Gengið þriðjungi lægra en fyrir bankahrunið

Gengi krónunnar hefur lækkað um rúmlega 6% gagnvart evru það sem af er árinu. Gengislækkunin bætist við um 45% lækkun á síðasta ári. Gengi krónunnar gagnvart evru er nú þriðjungi lægra en það var í byrjun september á síðasta ári þegar alþjóðlega fjármálakreppan hófst af fullri alvöru, að því er segir í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem gefin voru út í dag. Reiknað er með því að evran verði 176 krónur á næsta ársfjórðungi.

Gengi krónunnar reyndist nokkru lægra á öðrum ársfjórðungi þessa árs en í þeirri spá sem birt var í Peningamálum í maí. Þá var gert ráð fyrir að gengi krónunnar yrði rúmlega 157 kr. gagnvart evru en reyndin varð tæplega 172 kr., sem er 8½% lægra gengi.


Í uppfærðri spá Seðlabankans er reiknað með lægra gengi en í maí. Gert er ráð fyrir að gengi krónunnar á fjórða ársfjórðungi verði um 176 kr. gagnvart evru, sem er rúmlega 8% lægra gengi en spáð var í maí. Reiknað er með því að gengi krónunnar haldist á bilinu 157-176 kr. gagnvart evru það sem eftir lifir spátímabilsins, sem samsvarar gengisvísitölu á bilinu 205-230.


Innflytjendur taka á sig lækkun gengis krónunnar
Undanfarna mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað töluvert í kjölfar lækkandi gengis krónunnar. Gengislækkunin virtist skila sér að takmörkuðu leyti inn í verðlag á fyrstu mánuðum ársins sem má líklega rekja til þess að innflytjendur hafi tekið lækkunina að einhverju leyti á sig í formi minnkandi framlegðar eða tekist að ná hagstæðari samningum við birgja, að því er segir í Peningamálum.


„Þeir kunna einnig að hafa gengið á birgðir sem keyptar voru inn fyrir mestu gengislækkunina. Því lengur sem gengið helst lágt dregur úr væntingum um að lækkunin kunni að ganga til baka og líkur aukast á því að hún komi fram í innlendri verðbólgu.


Þrátt fyrir lágt gengi hefur tólf mánaða verðbólga haldið áfram að hjaðna, en hægar en áður. Hækkun vísitölunnar undanfarna mánuði má að mestu leyti rekja til liða sem eru næmir fyrir gengi krónunnar, þ.e. innfluttar vörur og vörur og þjónusta í beinni samkeppni við innflutning.


Þannig hækkaði t.d. bensínverð um tæplega 5% milli mánaða í júlí og verð nýrra bifreiða um rúmlega 3%. Húsnæðisverð heldur hins vegar áfram að lækka. Reiknuð húsaleiga hefur lækkað um 14,3% á síðustu tólf mánuðum, en húsnæðisliðurinn í heild um 2,6%. Mismunurinn helgast af því að greidd húsaleiga og ýmis kostnaður tengdur viðhaldi húsnæðis hefur hækkað mikið vegna lækkunar gengisins.


Tólf mánaða verðbólga í júlí mældist 11,3%. Árstíðarleiðrétt þriggja mánaða verðbólga á ársgrundvelli var hins vegar heldur lægri eða 10,6%,“ samkvæmt Peningamálum.


back to top