Félagsráðsfundur FKS 27. ágúst 2008

Fundur í félagsráði Félags kúabænda 27.ágúst 2008
haldinn í Árhúsum Hellu


1.Fundarsetning
Formaður félagsins, Sigurður Loftsson setti fund kl. rúmlega 21. Bauð sérstaklega velkominn á fundinn Egil Sigurðsson formann stjórna  Auðhumlu og Mjólkursamsölunnar.


Í upphafi minntist formaður Páls Lýðssonar sem lést með sviplegum hætti á vordögum. Samþykkt var eftirfarandi bókun vegna þessa:


„Félag kúabænda á Suðurlandi minnist Páls Lýðssonar í Litlu-Sandvík með virðingu og þakklæti, fyrir störf hans í þágu félagsins og sunnlenskra kúabænda. Fjölskyldu Páls eru færðar innilegustu samúðarkveðjur.“


Jafnframt minnti formaður á að breytingar hafa orðið á högum einstakra félagsráðsmanna m.t.t trúnaðarstarfa  en Guðbjörg Jónsdóttir á Læk , ritari FKS er orðinn formaður Búnaðarsambands Suðurlands og Gunnar Kr. Eiríksson var kosinn í stjórn  Búnaðarsambandsins á aðalfundi þess sl. vor og síðan er Björn Harðarson í Holti kominn í stjórn Auðhumlu.


2. Kjaramál bænda
Formaður
sagði frá því að breytingar hafa orðið á skipan verðlagsnefndar búvara en Sigurður Loftsson hefur tekið sæti í nefndinni í stað Þórólfs Sveinssonar auk þess er Magnús Ólafsson kominn í nefndina í stað Guðlaugs Björgvinssonar. Fundur verður haldinn í nefndinni á næstunni. Formaður minnti á að geymd hafi verið hækkun á hluta fjármagnsliðarins  þegar síðasta hækkuntil bænda  átti sér stað, auk þess hafa verið verulegar aðfangahækkanir frá síðustu verðákvörðun á mjólkurverði.
Formaður gaf orðið laust um stöðuna í kjaramálum.
Jórunn  á Drumboddstöðum spurði um upplýsingasöfnun á vegum Bændasamtakanna sem kynnt var á vordögum  sem mögulega ætti að nýtast til að meta stöðuna fyrr en verið hefur.
Ómar í Lambhaga nefndi einn þátt varðandi áhrif á útsöluverð bæði fóðurs og olíu en það eru tíðar eigendabreytingar á fyrirtækjunum.
Jóhann í St-Hildisey nefndi að einhver óútskýrð lögmál giltu um verðmyndun og verðlagningu á fóðurblöndum, jafnvel þó kjarnfóðurgjald hefði verið fellt niður þá gerist ekkert á markaðnum.
Ómar í Lambhaga sagði nauðsynlegt að vekja meiri athygli á,  bæði stöðu mála hjá kúabændum og einnig mikilvægi þeirrar atvinnustarfsemi sem tengist frumframleiðslunni.
Samúel í Bryðjuholti nefndi að ódýrasta nýmjólkin í Evrópu er á Íslandi- slíkt er ótrúlegt.
Þórir á Selalæk ræddi hvenær væri best að ná hækkun fram, trúlega skást upp úr áramótum
Arnheiður á Guðnastöðum nefndi einnig þann aðstöðumun sem er innan stéttarinnar m.t.t. skuldastöðu, sum búin skuldlítil, önnur mjög skuldsett.
Jórunn á Drumboddsstöðum  taldi að þörfin á hækkun á verði væri mjög brýn nú þegar, miðað við þær hækkanir sem hafa orðið  síðustu mánuði
Elín í Egilsstaðakoti taldi einnig að brýnt væri að fá fram hækkanir  sem fyrst
Jóhann í St-Hildisey nefndi verðbólguþáttinn, þurfum við ekki að fá tíðari hækkanir einfaldlega vegna verðlagsþróunar?
Formaður nefndi að hluta verðs á mjólkurvörum er frjálst.
Egill á Berustöðum sagði að sínum tíma hefði iðnaðurinn hefði fengið 2% hækkun á úrvinnslukostnaði en þörfin hefði verið meiri. Ljóst að hækka þarf enn frekar þann hluta mjólkurvara sem  er ekki  á borði verðlagsnefndar.


3. Útflutningur mjólkurvara og rekstur Auðhumlu og Mjólkursamsölunnar – Egill Sigurðson á Berustöðum,  formaður stjórna fyrirtækjanna
Sala  gengur býsna vel,  góður gangur er í sölu  í ostum þó síst í dýrustu ostunum. Nýjar vörur eru að koma inn m.a. krakkaskyr og nýr skyrdrykkur án viðbætts sykurs. Salan síðustu 12 mánuði  um 116,5 milljónir lítrar á próteingrunni en 111,5 milljónir á fitugrunni . Greiðslumark var ákveðið 119 milljónir lítra fyrir næsta verðlagsár. Gríðarlegar hækkanir eru á aðföngum eins og umbúðum og íblöndunarefnum. Reksturinn er þungur vegna þessa auk umsaminna launhækkana.
Rekstur  Auðhumlusamstæðunnar er neikvæður um rúmlega 500 milljónir á fyrri helmingi ársins, slíkt gengur ekki.
Útflutningsþörfin er um 8 milljónir lítra, verið að gefa með þessari framleiðslu sem nemur 5-6 kr/l. Ástæður eru hækkanir á aðföngum, mikill flutningskostnaður og verðvætningar á skyrinu til Bandaríkjanna  hafa ekki staðist. Bundnar vonir við flytja út skyr til Bretlands með sjófragt á næstu mánuðum.
Farið verður yfir útflutningsmálin á haustfundi Auðhumlu sem verður 7.nóvember . Aðgerðir sem eru til skoðunar er virðisaukaskattsmálin, núna er þetta gert upp á tveggja mánaða tímabili en leita þarf leiða til að fá þetta inn á eins mánaða skil. Annað atriði eru olíugjaldið en leyft var að hafa litaða olíu á mjólkurbíla með reglugerðarbreytingu fyrir síðustu kosningar en í reglugerðinni er bannað að leyfa litaða olíu á bílum sem eru með aftanívagna. Þannig hefur þessi breyting ekki nýst nægilega vel.  Flutningskostnaður, þ.e. sá hluti sem bændur greiða er enn óbreyttur 2,05 kr/l.
Guðbrandur Sigurðsson vinnur að útflutningsverkefnum með Agnari Friðrikssyni. Fyrirtæki þeirra, Nýland,  er þjónustuaðili og á aldrei vöruna og ekki viðskiptin sem slík. Um er að ræða verktakagreiðslur  vegna útflutningsmarkaða.
Á árinu hefur fyrirtækið fjárfest fyrir um 800 milljónir, í Búðardal, Akureyri og á Selfossi. Gat um fækkun framleiðenda á  Ísafjarðarsvæðinu.


Nokkrar umræður urðu um erindið,  spurt um húsnæði í eigu félagsins á Selfossi.
Egill sagði að Matvælastofnun muni taka allt húsið til leigu sem hún er í núna. Remfló er með leigusamning til áramóta. Fasteignasala leigir efri hæðina norðan Austurvegar og neðri hæðin er í leigu. Ekki verður farið út í uppbyggingu að sinni á lóð við hlið Matvælastofnunar.
Þórir á Selalæk  spurði um mögulegan flutning starfseminnar frá Birtuhálsinum á Selfoss.
Egill sagði að hús Osta- Smjörsölunnar á Bitruhálsi 2 væri í sölumeðferð en þau mál hafi tafist m.a.  vegna tíðra stjórnarskipta hjá Orkuveitunni.  Þörf er á innvigtunarhúsi á Akureyri mjög fljótlega.
Frestað hefur verið að flytja starfsemina úr  Reykjavík á Selfoss  í ljósi aðstæðna.
Samúel í Bryðjuholti  spurði um ávöxtun á stofnsjóð.
Egill taldi að ávöxtun yrði væntanleg bærileg á árinu, var tekin af eigin fé fyrirtækisins á liðnu ári.
Ómar  í Lambhaga spurði um Mjólku.
Egill sagði að Auðhumla sjái um innvigtun samkvæmt  samningi  til næstu mánaðarmóta.
Gunnar á Túnbergi spurði um mun á flutningskostnaði  á útflutningi til USA og Bretlands.
Egill  sagði að flutningkerfið til Bandaríkjanna væri  þungt og of margir milliliðir.
Færeyjamarkaður  er áhugaverður og er sinnt  beint af Auðhumlu. Er áhugaverður markaður  til framtíðar. Vikulegar ferðir eru frá Reykjavík til Þórhafnar .
Elín í Egilsstaðakoti lýsti áhyggjum sínum yfir  ýmsum breytingum sem hafa átt sér stað innan fyrirtækisins  t.d. breyting á staðsetningu ostaframleiðslunnar og eins áberandi óánægju hjá verslunum út á landi með þjónustu.  Egill sagði að vissir agnúar hafa orðið í sumar í sölukerfinu og þjónustan hafi orðið lakari tímabundið.
Sigurjón í Rafholti spurði um þjónustustigið, er stefnan að minnka þjónustuna eða á  að ná fyrra þjónustustigi.
Egill  sagði að þjónustan hefði í raun batnað í verslanir á Reykjavíkursvæðinu, t.d. er ferskvara nú keyrð út í verslanir á laugardögum. Reynt yrði að sinna þörfum viðskiptavina eins og kostur á hverjum tíma en horfa þyrfti í kostnaðinn í heild sinni.
Guðbjörg á Læk spurði um hvernig ætti að snúa við hallarekstri fyritækisins.
Egill  svaraði því til að hann hefði nefnt ákveðin atriði fyrr á fundinum en áherslan er á að gera einingarnar sérhæfðari  en jafnframt að samhæfa reksturinn í heild og draga þannig úr kostnaði. Auk þess verður að sækja ákveðinn hluta út á markaðinn á næstunni.


Sigurður í Steinsholti taldi þetta mjög alvarlega stöðu sem Egill lýsti um afkomu Auðhumlu á fyrri hluta ársins.
Egill  á Berustöðum sagði nauðsynlegt fyrir frumframleiðslu að fá örari verðleiðréttingar ef verðbólgan verður með þeim hætti sem hún er nú.


4. Önnur mál
Sigurður í Steinsholti sagði stuttlega frá starfi stefnumótunarhóps LK, fundað hefur verið þrisvar  og búið að vinna töluvert í greiningu ákveðinna þátta. Doha-viðræðurnar  eru í lausu lofti en í raun strandaði þar ekki á landbúnaðarhlutanum. Næsti fundur stefnunarmótunarhópsins fer væntanlega í að fá kynningu hvernig málin horfi við um landbúnaðarhluta Doha með tilliti til Íslands og þá mjólkurframleiðslunnar. Rætt hefur verið innan hópsins m.a. hvernig  ætti að komast undan þeim innbyggða kostnaði sem felst í kvótakerfinu, varðandi kaup og sölu á greiðslumarkinu.
Gunnar á Túnsbergi varaði við mikilli umræðu um afnám kvótans m.t.t. veðhæfni jarða.
Samúel í Bryðjuholti nefndi að jarðarverð hefði hækkað síðustu ár og veðrými hefði þar með aukist vegna þess.
Þórir á Selalæk spurði um grænar greiðslur og áhrif á kvótaverð, það ætti að lækka eftir því sem  sá stuðningur hækkar.
Sigurður í Steinsholti taldi að þessar grænu greiðslur væru ekki enn það hátt hlutfall að þær hefðu  mikið vægi á kvótaverð.
Samúel í Bryðjuholti sagði frá því að hann hefði fengið afgreitt ranga fóðurblöndu á liðnum vetri . Fóðurfyrirtækið hefur viðurkennt tjón sem búið í Bryðjuholti varð fyrir í kjölfarið, bæði varðandi afurðatjón og dýralækniskostnað.  Bótakröfuna  greiðir tryggingafélag fóðursalans .
Runólfur ræddi aðfangahækkanir síðustu mánuði og nefndi dæmi um gríðarlegar hækkanir á olíu til bænda. Taldi þörf á að vinna samntekt um helstu aðfangahækkanir síðustu mánuði, meðal annars væri hægt að fara í rauntölur vegna þessara þátta út frá bókhaldi einstkra kúabúa. Einnig þyrfti að koma þessum upplýsingum jafnt og þétt á framfæri á opinberum vettvangi.
Jóhann í St-Hildisey  nefndi að forsenda afnáms kvótakerfis er að útflutningur nái að skila viðunandi  verði og fagnaði þeirri umræðu sem væri innan stefnumótunarhópsins.
Egill á Berustöðum taldi líklegt að mjólkuriðnaðurinn myndi leita til LK um hvaða leiðir ætti að fara um þróun útflutningsins.
Gunnar á Túnsbergi ræddi útflutningsmálin og að viss tortryggni væri meðal  bænda um afskipti Guðbrands af útflutningsmálum, taldi þörf á að skýra nánar þessi atriði fyrir bændum
Egill á Berustöðum sagði að þetta hefði verið útskýrt í Sveitapóstinum á sínum tíma og með aukafréttabréfi  en sjálfsagt væri  hægt að gera þetta betur.


Formaður þakkaði góðan fund og sleit fundi kl. 00.20


Runólfur Sigursveinsson ritaði fundargerð


back to top