Félagsráðsfundur FKS 16. mars 2009

Fundur í félagsráði kúabænda í fundarsal MS á Selfossi 16.3. 2009


1. Fundarsetning
Þórir Jónsson formaður setti fund kl 11.10 og bauð fundarmenn velkomna. Fundarmenn kynntu sig í samræmi við ábendingu á síðasta fundi.


2. Söfnun Mæðrastyrksnefndar
Formaður kynnti hvernig staðið er að málinu. Staðan fyrir helgi var sú að þá voru komin jákvæð svör frá 22 innleggjendum á félagssvæði FKS. Reiknað með að þetta verði síðan kynnt á heimasíðum Auðhumlu og BsSl.
Jórunn  á Drumboddsstöðum spurði hvernig unnið verði áfram með þetta m.t.t. afgreiðslu til Mæðrastyrksnefndar.
Formaður sagði að þetta yrði unnið í samstarfi við Auðhumlu varðandi afhendingu   á mjólkurvörum til Mæðrastyrksnefndar.
Samúel í Bryðjuholti benti á að í kynningu verkefnis hefði þurft að tilgreina að framlagið yrði í formi mjólkurvara.
Grétar í Þórisholti og Ásmundur í Norðurgarði nefndu að ástæða er að vekja athygli á þessu þegar söfnunin er farin af stað.
Ólafur í Geirakoti sagði að smá saman myndi þetta spyrjast út og jafnframt þyrfti að kynna þetta áfram til innleggjenda.
Formaður sagði að þetta kæmi á heimasíður Auðhumlu og BsSl og í kjölfarið mættum við eiga von á fyrirspurnum um þetta framtak frá fjölmiðlafólki.


3. Fréttir af Búnaðarþingi og LK
Sigurður í Steinsholti
ræddi fyrst mál sem kom upp varðandi fulltrúakjör inn á aðalfund LK út frá gildandi samþykktum LK. Niðurstaða stjórnar LK var sú að leggja til bráðabirgðabreytingar á samþykktum LK á aukafulltrúafundi sem haldinn verður að morgni 27.mars nk. fyrir hefðbundinn aðalfund LK. Tillaga stjórnar er sú að í stað 8 fulltrúa Sunnlendinga verði þeir 9 talsins á aðalfundi 2009 og jafnframt 2 fulltrúar frá Kjalnesingum og 2 frá V-Húnvetningum, alls 35 fulltrúar. Auk þess breytingar um fyrirkomulag kosninga til formanns.
Sigurður í Steinsholti ræddi síðan málefni Búnaðarþings sem haldið var í skugga bankahruns og  hins vegar afstöðu Samkeppniseftirlitsins um stöðu Búnaðarþings og Bændasamtaka Íslands. Búnaðarþingsfulltrúar voru sammála um að ekki væri hægt að sitja undir því að ekki mætti ræða kjara- og verðlagsmál á þessum vettvangi. Samkeppniseftirlitið lítur svo á að hver og einn framleiðandi sé fyrirtæki í skilningi samkeppnislaga. Verði þessi skilningur Samkeppniseftirlitsins samþykktur þá þarf að fara í skoðun á því hvernig svona samtök megi starfa. Áliti Samkeppniseftirlitsins verður áfrýjað til úrskurðarnefndar samkeppnismála.
Ólafur í Geirakoti taldi þetta álit forkastanlegt m.t.t að stofnunin, Samkeppniseftirlitið, skuli eyða tíma sínum í svona mál meðan stærri og viðameiri mál eru látin óátalin.
Sigurður í Steinholti nefndi síðan nokkur mál sem Búnaðarþingið ályktaði um m.a. um Bjargráðasjóð. Nú þegar er komið fram frumvarp á Alþingi til breytinga á Bjargráðasjóði m.t.t. að heimilað verði að bæta fyrirsjáanlegan grasbrest og einnig að sveitarfélögin fari út úr Bjargráðasjóði.
Þá  var ályktað um ráðgjafaþjónustu, tvær tillögur samþykktar um það, annars vegar um aukna skilvirkni þessarar þjónustu, hin tillagan var um rekstrarráðgjöf með tilliti til skuldsetningar kúabúa.
Þá ræddi Sigurður tillögu sem kom frá Búnaðarsambandi Eyfirðinga um að heimilt væri að vera með tiltekið magn mjólkur til heimavinnslu án þess að það hefði áhrif á greiðslumark viðkomandi jarðar. Tillagan sem slík hlaut ekki brautargengi en hins vegar var ályktað um að málefni heimavinnslu afurða yrðu skoðuð sérstaklega.
Þá ræddi Sigurður matvælafrumvarpið og kynnti ályktun Búnaðarþings um málið sem efnislega var í þá veru að leggjast gegn samþykkt þess í óbreyttu formi.
Loks nefndi Sigurður ályktun um lækkun búnaðargjalds sem samþykkt var á Búnaðarþingi.


Innan LK var rætt á síðasta stjórnarfundi um verðlagsmál og fundur verður í verðlagsnefnd búvöru á morgun. Hann sagði áhyggjur stjórnar LK vera meira varðandi málefni mjólkuriðnaðarins á þessu ári, bæði með tilliti til verðlagningar varanna og sölumálin.


Jóhann í St-Hildisey sagði frá málum sem stjórn LK myndi leggja fyrir aðalfund, þau eru m.a. um búnaðargjald, um nauðsyn hraðari  vinnslu hagtalna, um lækkun stýrivaxta, um brunavarnir og um gæðamál mjólkur.
Jórunn á Drumboddsstöðum spurði um möguleika á sölu á ógerilsneiddri mjólkur með tillliti til heimavinnslu afurða.
Elín í Egilsstaðakoti ræddi þetta málefni einnig, í Danmörku er þetta leyft á búsgrunni undir ströngu eftirliti.
Ólafur í Geirakoti sagði að þessi mál hefðu oft komið til umræðu en aldrei fengist leyfi til þessarar sölu.
Formaður ræddi um tillögu varðandi  umframmjólk, hvort  staðið sé við ákvæði búvörulaga varandi ráðstöfun umframmjólkur.
Einnig ræddi hann hvaða fulltrúar myndu mæta sem fulltrúar félagsins á aðalfund LK
Arnheiður á Guðnastöðum ræddi hvort ástæða væri til að koma með tillögu um útflutningsmál, eins varðandi sölu- og markaðsmál nautgripakjöts.
Ólafur í Hraunkoti ræddi hvort ástæða væri til að LK sæi um að greiða einstaklingsmerkin í nautgripi, slíkt geri LS.
Samúel í Bryðjuholti velti vöngum um hvort ástæða væri til að breyta reglugerð varðandi mjólkursöluleyfi með það í huga að fækka heimsóknum héraðsdýralæknis, taka frekar stikkprufur um hvort allt er í lagi. Með þessu móti væri dregið úr kostnaði kerfisins.
Arnheiður á Guðnastöðun velti vöngum yfir mögulegri tillögu varðandi regluverk um flutning á lifandi gripum milli bæja og svæða.


4. Erindi Daða M. Kristóferssonar – Efnahagshorfur og framtíðarmöguleikar
Ræddi í byrjun þetta áfall sem varð sl. haust í efnahagsmálum, yfirleitt vara efnahagskreppur í 3-5 ár, lengdin fer eftir fjölda gjaldþrota á næstunni, vali á peningastefnu og þróuninni á útflutningsmörkuðum. Atvinnuleysi verði viðvarandi í 4-5 ár. Ræddi síðan þróun eignaverðs almennt og það hrun sem nú er staðreynd. Tvennt er þó öruggt, kreppan tekur enda og þetta er ekki síðasta kreppan.
Erfitt að meta þróun gengis og verðlags á næstu misserum, einhver hækkun á íslensku krónunni til lengri tíma. Ræddi áhrif þessa á íslenskan landbúnað, erlend aðföng verða dýr og fjármagnskostnaður mikill. Horfur skuldsettra fyrirtækja erfiðar einkum m.t.t. erlendra lána. Hins vegar er samningsstaða skuldara í t.d. kúabúskap betri en margra annarra vegna stöðugs greiðsluflæðis. Samkeppnisskilyrði og ímynd greinarinnar hafa snarbatnað. Afskriftir skulda við þessar aðstæður er í raun viðurkenning á tapi sem þegar er orðið.
Samkeppnisskilyrði hafa aldrei verið betri fyrir innlenda framleiðslu, raungengi mjög lágt núna – og því bætt samkeppnisskilyrði þess vegna. En á sama tíma hækka erlend aðföng.
Tækifæri til stækkunar eru fyrir hendi í greininni, innlend sala trygg og útflutningsmöguleikar til staðar. Hrun eignaverðs gefa möguleika til fjárfestinga fyrir þau bú sem eru skuldlítil. Vinnuaflsfrekar framkvæmdir verða ódýrari.


Það er raunverulegt tækifæri til að bæta búrekstur, kúabú eru ekki fjárfestingasjóðir sem framleiða mjólk líkt og margir virtust halda fyrir hrun. Ljóst að hægt er að auka framleiðni verulega með stækkun búa og með aukinni framleiðni kúakynsins. Framleiðni eykst sífellt í landbúnaði í heiminum og bændum mun fækka. Mikilvægt er að afnema opinbera verðlagningu og kvótakerfið.


Kreppur draga almennt úr áhuga á milliríkjaviðskiptum, ósennilegt að WTO-samningar náist þar sem mjög takmarkaður vilji er til að fórna störfum. Það eru litlar líkur á ESB-aðild við núverandi aðstæður.


Að loknu erindi Daða urðu almennar umræður um stöðu mála, einkum um fjárfestingar liðinna ára og viðhorf bankanna til lánveitinga sem á stundum hafi verið þannig að lítið hafi verið horft  til greiðsluflæðis búanna.


5. Önnur mál
Sigurður í Steinsholti
ræddi fyrirkomulag næsta aðalfundar LK, m.a. um nefndarstörf og tímasetningu helstu þátta í starfi fundarins. Reiknað með að Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra ávarpi fundinn, auk þess verði erindi um afkomu liðins árs.


Formaður lagði til að vinna tillögur í þeim anda sem um var rætt hér á undan, um kostnað vegna einstaklingsmerkja, um breytingu á regluverki um eftirlit dýralækna með framleiðslunni og loks  tillögu um reglur varðandi flutning lífdýra. Tillögur berist formanni og/eða stjórn í síðasta lagi  á föstudag.
 
 Samúel í Bryðjuholti og Ásgeir í St-Mörk gagnrýndu tregðu á upplýsingum varðandi kynbótamat og skort á upplýsingum úr skýrsluhaldinu. Auk þess hafa ekki borist niðurstöður úr kúaskoðunum frá liðnu sumri. Ákveðið að stjórnin vinni að tillögu að málinu og fylgi henni eftir.


Sigurður í Steinsholti ræddi formannskjör á næsta aðalfundi LK en hann hefur gefið kost á sér til formannsstarfa.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.25


Runólfur Sigursveinsson ritaði fundargerð


back to top