Fjármögnunarleigusamningur dæmdur ólöglegur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að fjármögnunarleigusamningur sem Íslandsbanki hafði gert við fyrirtæki væri ólöglegur. Gera má ráð fyrir að dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar. Í dómnum segir að ekki verði séð að fjármögnunarleigan hafi komið að kaupum á vélinni sem lánað var fyrir að öðru leyti en því að hann hafi verið skráður kaupandi til tryggingar á efndum á lánssamningi.

Dómarinn taldi að bankinn hafi í raun veitt fyrirtækinu lán til kaupa á vél þeirri sem samningur aðila tók til og hafi samningurinn því ekki verið raunverulegur leigusamningur heldur lánssamningur „sem sóknaraðili kaus í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings,“ eins og segir í dómnum. Dómarinn bendir á að bankinn færði ekki umrædda vél sem eign í bókhaldi sínu heldur færði hann kröfuna samkvæmt samningi aðila til eignar og voru tekjur af samningum vegna fjármögnunarleigu færðar sem vaxtatekjur en ekki leigutekjur.


Dómarinn bendir á að með setningu laga um vexti og verðtryggingu frá árinu 2001 hafi heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verið felldar niður. Bankinn hafi í málatilbúnaði sínum haldið því fram að sú niðurstaða sé í andstöðu við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum um frelsi til fjármagnsflutninga, en dómarinn hafnar þessu og telur þetta alls ófullnægjandi rök.


Samtök iðnaðarins hafa fagnað niðurstöðunni og hafa m.a. sent frá sér eftirfarandi umfjöllun:
„Í dómnum segir meðal annars að ekki verði séð að sóknaraðili (fjármögnunarleigan) hafi komið að kaupum á vélinni sem lánað var fyrir að öðru leyti en því að hann hafi verið skráður kaupandi til tryggingar á efndum á lánssamningi. Varnaraðili (verktakinn – notandinn) fór hins vegar samkvæmt framansögðu með öll réttindi og skyldur kaupanda og átti allar kröfur á hendur seljanda vegna hugsanlegra vanefnda.


Af gögnum málsins má ráða að umsamið leiguverð hafi verið ákvarðað út frá kostnaði sóknaraðila við fjármögnun kaupanna, en ekki raunverulegu verðmæti vélarinnar. Greiðslur varnaraðila til sóknaraðila tóku mið af því að endurgreiða upprunalegan höfuðstól, þ.e. kaupverð vélarinnar, að viðbættum vöxtum og vaxtaálagi.


Svo virðist sem meðferð kaupleigu- og fjármögnunarleigusamninga sem sóknaraðili gerði hafi efnislega verið eins. Um samningana giltu að stofni til sömu skilmálar, almennir samningsskilmálar sóknaraðila. Einnig er litið til þess að sóknaraðili færði ekki umrædda vél sem eign í bókhaldi sínu heldur færði hann kröfuna samkvæmt samningi aðila til eignar og voru tekjur af samningum vegna fjármögnunarleigu færðar sem vaxtatekjur en ekki leigutekjur.


Við úrlausn málsins verður enn fremur að horfa til þess að greiðslur samkvæmt samningi aðila báru vexti, en slík ákvæði eiga engan veginn við í leigusamningum.


Þessi niðurstaða er gríðarlega mikilvæg fyrir þau fjölmörgu fyrirtæki sem fjármögnuðu tæki og tól með þessum samningum. Eiginfjárstaða margra mun batna og reksturinn verður léttari. Samtök iðnaðins fagna dómnum en samtökin lögðu fram lögfræðiaðstoð við undirbúning málsins.“


Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur


back to top