Félagsráðsfundur FKS 7. mars 2013

Fundur  haldinn í félagsráði Félags  kúabænda á Suðurlandi fimmtudaginn 7.mars 2013 í fundarsal MS á Selfossi.

 

1. Fundarsetning
Valdimar Guðjónsson formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna og sérstaklega nýja fulltrúa í félagsráðinu
 
2. Kjör í trúnaðarstöður
Valdimar formaður gat þess að kjósa þyrfti um gjaldkera og ritara félagsins. Samþykkt með lófaklappi að endurkjósa Elínu í Egilsstaðakoti sem gjaldkera félagsins og Samúel í Bryðjuholti sem ritara.
 
Samkvæmt samþykkt síðasta aðalfundar FKS var kjöri fulltrúa félagsins inn á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands vísað til félagsráðs. Ákveðið að viðhafa leynilega kosningu og hlutu eftirtalin kosningu.
Aðalmenn:
Valdimar Guðjónsson 11 atkv.
Samúel U. Eyjólfsson 11 atkv.
Elín B. Sveinsdóttir 10 atkv.
Bóel Anna Þórisdóttir 10 atkv.
Ólafur Helgason 10 atkv.
Varamenn:
Pétur Guðmundsson
Borghildur Kristinsdóttir
Arnfríður Jóhannesdóttir
Ásmundur Lárusson
Guðbjörg Jónsdóttir
 
3. Aðalfundur LK  á Egilsstöðum 22.-23.mars
Björn í Holti var kjörinn aðalfulltrúi inn á aðalfundinn en hefur boðað forföll. Í staðinn mun 2.varamaður mæta á fundinn sem er Borghildur Kristinsdóttir.
 
Valdimar í Gaulverjabæ gat um tillöguna sem samþykkt var á aðalfundi FKS um sæðingastarfsemina í nautgriparækt. 
Pétur í Hvammi velti fyrir sér  sæðingarstarfseminni í nautgriparækt og afstöðu sunnlendinga til álits milliþinganefndar búnaðarþings.
 
Matarhlé
 
Guðbjörg á Læk sagði frá nokkrum málum nýliðins Búnaðarþings.
Valdimar í Gaulverjabæ nefndi ýmis mál sem skoða þyrfti af félagsráðinu fyrir komandi aðalfund LK.  Í fyrsta lagi er það  mótframlagið í Lífeyrissjóð bænda eftir að ríkisvaldið hætti að greiða það á sínum tíma og nú greiðir hvert bú að fullu, bæði iðgjald sjóðfélaga og mótframlagið. Í raun virkar þetta sem kjaraskerðing á laun bænda.
Í öðru lagi mál sem snertir eftirlit með dráttarvélum, tækjum, drifsköftum og fleiru. Slíkt eftirlit hefur ekki verið í gangi síðustu ár vegna fjárskorts.
Guðbjörg á Læk sagði að þessi mál hefðu verið rædd á síðasta Búnaðarþingi og þar hefði fulltrúi Vinnueftirlits ríkisins vilja leggja áherslu á forvarnir og aukið námskeiðahald meðal bænda og starfsmanna þeirra.
Bóel Anna  á Móeiðahvoli nefndi hvort ekki ætti að leggja áherslu á ályktun frá félaginu til aðalfundar LK um að efla námskeiðahald á þessu sviði og beina ályktunni til RML, auk þess að vera í samstarfi við Vinnueftirlitið og tryggingarfélög.
 
Valdimar í Gaulverjabæ gat um stöðu tollkvóta í ostum. Innflutningsverndin er orðin mjög takmörkuð þar sem hún er bundin krónutölu og hefur sífellt minna hlutfallslegt vægi. Ákveðið að skoða tillögu um þessi mál frá félaginu til aðalfundar LK.
Jóhann í St-Hildisey nefndi að þetta atriði hefði orðið mjög mikið vægi þegar kæmi að verðákvörðunum verðlagsnefndar. Leita þarf leiða til að breyta og auka þessa vernd því í raun er verndin núna, t.d. varðandi ostana ekki nægileg.
 
Sigríður á Fossi  spurði um nýja fyrirtækið RML og rekstrarform þess (ehf).
Guðbjörg á Læk svaraði því til að þetta form hefði verið notað til aðskilja sem best á milli kjarnastarfsemi BÍ og nýja félagsins en hlutverk þess er ráðgjafastarfsemi sem er bæði studd af búnaðargjaldi og búnaðarlagasamningi.
 
Valdimar í Gaulverjabæ nefndi síðan afskipti MAST af einstökum kúabúum og sérstaklega myndbirtingar sem komið hafa m.a. í fjölmiðlum. Spurning hvernig hægt er að bregðast við m.t.t vinnubragða MAST.
Jóhann í St-Hildisey nefndi ályktun búnaðarþings um dýravelferð og þar er lögð áhersla á að tekið verði tillit til athugasemda BÍ við frumvarp til nýrra laga um dýravernd.
Valdimar í Gaulverjabæ ræddi þau mál sem hafa komið upp í matvælavinnslu m.t.t. rangra merkinga og/eða vörusvika. Nefndi drög að ályktun sem fylgdi með fundarboði.
 
Guðbjörg á Læk nefndi einnig að verð til bænda fyrir nautakjöt er of lágt og því of lítill ásetningur síðustu misseri. Einnig er brýn nauðsyn á nýju erfðaefni inn í þessa grein.
Jóhann í St-Hildisey gat um niðurstöðu starfshóps um innflutning á nýju erfðaefni í holdanautastofninn, sá starfaði í 18 mánuði.  Nú er búið að skipa nýjan starfshóp um hvernig eigi að standa að innflutningi erfðaefnis í holdanautastofninn sem fyrir er.
Valdimar í Gaulverjabæ velti fyrir sér sýrustigsmælingum á ungnautaskrokkum, t.d. eru það 80 til 100 skrokkar á hverju ári hjá SS sem eru verðfelldir í UN1 A flokknum samkvæmt upplýsingum frá SS. Taldi Valdimar ástæðu til  að skoða orsakavalda þessara þátta.
 
Bóel Anna nefndi mögulega ályktun um ræktunarstarfið.
Ólafur í Hraunkoti nefndi að nú væri sala á próteini og fitu að verða svipuð að magni til. Vegna þessa þyrfti ræktunarstarfið að taka tillit til.
 
Jóhann í St-Hildisey nefndi nokkrar ályktanir sem samþykktar voru á síðasta búnaðarþingi, m.a. um sæðingakostnað í nautgriparækt og ræktunarstarf. Svo og um lánamál og skuldamál bænda.
Guðbjörg á Læk sagði frá því að rekstrarhalli BÍ hefði  verið 45 milljónir króna á síðasta ári. Ræddi síðan ýmis mál sem nauðsynlegt væri að taka á af nýkjörinni stjórn BÍ. Meðal annars hvað varðar fjárhag samtakanna og eins um einföldun félagskerfisins. Sunnlensku fulltrúarnir stóðu sig mjög vel í erfiðum málum eins og varðandi breytingar á samþykktum BÍ.
 
4. Tillögur frá Félagi kúabænda til aðalfundar LK á Hótel Héraði 22.-23.mars nk
Þá var fundarmönnum skipt í tvo starfshópa og fram fór tillöguvinna vegna komandi aðalfundar LK á Egilsstöðum 22.23.mars nk.
 
Fundi lauk um kl 16, fundargerð ritaði Runólfur Sigursveinsson.
 
Að loknum fundi voru eftirfarandi tillögur fullunnar og eru birtar hér eins og þær fóru frá félagsráðinu til aðalfundar LK.
 
1. Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn á Icelandair Hótel  Héraði 22.-23. mars 2013 bendir á að nú þurfa bændur að greiða að fullu mótframlag í lífeyrissjóð og skorar á verðlagsnefnd búvöru að taka tillit til þess við ákvörðunartöku á lágmarksverði  mjólkur til framleiðenda. Á það skal minnt að mótframlagið var tilkomið á sínum tíma í stað hækkunar á mjólkurverði til bænda.
 
2. Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn  á Icelandair Hótel Héraði 22.-23. mars 2013   skorar á Bændasamtökin að hefja átak í öryggismálum bænda á búum sínum í samstarfi við tryggingafélögin og vinnueftirlitið.
Greinargerð: 
 Brýnt er að auka fræðslu meðal bænda hvað varðar öryggismál í landbúnaði og er tilvalinn vettvangur fyrir Landbúnaðarháskólann í samstarfi  við tryggingarfélögin og Vinnueftirlitið að útbúa námsefni í  formi veffræðslu og gera gátlista sem væri aðgengilegur á netinu þar sem bændur geta metið stöðu öryggismála á sínum  búum. Of há slysatíðni í landbúnaði er óásættanleg.
 
3. Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn á Icelandair Hótel Héraði 22-23 mars 2013    skorar á fagráð í nautgriparækt að efla enn frekar kynbótastarfið með áherslu á eftirtalin  atriði:
a.   Efla ráðgjöf um frjósemi
b.   Hraða gerð pörunarforrits í Huppunni
c.   Þar sem sala mjólkurvara á fitugrunni fer vaxandi, þarf vægi  fituinnihalds í mjólk að vera meira í kynbótamatinu.
d.  Auka þarf aðgengi að upplýsingum hvaða ungnaut eru í notkun á einstökum svæðum    hverju sinni.
e. Nýta allar leiðir til að auka framfarir í stofninum.
 
 
4. Aðalfundur Landsambands kúabænda haldinn á Icelandair Hótel  Héraði 22-23 mars 2013   hvetur stjórn til að fylgja því máli eftir að tollar í mjólk fylgi verðlagsþróun. Verðtollur hefur verið óbreyttur síðan WTO samningar voru undirritaðir 1995. Tollaranir eru að stærstum hluta í krónutölu, alveg óverðtryggðir og hafa því rýrnað stöðugt að verðgildi síðustu ár. Nauðsynlegt er að  hefja nú þegar viðræður við stjórnvöld um  þessi mál.
Greinargerð:  
Nú er staðan varðandi osta þannig að stöðugt  rýrnar  verðvernd innlendrar vöru gagnvart innflutningi.  Slíkt er ekki í neinu samræmi við það  sem lagt var upp með í byrjun. Sem dæmi  eru  um 45% af sölu mjólkurvara innanlands í formi osts  og  skiptir ákveðin verðvernd því miklu máli varðandi stöðugleika greinarinnar.  Þá er sala osts til  pizzuframleiðslu  um  5 – 6 milljónir lítra mjólkur á ári. 
 
5.  Aðalfundur Landsamband kúabænda haldinn á Icelandair Hótel  Héraði 22-23 mars 2013 lýsir     furðu sinni á vinnubrögðum matvælafyrirtækja við vinnslu nautakjöts og nautgripaafurða til verslana og neytenda. Hrein vörusvik eru mikill trúnaðarbrestur  og áfall í þeirri vinnukeðju
að koma góðum afurðum bænda til neytenda.
Greinargerð: 
Undanfarið hafa mörg hneykslismál uppgötvast hjá  kjötvinnslum víða í Evrópu.   Þar hefur hrossakjöt verið unnið og selt neytendum undir merkjum nautakjöts í stórum stíl.   Að sambærilegt dæmi hafi nú síðast einnig hafa komið upp á Íslandi er ólíðandi.  Ekkert er
bændum meira virði en traust neytenda. Athygli er vakin á að bændur eru fórnarlömb í þessu máli eins og neytendur , en framkoma sem þessi, kemur niður á sölu afurða nautgripabænda og jákvæðri ímynd.
FKS  hvetur MAST til að halda vöku sinni  og hafa virkt eftirlit  ekki aðeins hjá bændum heldur alla leið til neytenda.
 
6. Aðalfundur Landsamband kúabænda haldinn á Icelandair Hótel  Héraði 22-23 mars 2013      hvetur  stjórn LK til að framkvæma vandlega rýnivinnu  í   “Frumvarp til laga um breytingu á jarðalögum nr. 81/ 2004”, og að gefa umsögn sína um málið.
 
Loks mun eftirfarandi tillaga frá aðalfundi Félags kúabænda á Suðurlandi verða lögð fyrir aðalfund LK 22.-23.mars nk. 
“Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn á Hellu 28. janúar 2013 telur ekki rétt að sameina sæðingastarfsemi á öllu landinu að svo stöddu. Nýtt ráðgjafafyrirtæki bænda, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins ehf, hefur litið dagsins ljós. Óljóst er ennþá hvernig starfsemi búnaðarsambandanna verður í framhaldinu og hvernig framlögum til kynbótastarfsins verður varið.  Það er álit FKS að fyrst eigi að sjá hvernig þessi breyting á ráðgjafaþjónustunni kemur út áður en farið er að skoða sameiningar  á sæðingarstarfseminni. Kynbótastöð Suðurlands hefur hagrætt í sínum rekstri og endurskipulagt sæðingarnar. Teljum við nauðsynlegt að aðrir landshlutar reyni einnig að hagræða sem mest í sínum rekstri áður en hægt er að ræða um sameiningar.“
 
 
 
 
 
 

back to top