Félagsráðsfundur FKS 17. feb. 2003

FUNDUR Í FÉLAGSRÁÐI FKS 17. FEBRÚAR 2003.
Haldinn í húsakynnum MBF og hófst kl. 11.10.


Sigurður í Steinsholti bauð fundarmenn og nýja félagsráðsmenn sérstaklega velkomna. Bað síðan Birnu á Reykjum að stjórna fundi.


Stjórnarkjör
Kosinn formaður: Sigurður Loftsson
Gjaldkeri: Jóhann Nikulásson
Ritari: Valdimar Guðjónsson.


Álit laganefndar Búnaðarsambands Suðurlands 
Sigurður formaður rakti það starf en hann átti sæti í laganefndinni ásamt Guðmundi Stefánssyni Hraungerði og Þóri Jónssyni Selalæk.


Helstu niðurstöður eru að ekki er lagt til að gera grundvallabreytingar á félagslegri uppbyggingu Búnaðarsambandsins að þessu sinni.  Lagt er til að mönnum er gert kleift að velja sér aðildarfélag.  Þó ekki að félagsmenn þurfi aðeins að  vera í einu búgreinafélagi.
Nefndin leggur til að hver félagsmaður geti aðeins kosið aðalfundarfulltrúa í þvi félagi sem  skilar félagsgjaldi hans til Búnaðarsambandsins en að auki verði  kosnir viðbótarfulltrúar eftir greiddu búnaðargjaldi búgreinanna.


Sigrún Ásta kvaðst velta fyrir sér hvort hinn almenni félagsmaður verði almennt nógu vakandi  fyrir sinni félagsaðild.  Ef til vill gæti þetta virkað of flókið  í byrjun.
Sigurður sagði í byrjun væri sent bréf til félagsmanna og þeim gerð grein fyrir sinni félagsaðild eða hvar þeir vilja staðsetja sig.
Elín í Egilsstaðakoti kvað  í raun tekið nokkuð vald af félögum að geta aðeins kosið inn á aðalfund  í einu félagi.
Sigurlaug í Nýjabæ kvað búnaðarfélögin mjög misvirk og sjálf vildi hún miklu frekar velja fulltrúa frá sínu búgreinafélagi.
Gunnar Eiríksson sagði í raun verið að girða fyrir að hver hefði mörg atkvæði til kosninga.
Sigurður Steinsholti sagði lítið skerðast þó aðeins væri kosið í einu félagi.
Sveinn taldi annmarka eins og í dag að hver  sem er getur orðið félagi í Búnaðarfélagi og ef aðeins væru örfáir eftir í þeim félagsskap þá hefðu þeir jafnvel mikil áhrif.   Hann sagði sína skoðun að búgreinafélög ættu að vera grunneiningar.  Búnaðarfélögin væru þörf, sinntu ýmsu þjónustuhlutverki og gagnlegu, en þau væru ekki hagsmunagæslufélög eins og  þau störfuðu í dag.
Ólafur Helgason kvaðst sammála Sveini.  Hins vegar þýddi ekki að fara með slíkt inn á Búnaðaðarsambandsfund. Samstaða væri ekki um það nú.  Sín skoðun væri að sjá þyrfti hvort þessir hlutir þróuðust ekki smá saman og þessar tillögur væru skref í þá átt.
Jóhann í Hildisey kvaðst velta fyrir sér hversu margir af þeim 1500 til 1600 félagsmönnum Bssl. væru starfandi bændur. Honum fannst heldur stutt gengið í þessum tillögum og lágmarksfélagatalan væri atriði sem þyrfti að skoða. 
Sigurlaug sagði heildaruppæðir væru að stærstum hluta komnar til Búnaðarsambandsins frá kúabændum og hún vildi sjá áhrifin meiri í samræmi við það.
Birna sagði þetta heldur stuttt skref stigin að sínu áliti.  Hún gerði sér hins vegar grein fyrir að enn færi ákveðinn  hópur í bremsu um leið og minnst væri á félag kúabænda þrátt fyrir starf  og þróun í rúm tuttugu ár. Þetta væri ef til vill ásættanlegur áfangi.
Grétar í Þórisholti sagði slæmt að lenda í því að þetta yrði fellt.  Þetta væri spurning um að ná einhverjum árangri í þróun í stað þess að ná engum.
Sigurlaug taldi slæmt ef okkar fulltrúum fækkaði við þetta.
Gunnar í Hrosshaga sagði þetta ákveðna leið útúr sjálfheldu sem þessi mál væru komin í vegna breytinga síðustu ár. Hins vegar væru þessi mál flókin og þetta álit væri ekki til einföldunar.
Jóhann velti vöngum yfir hvernig tekið væri á félagatali í félögunum sjálfum.  Hreinsa þyrfti út ef menn greiddu ekki  félagsaðild. 


Sölumál mjólkur
Birgir Guðmundsson mjólkurbússtjóri mætti á fundinn og sagði sölumál í sæmilegu horfi þrátt fyrir fyrirsjáanlegan samdrátt í greiðslumarki. Skyrsala væri minnkandi aftur.  En sem betur fer hafa aðrir vöruflokkar sótt á.   Viðbitssala væri minnkandi og staðreynd sem yrði að viðurkenna, samdráttur er mestur í KEA skyri.  106 milljónir lítra voru byggðir á bjartsýni sem því miður virðist ekki halda.  Því útlit nú fyrir minnkun greiðslumarks. Innlögð mjólk nú á þorranum er nú mun meiri en á sama tíma í fyrra.  Kvaðst Birgir því hafa nokkrar áhyggjur af sumarmánuðum. Að öllum líkindum væru góðir sölumánuðir eftir, sem febrúar og mars hefðu oft verið.  Ýmislegt fleira kæmi til í sölusamdrætti, til dæmis væri ekki aukning í ostum sem hefði verið undanfarin ár.


Egill á Berustöðum spurði út í auglýsinga- og markaðsmál.  Birgir sagði um 3% af söluandvirði fara í sölu og  markaðsmál.  MS kæmi með tillögur sem MBF ynni síðan og samþykkti.
Sigrún Ásta spurði hvort einhver kona væri í markaðsnefnd. Sér fyndist það eðlilegt, en svo væri ekki dag.  Birgir sagði þetta mikið unnið af fagfólki. Nefndin hefði aðeins afmörkuð verkefni. Viðhorfs og neytendakannanir væru gerðar ofl.
Jóhann spurði um sölusamdrátt í kálfafóðri. Jafnvel þó greitt hefði verið fyrir umframmjólk síðustu ár. Ef næðist sala væri hægt að  koma út einhverri fitu  í fóðrið, sem vandræði væri að losna við.
Ólafur Geirakoti taldi etv. hægt að kynna  eða auglýsa kálfafóður betur. 
Egill taldi markvissa sölumennsku vanta hjá mjólkuriðnaðinum þegar opnaðir væru nýir staðir t.d. í ferðaþjónustu og víðar.   Oft þyrfti að ýta hlutum að mönnum til að skapa viðskiptatengsl.
Birgir sagði að sú venja væri í gangi að heimsækja stærstu viðskiptaaðila einu sinni á ári. Hann taldi í raun því miður lítið svigrúm til auka sölumennsku og kæmi þar til lítil álagning mjólkurvara. Hins vegar væri þjónusta og tíðni í afgreiðslu það sem ástundað væri mest.
Daníel í  Akbraut velti fyrir sér innihaldslýsingum mjólkurvara á ensku, t.d. yfir sumarmánuðina fyrir ferðamenn. 
Birgir sagði þá leið hafa verið farna að gefa út bækling, og hann væri mikið tekinn af útlendingum og ferðamönnum. Aðspurður um afkomuna hjá MBF taldi Birgir útlit fyrir að hún væri betri en árið á undan, en endalegt uppgjör liggur ekki fyrir.
Varðandi uppfærslu stofnsjóðs kvað hann ekki hafa komið athugasemdir um lögmæti slíks og því liggi það fyrir nú á næstunni.


Málefni nautakjötsframleiðslunnar og nýframkomnar tillögur um stuðning á framleiðslu holdagripa
Gunnar Sverrisson taldi okkur nauðsynlegt að taka afstöðu til þessara hugmynda þegar kæmi að aðalfundi.
Grétar Þórisholti sagði nauðsynlegt að skilja þetta frá mjólkurfamleiðslu. Þetta væri í sjálfstæð búgrein.   Kvaðst hafa efasemdir  um að greiða beint á haus. Grétar   sagði trúlega nausynlegt að setja mörk .  Ekki væri hægt að leyfa stuðning óheftan  án takmarkana.
Sigurlaug lýsti andstöðu sinni við tillögu eitt. Kvaðst undrandi á tillögum þessum.
Ólafur í Geirakoti sagði þessar tillögur komnar vegna þess að framleiðendur væru í öngstrætum sem stunduðu þetta.   Einnig væri áætlað að greiða visst fyrir úrvalsgripi og ættu kúabændur þar sama rétt og hinir.
Ólafur Helgason sagðist spyrja sjálfan sig hvort við sigldum inn í sama kerfi og hjá ESB. Þar hefði tíðkaðist sú aðferð að greiða visst á haus.
Gunnar Sverrisson sagði þetta ekki hægt nema skilgreina þennan hóp þröngt.  Sagðist hins vegar óttast ástandið í hinum kjötgreinum.
Valdimar sagði þetta tilkomið vegna þess að þessi sjálfstæða  búgrein þó lítil væri, stefndi í þrot að óbreyttu. Menn gætu vart hafnað þessu ef þetta væri ótengt beingreiðslum í mjólk.
Sigurlaug taldi þeir sem störfuðu í þessu sjálfstætt ættu engan rétt á þessum greiðslum umfram aðra.  Kúabændur nytu engrar betri aðstöðu en aðrir.
Egill benti á að þetta væri aðeins hugmyndir, en sér heyrðist að menn  væru ekkert sérlega spenntir fyrir  gripastuðningi. Afurða og söluaðilar væru ekkert sérlega spenntir fyrir gæðakjöti svo skrýtið sem það væri.
Ágúst Dalkvist sagði þetta ekki mega vera framleiðsluhvetjandi.  Þetta væri ekki stór upphæð.  Setja þyrfti vissar hömlur.
Sigrún Ásta sagði okkur geta dekkað markaðinn í dag.  Hún óttaðist að við spilltum fyrir greininni móralskt með þessu.
Ólafur Geirakoti sagði þetta meira félagslega aðstoð en framleiðslustyrk ef þetta væru 50 milljónir.  Hins vegar væri meiri nauðsyn að “siðvæða” kjötmarkaðinn.
Sigurður formaður sagði klárt að með því styrkja þessa einu tegund, þá væri ljóst að þetta væri  ekki tengt mjólkurframleiðslunni.  Taldi hins vegar að þetta yrði að vera greitt í tengslum við gæði.   Þetta snérist líka um framlegð vörunnar.  Ef þessi búgrein starfaði áfram yrði að vera gæðaþróun. Gæði hefðu hins vegar því miður ekki gott orð á sér í þessum geira.
Runólfur taldi að ef ekki næðist þessi leið í gegn þá yrði að reyna að fá fjármagn frá ríksivaldinu til að  kaupa menn út  úr greininni. Ef menn höfnuðu þessu væri afstaðan sú að ekki teldist  hægt að stunda  þessara búgrein hérlendis. Taldi hægt að útfæra þetta  ótengt mjólkurframleiðslu.
Gunnar Túnsbergi óttaðist að þetta yrði eyrnamerkt mjólkinni. Hreinlegra væri að úrelda þessa grein og borga mönnum fyrir að hætta.  Grundvöllur væri því miður ekki fyrir hendi hérlendis.


Önnur mál
Grétar Þórisholti spurði um kynningu á landbúnaði í skólum og horfur  í varðandi það verkefni.
Birna á Reykjum sagði sem betur fer útlit fyrir að hægt væri að taka vorönnina.  Leitað hefði verið til afurðastöðva og fleiri aðila með nokkuð jákvæðum undirtektum varðandi stuðning.


Sigurður formaður  kom inn á bréf sem sent var fóðurstöðvum varðandi fyrirspurn um  smitgát og hreinleika fóðurs.
Ólafur Helgason sagði þetta hafa verið þarft verk.  Hann  minntist einnig á áburð og efnainnihald hans.  Krafa þyrfti að vera um að gæði innflutts áburðar væru könnuð og staðfest efnainnihald. Aðfangaeftirlit ætti að sinna þessum þætti.
Runólfur  taldi rétt að fá fulltrúa frá þeirri stofnun einhvern tíma á fund.


Katrín Birna velti fyrir sér búnaðargjaldi. Fannst henni nokkuð strembin greiðsla að greiða þetta á fjórum til fimm mánuðum.


Daníel minntist á  fjósaskoðunargjald.  Sagði þetta nokkuð stóran skatt og hækkanir miklar milli ára. Einnig þyrfti að taka betur fyrir nautgriparækt á félagsráðsfundum.
Valdimar svaraði Daníel og sagði síðast hafa 17.desember verið tekin ítarleg umræða um nautgriparæktina í félagsráði.  Sigurður formaður kvaðst hafa orðið fyrir vonbrigðum með þá umræðu miðað við hve hún brynni stundum þungt á félagsmönnum.


Valdimar velti fyrir sér lífeyrissjóðsmálum. Kvaðst viss um að margir bændur gerðu sér ekki ljóst hve staða þeirra í lífeyrissjóði væri slök. Vegna þess að þeir greiddu yfirleitt lága skatta væru greiðslur inn í sjóðinn í algeru lágmarki.  Taldi jafnvel nauðsynlegt að  hvetja menn til frjáls lífeyrssparnaðar vegna þess hver  réttindi væru lítil í Lífeyrissjóði bænda.


Daníel sagði of  lítið hlustað á Jón Viðar í nautgriparæktinni.


Birna minntist á fjósskoðunarspjöld.  Þau væru orðin of lítil.


Fleira ekki rætt og fundi slitið kl.15.20


Valdimar Guðjónsson
ritari


back to top