Félagsráðsfundur FKS 21. feb. 2006

Félagsráðsfundur FKS 21. febrúar 2006 haldinn í fundarsal MS á Selfossi


Sigurður Loftsson setti fund kl. 11:10, bauð nýja félaga velkomna og þakkaði fráfarandi félagsráðsmönnum fyrir vel unnin störf.


1. Kosning stjórnar félagsins og fulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands.
Formaður
rakti hvernig kosningar yrðu eftir breytingar á lögum sem gerðar voru á sl. aðalfundi, eins að félagsráði hefði verið falið að kjósa fulltrúa á aðalfund BSSL 2006 úr sínum hópi. Fram kom að fráfarandi stjórnarmenn gæfu kost á sér til áframhaldandi starfa, engin mótframboð komu og var stjórn endurkjörin með lófaklappi


Formaður: Sigurður Loftsson Steinsholti
Gjaldkeri: Jóhann Nikulásson Stóru Hildisey
Ritari: Katrín Birna Viðarsdóttir Ásólfsskála


5 fulltrúar á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands og 5 varamenn.
Ákveðið að kjósa fyrst um aðalmenn og svo varamenn.


Kosin voru:
Sigurður Loftsson Steinsholti
Katrín Birna Viðarsdóttir Ásólfsskála
Jóhann Nikulásson Stóru Hildisey
Gunnar Eiríksson Túnsbergi
Arnheiður Dögg Einarsdóttir Guðnastöðum


Varamenn:
Guðbjörg Jónsdóttir Læk
Valdimar Guðjónsson Gaulverjabæ
Ágúst Dalkvist Eystra Hrauni
Sigurlaug Hanna Leifsdóttir Nýjabæ
Einar Haraldsson Urriðafossi.


2. Frá fundi stjórna FKS og BSSL haldinn 13.12.2005
Formaður rakti í stuttu máli frá því sem þar fór fram. Áhersla hefði verið á fjóra efnisþætti, leiðbeiningastarfið í nautgriparækt, nautauppeldistöð BÍ, breytingu á fjármögnun sæðingastarfseminnar og loks um félagslega uppbyggingu Búnaðarsambandsins.

a. Leiðbeiningastarfið
Fram kom hjá framkvæmdastjóra Búnaðarssambandsins að reksturinn yrði þyngri en áður, kæmi þar til nokkrar launahækkanir og lækkun tekna, meðal annars minnkun tekna vegna breytinga á búnaðargjaldi ca. 6 milljónir króna. Þá lækka heldur framlög úr búnaðarlagasamningi. Vegna minnkaðra inngreiðslna annarra búgreina eykst hlutdeild nautgriparæktarinnar í búnaðargjaldi Búnaðarsambandsins og verður um 70% af heildinni


Þá var á fundinum kynnt hlutfallsleg skipting vinnutíma Búnaðarsambandsins sem tengdist nautgriparæktinni á liðnu ári; skýrsluhald 15%, kvíguskoðun 8%, ræktun/kynbætur 8%, fóður/áburður 6%, frjósemi 6%, Sunna 44%, og ýmislegt þ.m.t. vinna fyrir FKS 13%.
Tekjustreymi til BSSL vegna ársins 2004 sem tengdist nautgriparæktinni var eftirfarandi: Sjóðagjöld af kúabændum 15 til 16 milljónir, framlag á skýrslufærðar kýr 2.192.000, framlag vegna kvíguskoðana 375.000, árgjald Sunnu 1.085.000 og framlag vegna Sunnuverkefnis af búnaðarlagasamningi til marmiðstengdra búrekstraráætlana um 4 milljónir.


Runólfur sagði að skráð sé öll ráðgjöf í Sunnuliðinn sem tengist viðkomandi einstaklingi/búi og því vegi Sunnuverkefnið þetta mikið.
Formaður sagði óumdeilt að nautgriparæktin eigi frekar inni en hitt, en hins vegar sé snúið að sjá hvernig hægt sé að rukka inn þjónustugjöld svo að ekki hallist á neinn, enda nýti einstakir bændur þjónustuna mismikið.
Reikna má með að á þessu ári verði útseld vinna starfsmanna Búnaðarsambandsins um 5 þús. kr. á tímann, síðan yrði um afsláttakjör að ræða út frá því verði í samræmi við mishátt inngreitt búnaðargjald eftir búgreinum.
Guðbjörg á Læk spurði um hvað væri inni í liðnum “annað” sem er um 16% af heildarvinnu starfsmanna, hvort hann væri ekki of mikill eða hvort ráðunautar séu ekki nógu vel nýttir til faglegra starfa..
Runólfur sagði að sennilega sé þetta símsvörun, almenn skrifstofustörf og annað sem ekki sé hægt að flokka á einhverja grein auk forðagæsluvinnu. Töluverð vinna sumra ráðunauta fari í ýmisskonar þróunarvinnu sem heildarsamtök bænda ættu að sinna en hefðu alls ekki sinnt nægilega vel, nefna má sem dæmi ýmiskonar líkanagerð og heildstætt ráðgjafaefni, nóg er safnað af gögnum.
Jóhann í Hildisey spurði hvort aukning væri á heildarvinnustundafjölda hjá BSSL.
Runólfur taldi svo vera, væntanlega helst varðandi fjármálráðgjöf og veruleg vinna hafi verið í að svara fyrir og leiðbeina varðandi einstaklingsmerkingar


Spurt var um hlutfall stjórnunar /bókhald í heildarvinnutímaskráningu. Fram kom að þetta tengdist bæði bókhaldi allra deilda Bssl og einnig stjórnunar ráðunautaþjónustu, sæðingunum í nautgriparækt og sauðfjárrækt og bændabókhaldinu. Þá væri St-Ármót ehf í eigu Búnaðarsambandsins.
Spurt var hvort forðagæslumál væru verulegur hluti einstakra starfsmanna hjá Bssl.
Runólfur sagði það ekki vera í sjálfu sér nema þá að hluta í Skaftafellssýslum en hins vegar ef upp koma erfið mál þá geta einstök mál tekið verulegan tíma, fyrir þá vinnu er hægt að senda reikning til viðkomandi bús.


b. Nautauppeldisstöð BÍ
Formaður sagði frá umræðum stjórna FKS og stjórnar Bssl um þessi mál. Nú liggi fyrir, ef marka má fundargerð stjórnar BÍ frá síðasta hausti, að á næsta Búnaðarþingi verði lögð fram tillaga frá stjórn BÍ um framtíðaruppbyggingu stöðvar í nágrenni við Hvanneyri, bæði uppeldisstöð og nautastöð.
Gunnar í Hrosshaga spurði um fagleg rök fyrir að flytja í nágrenni Hvanneyrar.
Sigurjón í Raftholti sagði rökin að hafa tvær stöðvar hlytu að vera sóttvarnir.
Ágúst Dalkvist spurði hvort stjórn LK hafi sent frá sér eitthvað um þetta.
Formaður sagði það ekki vera, en málið hefði verið kynnt á síðasta aðalfundi LK.
Birnu á Reykjum fannst eins og þetta væri þegar ákveðið af hjá stjórn BÍ og þeir virtust ekki vilja ræða málið frekar.
Guðbjörg sagði að sér fyndist eðlilegt að færa stöðina frá Þorleifskoti þar sem drög að aðalskipulagi geri m.a. ráð fyrir nýrri brú á Ölfusá og þá nýrri vegtengingu við þjóðveg 1 sem þýddi að smá saman yrði meiri umferð þarna í næsta nágrenni við stöðina.
Spurning frá fundarmönnum hver séu rökin að setja stöðina niður á Hesti.
Formaður taldi það væri væntanlega vegna umræðna um þróunarsetur nautgriparæktarinnar og nálægð við Landbúnaðarháskólann, þó sé ekki talið æskilegt, af ýmsum ástæðum, að Nautastöðin verði til frambúðar á Hvanneyri.
Óli í Geirakoti velti fyrir sér staðsetningu nautastöðvar, hvort ekki væri hættulegt að klessa þessu niður á Hesti þar sem garnaveiki og allavega sjúkdómar fylgja kindum.


Fundarmenn töldu nauðsynlegt að búgreinin og notendur þjónustunnar hefðu eitthvað að segja um framtíðaruppbyggingu þessara mála.
Sigrún Ásta vildi lýsa því yfir að hún væri orðin þreytt á þessum skrípaleik af hálfu BÍ, talað væri um samráð við LK en ekkert hefði verið um það að ræða.
Formaður spurði Svein Ingvarsson (sem var að koma inn á fundinn) hvort hann viti um eitthvað nánar um málið. Hann kvaðst hafa fengið ábendingu um að kannað yrði með staðsetningu stöðvarinnar í Gunnarsholti og hefði komið því á framfæri innan stjórnar BÍ


c. Framlög af kynbóta- og þróunarfé.
Fram hefði komið hjá framkvæmdastjóra Bssl. að greiðslur hefðu skilað sér og kynbótastöðin stæði vel.


d. Félagsleg uppbygging Búnaðarsambands Suðulands.
Formaður
rifjaði upp störf og tillögur síðustu laganefndar og sagði frá umræðum um þetta efni við stjórn BSSL. Velti síðan fyrir þróun þessara mála í ljósi aukins hlutfalls íbúa í dreifbýli sem ekki stunda hefðbundinn framleiðslulandbúnað og hugmynda sem fram komu hjá formanni BÍ á bændafundum í haust um styrkingu grunneininga og þátttöku bænda í félagskerfinu. Formannafundur búnaðarsambandanna skipaði starfshóp til að fjalla um þetta efni og þar sem einn félagsráðasmanna Sigrún Ásta er í þeim hópi, bað hann hana að segja frá hvernig því starfi miðaði.
Sigrún Ásta sagði engan fund hafa verið haldinn enn sem komið er, en sagði að í nefndinni væri einn frá hverju búnaðarsambandi, einn frá BÍ og hópnum ætlað að ræða breytilegt starfumhverfi hjá búnaðarfélögum og hversu lélegur félagsgrunnur standi þar að baki. Óskaði hún eftir að fá frá félagsráði hvort hún gæti farið með eitthvað á fund.
Rætt var um breytilegar reglur varðandi þátttökurétt í einstökum búnaðarfélögum.
Jói í Hildisey hefur alltaf talið eðlilegast að félagsaðildin sé í gegnum búgreinafélögin.
Formaður velti fyrir sér hver þróunin verði í samstöðu bænda varðandi samninga við ríkisvaldið, ef þátttaka í grunneiningum BÍ yrði of opin.
Birna vill taka undir þetta og að búgreinafélögin eiga að vera grunneiningar í samtökum bænda. Annars verður hægt að taka allmarga inn í landbúnaðargeirann td. landpósta, frjótækna og nýja landeigendur sem jafnvel eru stóreignamenn og búa annarsstaðar
Gunnari í Túnsbergi finnst að menn hrökkvi til baka þegar skipulagsbreyting er lögð til, þrátt fyrir að lítil sem engin starfsemi sé í sumum búnaðarfélögum. Telur eðlilega breytingu á þessu verða þá, að búnaðarsambandið hafi bakland sitt frá búgreinafélögunum. Eðlilegt að búnaðarfélög haldi áfram sínum störfum t.d. með vélaleigur og fleira.
Formaður sagði að þegar Búnaðarsamtök Vesturlands voru stofnuð hefðu búnaðarfélögin ein verið gerð að grunneiningum.
Ágúst Dalkvist vill ekki að neinu sé breytt því hvert svæði sé með sína sérstöðu.
Guðbjörg á Læk vill eflingu búgreinafélaga með tilliti til breytinga á iðgjöldum.
Formaður sagði frá félögum kúabænda á landinu og hvernig grunnur þeirra væri.
Sigurjón í Raftholti spurði hvort vinna Sigrúnar Ástu í þessari nefnd væri að finna út hver eigi að greiða búnaðargjald.


Rætt var um hvort og hver hafi atkvæðisrétt.
Fundarmenn veltu fyrir sér hvernig lög félaganna eru og margir vildu að búnaðarfélaögin ættu að vera áfram sem klúbbstarf og tækjaleigur.


3. Frá síðasta fagráðsfundi nautgriparæktar
a. Rannsóknir á kálfadauða
Formaður rakti helstu mál sem komu til umfjöllunar, þar bar hæst rannsóknaráætlun um orsakir kálfadauða en Magnús B. Jónsson mun leiða það starf. Lausleg kostnaðaráætlun er upp á 30 til 35 milljónir króna. Rannsóknatímabilið verði frá síðsumri 2006 og fram eftir vetri 2006-2007.
Ágúst Dalkvist lýsti ánægju sinni á þessu verkefni og vill að stjórn vinni ályktun um að bæta skráningu á kálfadauða frá bændum.
Sigurlaug Leifs tók í sama streng, og taldi það geta verið árstíðabundið.
Jóhann í Hildisey efaðist um tímaramma rannsóknar og telur mörg ár verði liðin áður en niðurstöður muni skila sér og minnir í því sambandi á að ekki séu enn komnar niðurstöður úr efnagreiningum í snefilefnaverkefni sem lauk fyrir um tveimur árum og spyr hvort erlendar rannsóknir á kálfadauða hafi verið skoðaðar .


b. Kyngreining á nautasæði
Formaður sagði frá umræðum á síðasta fagráðsfundi um þessi mál. Þar hafi m.a. komið fram að þetta er þekkt aðferð m.a í Danmörku en stofnkostnaður verulegur og afköst frekar lítil. Tæki til greininga kosta 20 – 30 milljónir króna og afköst lítil 8 strá á klst., miðað sömu þynningu og er í Danmörku.
Nauðsynlegt er að reyna þetta og gætu tvær leiðir einkum komið til greina. Önnur að senda 2 – 4 kálfa út og láta skima úr þeim sæði. Hin að semja um kaup á tæki til kyngreininga með skilarétti ef illa gengur.
Jóhann í Hildisey telur nauðsynlegt að menn átti sig á því að ef farið verður út í að kyngreina sæði þá verði aðeins um að ræða sæði úr óreyndum nautum þar sem ekki sé hægt að kyngreina sæði nema áður en það er fryst, þá verði menn að velta fyrir sér hvaða áhrif það hafi á kynbótastarfið ef notkun á kyngreindu sæði yrði almenn.

c. Staða og framleiðslumöguleikar íslenska kúakynsins
Formaður greindi frá umræðum um þetta málefni innan fagráðs og velti fyrir sér meðal annars, hvar ætti að bera niður ef leita þyrfti eftir nýju blóði í stofninn. Svo virtist vera að meðalaldur 1.kálfs kvígna hér á landi við burð væri mun hærri en algengast er erlendis.


4. Ályktanir frá aðalfundi FKS og tillögugerð fyrir aðalfundi LK og BSSL
Formaður sagðist vera ánægður með aðalfundinn, alltaf sé þó spurning hvort of mikið sé á hann hlaðið, en umræðan hefði verið góð. Fundurinn sendi frá sér tvær tillögur til LK. Aðra um afnám kjarnfóðurtolla en hina um tilraunainnflutning á erfðaefni. Benti hann á að fram hafi komið sambærilegar tillögur frá tveimur öðrum félögum innan LK varðandi innflutningsmál og því hljóti stjórnin að skoða hvernig með málið skuli farið á komandi aðalfundi.
Rætt um að undirbúa tillögu um betri upplýsingagjöf varðandi gæði áburðar sem er á boðstólum á hverjum tíma.


Fundarmenn ræddu um stöðu mjólkurframleiðslunnar í dag.
Ágúst Dalkvist hann vildi ekki taka undir það að betra sé að fá erlent kúakyn því þá yrðu enn færri gripir og enn erfiðar að taka á móti sveiflum, vill að þetta verði rætt enn frekar.
Guðbjörg spurði hvers vegna enginn erlendur aðili væri búinn að kaupa íslensku kýrnar, ef þær væru svona sérstakar ?
Óli í Geirakoti taldi engan geta fundið mun á ísl./ erl. mjólk og taldi að Íslendingar vilji framleiða í hátækni. Mjólkurvara verður aldrei mikil bissnessvara.

5. Nokkur mál sem lögð verða fyrir Búnaðarþing
Formaður fór yfir nokkur mál sem væru á dagskrá komandi Búnaðarþings


6. Önnur mál
Valdimar í Gaulverjabæ spurði hvort ekki þyrfti að ræða framkvæmd einstaklingsmerkinga og hvernig sláturleyfishafar muni bregðast við.
Stjórn falið að vinna málinu.


Jóhann í Hildisey vill að við reynum að átta okkur á því hvaða möguleika mjólkurframleiðslan eigi ef Ísland myndi ganga í Evrópusambandið eins og ýmsir af ráðamönnum þjóðarinnar hafa að undanförnu verið að spá og vill að þessi mál komi til umræðu á aðalfundi LK. Ákveðið að leita eftir því við Ernu Bjarnadóttur að koma á næsta félagsráðsfund til að kynna ýmis mál sem snerta ytra umhverfi greinarinnar og vinnu hennar í nefnd um matvælaverð.

Jóhann í Hildisey spurði út í hvort ekki hafi staðið til að endurskoða þær verklagsreglur
sem í gangi hafi verið við lokun vegna hárrar frumutölu í mjólk
Formaður ætlar að kanna þann feril.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.45,


Fundaritari: Katrín Birna Viðarsdóttir


back to top