Gosið virðist aftur orðið öskugos

Gosið í Eyjafjallajökli virðist aftur orðið kröftugt öskugos eins og í upphafi goss. Mikill öskustrókur reis upp frá eldstöðvunum í gær og í nótt. Krafturinn í sprengigosinu hefur verið mikill og stöðugur, sprengivirkni hefur farið vaxandi. Almannavarnanefnd fundar um stöðuna í dag.
Gosmökkurinn var hæstur um klukkan hálf átta í gærkvöld, eða um tíu og hálfur kílómetri, í nótt hefur hann verið 6-7 kílómetra hár. Efnissamsetning öskunnar verður rannsökuð í dag. Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskólans, segir að krafturinn í sprengigosinu hafi verið mikill og stöðugur.

Freysteinn segir að þótt gosmökkurinn hafi náð svipaðri hæð og í upphafi gossins virðist hann vera efnisminni. Hann segir að líklega verði virknin eitthvað svipuð áfram og hún hefur verið í gær og í fyrradag.


Öskuskýið berst ýmist í suður eða suðaustur og hefur töluvert öskufall verið m.a. í Mýrdal.


back to top