Flutningur verkefna til matvælastofnunar

Á vef Matvælastofnunar mast.is er farið yfir þær breytingar sem verða á starfi búfjáreftirlitsmanna í byrjun næsta árs.  Þá mun Matvælastofnun taka yfir störf tuga búfjáreftirlitsmanna sem í dag starfa í hlutastörfum á vegum sveitarfélaga um allt land og sinna öflun hagtalna í landbúnaði ásamt almennu búfjáreftirliti. Samhliða flutningi þessara verkefna frá sveitarfélögum til Matvælastofnunar mun stofnunin annast framkvæmd nýrra laga um velferð dýra, en ábyrgð á framkvæmd núgildandi dýraverndarlaga var flutt til Matvælastofnunar frá Umhverfisstofnun á þessu ári. Velferð gæludýra er því nýtt verkefni hjá stofnuninni, en hundruð ábendinga berast Matvælastofnun vegna dýravelferðar, sem er ört vaxandi málaflokkur sem fólk lætur sig varða.
Aukið hagræði
Með gildistöku nýrra laga um velferð dýra og nýrra laga um búfjárhald næst að hagræða umtalsvert í eftirliti með þessum málaflokkum í landbúnaði. Eftirlitsstörfin verða nú samræmd þannig að sami eftirlitsmaður geti sinnt öllu eftirliti á hverjum bæ, þ.e. eftirlit með fóðri, heilbrigði, velferð og merkingum dýra, mjólkurframleiðslu, notkun lyfja og öflun hagtalna. Dýralæknar og búvísindafólk mun sinna þessu eftirliti jöfnum höndum allt eftir því hvað þarf að skoða á hverjum bæ. Möguleiki skapast á að fækka eftirlitsheimsóknum á hvern stað þegar fram í sækir þar sem eftirlit Matvælastofnunar verður byggt á áhættuflokkun og frammistöðuflokkun. Í þessu felst að dregið verður úr eftirlitsheimsóknum hjá þeim sem standa sig vel og öfugt hjá þeim sem ekki uppfylla kröfur. Lagabreytingarnar fela um leið í sér að aðilum sem Matvælastofnun hefur eftirlit með fjölgar verulega, þar sem eftirlit með sauðfé, hrossum og loðdýrum færist frá sveitarfélögum til stofnunarinnar.
Færri störf, markvissara eftirlit
Í stað á fjórða tug hlutastarfa á vegum sveitarfélaga í dag þá vinnur Matvælastofnun nú að ráðningu sex eftirlitsmanna, einum í hvert umdæmi stofnunarinnar vítt og breitt um landið. Þar munu þeir starfa undir stjórn héraðsdýralækna og þá aðallega að verkefnum sem búfjáreftirlitsmenn sveitarfélaga hafa farið með fram til þessa. Þeir munu þó einnig sinna almennu eftirliti með velferð dýra, t.d. vegna tilkynninga um illa meðferð gæludýra og hrossa.
Með nýjum lögum verður eftirlit byggt á áhættumati, kröftum verður því beint að þeim aðilum þar sem mest er þörfin. Eftirlitsmenn nýtast betur og þannig verður hægt að draga úr kostnaði fyrir þjóðarbúið í heild, en kostnaður við vorskoðun búfjáreftirlitsmanna er t.d. umtalsverður í dag.
Eitt af meginmarkmiðum Matvælastofnunar fyrir árið 2014 er að móta nýja stefnu um framkvæmd eftirlits í landbúnaði og um öflun hagtalna. Eftirlit með velferð dýra skal vera skilvirkt og á að styrkja umdæmisskrifstofur með aukinni sérfræði- og stjórnsýsluráðgjöf og efla þær þannig sem eftirlitseiningar. Dagleg stjórn eftirlits verður þá í hverju umdæmi og á um leið að auka samskipti við dýralækna og aðra dýraheilbrigðisstarfsmenn sem þar starfa og stuðla að bættri upplýsingagjöf um dýrasjúkdóma og dýravelferð.
Ítarefni
• Ný lög um dýravelferð – frétt Matvælastofnunar frá 11.04.13
• Allt eftirlit með dýravelferð til Matvælastofnunar – frétt Matvælastofnunar frá 11.01.13


back to top