Félagsráðsfundur FKS 23. janúar 2018

Félagsráðsfundur Félags kúabænda á Suðurlandi 23. janúar 2018, á fundinn sem haldinn var í fundarsal M.S mættu Rafn Bergsson formaður Hólmahjáleigu,Borghildur Kristinsdóttir, Skarði, Karel Geir Sverrisson, Seli, Reynir Jónsson, Hurðarbaki, Jóhann Jensson, Fit, Arnór Hans Þrándarson, Þrándarholti, Anne Hansen, Smjördölum, Samúel Unnsteinn Eyjólfsson, Bryðjuholti, Elín Heiða Valsdóttir, Úthlíð, Jórunn Svavarsdóttir Drumboddsstöðum, Arnfríður Sædis Jóhannesdóttir Herjólfsstöðum, Sigríður Jónsdóttir Fossi og Jóhann Nikulásson Stóru Hildisey.
Rafn setti fund, bauð fundarmenn velkomna og bað Svein Sigurmundsson að rita fundargerð.
1. Breytingar á samþykktum F.K.S. Umræða hefur verið innan félagsins um að breyta samþykktum þannig að þeir sem ekki eru aðilar að Landssamtökum Kúabænda séu ekki félagar í F.K.S. Í ljósi þeirra upplýsinga að af 221 innleggsnúmerum á félagssvæðinu eru einungis aðilar frá 93 innleggsnúmerum í LK töldu flestir fundarmanna óráðlegt að fara í að breyta samþykktunum að svo stöddu. Fulltrúa á aðalfund LK kjósa þó einungis félagsmenn þar.
2. Félagskerfi bænda. Sveinn fór yfir uppbyggingu að félagskerfi bænda. Aðildarfélög bænda eru 24 og fulltrúar á Búnaðarþing eru 50. Félagskerfið er flókið og því er umræðan í þá veru að einfalda það. Margir tjáðu sig um að búgreinafélögin myndi grunneiningar að félagskerfinu.
3. Staða mjólkuriðnaðarins. Egill Sigurðsson stjórnarformaður MS og Auðhumlu mætti á fundinn og fór yfir stöðu mjólkuriðnaðarins. Mismunur er milli efnaþátta en ójafnvægið milli fitu og próteins er orðið allt að 12 milljón lítra innan greiðslumarks. Það hefur áhrif á afkomu hvers mjólkurlítra sem sóttur er, hvort sem er innan greiðslumarks eða utan. Tollasamningar við ESB taka gildi 1. maí 2018 og mun stór hluti innflutningskvóta virka að fullum þunga frá fyrsta degi. Útflutningskvótar, þar með talið útflutningur á skyri mun hins vegar koma inn á fjórum árum. Brexit mun árið 2019 hafa áhrif á tollasamning Íslands við ESB. Markaðurinn á Bretlandi sem liggur hvað best við fyrir Ísland með tilliti til viðskipta og um leið verðmætur markaður fyrir íslenskar mjólkurvörur er í óvissu.Gert er ráð fyrir að á árinu 2018 verði sala um 145 til 146 millónir lítra og aukist um 1% á milli ára. Verðlagskerfið er tekið í gíslingu og smjör og mjólkurduft undirverðlagt. Það er tap af innlandsmarkaði aðallega á sölu á smjöri, dufti, og nýmjólk en tengja þarf hráefnisverð betur við markaðinn. Hagnaður af erlendum umsvifum gerir það að verkum að eigið fé samstæðunnar styrkist.
Þá fór Egill yfir fjárfestingar framundan en þær eru m.a.bygging á nýrri duftþurrkun á Selfossi, núverandi búnaður þar er orðinn 34 ára gamall og úreltur. Egill spurði út í stefnumótunarvinnu LK í mjólkur- og kjötframleiðslu. Elín Heiða svaraði Agli en stefnumótunarvinnan stendur yfir. Rætt var um greiðslur til fyrirmyndarbúa og vinnubrögð og starfsemi rannsóknastofunnar.
4. Önnur mál. Reynir minnti á tillögugerð til aðalfundar FKS. Elín Heiða greindi frá því að framkvæmdastjóri LK Margrét Gísladóttir er komin aftur til starfa úr fæðingarorlofi. Aðalfundur FKS verður að líkindum mánudaginn 12. febrúar og í Gunnarsholti. Aðalfundur LK verður fyrstu helgina eftir páska eða 6. og 7. apríl og verður að þessu sinni á Selfossi.

Fleira ekki og fundi slitið
Sveinn Sigurmundsson


back to top