Fundur um lífgasframleiðslu í Árnessýslu í Aratungu 1. október kl 13:30
Orkídea, samstarfsverkefni um nýsköpun í matvælaframleiðslu og líftækni á Suðurlandi, boðar áhugasama bændur í Árnessýslu til fundar í Aratungu 1.okt. nk. um möguleika áburðar- og lífgasvinnslu í uppsveitum Árnessýslu.
Undanfarna mánuði hefur Orkídea, í samstarfi við garðyrkjubændur í Reykholti, Bláskógabyggð, kannað möguleika og rekstrargrundvöll áburðar- og lífgasvers í uppsveitunum. Þessi vinnsla byggir á gerjun lífræns úrgangs eða hliðarstrauma frá landbúnaði, t.d. kúamykju, svínamykju, garðyrkjuúrgangs og jafnvel heyfyrninga. Helstu afurðir vinnsluferilsins eru: 1) Lífgas sem er blanda af koltvísýringi og metani sem nýta má á ýmsan hátt, 2) Auðleysanlegri og betri áburður á tún, miðað við ómeðhöndlaða mykju, 3) Koltvísýringur, sem nýta mætti til ræktunar í gróðurhúsum. Ótaldir eru þá betri geymslumöguleikar lífræns áburðar og ávinningur í loftslagsmarkmiðum landbúnaðarins og landsins alls.