Félagsráðsfundur FKS 16. okt. 2003

Fundur í Félagsráði FKS
16. október 2003 í húsakynnum MBF


Sigurður Loftsson setti fund  kl.11. Bauð fundarmenn velkomna  og bað síðan Birnu á Reykjum að stjórna fundi.


Fundurinn var samráðsfundur með starfsmönnum Bssl. Einnig var gestur fundarins Þorfinnur á Spóastöðum formaður BSSL.


Þetta tekið fyrir;
1.  SUNNA
Jóhannes Hr. Símonarson rakti SUNNU verkefnið, stöðu og þróun. Hann sagði öll þátttökubú hafa keypt framleiðslurétt nema eitt. Framlegð hefur hækkað á hverju ári sl. 5 ár. Fjármagnsstreymi í landbúnaði er hægt og skuldsett bú eru viðkvæm fyrir ytra umhverfi, t.d. verðbólgu eða breytingu vaxta.
     Um er að ræða einstaklingsráðgjöf og þátttakendur koma í auknum mæli að leita ráðgjafar áfram ef um breytingar eða nýjar fjárfestingar er að ræða. Breytilegur kostnaður á líter var um 31 króna að meðaltali á þeim 33 kúabúum sem gerð höfðu verið upp og heimsótt. Í verkefninu í dag eru um 70 þátttakendur.
     Jóhannes sagði tíma sem fer í heimsóknir hafa aukist.  Kvaðst þó vilja halda í það form að sækja bændur heim fremur en að fá þá á skrifstofuna við yfirferð verkefnisins.  Sagði menn þar ná betri tengslum og sambandi við þátttakendur.
     Sigurður í Steinsholti kvaðst velta fyrir sér tíma sem færi í verkefnið og heimsóknir.  Ákveðin hætta væri á að þeir sem stæðu fyrir utan væru afskiptir.
     Í dag kostar verkefnið 10.000 kr. á ári fyrir bóndann, 40.000 kr. á þátttakanda fæst frá ríkinu en kr. 80.000 á hvern nýjan þáttakanda vegna átaksverkefnis um Markmiðstengdar búrekstraráætlanir.
      Sveinn sagði verkefnið tímafrekt, en tvímælalaust hafa náðst árangur í hagrannsóknum.  Hér væri merkilegt þróunarverkefni á ferð. Hins vegar yrði að velta fyrir sér hvað hver þátttakandi ætti, eða væri tilbúinn að borga. Tíminn í framtíðinni yrði að nýtast betur í ráðgjöf, minni í úrvinnslu.
     Þorfinnur sagði  nauðsynlegt að fá fleiri inn. Taldi það frekar ætti að vera markmið, en að eyða miklum tíma hjá bændum þar sem hlutir eru í góðu lagi. Runólfur taldi best að geta farið í greiningu strax að loknu skattframtali. Það væri tímabil sem menn hefðu sett sig vel inn í reksturinn.
     Ólafur Geirakoti taldi góðar upplýsingar komnar á yfirlitsblaði þáttakenda. Í raun gæti hver og einn auðveldlega reiknað sína stöðu eftir gerð landbúnaðarframtals ef hann hefði samanburð við þátttakendur í Sunnu verkefninu.
     Sveinn sagði mjög styrkja stöðu þessa verkefnis að hafa bókhaldsstofu á staðnum.
     Elín spurði hvort ekki væri hægt að nýta lykiltölur Sunnuverkefnis betur til hinna sem stæðu utan þess.  Bændur væru  að greiða sitt búnaðargjald og styrkja þetta þannig óbeint.
      Ásta sagði þá búna að leggja ákeðinn kostnað og vinnu í verkefnið. Kvaðst setja spurningamerki við að aðrir gætu síðan nýtt sér þetta ókeypis.
      Sigurður sagði þetta ekki snúast eingöngu um samanburðarblað, einnig að þú gætir fengið þínar eigin lykiltölur og sundurliðun rekstarins.
     Jóhann kvaðst velta fyrir sér hvað menn væru tilbúnir sjálfir að borga fyrir verkefnið. Sveinn vildi líta á framlag ríkisins sem ákveðinn stuðning við þróunarverkefni.  Framtíðin yrði ugglaust í  átt að sjálfbærni verkefnisins.


Tekið matarhlé.


2. KVÍGUSKOÐUN OG RÆKTUNARRÁÐGJÖF
Sveinn Sigurmundsson og Guðmundur Jóhannesson sinna kvíguskoðunum á Suðurlandi.
     Sveinn sagði þá ná að skoða um 2.000 kvígur á ári. Ekki tækist að skoða allar kvígur fyrir sumarið sem væri erfiður tími.  Færi skoðun því aftur á stað á haustin. Ræktunarráðgjöf er unnin nú fyrir um 50 bú.
      Guðmundur sagði taka sex til sjö ár frá fæðingu nautkálfs þar til afkvæmadómi á því lýkur. Kúaskoðun er liður í því ferli. Reynt að skoða ekki kvígur einum til tveimur mánuðum eftir burð og helst ekki geldar. Ræktunarráðgjöf felur í sér heimsókn á viðkomandi bú.  Rætt um ræktunarmarkmið og gripir skoðaðir.
     Katrín Birna og Ásta sögðu kvíguskoðun of seint framkvæmda  á haustin.  Oft væru kvígur farnar í sláturhús sem menn vildu hafa dóm á. Bændur gætu eflaust flestir haldið kvígum inni, þó sumar væri, ef þeir vissu af komu ráðunauta.
     Daníel taldi of marga júgurgallaða gripi koma út úr kynbótamati. Byggingardómur ætti að koma sterkar þar inn.
     Sveinn sagði fleiri þætti þar nauðsynlega forsendu, t.d. skap, prótein og fleira.
     Guðmundur taldi vandamál hina árstíðabundnu sveiflu í sæðingum sem þýðir að dreifingin á nautasæðinu verður örðugri en ella væri. Miðað er við að vera með sex til átta ungnaut í kútnum.
     Sigurjón í Raftholti taldi áhugavert að afurðir kæmu sterkar inn í hluta kynbóta. Sveinn sagði að búið væri að lækka hlutfall afurða í kynbótaeinkunn mikið síðustu ár og nú væri vægi þess hluta komið niður í 55%. Þetta hlutfall væri jafnvel enn lægra í öðrum löndum.
     Daníel minntist á útstæða spena. Það væri galli á kvígum, ef hún væri að berja júgrið með löppunum.
     Egill sagði skipta máli hvenær kvígur væru skoðaðar. Í raun ætti að gera þá kröfu að þetta væri gert á fyrri part ársins.
     Sigurður tók undir það.


3. SÆÐINGARSTSARFSEMIN
Búið er að fækka frjótæknum. Fimm eru nú fastráðnir. Gjaldtaka 1,7 % afurðaverðs.  1.500 kr. á kú hjá þeim sem eru í afurðaskýrslum. 2.300  kr. er  heildarkostnaður á kú við hverja sæðingu. Þeir sem sæða kvígur mikið eru að greiða kringum 2.000 kr.
Innheimtan er einföld á Suðurlandi.  Danir eru t.d. með mun flóknara kerfi.  T.d. dýrara úr betri nautum, greitt sér fyrir fangskoðun os.frv. Sæðingum fjölgaði árið 2002 þrátt fyrir fækkun á kúm. Sveinn sagðist skýra það helst með auknum kvígusæðingum. Frjósemi var lakari. Frjótæknar eru að keyra allt að 65.000 km. á ári. 
      Arna á Guðnastöðum kvaðst ánægð með sinn sæðingamann og tímasetningu hans.
     Þorfinnur  sagði samninga við frjótækna þannig að þeir gætu farið í önnur verk, ef verkefni væru lítil.
     Jóhann taldi  mikilvægt atriði að vel haldist á þjálfuðum starfskröftum þó eflaust mætti velta fyrir sér útboðsleið.

Þorsteinn Ólafsson  flutti næst stutta framsögu.
     Hann sagðist hafa skoðað árangur tveggja fastráðinna sæðingamanna á sitthvoru svæðinu, árangur þeirra reyndist jafngóður. Afleysingamaður með lítillega lakari árangur, gæti verið vegna þess að hann sæddi á óheppilegri tíma ársins. Taldi frjósemi kvígna yfir heildina hafa heldur batnað við aukna kjarnfóðurgjöf.
     Arna spurði um árstíma sæðinga.  Þorsteinn sagði kúm eðlislægt að festa fang síðla sumars. Menn sjá þennan mun milli tímabila. Tvísæðingar eru vaxandi.


4.   STARFSEMIN Á STÓRA -ÁRMÓTI
Grétar Hrafn Harðarson fór yfir helstu verkefni  tilraunabúinu. Áður  var lítillega rætt um kálfadauða. Þorsteinn og Grétar töldu nauðsynlegt að kanna orsakir hans betur. Þeir töldu í raun einungis vanta mannskap til að gera ítarlega rannsókn og úttekt á orsökum þessa. 
Grétar rakti, starfsmannahald , stjórnir  og helstu  verkefni og hlutverk búsins.
     Á Stóra-Ármóti er nú í gangi verkefni sem nefnist: „Fóðrun til hámarksafurða. Áhrif fóðrunar í geldstöðu og byrjun mjaltaskeiðsins á afurðir, heilsufar og frjósemi“. Þetta verkefni byrjaði haustið 2002 og lýkur tilraunastarfi vorið 2004. Þá er úrvinnsla gagna eftir og vonast til að hún verði langt komin fyrir Ráðunautafund 2005.  Í tilrauninni er rannsakað hvaða áhrif mismikil kjarnfóðurgjöf (1,5kg/3,5kg) í geldstöðu og mismunandi stígandi í kjarnfóðurgjöf (0,3kg/0,5kg) í byrjun mjaltaskeiðs hefur á afurðir og heilsufar. Eitt aðalmarkmið verkefnisins er að finna leiðir til að draga úr tíðni súrdoða en þessi sjúkdómur er án efa næst mikilvægasti sjúkdómurinn, á eftir júgurbólgu, sem kúabændur eru að kljást við.
      Af framtíðarverkefnum sagði Grétar frá þróunarverkefni í heilsugæslu búfjár. Er þar um að ræða einstaklings meðhöndlanir sem eiga að leiða til fyrirbyggjandi heilsugæslu.
Kvaðst hafa hug á að þróa heilfóðrunarkerfi á Stóra-Ármóti.  Kostir þar væru m.a. aukin nákvæmni í fóðrun. Einnnig möguleikar á sjálfvirkni og vinnusparnaði, minni fóðurgangar og fleira. Aðskilin fóðrun hefur ákveðna annmarka og þess vegna er heilfóðrun eðlilegt framhald þess starfs sem unnið er nú á Stóra-Ármóti undir þemanu „Fóðrun til hámarksafurða“. Gallar væru etv. kostnaður við tækjabúnað og að söxun heys væri nauðsynleg svo þetta virki. Kynnti Grétar síðan heilfóðrunarkerfi og hugsanlega uppsetningu þess á Stóra Ármóti. Hér væri hægt að vera með fyrstu mönnum að þróa og gera tilraunir með þessa aðferð.
     Ólafur í Geirakoti spurði hvort hugsað væri út í  betakasín og efnainnihaldi mjólkur í mjólkuriðnaði annara landa.
     Grétar sagði það mjög mismunandi milli landa.  Frakkar værum mjög uppteknir af þessu, t.d. varðandi ostagerði ofl. og Nýsjálendingar í auknum mæli.
     Ólafur Helgason spurði um súrdoðatíðni miðað við önnur lönd.  Hún er  að sögn Grétars hér kringum 20%  meðan hún er 5% annars staðar.
     Valdimar spurði um júgurbólgu í kvígum og hvort sog væri ekki vanmetið sem lang stærsti orskavaldur.
     Grétar sagði þetta vandamál á Stóra Ármóti og hefði versnað að hans áliti eftir að farið var að nota túttufötur.  Þetta væri líkt og með börn sem væru of lengi á snuði. Þau vendust á sogið og sæktu í það.

Jóhann spurði um jarðræktarmálin og ráðgjöf hjá Bssl. Hvort þar mætti ekki gera enn betur. 
     Sveinn sagði nauðsynlegt að auka slagkraft í þeim málaflokki. Jóhannes Símonarson er kominn þar inn einnig og veitir ráðgjöf, t.d. varðandi áburðaráætlun ofl.   Þorfinnur tók undir þetta og sagði menn almennt leitandi í jarðræktinni. Hinsvegar hefði ekki tekist að finna lærðan starfskraft. Hann sagði uppbyggingu varðandi nýjungar hafa verið litla á Stóra- Ármóti síðustu ár.  Hins vegar mætti ekki  vera lengi stöðnun í framkvæmdum.
     Rætt um heilfóðrun. Ólafur Helgason taldi ekki fást út úr þessu heildstæðar upplýsingar nema gera þetta á tilraunabúi.   Katrín Birna sagði þetta hugsanlegt einnig hjá einstökum bændum ef þeir fengju styrk til þess.
     Sigurður sagði þetta vera verkefni sem fælist ekki í steinsteypu heldur tækjabúnaði.  Einnig væri hér tækifæri til að vera með fyrstu aðilum að framkvæma þessa aðferð.   Hér væri líka kominn möguleiki að kanna betur fleiri ræktunarjurtir og grænfóður hérlendis því auðvelt væri að blanda.


Sigurður Loftsson formaður sté síðan í pontu og sleit fundi kl. 16.20



Fundargerð ritaði
Valdimar Guðjónsson


back to top