritari.
 
2. Skýrsla stjórnar
Hrafnkell Karlsson gerði grein fyrir skýrslu stjórnar. Starfið hefur verið hefðbundið. Samtökin hafa staðið fyrir þrem sýningum á árinu, Ræktun 2005, ungfolasýningu í maí og folaldasýningu 29. október sl. Góð mæting var á Ræktun 2005 en á henni voru 6-700  manns. Mæting á ungfolasýninguna var heldur dræm og því ákveðið að vera með hana fyrr eða 18. mars á næsta ári. Folaldasýningin tókst vel og sóttu um 270 manns sýninguna en 29 folöld voru sýnd. Á þeirri sýningu voru einnig veitt verðlaun fyrir heiðurshryssu Suðurlands og afreksknapa Suðurlands. Óðinn Örn Jóhannsson var sýningarstjóri á öllum sýningum samtakanna og stóð sig með prýði. Sýningarnar eru til þess gerðar að breiða út boðskapinn en ekki til að græða á þeim.
Stóðhestum samtakanna fer fækkandi enda ákveðið á síðasta aðalfundi að samtökin skyldu smátt og smátt draga sig út úr stóðhestahaldi. Andvari frá Ey var hjá 21 hryssu en hann var dæmdur ónothæfur í sæðingum. Gott tilboð kom í Andvara en tilboðið stóð í skammann tíma og varð því að taka ákvörðun strax. Samtökin hafa verð gagnrýnd fyrir að auglýsa hestinn ekki til sölu. Ástæðan fyrir því að það var ekki gert var sú að tilboðið var gott og stóð stutt. Stjórnin ákvað því að taka tilboðinu þar sem hesturinn væri farinn að eldast og frjósemi hefði ekki verið góð.
Gauti er í sölumeðferð, hann greindist því miður spattaður, mun það hafa veruleg áhrif á söluverð hans. Einungis voru 11 hryssur leiddar undir hann í sumar og var engin þeirra á vegum samtakanna. Galsi er til sölu en hjá honum voru 13 hryssur í sumar.
Sæðingastöðin var rekin að vanda og ríkti bjartsýni um að nú yrði útkoman góð. Mikið framboð af góðum stóðhestum og aðsókn eftir því. Það fór þó á annan veg enda fyljunarprósenta einungis 32%. Því miður brást frjósemi hjá 3 af þeim 5 hestum sem í boði voru. Ekki er gott að segja til um hver ástæðan er en vorið var þurrt og kalt og hefur það örugglega haft sín áhrif. Sæðingastöðin stendur því á krossgötum, ekki gengur að reka hana alltaf með halla. Stjórnin hefur unnið að því hörðum höndum að ná samstöðu um Sæðingastöðina á landsvísu og hafa formenn hrossaræktarsamtaka í landinu verið boðaðir á fund 12. nóvember nk. Hugmyndin er að kanna hvort þau  vilji standa að reksri stöðvarinnar með HS og jafnvel koma að eignarhaldi hennar. Þetta er allt á byrjunarstigi. Í vor kom stjórn Hrossaræktarsamtaka Eyfirðinga og Þingeyinga á fund og voru undirtektir jákvæðar. Hrossaræktendur mega til að halda stöðinni gangandi, þarna hefur skapast gríðarleg þekking sem annars væri ekki til staðar. Vandi stöðvarinnar er fyrst og fremst rekstrarlegur. Það eru blikur á lofti varðandi frjósemi stofnsins og við verðum að auka þekkingu okkar á því sviði. Þarna þarf fagráð að taka á málum. Það er verið að nota stóðhesta sem eru langt undir þeim sæðisgæðum sem við ættum að sætta okkur við. Þessi mál þarf að ræða á fagráðstefnunni og aðalfundi FH. Sæðingastöðinni verður að finna fjárhagsgrundvöll, helst til næstu 5 ára. Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, hefur tekið vel í að skólinn komi að rannsóknum á stöðinni. Forsvarsmenn Sæðingastöðvarinnar hafa af því vissar áhyggjur að bakslag geti orðið í því að eigendur stóðhesta vilji setja hesta á stöðina vegna þess hve fyljunarprósentan var slök í ár. Einnig er hætt við að aðsókn með hryssur geti minnkað. Fundir eins og þessi eru mikilvægir til að grasrótin láti í sér heyra.


3. Hugleiðingar um ræktunarstarfið, Guðlaugur Antonsson
Guðlaugur þakkaði boðið á fundinn. Hann fór yfir fjölda skýrslufærðra folalda árið 2004 en Sunnlendingar eiga 44% þeirra. Þátttaka í dómum var góð en alls féllu 1.268 dómar á 1.072 hrossum, 17% hrossa var endursýnt innan ársins. Alls voru sýnd 459 hross á Gaddstaðaflötum. Meðaltöl dóma fer heldur hækkandi og dreifing einkunna minnkar heldur, sérstaklega fyrir hæfileika. Guðlaugur taldi skýringuna einkum þá að sífellt væri valið stífar inn á kynbótasýningarnar. Strangast væri valið fyrir hæfileikum og skýrði það hvers vegna dreifing einkunna minnkar fyrir hæfileika en ekki byggingu. Áverkaskráning á kynbótasýningum hófst á síðasta ári og var framhaldið í ár. Ekki er endanlega búið að vinna úr þeirri skráningu en samantekt frá Gaddstaðaflötum sýnir að áverkar eru því miður ekkert minni þar en í fyrra. Áverkar fundust á 35% hrossa sem komu til dóms þar í vor. Það er alls ekki ásættanlegt að áverkar séu þetta algengir.
Spattmyndatökur á stóðhestum hófust í vor og voru 130 hestar myndaðir. Enn vantar myndir af 6 hestum en því miður hefur aðeins staðið á að dýralæknar skiluðu inn myndum. Afar fáir hestar greindust með spatt, sennilega tveir eða þrír en vissulega er óvíst hvort einhverjir hafa verið dregnir til baka. Reglum varðandi röntgenmyndir verður breytt á næsta ári. “Í því skyni að draga úr tíðni spatts skal röntgenmynda alla stóðhesta sem náð hafa 5 vetra aldri og koma til dóms á kynbótasýningum. Röntgenmyndirnar skal taka af hestunum eftir að þeim aldri er náð og afhenda vottorð þar að lútandi á fyrstu kynbótasýningu eftir myndatökuna”.
Mjög góður samningur náðist við Prokaria varðandi greiningu á DNA-sýnum. Greining á hvert sýni mun kosta 1.600 kr og greiðir Stofnverndarsjóður greininguna fyrir hryssur sem náð hafa 7,5 eða hærra í aðaleinkunn í kynbótadómi. Ræktendur geta látið taka sýni úr öðrum hrossum en verða þá að greiða fyrir greininguna. Æskilegt væri að taka sýni úr öllum mertrippum. Sýni munu aðeins verða tekin úr einstaklingsmerktum hrossum. Áfram mun verða tekið blóð úr öllum stóðhestum sem koma til dóms. Umsjón þessa verkefnis verður í  höndum búnaðarsambanda, í það minnsta til að byrja með og best væri að byrja strax á næstu vikum.
Dagskrá hrossaræktarráðstefnunnar þann 12. nóvember var kynnt og menn hvattir til að mæta. Þar verður m.a. kynnt nýtt kynbótamat.
Undirbúningur fyrir Landsmót 2006 er hafinn. Fjöldi kynbótahrossa á síðasta landsmóti var 244 en 290 náðu lágmörkum. Dagskráin er þétt setin og því vilja mótshaldar heldur draga úr fjölda kynbótahrossa. Nokkrar hugmyndir hafa komið fram, m.a. sleppa yfirlitssýningu, hækka lágmörkin, fjöldatakmarkanir á yfirlitssýningu, eða sitt hvor völlurinn á yfirliti. Einnig hugmynd að nota leiðréttingastuðla til að leiðrétta fyrir aldursáhrifum það hefði þau áhrif að lágmörkin myndu hækka fyrir öll hross nema 4 vetra, gæti verið góð lausn. Rætt hefur verið um það í fagráðinu hvort taka eigi upp flokk 6 vetra stóðhesta en það yrði til þess fleiri stóðhestar á þeim aldri kæmust inn á landsmót. Lágmörk á LM2006 munu örugglega verða hækkuð eitthvað. Líklegir hestar til heiðursverðlauna á landsmótinu eru; Keilir frá Miðsitju, Kormákur frá Flugumýri og  Hugi frá Hafsteinsstöðum. Líklegir til I. verðlauna eru; Markús frá Langholtsparti, Dynur frá Hvammi, Adam frá Ásmundarstöðum, Tývar frá Kjartansstöðum, Víkingur frá Voðmúlastöðum og Sær frá Bakkakoti. Hryssur til heiðursverðlauna gætu orðið; Askja frá Miðsitju, Vigdís frá Feti, Vaka frá Arnarhóli og Ísold frá Keldudal. Þetta verður þó ekki ljóst fyrr en að loknum kynbótasýningum næsta vor.
Í nýjum búnaðarlagasamningi er ekki gert ráð fyrir sérmerktu fjármagni til WorldFengs frá og með árinu 2010. Uppi hafa verið hugmyndir um að opna WF fyrir almennri notkun. Kerfi eins og WF verður að vera í sífelldri þróun þannig að með einhverju móti verður að fjármagna það, t.d. væri hægt að taka gjald af hverju skráðu hrossi.
Alþjóðlegt kynbótamat kemur út í næstu viku en 6 ný lönd hafa bæst í hópinn það eru; Þýskaland, Austurríki, Sviss, Holland, Bretland og Bandaríkin.
Dómskalinn þarf sífellt að vera í endurskoðun. Eru vægin rétt á hinum einstöku eiginleikum, er verið að dæma vilja og geðslag oft? Ætti skilyrði fyrir 9,0 fyrir tölt að vera minnst 8,0 fyrir hægt tölt? Ætti skilyrði fyrir 9,5 fyrir tölt að vera minnst 8,5 fyrir hægt tölt? Þessum hlutum er nauðsynlegt að velta fyrir sér.


4. Nýtt átaksverkefni í hrossarækt, Kristinn Guðnason
Eins og fram hefur komið í fréttum hefur ríkisstjórnin samþykkt að veita 25 milljónum króna á ári næstu fimm árin í nýtt átaksverkefni í hestamennsku. Starfshópur undir forystu Finns Ingólfssonar hefur unnið að hugmyndum um hvernig verja eigi fénu. Í hópnum voru auk Finns; Einar Bollason, Ólafur H. Einarsson, Víkingur Gunnarsson, Hermann Ottósson, Kristinn Guðnason, Guðlaugur Antonsson og Ágúst Sigurðsson. Tilgangur verkefnisins er að fylgja eftir þeim mikla árangri sem náðst hefur á undanförnum árum í aukinni fagmennsku í hrossarækt og hestamennsku og treysta tekjustöðu þeirra sem í greininni starfa. Lagt er til að 5 manna nefnd útdeili fénu og í henni verði tveir úr fagráði, einn frá Landssambandi hestamannafélaga, einn skipaður af landbúnaðarráðherra og einn frá Útflutingsráði. 


5. Frjósemi, sæðingar, Páll Stefánsson
Sæðingastöðin hefur verið starfrækt frá árinu 1997 og aldrei áður hefur fangprósentan verið eins slök, einungis 32%. Í þau níu ár sem stöðin hefur verið starfrækt hefur fyljun yfirleitt verið á bilinu 50-70% og mest farið í 82% árið 2002. Elisabeth Jansen, nemandi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, tók saman gögn frá Sæðingastöðinni frá árunum 1997-2003 en á þessu árabili voru 500 hryssur sæddar. Í þessari rannsókn kom í ljós að 20 % þeirra hryssna sem sæddar voru á stöðinni hefðu verið vandamálahryssur.
Góð aðsókn var að stöðinni í ár, 245 hryssur voru sæddar en aðeins fyljuðust 79. Páll sagði þetta persónulegt áfall fyrir sig. Starfsemi stöðvarinnar væri í óvissu næsta vor, ljóst væri að ekki væri hægt að halda  taprekstri hennar áfram. Þessi lélega útkoma í vor væri ekki til þess að efla áhuga og þrek þeirra sem drifið hafa stöðina áfram undan farin ár. Tiltrú hrossaræktenda hefði einnig beðið hnekki. Boðið var upp á fimm stóðhesta að þessu sinni og reyndust þrír þeirra með léleg sæðisgæði. Fleira hefði þó haft áhrif á útkomuna s.s. kalt og þurrt vor en óregla á gangmáli hryssna var áberandi, beitin var léleg, heygæði ekki nægjanleg og landrými í tæpasta lagi. Páll sagði að menn yrðu að draga lærdóm af þessu og þar væri fyrst að nefna hertar kröfur um sæðisgæði. Hugsanlega væri rétt að þynna sæðið minna. Allur aðbúnaður yrði að vera eins góður og hægt væri. Einnig kæmi til greina að takmarka hryssufjölda.
 Hvað er framundan? Það er mjög erfitt að reka eingöngu þjónustustöð. Á Sæðingastöðinni eiga að fara fram rannsóknir á frjósemi íslenska hestsins. Ísland er upprunaland íslenska hestsins og þangað eiga menn að geta leitað að þekkingu og upplýsingum. Enn er mörgum spurningum ósvarað. Mjög brýnt er að taka sæði úr fjölda stóðhesta til að ná saman meðalgildum. Rannsóknum á sæðisgæðum og skyldleika er einnig mikilvægt að hrinda af stað. Eistnamælingar hafa nú verið gerðar á stóðhestum á kynbótasýningum undan farin ár og er nauðsynlegt að kanna samhengi á milli eistnastærðar og sæðisgæða.
 Mjög mikilvægt er að halda starfseminni á Sæðingastöðinni gangandi en ljóst er að rekstrargrundvöll hennar verður að treysta ef það á að vera mögulegt að opna hana næsta vor.


6. Umræður og önnur mál.
Þorkell Bjarnason
sagðist fagna því að sjá Guðlaug Antonsson þó hann saknaði vissulega Ágústar. Hann sagði Pál eiga heiður skilið fyrir sitt starf því án hans væri ekkert vitað um frjósemi íslenska hestsins.

Páll Imsland spurði hvort ófrjósemi væri víðtækt vandamál í stofninum.

Kári Arnórsson spurði hvort það gæti haft áhrif á frjósemi hesta ef þeir væru notaðir mjög mikið ungir. Hann spurði einnig hvort einhver skýring væri á því að Andvari frá Ey væri ónothæfur í sæðingum en hann gæti fyljað við náttúrulegar aðstæður.

Brynjar Vilmundarson þakkaði góð erindi. Hann spurði Pál að því hvort sæðisgæði væru betri þegar komið væri fram á mitt sumar.

Bjarni Þorkelsson var ánægður með þá naflaskoðun sem menn hefðu farið í á Sæðingastöðinni. Þar hefði verið farið yfir hvað væri hægt að gera betur og stöðin tekið á sig hluta af sökinni. Óvissa um starfsemi stöðvarinnar næsta vor yrði að leysa hið bráðasta.

Páll Stefánsson sagði að ekkert væri vitað um frjósemi stofnsins í heild og því væri mikilvægt að rannsaka sæðisgæði hjá sem flestum stóðhestum. Vissulega væri ekki nóg að skoða örfáa hesta, á stöðinni í vor hefðu t.d. einungis verið fimm hestar. Fjöldi hryssna hjá hesti hefði trúlega áhrif á fyljun. Nú á tímum væri ekki óalgengt að 40-50 hryssur væru hjá hesti og sumir hestar þyldu það. Hér áður fyrr var miðað við að ekki væru fleiri en 25-30 hryssur hjá hesti. Mikill fjöldi hryssna getur haft áhrif á atferli stóðhesta.  Sæðisgæði hjá 12-13 vetra hestum fer dalandi en sumir þeirra hafa verið mikið notaði 4 og 5 vetra. Spurning hvort bæling verður með ofnokun. Andvari hefur alltaf verið mjög lélegur í húshaldi  en batnað þegar liðið hefur á sumarið. Það er hins vegar sjálfsögð krafa að stóðhestar fylji allan tímann, viljum ekki hesta sem komast ekki í gang fyrr en síðsumars. Trúlega er algengt að sæðisgæði séu mest um mitt sumar. Ef frjósemi hestakynja í heiminum er skoðuð er ástandið best þar sem ríkið hefur umsjón með ræktunarstarfseminni. Ástæðan sú að þar er hestum með léleg sæðisgæði hent út úr ræktun.  Mjög brýnt að kanna ástand íslenska stofnsins í heild. Hvort Sæðingastöðin verður rekin næsta vor er ekki gott að vita. Það er vissulega mikið persónulegt áfall að fá ekki nema 32% fyljun eftir 9 ára starf.

Brynjar Vilmundarson taldi að það væri óþarfi fyrir Pál að vera í þunglyndi og kenna sér um hvernig útkoman hefði verið í ár. Sagðist hafa keyrt sínar hryssur á milli og því hefði aðbúnaði á stöðinni ekki verið um að kenna að útkoman hjá sér hefði verið léleg. Það væri alveg ljóst að vorið hefði verið mjög slæmt en sennilega gæti enginn útskýrt hvað gerst hefði.

Snæbjörn Björnsson sagði það hafa verið mistök á sínum tíma að HS skildi fara eitt út í að setja á stofn sæðingastöð og það væru helst einstaklingar sem hefðu grætt á stöðinni. Hann sagði að fagráð og kynbótadómarar þyrftu að taka tillit til arðsemi í greininni. Sum hross væru að skora hátt í dómi en enginn vildi samt kaupa þau. Hrossin sem seljast eru fasmikil, hágeng og rúm og þau eiga að skora hátt í kynbótadómi. Það á að dæma hross með hliðsjón af arðsemi, faslítil hross eru lítils virði.

Hrafnkell Karlsson spurði hvernig væri hægt að réttlæta að fé úr Stofnverndarsjóði væri notað til að greiða DNA- greiningar. Ræktendur ættu  alfarið að greiða fyrir slíka þjónustu. Hvers vegna var þessi ákvörðun tekin?

Páll Imsland spurði hvort ekki væri auðvelt að komast að því hvort ófrjósemi er alfarið vorinu að kenna með því að athuga hvernig frjósemin var á blóðtökubæjunum.

Bergur Pálsson svaraði spurningu Páls Imsland og sagði að fangprósenta væri mun lakari í ár á blóðtökubæjunum.

Guðlaugur Antonsson sagði að breytileiki í frjósemi stóðhesta væri gríðarlega mikill innan sama árs og á milli ára. Það væri því mjög erfitt að átta sig á hvað hefði áhrif á hana. Hann tók sem dæmi að Gustur frá Hóli hefði verið afleitur í sæðingunum, með 38% fyljun fyrir norðan fyrri part sumars en 69% síðsumars á Vesturlandi. Varðandi spurningu Snæbjörns sagði Guðlaugur að Félag hrossabænda hefði meirihluta í fagráði og gætu því sannarlega haft áhrif. Fasmikil og rúm hross væru að skora hátt í dómskalanum enda hefði skalanum einmitt verið breytt vegna arðsemiskrafna með því að hækka vægi á tölti og fegurð í reið. Menn yrðu að átta sig á að dómarar væru að dæma eftir þeim skala sem fagráð hefði útbúið. Varðandi DNA-greiningu hefðu menn metið stöðuna þannig að það væri afar brýnt og dæmigert verkefni fyrir Stofnverndarsjóð að styrkja. Það væri bara verið að úthluta vöxtum en ekki yrði hreyft við höfuðstólnum.

Snæbjörn Björnsson sagði að honum finndist kröfur til ungra hrossa of miklar í kynbótadómum, þau væru í mörgum tilvikum ofþjálfuð og flött út. Hér áður fyrr hefðu hross getað fengið góða dóma með því að sýna góða takta þó sýningar væru gloppóttar.

Kristinn Guðnason sagði að vissulega þyrfti dómskalinn alltaf að vera í endurskoðun, t.d. væri spurning hvort hæga töltið ætti ekki að hafa meira vægi. Við viljum að hross gangi slök í miklum burði. Það er alveg ljóst að menn eru að lenda í vandræðum sem ekki hafa lífsýni úr mæðrum 1. verðlauna stóðhesta sem hafa verið fluttir út. Þess vegna er brýnt að fara af stað með DNA-greiningar. Við vitum allt of lítið um frjósemi íslenskra stóðhesta og þar á Sæðingastöðin að spila stóran þátt í rannsóknum. Eistnamælingar eru í raun það eina sem gert hefur verið í frjósemisrannsóknum hérlendis, fyrir utan það starf sem unnið hefur verið á Sæðingastöðinni. Hann sagðist ekki hlyntur því að bann yrði sett við notkun á ákveðnum stóðhestum en auðvitað ættu stóðhestseigendur að láta í té upplýsingar um fyljun sinna hesta. Hryssueigendur hefðu síðan  valið.

Brynjar Vilmundarson sagði að HS stæðu vel fjárhagslega og Snæbirni væri nær að standa við bakið á Sæðingastöðinni. Hann sagðist viss um að árangur yrði betri næsta vor.
Hrafnkell Karlsson sagði að það þyrfti að vinna hratt að því að taka ákvarðanir um Sæðingastöðina næsta vor. Dýralæknaþjónustan hefði staðið sig með prýði og vonandi myndi Páll ná sínum fyrri krafti. Sú þekking sem Páll og hans menn hefðu aflað væru ómetanleg starfinu á stöðinni. Það er mjög mikilvægt að ræktendur hafi sem bestar upplýsingar um frjósemi stóðhesta.

Þorkell Bjarnason spurði hvort menn vissu hver væri höfundur Stofnverndarsjóðs. Hann sagðist undrandi á ummælum Snæbjörns, hvort hann vildi að það væri einn maður sem réði hvaða lína væri ræktuð í landinu. Það væri verið að rækta íslenskan hest en ekki bara einhverja sýningartýpur fyrir örfáa menn. Auðvitað ætti að halda í fjölbreytnina. Hann sagðist sammála Kristni um að bann við notkun á ófrjósömum hestum væri ekki af hinu góða.

Snæbjörn Björnsson sagði að ekki mætti misskilja orð sín. Sér finndist að hross sem skiluðu mestum arði ættu að skora mest. Kröfur um takt væru of miklar hjá ungum fasmiklum hrossum.

Kristinn Guðnason sagði að það vissu allir að Þorkell Bjarnason hefði stofnað Stofnverndarsjóð. Verkefni sjóðsins hefðu breyst í tímans rás. Nú eru 2 eða 3 ár síðan dómurum var fækkað úr þremur niður í tvo og er það enn mín skoðun að nóg sé að hafa tvo dómara. Það er hins vegar alveg ljóst að margir ræktendur vilja hafa þrjá dómara. Kostnaður við að fjölga um einn dómara er ca. 1.500 kr. Hrossabændur þurfa að taka ákvörðun um þetta og kvaðst hann  ekki standa í vegi fyrir því að dómurum yrði fjölgað ef það væri vilji bænda.

Guðlaugur Antonsson sagði að lítið hefði verið unnið með eistnamælingarnar, það stæði hins vega til bóta. Nemandi við Landbúnaðarskólann á Hvanneyri myndi taka þetta saman og skoða t.d. meðaltöl og skyldleika. Ekkert sem bannar að taka fjármagn úr Stofnverndarsjóði til að styrkja DNA-greiningar. Leiðréttingarstuðlar sjá til þess ungu hrossin njóta sín. Ungu hrossin eru dæmd á sama skala, megum ekki dæma þau öðru vísi. Þau hafa þó meðbyr þegar kemur að vilja og geðslagi.

Sveinn Steinarsson vildi beina því til fagráðs og Guðlaugs að það myndi engu skipta þó sýningargjöld hækkuðu um 1.500 kr, það eigi að fjölga dómurum ef það gefi betri raun. Hvenær verða lágmörk á landsmót kynnt?

Brynjar Vilmundarson taldi rétt að hafa þrjá dómara. Með því að hafa tvo yrðu alltaf færri og færri með nóga reynslu og þjálfun.

Guðlaugur Antonsson sagðist fylgjandi því að vera með þrjá dómara, með því móti kæmu fram fleiri sjónarmið og meiri umræður. Formaður dómnefndar réði ef dómarar væru ekki sammála og það væri ekki endilega gefið að hann hefði rétt fyrir sér, einnig væri slæmt þegar annar dómarinn væri vanhæfur. Það væri hins vegar alveg hægt að vera með tvo dómara. Lágmörkin inn á LM2006 verða væntanlega ákveðin 16. desember, ljóst að mörkin verða hækkuð eitthvað í eldri flokkunum.

Bergur Pálsson þakkaði fyrir góðan fund og sagði fundi slitið kl. 23:30.

/Halla Eygló Sveinsdóttir


back to top