Félagsráðsfundur FKS 22. mars 2005

Félagsráðsfundur FKS haldinn í fundarsal MBF 22. mars 2005


Formaður setti fund kl. 11:15, bauð nýja fulltrúa velkomna og sendi þakkir til þeirra félagsráðsmanna sem út gengu á síðasta aðalfundi.


1. Stjórnarkosning.
Sitjandi stjórn tjáði fundarmönnum að hún væri tilbúin að starfa áfram. Fundarmenn klöppuðu fyrir því og telst hún þá endurkjörin.
Formaður: Sigurður Loftsson Steinsholti
Gjaldkeri: Jóhann Nikulásson Stóru Hildisey
Ritari: Katrín Birna Viðarsdóttir Ásólfsskála.


2. Af nýliðnu Búnaðarþingi.
Formaður sagði mörg yfirgripsmikil mál hafa verið á dagskrá Búnaðarþings og mikla tímapressu. Taldi nauðsynlegt að endurskoða starfshætti þingsins hvað þetta varðar ef viðhalda á vönduðum vinnubrögðum.
Fór síðan yfir nokkur mál sem rædd hafa verið á vetvangi félagsins og komu til kasta þingsins.


• Samþjöppun á eignarhaldi bújarða og greiðslumarks.
Formaður sagði á þinginu hefði því verið beint til stjórnar BÍ, að skipaður yrði starfshópur til að fjalla um þetta efni. Einnig lægi fyrir frumvarp frá Jóni Bjarnasyni um breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.


Töluverð umræða varð um stærðir búa m.a. í hænsna-og svínarækt, þar væri hætt við vandamálum t.d. vegna úrgangs.


• Nautastöð Bændasamtaka Íslands.
Formaður sagði að félagsráð hefði nýlega samþykkt ályktun um endurbótaþörf í Þorleifskoti og LK hefði síðan lagt fyrir Búnaðarþing svipaða ályktun. Fyrir þinginu lá einnig greinargerð starfshóps BÍ, sem falið var að skoða starfsemi og rekstur Nautastöðva BÍ og móta tillögur um framtíðafyrirkomulag þeirra. Í greinargerðinni var einkum bent á þrjá kosti sem til greina kæmu.

a) Að endurbyggja núverandi stöðvar.
b) Byggja nýja uppeldisstöð í grennd við núverandi nautastöð.
c) Byggja nýja stöð fyrir uppeldi og sæðistöku í sama hlaði.

Í umfjöllun um málið komu fram ýmis sjónarmið hvað varðar alla kostina, m.a. smitvarnir, bygginga- og rekstrarkostnað en launakostnaður er hátt hlutfall af heildar rekstrarkostnaði stöðvanna. Búnaðarþing fól starfshópnum að vinna málið í þaula og leggja síðan álitið fyrir aðalfund LK til umfjöllunar.


Félagsráðsmenn lýstu undrun sinni yfir að enginn frá Bssl sé í nefndinni, meðal annars vegna staðsetningu sauðfjársæðingastöðvarinnar.


Fundarmenn lögðu til að hafist yrði handa strax við að vinna tillögu um innréttingar í Þorleifskoti til að geta lagt það fram.


Ágúst í Bjólu spurði hvort stöðin í Þorleifskoti yrði ekki of nálægt þjóðvegi 1 þegar hann verði færður.
Formaður sagði það geta ráðist af því hvaða kostur yrði valinn við staðsetningu hans.
Sigrún Ásta spurði hvort vilji væri til sameiningu stöðvanna.
Formaður sagði ugglaust skiptar skoðanir um það.


Fundarmenn ræddu um fóðrun og aðbúnað kálfanna, eins hvort bændur ættu sjálfir að ala þá.
Egill sagði það ekki æskilegt vegna sóttvarna og eftirlits og sagði frá því að Bssl. hefði verið beðið um matsverð á hlut Bssl. í stöðinni.
Sigrún Ásta vildi ræða frekar hvort bændur þyrftu ekki að hagræða og hafa þá eina stöð og færri stöðugildi.
Formaður sagði mikilvægt að fara eftir öllum öryggisþáttum m.t.t. sóttvarna. Kæmi upp alvarlegur smitsjúkdómur sem krefðist niðurskurðar á afmörkuðu svæði, þá er kostur að hafa stöðvarnar ekki á sama stað. Rekstrarkostnaður skipti vissulega líka miklu máli.
Sveinn í Reykjahlíð sagði það ódýrasta kostinn að innrétta upp á nýtt í Þorleifskoti og hann myndi leggja áherslu á þá lausn.
Runólfur sagði að helmingur gripanna sem kæmi inn á Uppeldisstöðina í Þorleifskoti kæmi af búum af Suðurlandi.
Ólafur í Hraunkoti sagði enga spurningu að ódýrast væri að endurbæta aðstöðu í Þorleifskoti og spara þá mannahald með bættri aðstöðu.


• Málefni Lánasjóðs landbúnaðarins.
Formaður sagði að reiknað hefði verið með að starfshópur landbúnaðarráðherra skilaði áliti fyrir Búnaðarþing. Það væru því vonbrigði að hann hafi ekki lokið störfum og umræðan á þinginu vafalaust mótast af því. Hins vegar var umræðan á Búnaðarþingi mjög í þá átt að búnaðargjaldið sem bændur greiða til Lánasjóðinn tilheyrði fortíðinni. Aðrir sem töldu sig gerst þekkja sögðu að þar með væri tilvera sjóðsins í uppnámi.
Valdimar spurði, ef þetta yrði niðurstaðan, hvort einhver viti hvert eða hver ætti að ráðstafa fjármagni sjóðsins.
Formaður sagði að helst væri talað um Lífeyrissjóð bænda .
Arnheiður sagðist hafa heyrt að ríkið teldi sig eiga þessa fjármuni.
Egill sagði sjóðinn borga ríkinu 38 milljónir á ári vegna ábyrgðar.
Fundarmenn voru flestir sammála um að eigið fé sjóðsins ættu að fara í Lífeyrissjóð bænda.
Rætt um núverandi stöðu Lífeyrissjóðs bænda og möguleika hans til framtíðar.


MATARHLÉ KL. 12:20


Eftir mikið skyrát og kaffisopa frá MBF var haldið áfram með málefni frá Búnaðarþingi 2005.


• Verðmyndun kjarnfóðurs og fóðurtollar.
Formaður greindi frá umræðu um þetta mál á Búnaðarþingi og sagðist vera þeirrar skoðunar að afnema ætti tolla á fóðri. Hins vegar væri athyglivert að umrædd ályktun var ekki afgreidd úr starfsnefnd á Búnaðarþingi.
Ólafur í Hraunkoti vill meina að fóðurstöðvarnar lækki ekki verðið þó svo lækkun sé í innkaupum hjá þeim, þeir séu bara að ná upp gömlu tapi.
Jóhann spurði hvort einhver hefði heyrt um samkomulag hefði verið gert um að lækka tollana í ákveðnum skrefum.
Runólfur sagði frá hugmynd sem komin er fram að Ísland verð umskipunarhöfn frá Bandaríkjunum m. t.t. að flytja korn að hausti og koma því svo áfram yfir veturinn.


• Olíugjald- þungaskattur.
Formaður ræddi ályktun Búnaðarþings um þetta mál en þar kemur m.a. fram að kostnaðurinn við upptöku nýs gjalds geti orðið allt að 2 kr/l.


• Stuðningur við íslenska kornrækt.
Formaður sagði að talverð átök hafa verið um þessa ályktun, einkum vega þess að upphaflega var gert ráð fyrir að fé kæmi frá þeim hluta mjólkursamnings sem átti að formbreyta á árinu 2007. Eftir allsnarpa umræðu hafi áætlun um fjármögnun þess árs verið felld út. Taldi mikilvægt að samninganefndin fái að ljúka þessum hluta mjólkursamningsins.
Runólfur telur að í ályktun Búnaðarþings um stuðning við kornræktina sé verið að lofa peningum úr eyrnamerktum greiðslum úr öðrum verkefnum í búnaðarlagasamningi. Vonandi fer svona millifærslukerfi að heyra sögunni til.
Egill segir að ekki sé hægt að greiða úr græna hólfinu út á þreskt korn því það teljist gul greiðsla. En svo sé spurning um að greiða á opið land.
Sveinn sagðist myndi berjast fyrir að hafa framleiðslutengdar greiðslur inni þar sem þær væru einfaldar og skilvirkar í framkvæmd en telur erfitt að greiða græna liðinn öðruvísi en eitthvað tapast út út greininni


3. Sameining MS og MBF.
Formaður bað Egil Sigurðsson og Gunnar Eiríksson að segja frá þeim málum.
Egill sagði frá því að þetta hafi verið samþykkt á aðalfundum félaganna en á eftir að ganga fyrir deildirnar hjá MS sem eru að byrja að funda á morgun og eftir páska og ef allar samþykkja verður haldinn fulltrúafundur í apríl og stefnt að sameiningu 29. apríl. Búið að ráða forstjóra ef allt gengur eftir og hann verður í Reykjavík.
Egill rakti titringinn sem var í þessu máli eins og fram hefur komið í fjölmiðlum.
Sagði frá að formlegt bréf frá Auðhumlubændum hefði borist um tilboð í hlutinn sem sunnanmenn keyptu á sínum tíma í Norðurmjólk.
Gunnar á Túnsbergi bætti við varðandi fyrirkomulag deildarfundanna. Sagði að ef við myndum selja okkar hlut í Norðurmjólk þá minnkaði vægi okkar í Osta- og smjörsölunni.
Sigurlaug spurði hvort að meiri arður yrði greiddur á næsta ári í kjölfar hagræðingar vegna sameiningar.
Egill sagðist lítið geta sagt um það.
Fundarmenn voru sammmála um að ekkert liggi á að selja þennan hlut í Norðurmjólk.
Sigrún Ásta segir það skjóta skökku við að Vestlendingar setji það skilyrði að hafa skrifstofuhaldið í Reykjavík.
Einar á Urriðafossi tók undir orð Sigrúnar Ástu.
Gunnar sagði að þetta hefði verið lendingin við samningsgerðina en ekkert segði að þetta yrði svo til margra ára.
Formaður taldi þetta mál vera komið vel á veg, sagði koma sér á óvart að Norðlendingar vilji kaupa hlut MBF og MS í Norðurmjólk.


4. Undirbúningur aðalfundar LK.
Formaður sagði að FKS væri eina félagið innan LK sem hefði tilkynnt nú þegar um aðalfundarfulltrúa, enda væri aðalfundum flestra aðildarfélaganna ekki lokið. Okkar fulltrúar væru færri en áður vegna breytinga á samþykktum LK á síðasta aðalfundi, en vonaðist að allir gætu mætt.
Fram kom að sauðfjárbændur eru með sinn aðalfund á sama tíma og LK og þykja fundarmönnum það miður fyrir þá sem eru með blönduð bú og þyrftu kannski að vera á báðum stöðum. Einnig er dagsettur aðalfundur SS þann 8.apríl.


Eftirfarandi mál eru til skoðunar hjá stjórn LK að leggja fyrir fundinn:
A. Ráðstöfun þess fjár sem eftir er að semja um í mjólkursamningi.
B. Að gerð verði víðtæk skoðunarkönnun meðal kúabænda.
Fundarmenn spurðu hvers vegna ætti að gera slíka könnun.
Formaður sagði sjónarmið sem fram koma á fundum með bændum oft misvísandi og því næðist oft ekki rétt mynd af því sem hrærist meðal félagsmanna. Með þessu móti næðist kannski betri sýn á ýmis mál.
Runólfur og Ólafur í Hraunkoti sögðu nauðsynlegt að vanda vel til svona könnunar m.t.t. spurninga.

C. Útflutningur mjólkurafurða.
D. Stefna stjórnvalda gagnvart alþjóðasamningnum.
E. Tryggingarmál og Bjargráðasjóður.
Formaður sagði að Bændasamtökin hefðu lagt vinnu í skoðun á þessum málum. Í B- deild sjóðsins væri nú uppsafnaðar um 71 milljón af búnaðargjaldi nautgriparæktarinnar. Á síðasta ári komu inn tæplega 18 milljónir króna gegnum búnaðargjald og svipað hefði verið greitt út. Sagðist eftir að hafa skoðað þetta þá væri hann ekki alveg viss hvort ástæða væri til að breytingar á þessu fyrirkomulagi að sinni, en full ástæða væri til að lækka tillagið.

F. Ákvörðun greiðslumarks og verðlagning mjólkur m.t.t. próteins og fitu.
Formaður sagði rætt innan stjórnar hvort ástæða væri til að breyta þessu.

G. Fjármál og fjármálaráðgjöf ?
Formaður telur nauðsynlegt með breyttu umhverfi á fjármálamarkaði getur verið nauðsynlegt að auka ráðgjafaþjónustu á þessu sviði.
Runólfur telur nauðsynlegt að bændur geti á hverjum tíma leitað eftir óháðri fjármálráðgjöf en þurfi ekki að styðjast eingöngu við ráðgjöf frá sínum viðskiptabanka.
Formaður sagðist velta því upp að eftir Nýja-Sjálandsferðina, hvort íslenskir bændur séu að safna skuldum um of og eins hvort verið sé að byggja of mikinn kostnað inn í reksturinn sem ekki verði hlaupið frá. Ef rekstrarskilyrði versni hér á landi þá muni bændur eiga erfitt um vik að laga sig að því.
Runólfur telur að líta verði á kvótakerfi í greininni sem tímabundið ástand og nú verði að þróa leiðir til að komast frá því skipulagi, m.a. til minnka þær skuldbindingar sem menn hafa sett sig í vegna kvótakaupa.
Sigurlaug í Nýjabæ sagði eftir ferðina til N-Sjálands væri hún að velta því fyrir sér hvar mörkin væru m.t.t. hversu mikið ætti að láta kýrnar mjólka. Ættum við t.d. að láta mjólka minna/meira?
Jóhann sagði aðstæður á Nýja Sjálandi að flestu leyti mjög ólíkar því sem við þekkjum. Þó stefni bændur þar að hámarksafurðum en ekki eftir hvern grip eins og hér heima heldur eftir hvern hektara lands
Runólfur vill sjá að bændur skoði alla hugsanlega möguleika til að bæta afkomuna. Of lítið er rætt um framtíð greinarinnar. Menn hafa verið bundnir af kvótakerfi undanfarna áratugi og því hefur lítil sem engin umræða verið varðandi möguleika t.d. markaðssetningu erlendis og enginn hvati í þá veru.
Jóhann tekur undir hjá Runólfi, og telur að ef við náum ekki árangri í útflutningi á mjólkurvörum þá eigi mjólkurframleiðsla hér á landi sér ekki mikla möguleika til framtíðar litið
Ólafur í Geirakoti telur að margt þurfi að gerast í málunum, t.d. mætti hugsa um það sem kosið var út af borðinu á sínum tíma (kúakynið).
Jóhann og Runólfur veltu því fyrir sér hvaða verð bændur þyrftu að fá fyrir mólkurlítrann ef hver og einn mætti framleiða að vild og ekki væru til staðar fjárskuldbindingar vegna kvótakaupa. Ljóst er að um verulegan mun væri að ræða
Fundarmenn ræddu mjólkursamninginn og töldu að nauðsynlegt að stýra umræðunni.


Formaður spurði um viðhorf fundarins varðandi mál frá félaginu inn á aðalfund LK.
Egill segir að fóðurmál/kornmál séu í umræðunni og þurfi að fara í starfshóp.
Sigurlaug spurði hvort einhver umræða væri um brunavarnir í fjósum.
Fundarmenn ræddu þetta töluvert og töldu ekki mikinn kostnað hjá mönnum að setja slíkt upp en þetta sé ekki krafa um aðbúnað.
Jóhann ræddi um rekstrarstöðvunartryggingu sem til skamms tíma hefði ekki verið hægt að fá og taldi að hún gæti nýst bændum vel ef alvarleg áföll yrðu vegna bruna eða sjúkdóma
Ólafur í Geirakoti spurði hvort ekkert hefði verið rætt um erfðabreytta kornið.
Sveinn sagði að BÍ hefði fjallað um þetta og það væru mörgum spurningum ósvarað og erfitt að fá svör.


5. Undirbúningur árshátíðar kúabænda og útgáfa afmælisrits.
Formaður sagði þessa dagana væri formaður nefndarinnar erlendis en allt væri á réttu róli.
Jóhann sagði ritið á áætlun, verið væri þessa dagana að ganga frá auglýsingum og ef allt gengi upp þá kæmi ritið út í vikunni fyrir aðalfund LK


6. Undirbúningur aðalfundar BSSL.
Formaður sagði að aðalfundur BSSL. yrði 20.apríl nk. á Goðalandi í Fljótshlíð og hæpið yrði að halda félagsráðsfund fyrir þann tíma, en ef eitthvað brenni á fólki að láta þá heyra frá sér.
Runólfur segir að varðandi heyefnagreiningar, að þá sé ekki staðið við gefin fyrirheit varðandi skil á niðurstöðum.
Jóhann segist ekki muna betur en af hálfu Rala hafi verið boðuð grein í Bændablaðinu í janúar sl.sem átti að útskýra seinkun á niðurstöðum greininganna en ekkert hafi frést af henni ennþá. Spurði einnig hvort ekki hafi átt að taka gildi nýtt fóðurmat í ár ?
Formaður sagði að hjá FKS hefði verið ályktað um efnagreininguna á sínum tíma, kannski væri rétt að árétta hana.
Sigurlaug spurði hvort ekki væri hægt að leita annað til að láta greina heysýnin.
Runólfur sagði það hafa verið gert en reyndist of dýrt miðað við það sem væri hér í boði varðandi sambærilega greiningu. Varðandi nýtt fóðurmat þá væri það á undirbúningsstigi en borin von að það tæki gildi á þessu ári. Nær væri að lagfæra þá þætti sem stæðu út af í núverandi greiningaferli áður en menn stykkju til við að taka upp nýtt fóðurmat.


7. Önnur mál.
Sigrún Ásta vildi fá tillöguna á hreint af aðalfundi FKS varðandi fyrirkomulag greiðslu fyrir akstur.
Formaður skýrði þann skilning sem hann hefði á málinu.
Hann sagðist vera frekar ósáttur með mætingu félagsráðsmanna á fundi upp á síðkastið og spurði hvort menn teldu kvöldfundi betri.
Fundarmenn vildu hafa sama fyrirkomulag yfir veturinn en að vori og hausti frekar á kvöldin og þá t.d. á Hvolsvelli.
Gunnar á Túnsbergi sagði frá nýrri vél til að mæla m.a. frumutölu sem væri að koma hjá RM og myndi hún nýtast mun betur en hin eldri t.d. varðandi marktækni á úrefnismælingum og einnig gæfist fleiri möguleikar á nýjum mæliþáttum.
Fram kom að lokið er 1. hluta athugunar varðandi rannsókn á lausum fitusýrum í mjólk(bragðgæði) sem gerð var á nokkrum búum. Búin voru valin m.t.t. mismunandi mjaltatækni; fötumjaltir, mjaltir í rörmjaltakerfi, mjaltagryfjufjós og svo róbótafjós.
Niðurstöður sem komnar eru allar vel undir viðmiðunarmörkum varðandi bragðgæði en aðeins er munur á milli mjaltaaðferða
Sigurlaug sagðist vilja sjá meðaltal síðustu vikna í fitu og próteini eins og væri varðandi frumutöluna á blaðinu sem mjólkurframleiðendur fá með bílnum.
Fundarmenn tóku undir það.
Gunnar á Túnsbergi sagðist halda að það væri lítill vandi að fá það framkvæmt.
Sigurlaug nefndi einnig þörf á stærra skráningarblaði í skýrsluhaldi nautgriparæktar og fleiri liði til að skrá.
Formaður þakkaði góðan og málefnalegan fund og sleit fundi kl.15:49.


Katrín Birna Viðarsdóttir,
fundarritari .


back to top