Félagsráðsfundur FKS 27. mars 2006

Fundur haldinn í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi í fundarsal MS-Selfossi 27. mars 2006


Formaður, Sigurður Loftsson, setti fundinn kl. 11 og kynnti dagskrá fundarins.


1. Undirbúningur að aðalfundum LK og BSSL
Formaður kynnti samantekt sem hann hafði unnið fyrir fundinn varðandi undirbúning félagsins að aðalfundi LK sem haldinn verður í Reykjavík 6.og 7.apríl. Félagið á rétt á 8 fulltrúm inn á aðalfund LK.  Formaður lagði fram drög að ályktun um áburðarmál sem stjórnin hefur verið að vinna að.
Fundarmenn ræddu drögin og áhersluatriði hennar, meðal annars um framkvæmd sýnatöku og hvaða efni væru mæld í greiningum eftirlitsaðila. Fundarmenn sammála um að stjórnin ynni áfram að málinu og ályktun síðan send inn á aðalfund LK.
Formaður ræddi hugsanlega ályktun um einstaklingsmerkingar og framkvæmd þeirra.
Sigurlaug í Nýjabæ nefndi hvort ekki væri þörf á því að fá upplýsingar um kostnað við einstaklingsmerkingakerfið.
Sveinn í Reykjahlíð nefndi að kostnaður við uppbyggingu kerfisins væri umtalsverður og mun meiri en reiknað var með í upphafi. Jafnframt þyrfti að velta fyrir sér framtíð tölvudeildar BÍ.
Birna á Reykjum taldi þörf á að félagið ályktaði um þessi málefni.
Jóhann í St-Hildisey ræddi hvort þörf væri á ítrekun á ályktun Búnaðarþings um niðurfellingu kjarnfóðurgjalds.
 
Samþykkt að stjórn félagsins ynni áfram að ályktunum  með það í huga að senda ályktun inn á aðalfund LK um áburðarmál, einstaklingsmerkingar og framkvæmd þeirra, ítrekun til landbúnaðarráðherra um niðurfellingu kjarnfóðurgjalds í samræmi við ályktun BÍ. Jafnframt yrði farið í að skoða fyrri ályktanir félagsins um starfsemi tölvudeildar BÍ og almennt  um starfsemi samtakanna.
 
Formaður fór yfir þær ályktanir Búnaðarþings sem snerta nautgriparæktina, einkum um Nautastöð BÍ og verðjöfnun kúasæðinga.
Birna á Reykjum sagði að hún hefði greitt atkvæði á móti tillögu um verðjöfnun kúasæðinga.
Jóhann í St-Hildisey velti fyrir sér hvar mörkin ættu að liggja í svona millifærslukerfi, ættu tilvonandi sunnlenskir kúabændur að fá þá sérstakan styrk úr sameiginlegum sjóði búgreinarinnar ef þeir ætluðu að kaupa jörð á Suðurlandi þar sem landverð væri hærri en á öðrum svæðum ?
Jóhann ræddi jafnframt afgreiðslu Búnaðarþings varðandi þjónustu búnaðarsambanda og kostun hennar. Mætti líta svo á að þar með gætu einstaka kúabændur, sem nýttu sér ekki þá þjónustu, geti fengið endurgreitt sitt búnaðargjald ?
Egill á Berustöðum sagði svo ekki vera, búnaðargjaldið sem slíkt væri skilgreint sem skattur. Hins vegar fæli samþykktin í sér að búnaðarsamböndin gætu veitt afslátt frá gjaldskrá í samræmi við mishátt inngreitt búnaðargjald einstakra búgreina.


2. Staðan í WTO-samningnum, starf í nefnd um lækkun matvælaverðs o.fl.
    -Erna Bjarnadóttir sviðsstjóri og hagfræðingur BÍ

Erna fjallaði í byrjun um útkomu skýrslu Samkeppniseftirlitsins  frá því í desember 2005 um samanburð á verði matvæla hér á landi og á Norðurlöndunum. Skýrslan hefði verið um of gildishlaðin og ávallt skiptir máli í svona samanburði viðmiðunarpunktar og hvað er tekið með og hvað ekki.
Hún fjallaði m.a. um hvað ylli verðmun milli landa og vitnaði í skýrslu Hagfræðistofnunar frá árinu 2004 um það efni, þar kemur m.a. að hægt sé að skýra um 60% af þeim verðmun sem er á milli Íslands og nágrannalanda með mun á launum.
Þegar talað er um ESBverð þá fælist í því mjög gróf einföldun, í ljós kemur að innan 15-ríkja ESB væri allt að 65% munur á matvælaverði milli aðildarlanda þar sem hann er mestur.
Erna sagði frá starfi nefndar sem forsætisráðherra skipaði í kjölfar útkomu skýrslu Samkeppniseftirlitsins. Gagnaöflun væri í gangi og allmargir aðilar hefðu komið á fund nefndarinnar. Reiknað er með því að nefndin ljúki störfum í júní nk. með tillögum til ráðherra.


Þá ræddi Erna stöðu mála í WTO-viðræðum, reiknað hefur verið með að línur myndu skýrast um niðurstöður landbúnaðarþáttar WTO-viðræðanna þann 30. apríl næstkomandi. Svo virðist að sú dagsetning muni ekki halda þegar á reynir.
Landbúnaðarhluti WTO-viðræðanna gengur út á þrjú megin viðfangsefni, leiðir til að draga úr innanlandsstuðningi einstakra ríkja, rýmkun á markaðsaðgangi (lækkun tolla) og loks afnám útflutningsbóta.


Rætt hefur verið um að lækka heildar innanlandsstuðning (AMS) verulega og löndum yrði skipt niður í ákveðna flokka m.t.t. til hver lækkunin yrði. Hér er stuðningsheimildin 130 millj  SDR og myndi hún lækka umtalsvert frá því sem nú er. Þessi stuðningur er samanlagður opinber stuðningur, þ.e. framleiðslutengdar beingreiðslur og verðstuðningur sem getur falist í opinberum verðákvörðunum eða öðrum beinum verðstýrandi aðgerðum.
Gagnvart mjólkurframleiðslunni hér á landi virðist því skipta máli hvort framhald verði á opinberri verðlagningu á hluta mjólkurvaranna, bæði til framleiðendanna og á heildsölustigi.
Þá er komið ákvæði í drögin um að hámark stuðnings við einstakar greinar verði fryst miðað við stuðning sem viðkomandi grein hefur notið á tilteknu árabili. Með þessu ákvæði yrði ekki hægt að færa stuðning  milli búgreina né að taka upp nýjan stuðning við nýjar greinar.
Reiknað er með að “bláa boxið” verði skert, í júlí 2004 var samið um að í nýjum samningi yrði hámark  þess  5% af heildarverðmæti búvöruframleiðslunnar en nú er  jafnvel talað um að gengið verði lengra og það verði skert niður í 2,5%.
Ekki er gert ráð fyrir breytingum á “græna boxinu” nema þá að það  verði skilgreint betur, þ.e. hvað felist í grænum stuðningi. 


Þá ræddi Erna um markaðsaðganginn sem hlut af þessum viðræðum. Þar er rætt um lækkun tolla og mismunandi útfærslur í þá veru. Stífar kröfur eru uppi um að ákveðið tollaþak verði sett og jafnframt að hæstu tollar, sem eru núna, lækki mest. Einnig að ákveðið verði að tiltekið magn af  búvörum verði flutt inn á lágmarkstollum, líkt og verið hefur en það magn verði aukið. Rætt hefur verið um að viðkvæmar búvörur fái sér meðferð í þessu sambandi þannig að innflutningsheimildir verði auknar en ekki sambærilegar lækkanir á tollum þessara vara og annarra.


Einn liður í þessum viðræðum er afnám útflutingsbóta, sem reiknað er með að gerist í nokkrum skrefum, og verði aflagðar árið 2013.


Þá greindi Erna frá stærstu þáttunum í ályktun nýafstaðins búnaðarþings  til þessara málefna.


Loks fjallaði Erna í nokkrum orðum um hver hugsanleg framtíð íslenskrar nautgriparæktar yrði ef við gengum inn í ESB. Erfitt er að átta sig á því, helst er að skoða hvernig nágrannaþjóðum hefur tekist til og þá einkum Finnlandi og Svíþjóð. Finnar náðu mun betri samningum en svíar gerðu, sérstaklega varðandi stuðning undir nafni harðbýlla svæða. Þarna er þó um að ræða fjármuni sem finnsk stjórnvöld leggja til en samið um hvernig megi styðja landbúnaðinn. Á sama hátt mætti hugsa sér að skilgreina íslenskan landbúnað. Þetta yrði þó ávallt háð hvaða samningsmarkmið yrðu höfð að leiðarljósi af hálfu íslenskra stjórnvalda.
Frá þeim tíma sem Finnland og Svíþjóð fóru í ESB, hafa bæst við mun fleiri lönd og fátækari. Jafnframt hefði landbúnaðarstefna ESB verið endurskoðuð og ljóst að stuðningur við landbúnað í ESB verður skorinn niður á næstu árum. Ef til kæmi, þá skipti höfuðmáli hver innanlandsstuðningurinn yrði. Ljóst er einnig að opnun markaðar myndi valda erfiðleikum fyrir íslenskan mjólkuriðnað og þá kúabændur í kjölfarið.


Egill á Berustöðum ræddi um möguleika mjólkurframleiðslunnar með hliðsjón af mjólkursamningnum og þeim áherslum sem nú væru í WTO-viðræðunum. Svo virtist að hann gæti haldið. Skoða þarf opinbera verðlagningu í þessu samhengi.
Erna taldi  mesta ástæðu til að hafa áhyggjur af tollamálunum fyrir kúabændur.
Að öðru leyti er núgildandi samningur gerður í ljósi upplýsinga og áætlana um gang WTO viðræðnanna sem í raun hafa lítið breyst og því liggur beinast við að láta reyna á það svigrúm sem hann skapar, þ.á.m. varðandi breytingar á verðlagningu.


Rætt um verðtilfærslur innan mjólkuriðnarins og mikla fjölbreytni mjólkurvara á á litlum markaði.


Óli í Geirakoti ræddi slaka afkomu kúabænda, viss hætta á að mjólkurframleiðslan fjari út, ekki hægt að keyra of langt niður með verð til bænda.
Einar á Urriðafossi ræddi fréttaflutning með hliðsjón af því verði sem greitt verði fyrir umframmjólk, fólk framleiðir ekki til lengri tíma á slíku verði.
Egill á Berustöðum vakti athygli á mikilvægi verðtryggingarákvæða í mjólkursamningi, ekki síst þegar verðbólgan er eins há og raun ber vitni.
Ágúst á Eystra-Hrauni spurði um möguleika að fá einhverja undanþágu frá landbúnaðarhluta WTO þar sem við værum í  raun örríki sem skipti engu máli þegar verið væri að ræða millilandaviðskipti með búvörur.
Erna taldi vonlaust að komast hjá því að taka þátt í þessum hluta viðræðna WTO með fullum skyldum líkt og aðrar þjóðir.
Gunnar á Túnsbergi velti fyrir sér þeim kostnaði sem óneitanlega birtist í verði mjólkurvara hér á landi vegna mikilla krafna um gæði og aðbúnað, kröfur sem eru meiri hér en víða annars staðar.


Fundarmenn sammála því að nauðsynlegt sé að leggja meiri áherslu á að fylgjast betur með hvað er að gerast á alþjóðavettvangi í þessum málum, til að geta enn betur áttað sig á stöðunni á hverjum tíma. 
Ernu sérstaklega þökkuð góð framsaga á fundinum á flóknu og yfirgripsmiklu efni.  


3. Önnur mál
Birna á Reykjum sagði frá undirbúningi hátíðarhalda vegna 20 ára afmælis LK.
Formaður gat um að ársfundur Fagráðs í nautgriparækt verður haldinn á Suðurlandi 19.apríl nk.Fleira ekki gert og fundi slítið um kl 16


Runólfur Sigursveinsson


back to top