Félagsráðsfundur FKS 18. september 2014

Fundur haldinn í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi fimmtudaginn 18. september 2014 í Björkinni, Hvolsvelli.

Fundarsetning
Valdimar Guðjónsson formaður setti fundinn kl. 20.30 og bauð fundarmenn velkomna. Hann fór yfir heyskapartíð sumarsins og starfsemina í sumar. Félagið tók þátt í Kótilettunni á Selfossi eins og undanfarin ár og grillaði nautakjöt. Valdimar renndi yfir stöðuna á nautakjötsmarkaðnum en mikill skortur er á íslensku nautakjöti og á fystu 6 mánuðum ársins voru flutt inn um 540 tonn. Þá ræddi hann einnig breytingar á matarskatti og hvernig hefur gengið að selja mjólkurvörur undanfarna mánuði. Að lokum kynnti hann gesti fundarins sem voru þeir Egill Sigurðsson, stjórnarformaður Auðhumlu, og Jón Kr. Baldursson frá rannsóknarstofu SAM.

Fréttir frá Rannsóknarstofu SAM
Jón Kr. Baldursson fór yfir stöðuna í sölu mjólkurvara undanfarna mánuði. Illa hefur gengið að ná fituhlutfalli í innveginni mjólk upp og því þarf um 132-133 millj. lítra til vinnslu á þessu ári. Síðustu vikur hefur verið mikil sala á fituríkum afurðum. MS hefur staðið fyrir mjólkureftirliti og ráðgjöf til bænda um mjólkurgæði. Uppi eru markmið um að halda líftölu, frumutölu og fríum fitusýrur undir ákveðnum mörkum yfir árið. Jón ræddi framkvæmd tanksýnatöku og hvernig væri hægt að útiloka allar villur í sýnatöku. Rætt var um muninn á að taka sýni í belgi (eins og gert er nú) og sjálfvirkri sýnatöku sem tekin er í gegnum dælubúnað tankbílsins. Einnig getur mannleg meðhöndlun haft áhrif á greininganiðurstöður sýna. Jón fór yfir ólíkar aðferðir við greiningu á
hugsanlegum lyfjaleifum í mjólk.

Fréttir frá Auðhumlu
Egill Sigurðsson stjórnarformaður Auðhumlu flutti fréttir frá Auðhumlu og MS. Hann fór yfir söluaukningu undanfarinna mánaða og hvernig framleiðsla þarf að vera á næsta ári til að fullnægja þörfum markaðarins. SAM leggur á morgun fram tillögu um greiðslumark næsta árs, en búist er við mikilli aukningu. Þess að auki er vilji til að breyta beingreiðslukerfinu; þ.e.a.s. minnka hlut A-greiðslna og auka hlut C-greiðslna og fara fram á 100% kvótafyllingu. Síðastliðið árið hafa örfáir framleiðendur staðið fyrir mestallri framleiðsluaukningunni, það er ekki líklegt að þeir geti aukið framleiðsluna sína aftur jafn mikið á næsta ári. Þá fór hann yfir tillögu stjórnar um að hafa bara eitt verð á mjólk í landinu, en þá mun mjólkurverðið að nokkru leyti sveiflast til með heimsmarkaðsverði mjólkur. Í dag sé verðlagsnefnd búvara ekki virk og því ekki hægt að breyta verði til bænda né á markaði. Það sé illásættanleg staða að lagaákvæðum sé ekki sinnt og nefndin hittist ekki. Nú sé því útlit fyrir að hægt verði að fara í framkvæmdir sem hafa setið á hakanum í nokkur ár. Fram til ársins 2020 þurfi að fjölga kúm og básum um 4000 til að standa undir þeirri söluaukningu sem framundan er.  Egill fór yfir þá ráðgjöf sem MS hefur veitt bændum varðandi mjólkurgæði og júgurbólgu. Þá fór hann einnig yfir næsta skref í útflutningi en næstu mánuði verða flutt út 4-500 tonn af skyri á markað í Sviss. Þá lagði hann til að haldnir verði fræðslufundir sem MS, RML og FKS standa að um framleiðslu fram í tímann, heysýnaniðurstöður og fóðrun næsta
vetrar.

Önnur mál
Elín í Egilsstaðakoti benti fundinum á að skoða félagatal félagsins og athuga hvort þar væru menn sem hættir væru í búskap og jafnframt bjóða nýjum bændum í félagið.
Samúel í Bryðjuholti sagði frá löngum afgreiðslutími með aðgang að Huppu að hálfu MAST. Fundarmenn voru sammála að bæta þyrfti þar úr þannig að nýir notendur gætu komist þar inn án langra tafa.
Jóhann í St-Hildisey sagði frá því hvað LK hefur verið að gera undanfarið. Hann sagði frá breytingum á beingreiðslum og jafnvel breytingu á verðhlutföllum fitu og próteins í grundvallarmjólk. Einnig fór hann yfir stöðu Nautastöðvar BÍ og breytingar á verkaskiptasamning BÍ og LK. Einnig er verið að vinna að málinu með innflutning á erfðaefni í holdanautastofna.
Ragnar á L-Ármóti spurði hvort yrði ekki hætt við því að fólk hætti að fóðra fyrir próteini ef hlutfall fitu í grundvallarmjólk verður aukið mikið.
Jóhann í St-Hildisey sagðist ekki vera smeykur við það, það hefðu fáir hætt alfarið að fóðra fyrir fitu.
Samúel í Bryðjuholti spurði hvort væri þörf á að breyta hlutföllum strax?
Jóhann í St-Hildisey svaraði því að það vantar stórlega fitu og að það þurfi að flýta þessari ákvörðunartöku svo bændur geti brugðist við strax.

Fleira ekki rætt, fundi slitið 23:45.

Jóna Þórunn Ragnarsdóttir ritaði fundargerð.


back to top