Félagsráðsfundur FKS 14. mars 2014

Fundur haldinn í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi föstudaginn 14.mars 2014 í fundarsal MS á Selfossi.

1. Fundarsetning.
Valdimar Guðjónsson formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna. Rakti tilurð fundarins en hann er fyrst og fremst sá að undirbúa tillögugerð fyrir aðalfund LK. Jafnframt er Sigurður Loftsson mættur sem formaður LK.

2. Kynning frá stjórn LK um breytingar á samþykktum LK og fleira.
Sigurður Loftsson formaður LK kynnti tillögu um breytingar á samþykktum BÍ sem komu frá stjórn BÍ og sem ræddar voru á nýafstöðnu Búnaðarþingi auk boðaðra breytinga á innheimtu búnaðargjalds sem Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra sagði frá á Búnaðarþingi.
Tillaga frá stjórn LK til aðalfundar samtakanna liggur fyrir sem felur í sér umtalsverða fækkun fulltrúa inn á aðalfund LK.
Ólafur í Hraunkoti og Ásmundur í Norðurgarði ræddu fyrirhugaðar breytingar, t.d. vegna mögulegs afnáms búnaðargjalds. Hvernig á að fjármagna félagskerfið til framtíðar, það yrði væntanlega ekki gert nema með innheimtu árgjalds til félagsaðildar.
Sigurður Loftsson ræddi mögulegar breytingar á þessum málum og hvernig þetta yrði mögulega gert, hugsanlega í gegnum afurðavinnslufyrirtækin að hluta. Spurningin er í raun hvert við viljum þróa þessi mál áfram. Á nýafstöðnu Búnaðarþingi var samþykkt m.a. tillaga að heimila stjórn BÍ sölu á Nautastöð BÍ. Síðan þarf að skoða fagstarf fyrir búgreinina, hvort búgreinin komi þar inn í fjármögnun einstakra verkefna.
Jóhann í St-Hildisey ræddi þessi mál m.a. með hliðsjón af aðstæðum í Danmörku. Skynsamlegt gæti verið að feta sig í átt til gjaldtöku til bæði faglegrar starfsemi og félagslegra þátta.
Elín í Egilsstaðakoti ræddi hvort eðlilegt væri að við sem kúabændur gætum bæði verið með félagslegan þátt og faglegt starf í ljósi t.d. stofnunar RML. Varðandi félagslegan þátt þá þyrfti væntanlega að hafa beint félagsgjald.
Valdimar í Gaulverjabæ velti fyrir sér mögulegum leiðum til að halda starfsemi áfram, bæði varðandi félagslega þætti og faglegt starf.
Siguður Loftsson nefndi að í búnaðarlagasamningi væru fjármunir nýttir til skýrsluhalds og ræktunarstarfs í einstökum búgreinum.
Valdimar í Gaulverjabæ nefndi að FKS hefði trúlega eitt aðildarfélaga LK ákvæði um innheimtu félagsgjalds til starfsemi félagsins.
Elín í Egilsstaðakoti nefndi mögulega aðkomu LK að þeim breytingum sem verða á löggjöf m.t.t. búnaðargjalds.
Jóhann í St-Hildisey ræddi þessar tillögur að breytingum og nefndi í slíkum hræringum fælust ávallt líka tækifæri, í þessu tilviki fælist þetta væntanlega í því að búgreinin hefði meiri afskipti af málum sem snerta búgreinina sérstaklega umfram það sem mögulegt er í núverandi kerfi.
Valdimar í Gaulverjabæ spurði út í undirbúning fyrir næsta búvörusamning.
Sigurður Loftsson svaraði því til að í bókun með núverandi samning um endurskoðun. Hins vegar hefði gengið illa að koma því starfi af stað. Meðal annars hefði núverandi staða á markaði valdið því að menn eru bjartsýnni en áður um raunverulega stærri markað en var. Spurning sem kemur upp þá hvort eitt verð verði þá ráðandi í stað þess að að vera með eitt verð innanlands og annað vegna útflutnings. Ræddi um framtíð opinberrar verðlagningar og starf verðlagsnefndar búvöru.
Pétur í Hvammi ræddi stöðuna og framtíðina sem við yrðum að hafa trú á. Þyrftum að takast á við rekstur sæðingarstöðvarinnar og sameina þá starfsemi. Spurning hvort það viðhorf sé uppi hjá ríkisvaldinu að gera einn heildarsamning um stuðning við landbúnaðinn.
Jóhann í St-Hildisey sagði frá umræðum um þau mál á Búnaðarþingi en í samþykkt þar var miðað við samninga við hverja búgrein fyrir sig.

Rætt um skort á hagtölum, m.a. um afkomu greinarinnar. Vonandi stendur það til bóta en enn hafa ekki komið tölur varðandi niðustöður ársins 2012 frá Hagstofu Íslands sem nú er komin með þau mál.

3. Matarhlé.

4. Tillögugerð fyrir aðalfund LK

Fundargerð ritaði:
Runólfur Sigursveinsson

Tillaga 1.
Búvörusamningar
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Sögu 28. – 29.mars 2014 hvetur ráðherra Landbúnaðarmála til að setja af stað undirbúning að vinnu við gerð nýs búvörusamnings.
Greinargerð.
Fyrstu aðalmarkmið LK við gerð samningsins verði eftirfarandi;
• Hver búgrein semji fyrir sig um sín málefni.
• Tollvernd verði skilgreind í prósentum en ekki krónutölu. Ljóst er að tollvernd þarf að hækka þar eð hún hefur verið að skerðast síðust ár vegna verðþennslu innanlands.
• Beingreiðslur sjáanlegar og sanngjarnar og eingöngu vegna innanlandsneyslu.
• 100 % framleiðsluskylda.
• Beingreiðslur greiddar á lítra mjólkur.
• Gripagreiðslur verði með sama hætti og verið hefur.
• Niðurgreiðsla byggingakostnaðar vegna nýbygginga til framleiðslu mjólkur og nautakjöts.
• Niðurgreiðsla kostnaðar vegna bættrar aðstöðu til framleiðslu mjólkur og nautakjöts.
• Gæðastýring sem stuðlar að betri búskaparháttum. Svo sem betri gæðum á afurðum, bústjórn ofl.
• Stefnt verði að ná sem lengstum samningi vegna stöðugleikar greinarinnar.

Tillaga 2.
Kvíguskoðun
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Sögu 28. – 29.mars 2014 mótmælir gjaldtöku fyrir kvíguskoðun á kvígum undan heimanautum.
Greinargerð.
Yrði staðan sú að dæmdum kvígum myndi fækka umtalsvert, er enginn vafi á að góðir gripir myndu tapast úr ræktuninni.
Erfðahópurinn má ekki við þvi að minnka.
Ljóst er að notkun heimanauta skapast af aðstæðum á hverjum stað.

Tillaga 3.
Búnaðargjald.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Sögu 28. – 29.mars 2014 hvetur til þess að hefja strax vinnu við að skilgreina uppá nýtt starfsemi sem hefur fallið undir búnaðargjald.
Greinargerð.
* Ljóst er að starfsemi LK verður í framtíðinni fjármögnuð með árgjöldum.
* Stefnt verði að því að leiðbeiningarþjónustan standi undir sér sem allra fyrst með gjaldtöku.
* Skýrsluhald og kynbótastarf verði að hluta til rekið með fjármagni úr væntanlegum búvörusamningi.

Tillaga 4.
Nautastöðin.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Sögu 28. – 29.mars 2014 telur rétt að LK taki yfir rekstur Nautastöðvar Bændasamtaka Íslands.
Vísað er til ályktunar Búnaðarþings um stofnun einkahlutafélags um rekstur og eignir Nautastöðvarinnar. Tekið er undir efni hennar.
Fundurinn felur stjórn LK að hefja vinnu við þetta verkefni.

Tillaga 5.
Nautaeldi.
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Hótel Sögu 28. – 29.mars 2014 hvetur bændur til miðlunar á ungkálfum og kúm sín í milli.
Greinargerð.
* Þegar vöntun er á bæði nautakjöti og mjólk er nauðsynlegt að þeir sem sinna eldi eigi möguleika á að nálgast gripi. Einnig að þeir sem hyggjast slátra kálfum bjóði gripi sína, sé þess kostur. Þó setja sjúkdómavarnir flutninga milli bæja skorður á vissum svæðum.
Ýmsar leiðir eru færar. T.d. að þeir sem hafa aðstöðu ali kálfana fyrstu mánuðina en selji þá síðan. Nauðsynlegt er að á hverjum tíma séu tiltækir kostnaðarreikningar við að ala ungkálf.

 


back to top