Félagsráðsfundur FKS 9. des. 2008

Fundur í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi þriðjudagskvöldið 9. desember kl. 20.30 í Árhúsum, Hellu1. Fundarsetning
Formaður, Sigurður Loftsson,
setti fund og bauð fundarmenn velkomna á fund. Gat þess að þegar síðasti fundur var haldinn þann 30.sept. sl. þá hefði engann órað fyrir því sem skömmu síðar skeði í samfélaginu með hruni bankastofnana.


2. Afkoma kúabænda
Formaður
fjallaði fyrst um verðlagsmál en skömmu eftir síðasta félagsráðsfund náðist niðurstaða í verðlagsnefnd um hækkun mjólkurverðs bæði til framleiðenda og til iðnaðarins. Ekki náðist að fullu leiðrétting til á afurðaverði til bænda, geymd er hækkun vegna fjármagnsliða frá síðustu verðákvörðun í apríl sl. Iðnaðurinn náði ekki þeirri hækkun sem hann hafði þörf á sem þýðir að hann mun hækka í meira mæli þær vörur sem eru ekki háðar verðlagsákvæðum.
Fulltrúar stjórnar LK hitti forráðamenn Fóðurblöndunnar fyrir nokkrum vikum, í þeim viðræðum kom fram að hægt yrði að lækka verð á kúafóðri mjög fljótlega, sem raunin varð. Hins vegar létu þeir í ljós að hækkunarþörf yrði síðan núna í desember vegna innkaupa á hráefnum í nóvember. Síðan hefur gengið lagast allra síðustu daga og ekki hefur enn orðið hækkun og vonandi  verður ekki af henni þar sem aðfangaverð erlendis hefur lækkað á undanförnum vikum.


Formaður fjallaði stuttlega um mjólkuruppgjör síðasta verðlagsár en þar er óuppgert hvernig farið verður með uppgjör mjólkur án greiðslumarks. Málið liggur hjá framkvæmdanefnd búvörusamninga til endanlegrar ákvörðunar.
Auðhumla hefur gefið út lágmarksverð á umframmjólk á yfirstandandi verðlagsári, sem er 40 kr/l.


Formaður ræddi síðan skuldastöðu kúabænda og nefndi fund  sem hann átti með forráðamönnum Kaupþings á Selfossi fyrir nokkrum vikum. Þar kom fram vilji til að liðka fyrir hjá bændum varðandi frestun á afborgun erlendra lána næstu mánuði. Hvað síðan gerist á útmánuðum er óljóst enn sem komið er.
Runólfur Sigursveinsson ræddi  mismunandi skuldastöðu bænda  eins og hún birtist síðustu vikur. Gat um að tæplega 2/3 hluta kúabænda á Suðurlandi eru í tiltölulega góðum málum m.t.t skuldastöðu en um 1/3 hluti verulega skuldsettur. Velti fyrir sér mun á vaxtarkjörum sem virðist vera milli bankastofnana m.t.t. erlendra lána.
Í máli nokkurra fundarmanna kom fram að frestun afborgana erlendra lána virðist hafa gengið þokkalega, oft 4-6 mánaða frestun.
Ómar í Lambhaga vakti athygli á að höfuðstóll innlendra verðtryggðra lána hækkaði sífellt vegna verðbótaþáttarins, það væri þó von í lækkun höfuðstóls erlendu lánanna. Gat jafnframt um sérstöðu bænda m.t.t atvinnugreinar þ.e. matvælaframleiðslu og einnig að þetta er bæði vinnustaður og heimili fólks auk þess að ef eitt bú hættir þá getur orðið erfitt að starta því aftur.
Arnheiður á Guðnastöðum nefndi mun sem er  milli bankanna í vaxtakjörum.


Ákveðið að stjórn félagsins reyni að hitta forráðamenn útibúanna á næstu vikum til að fara yfir stöðu mála hér sunnanlands.


Formaður ræddi ástand mála hér m.t.t. nautakjötsmála og dreifði samantekt Guðmundar Jóhannessonar um ásetning og slátrun ungneyta síðustu mánuða, byggt á skráningu í Markið.  Samkvæmt upplýsingum frá sláturleyfishöfum á svæðinu  er ljóst  að mikil ásókn er í ódýrari hluta nautgripakjöts og þá kýrkjöt en jafnframt er nú nokkur bið á slátrun.


Stjórninni falið að skoða  hvort ástæða er til sérstakra aðgerða t.d. í markaðsmálum á næstu vikum og vera í  sambandi við sláturleyfishafa.


Nokkur  umræða varð um framleiðslu- og aðfangaverð næstu mánuða.


3. Stefnumörkun LK, hvað er framundan?
Formaður
ræddi það starf sem unnið hefur verið að í stefnumörkunarhópi LK og hvernig mál hafa þróast m.t.t mögulegrar umsóknar í ESB. Stjórn LK lagði það til við stefnumörkunarhópinn á sínum tíma að hann kynnti sér málefni ESB m.t.t. mögulegrar inngöngu í sambandið. Að hluta hefur verið byggt á reynslu Finna af inngöngu en ljóst er að margt hefur breyst á þeim tíma frá þeir gengu í sambandið. Sérstaklega hvað varðar form stuðningsgreiðslna. Spurningin verður einnig hvernig og hvaða möguleika íslenska ríkið hefur til stuðnings nautgriparæktinni á næstu árum. Þá hefur verið allnokkur gangur í WTO-viðræðunum, m.a. hefur rætt um fund nú í desember til að ná samkomulagi. Allt er þó í óvissu um niðurstöðu þess fundar ef af honum verður.


Björn í Holti nefndi að mjólkuriðnaðurinn myndi væntanlega fara í vinnu varðandi möguleika mjólkuriðnaðarins innan ESB, þ.e. hvaða möguleikar eru í stöðunni, bæði gallar og kostir. Þörf er á samvinnu iðnaðarins og LK um þetta upplýsingastarf.
Valdimar í Gaulverjabæ taldi að nauðsynlegt að vinna þessa greiningavinnu sem fyrst og þá í samvinnu mjólkuriðnaðarins og kúabænda.
Katrín Birna Ásólfsskála taldi að þetta þyrfti að skoðast sem fyrst.
Ómar í Lambhaga nefndi að ekki skipti síður máli hvað yrði um afleidda starfsemi í tengslum við landbúnaðinn í kjölfar mögulegrar aðildar að ESB.


4. Aðalfundur FKS
Formaður kynnti tillögu um fundartíma aðalfundar FKS, mánudag 26.janúar 2009. Ákveðið að hefja fund kl. 11.30 með hádegissnarli og síðan aðalfund um kl 12. Auk aðalfundarstarfa yrði reynt að fá fyrirlesara t.d. um ESB-mál. Væntanlega yrði fundurinn haldinn í Árhúsum Hellu.
Formaður nefndi að nú væri heimild samkvæmt samþykktum félagsins til þess að félagsráðið kysi sjálft fulltrúa á aðalfund LK og á aðalfund Bssl. Aðalfundur getur hins vegar alltaf tekið ákvörðun um þetta á fundinum sjálfum. Ákveðið að í fundarboði verði þetta form kosninga tilkynnt.


Stjórn mun leita til einstaklinga til starfa í kjörnefnd sem hefði það hlutverk að finna fólk í félagsráðið en að öðru leyti mælt með því að öðrum kosningum yrði vísað inn í félagsráðið.


Formaður tilkynnti að hann hefði ákveðið að gefa ekki áfram kost á sér áframhaldandi  formannssetu hjá Félagi kúabænda á Suðurlandi en hann hefur verið formaður félagsins síðastliðin 9 ár.


5. Önnur mál
Formaður sagði frá málstofu um niðurstöður úr kálfadauðaverkefni en niðurstöður eru því miður ekki óyggjandi og veldur það vonbrigðum.
Allnokkur umræða varð um kálfadauða almennt.


Jóhann í St-Hildisey gat um að greiðslur fyrir úvalsmjólk hefðu verið óbreyttar mörg síðustu ár og því hefði lækkað hlutfallslega með hækkandi almennu afurðaverði. Þetta getur haft áhrif m.t.t. heildargæða vörunnar.
Guðbjörg á Læk nefndi að númerakerfi milli Rannsóknastofu mjólkuriðnaðarins og Huppunnar vinni illa saman og nauðsynlegt að lagfæra þetta sem fyrst. Fleiri fundarmenn nefndu það sama. 
Samúel í Bryðjuholti spurði um greiðslur vegna „minna markaðstengdra“ greiðslna samkvæmt búvörusamningi ríkis og kúabænda.
Formaður sagði að væntanlega yrði greitt út á gripi, þó þannig að miðað yrði við regluleg skýrsluskil. Reiknað með að þetta gerist fljótlega eftir áramót.
Arnheiður á Guðnastöðum spurði hvenær sé að vænta niðurstaðna úr athugun með fóðrun á byggi  á St-Ármóti sem er í gangi núna í vetur, eins hvort hagkvæmni fóðrunar yrði metið.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 00.50


Runólfur Sigursveinsson
ritaði fundargerð


back to top