Framkvæmdastjóraskipti hjá Bændasamtökum Íslands

Fram kemur á vef Bændasamtaka Ísland bondi.is að Eiríkur Blöndal muni, að eigin ósk láta af störfum sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands um næstu mánaðamót. Stjórn Bændasamtakanna hefur ákveðið að ráða Sigurð Eyþórsson sem framkvæmdastjóra BÍ frá 1. apríl n.k.

Var þetta tilkynnt á fundi með starfsmönnum Bændasamtakanna í morgun.

Eiríkur hóf störf sem framkvæmdastjóri samtakanna í byrjun árs 2008. Næstu mánuði mun hann sinna verkefnum tengdum fasteignaþróun hjá Hótel Sögu ehf., en auk þess er hann með búskap á Jaðri í Borgarfirði sem hann hyggst efla.

Sigurður er 44 ára, fæddur að Kaldaðarnesi í Flóa í Árnessýslu. Hann hefur starfað fyrir samtök bænda frá árinu 2007, sem framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda og Markaðsráðs kindakjöts, auk hlutastarfs fyrir Bændasamtökin. Þar áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins.

Sigurður er kvæntur Sigríði Zoëga hjúkrunarfræðingi.


back to top