Félagsráðsfundur FKS 28. sept. 2010

Fundur í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi 28. september 2010
haldinn í Björkinni á Hvolsvelli kl. 20.30


1. Fundarsetning
Formaður, Þórir Jónsson á Selalæk, setti fund og bauð fundarmenn velkomna til fundar. Gat um helstu verkefni stjórnar frá síðasta fundi. Meðal annars  um þátttöku félagsins í „Kótilettunni“ í júni á Selfossi  en þar var m.a. á boðstólum grillað nautakjöt, þá kom stjórn félagsins  að því að leysa af afleysingarmenn á gossvæðinu. Loks gat hann um aðalfund Bssl en þar voru samþykktar tillögur sem komu frá félaginu.


2. Rekstur MS og framtíðarsýn mjólkuriðnaðarins – Einar Sigurðsson forstjóri
Einar gat í stuttu máli um skipulag félaganna og endurskipulagningu mjólkurvinnslunnar á landinu sem hófst árið 2005. Árin 2009 og 2010 hafa verið tímamótaár sem m.a. markast af samdrætti í ráðstöfunartekjum almennings, fólksfækkun og erfiðu efnahagsástandi. Árið 2010 virðist líta bærilega út m.t.t. rekstrar. Framhald hefur orðið á lækkun launakostnaðar, vinnslu, sölu og stjórnunartekjur hafa ýmist lækkað eða verða innan verðlagsmarka. Kostnaður við erlend aðföng hækkar milli ára en mun síðan lækka með hagstæðra gengi. Lokið hefur verið við nauðsynlegar fjárfestingar MS í nýjum G-vörutækjum á Selfossi í upphafi árs. Unnið er að byggingu innvigtunarhúss á Akureyri og framundan er  endurnýjun þvottabúnaðar á Selfossi.
Hagræðingaráformin hafa gengið eftir miðað við stöðuna í dag. Salan hefur gengið vel þrátt fyrir fólksfækkun í landinu. Einar gat um  nýjungar eins og „hleðsluna“ og „grjónagraut“ sem virðast ganga vel. Vöruþróunin er mikilvæg bæði til að ná til nýrri viðskiptavinanna og eins hitt að viðhalda góðri ímynd.


Almennt má segja að reksturinn gangi betur í ár en áætlun gerði ráð fyrir í upphafi árs. Á síðustu árum hefur hlutdeild mjólkurvörukaupa frá bændum aukist í heildargjöldum félagsins en dregið á móti úr launakostnaði félagsins. Breytingar í starfsemi MS síðustu 5 ár hafa skilað um 1,8 milljarða króna hagræðingu í greininni á ársgrunni. Tækifæri til frekari hagræðingar eru í flutningskostnaði. Helstu ógnanirnar, bæði gagnvart vinnslu og bændum eru: Möguleg aðild að ESB, greiðslumarkskerfið verði skemmt með markaðssetningu umframmjólkur á innanlandsmarkað og síðan pólítiskar ákvarðanir um tollvernd. 


Kjartan í Fagurhlíð velti vöngum yfir mögulegum breytingum á greiðslumarkskerfinu með tilkomu nýrra aðila inn á markaðinn innanlands með mjólk utan greiðslumarks.
Einar Sigurðsson ræddi stuttlega þann mun sem er í framlegð einstakra mjólkurvara og hversu auðvelt það er fyrir nýja aðila að koma inn með framlegðaháar vörur í núverandi verðlagningarkerfi. Nauðsynlegt er að leiðrétta verðtilfærslur innan kerfisins í gegnum verðlagsnefnd.
Björn í Holti spurði um hvort nægilegt væri að gert í hagræðingu innan félagsins.
Einar Sigurðsson taldi þörf á enn frekari hagræðingu til að auka eigið fé félagsins ef á móti blæs í rekstri. Hins vegar er greinilegur viðsnúningur í rekstri félagsins í ár. Reynt verður að ná frekari hagræðingu í flutningum á næstu misserum.
Jóhann í St-Hildisey velti fyrir sér ógnunum sem felast í mögulegum breytingum á tollvernd og hvernig iðnaðurinn væri í stakk búinn að mæta erlendri samkeppni.
Þá spurði  hann um útflutningsverð.
Einar Sigurðsson sagði að reynt væri að selja eftir verði á hverjum markaði, uppistaðan í útflutningum er smjör og duft. Þar hefur smjör hækkað undanfarnar vikur. Skyrútflutningur er svipaður milli ára, reynt verður að koma skyrinu inn í fleiri verslanir Whole Foods. Tekjur af leyfinu varðandi skyrframleiðslu í Noregi eru umtalsverðar.
Ómar í Lambhaga  ræddi skyrútflutninginn til Bandaríkjanna og hvernig þar hefur til tekist. Nauðsynlegt er að skoða hann með tilliti til þess að ná betri árangri en verið hefur.
Samúel í Bryðjuholti spurði hvort ekki væri hægt að koma þessu skyri inn í matarbakka farþeganna flugvélanna í stað  þess að flytja það til USA !
Einar Sigurðsson svaraði því til að þetta væri alltaf spurning um verð.
Runólfur Sigursveinsson spurði um útflutningstefnu fyrirtækisins og verðákvarðanir á mjólk til bænda vegna umframmjólkur.
Einar Sigurðsson svaraði því til að óvissa um verð væri ávallt til staðar á markaði, spurningin væri  hvar það kæmi fram ef illa fer, hvort skellurinn yrði fyrst hjá fyrirtækinu eða hjá bændunum.


3. Auðhumla – félagslegi þáttur fyrirtækisins, aðkoma bænda – Egill Sigurðsson
Egill Sigurðsson sagði frá breytingum á starfsemi félagsins síðustu misseri og fækkun starfsmanna m.a. á Selfossi. Hætt er að innheimta fyrir þriðja aðila. Mjólkurflutningarnir eru að breytast og hætt verður að flytja rekstrarvörur með bílunum um næstu mánaðarmót. Með tilkomu nýrrar brúar á Hvítá mun flutningskerfi mjólkursöfnunarinnar á því svæði breytast.


 Auðhumla hefur unnið að stefnumótun greinarinnar með LK síðustu misserin. Mest er að vinna í gegnum fasta kostnaðinn, fjármagnskostnaðinn og síðan kúakynið.
Staðan varðandi breytingar á búvörulögunum er erfið en nú er reiknað með að taka málið aftur upp á komandi haustþingi.


Varðandi útflutninginn þá gengur hann skár en áður. Núna er afurðaverð til bænda fyrir umframmjólk  35 kr/ltr,  – forsenda fyrir hærra verði er hvernig markaðurinn þróast úti. Síðan er stöðugt verið að vinna að viðbragðsáætlun innan fyrirtækisins ef einhverjar breytingar verða á tollum. Loks ræddi Egill mismunandi áherslur bænda til greiðslumarkskerfisins, þar geta verið mjög mismunandi áherslur milli kynslóða innan stéttarinnar.


4. Fréttir frá Landssambandi kúabænda, stefnumörkun og fleira. – Sigurður Loftsson
Sigurður Loftsson sagði að stutt væri í haustfundi LK, fyrsti fundur verður í Þingborg 14.okt nk. kl 20.30.  Auk bænda er ráðherra boðið og  þingmönnum. Þá ræddi Sigurður stefnumörkunina en unnið er samkvæmt ályktun aðalfundar LK um það mál. Í starfinu hefur þessu verið skipt í tvennt, annars vegar kerfislegir hlutir og síðan bústjórnarlegir hlutir. Verið er að vinna úr bókhaldslegum gögnum í þessu skyni.
Mest hefur þó verið unnið í kerfislegum þáttum, þar er stærsta málið kvótakerfið og verðlagningarkerfið, velt fyrir sér hvað leið er út úr þessum kerfum. Þar er m.a. rætt um að fara í svipaða aðferð og er í sauðfjáræktinni auk fleiri leiða. Skoða verði mjög vel hverja þá leið sem möguleg er, án þess að samstaða bænda bresti. Síðan þarf að skoða hlutina með hliðsjón af því ef innganga að ESB verður í fyllingu tímans samþykkt.
Síðan koma inn í stefnumörkunarumræðuna hlutir eins og landnotkun, fjármögnun greinarinnar, bætt nýting véla og loks nýtt erfðaefni til nota í íslenska nautgriparækt.


Þá ræddi Sigurður kvótamarkaðsmálin, því miður hefur ráðuneytið ekki leyft  viðskipti með greiðslumark   frá því í  maílok. Fyrsti markaður verður 1.desember nk. Matvælastofnun mun sjá um framkvæmdina. Á næstu vikum verður kynning á fyrirkomulagi markaðarins, m.a. á heimsíðu MAST og LK og í Bændablaðinu. Auk þess verður þetta kynnt á haustfundunum.


Hækkunarþörf frá 1.sept er núna reiknuð um 8,5%, þarna er þó ekki tilkomnar nýlegar kjarnfóðurverðshækkanir og ekki verður tekið að fullu tillit til hækkunar á iðgjaldagreiðslum inn í Lífeyrissjóð bænda á þessu ári.


Samúel í Bryðjuholti spurði um hvort farið yrði að lána aftur til kvótakaupa.
Egill Sigurðsson taldi slíkt ólíklegt en hins vegar yrði haldið áfram með fyrirgreiðslu vegna endurnýjunar mjólkurtanka.
Katrín Birna á Ásólfsskála lýsti yfir ánægju um að hætt yrði að innheimta fyrir þriðja aðila. Hins vegar varðandi rekstrarvörur,  þá væri það umdeilanlegt hvort ætti að loka alveg fyrir slíkt.
Egill Sigurðsson sagði að það yrði ávallt reynt að bjarga flutningi á rekstrarvörum ef menn væru í algerri neyð.
Elín í Egilsstaðakoti  sagði að það væri eðlilegt að hver og einn þjónustuaðili rukkaði fyrir sig. Hins vegar myndi þetta þýða aukinn kostnað fyrir notendur.
Þórir á Selalæk spurði um sölu á íslensku kálfadufti hjá Fóðurblöndunni, slíkt væri ekki í boði núna, eingöngu erlent duft sem væri einnig ódýrara.
Jóhann í St-Hildisey velti fyrir sér  tilnefningum mjólkuriðnaðarins í verðlagsnefnd og möguleg tengsl nefndarmanns við setu í stjórn aðfangafyrirtækis. Þá ræddi hann einnig mögulegar merkingar á vörum m.t.t. erfðabreyttra hráefna.


5. Önnur mál
Þórir Jónsson nefndi að á síðasta aðalfundi FKS var ályktað um laun stjórnar, akstur og félagsgjald. Stjórn félagsins hefur skipað nefnd til að skoða þessi mál:  Kjartan í Fagurhlíð, Bóel Anna á Móeiðarhvoli og Valdimar í Gaulverjabæ. Gjaldkeri félagsins, Elín í Egilsstaðakoti, kallar nefndina saman og mun starfa með henni. Nefndin mun síðan skila tillögum til næsta aðalfundar félagsins.
Samúel í Bryðjuholti vakti athygli á að  verðfellingarákvæði varðandi fríar fitusýrur í mjólk nálgaðist og velti fyrir sér hvað væri verið að vinna í þeim málum til að bæta þennan gæðaþátt.
Jórunn á Drumboddsstöðum  velti fyrir sér bragðskemmdum í mjólk
Bóel á Móeiðarhvoli spurði um hlutfall úrvalsmjólkur af heildarinnvigtun.
Einar Sigurðsson taldi að þessi breyting sem gerð var á reglum um flokkun úrvalsmjólk hafi ekki breytt hlutfallinu verulega.
Björn í Holti  spurði Runólf um stöðuna í skuldamálum bænda
Runólfur svaraði því til  að lítið væri að gerast, tilmæli hefðu komið frá Fjármálaeftirlitinu í þá veru að fjármögnunarfyrirtæki myndu líta á fjármögnunarleigusamninga sömu augum og bílasamninga. Fyrr í dag hefði komið úrskurður frá Héraðsdómi í Reykjavík varðandi kröfugerð einstaklinga sem voru með „erlend húsnæðislán“ á hendur Frjálsa Fjárfestingabankanum. Úrskurðurinn tekur mið af að þeir lánasamningar hafi verið samningar með gengisviðmið en í íslenskum krónum og því ólöglegir út frá dómi Hæstaréttar frá því fyrr í sumar svo og varðandi vaxtaákvæði. Væntanlega verður þessum úrskurði áfrýjað til Hæstaréttar.
Það væri sín skoðun að svokölluð „erlend jarðalán“  myndu öll falla undir þá túlkun að þarna væri um að ræða íslensk lán sem hefðu einfaldlega verið með gengisviðmiðun sem nú væri búið að úrskurða ólöglega. Þannig myndi upphaflegur höfuðstóll gilda en síðan yrðu lánin vaxtafærð út frá lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.
Jóhann í St-Hildisey ræddi  stefnumörkunina og nauðsyn þess að taka umræðu meðal kúabænda um lækkun framleiðslukostnaðar
Sigurður Loftsson nefndi að á næstu mánuðum kæmu fyrstu niðurstöður um stefnumörkunina og mögulega kostnaðarlækkun og spurning hvort ekki ætti að ræða þessi mál nánar á næsta félagsráðsfundi.
Þórir á Selalæk sagði að næsti félagsráðsfundur væri áætlaður í nóvember. Hvatti fundarmenn að mæta vel á komandi haustfundi LK á svæðinu.


Fleira ekki gert og fundi sltið rétt eftir miðnætti,


Runólfur Sigursveinsson
ritaði fundargerð


back to top