Félagsráðsfundur FKS 5. júní 2002

Fundur Félagsráðs 5. júní 2002
haldinn að Hlíðarenda Hvolsvelli. Gestir fundarins Ari Teitsson og Eggert Pálsson. Efni nýr búvörusamningur í mjólkurframleiðslu.
Vegna umræðna á fyrri fundi og spurninga í átta liðum sem sendar voru til BÍ frá stjórn FKS, lýsti Ari formaður sig fúsan til að mæta Félagsráðsmönnum á fundi ásamt Eggert á Kirkjulæk stjórnarmanni. Var farið yfir efni bréfsins og spurningum sem þar er varpað fram.

Aðspurður um áhrif greiðslumarkskaupa á rekstur og afkomu taldi Ari laun ekki hækka enn í takt við aukna veltu. Taldi ekki ganga upp frá sínum sjónarhól greiðslumarkskaup og einnig fjárfesting í nýrri aðstöðu.

Jóhannes Símonarson ráðunautur útskýrði úttekt sína á vænleika og hagkvæmni þess að kaupa greiðslumark. Af 20.000 lítra kaupum taldi hann kr. 872.200 koma í auknar “netto” tekjur. Hins vegar ef lán væru lengri en 5 til 6 ára þá færi drjúgur hluti í vexti og verðbætur. Velt vöngum yfir hagkvæmni kvótakaupa frá öllum hliðum.

Ari taldi 14 kr. í mjólkurverði vegna kaupa greiðslumarks of háan hlut. Aðrir fundarmenn töldu þetta jafnvel ekki háa tölu til að tryggja sér aðstöðu og afkomumöguleika. Birna á Reykjum sagði í raun væri nú við kaup frumbýlinga ákveðinn hluti afskrifaður í kaupverði, hvort sem það væri kvóti eða byggingar. Annað tveggja verðlítið án hins.
Aðspurður um nýja WTO lotu og milliríkjaviðskipti með landbúnaðarvörur sagði Ari þær viðræður fara fram á árunum 2003 til janúar 2005. Hafði hann helst þar áhyggjur af “minnkun á markaðstruflandi innanlandsstuðningi” sem ætti við mjólkurframleiðslu hér. Þó ætti að taka tillit til jaðarsvæða að vissu marki.

Enn var vitnað til bókana í fundargerð stjórnar BÍ og Ari var spurður hvort það væri áhyggjuefni að hópur bænda hefði slíka trú á framtíð mjólkurframleiðslu að hann væri tilbúinn að leggja í fjárfestingu í greininni. Ari kvað það jákvætt , en skuldastaða margra væri áhyggjuefni. Aðrir fundarmenn töldu svo alltaf hafa verið og sérstaklega síðan verðtrygging var tekin upp. Skuldastaða væri ekki endilega verri nú en áður.

Á stjórnarfundi BÍ 19. apríl var einnig lýst áhyggjum af nýliðun í greininni. Runólfur kynnti lauslega könnun Bssl á stöðunni sunnanlands. Hann taldi um 100 bú hafa skipt um eigendur á 10 árum. Þau skipti væru þó að sjálfsögðu framkvæmd á ýmsan máta. Sigurður í Steinsholti kvaðst spyrja sig í framhaldi af því hvort nýliðun og ættliðaskipti væru í raun jafn mikið vandamál og af væri látið.

Rætt var um líkindi þess að ESB legði af mjólkurkvóta. Ari sagði slíkt aðeins byrjað og nefndi Sviss sem dæmi. Hann kom inná svokallaðan PSE stuðning sem væri hár hérlendis. Arnar í Gunnbjarnarholti taldi að ef kvóti ESB legðist af myndu Austur-Evrópu þjóðir rústa núverandi kerfi. Því væru lítil líkindi til þess í bráð.

Valdimar í Gaulverjabæ spurði Ara hvort hann teldi ekki hagræðingu fólgna í núverandi kerfi. Ari taldi svo aðeins vera upp að vissu marki.

Gunnar í Hrosshaga taldi hættu á að ef ekki næðist skriður á viðræður um nýjan búvörusamning í mjólk nú, myndu menn humma slíkt fram af sér yfir kosningar næsta haust. Sigurlaug í Nýjabæ taldi nauðsynlegt að fulltrúar bænda í þeim viðræðum töluðu röddu meirihluta þeirra. Arnar Bjarni spurði Ara hvort hann þekkti nokkurn sem ekki hefði fjárfest í kvóta sl. 5 ár og ætlað að starfa áfram. Jóhann í Hildisey sagði síðustu árin heldur verið hvatt til stækkunar eininga. Þegar það tækist hrykkju menn til baka.
Ari sagði menn setja spurningu við bústærð og þróun gæti verið mishröð.

Samantekt, Valdimar Guðjónsson.


back to top