Félagsráðsfundur FKS 13. mars 2008

Félagsráðsfundur Félags kúabænda á Suðurlandi  13.3. 2008
haldinn í húsakynnum MS á Selfossi


1. Fundarsetning
Formaður, Sigurður Loftsson, setti fund  kl 11 og bauð fundarmenn velkomna og kynnti dagskrá.


2. Kjaramál
Formaður sagði frá ályktun sem  stjórn félagsins sendi nýverið frá sér um stöðu mjólkurframleiðslunnar í ljósi aðfangahækkana  síðustu vikna og hækkunar á fjármagnskostnaði.
Ræddi síðan þá vinnu sem er í gangi varðandi verðbreytingar á afurðarstöðvaverði. Innan verðlagsnefndar búvöru er vinna í gangi um þessar hækkanir, m.a. um fjármagnskostnaðinn  en heildarhækkunarþörfin er á bilinu 10-12 kr/l að mati LK. Spurningin er hvort verðhækkun vegna áburðar komi strax eða verði tekin inn í júní/júli. Fundir verða næstu daga í verðlagsnefnd búvöru og þá skýrist hvort hækkun náist 1.apríl
Valdimar í Gaulverjabæ spurði um orð sem féllu samhliða kjarasamingagerð um tollabreytingar.
Formaður svaraði því til að svo virtist að þessi atriði ættu frekar við kjötgreinarnar og þá á einstakar vinnsluvörur. Hins vegar væru engin skýr svör að hafa á þessu stigi.
Ragnar í Birtingaholti sagði mjög mikilvægt að ná inn réttum tölum í fjármagnskostnaðinn í verðlagsgrundvöllinn.
Arnheiður á Guðnastöðum spurði um hvort hægt væri að gefa ákveðin svör um hækkun 1.apríl. Eins spurði hún um aðkomu LK að verðlagningu mjólkur til bænda.
Formaður sagði frá þeirri vinnu sem er í gangi innan verðlagsnefndar, vonandi tækist að ná lendingu um ákveðna hækkun frá 1.apríl – en ekki væri á þessu stigi að lofa að hækkun kæmi 1.apríl. Bændafulltrúar verðlagsnefndar eru tveir, annar er fulltrúi LK, hinn er frá Bændasamtökunum, auk þeirra eru tveir fulltrúar frá vinnslustöðvum, fulltrúi frá ASÍ, fulltrúi frá BSRB og loks er formaður nefndarinnar skipaður af landbúnaðrráðherra.
Þórir á Selalæk taldi að þörf væri að LK segði meira frá þeirri vinnu sem væri í gangi á hverjum tíma. Kúabændur þyrftu að fá meiri upplýsingar um stöðu mála.
Arnheiður á Guðnastöðum velti fyrir sér opinberu verðlagningarkerfi, hvort þetta fyrirbæri ætti rétt á sér miðað við þann raunveruleika sem blasir með.
Elín í Egilsstaðakoti velti fyrir sér ef hin opinbera verðlagning væri ekki til staðar, þá er ekki lengur í gildi lágmarksverð.
Guðbjörg á Læk nefndi að kúabændur þyrftu að láta heyra í sér, bæði á haustfundum LK og eins á aðalfundi Félags kúabænda á Suðurlandi, hefðu almennir kúabændur lítið sem ekkert rætt eigin kjaramál.
Samúel í Bryðjuholti spurði um áhrif kjarasamnings á almennum vinnumarkaði, t.d. á launalið verðlagsgrundvallar.
Formaður taldi að áhrif inn á launalið bænda væri ca. 1,50 kr/l
Jóhann í St-Hildisey  nefndi að sífellt yrði erfiðara að meta fjármagnsliðina eftir að fjármögnun á kúabúum verður breytilegri, og þá einkum varðandi erlend lán.


3. Undirbúningur aðalfundar LK  og Bssl
Formaður velti fyrir sér tillögu inn á aðalfund LK varðandi endurskoðun á aðferðafræði við vinnslu verðlagsgrundvallar. Eins tillögu varðandi tollamálin
Þórir á Selalæk  lagði til að mótuð yrði tillaga inn á aðalfund LK varðandi einstaklingsmerkingar.
Arnheiður á Guðnastöðum spurði hvort ekki ætti að koma með tillögu með það að  efla verðeftirlit af hálfu LK m.a. með gleggri upplýsingum um verð á hverjum tíma.
Guðbjörg á Læk nefndi að í kjölfar hækkandi verðs á aðföngum og einnig að fóðurtollur verði lagður af, þá megi búast við að fleiri aðilar komi að innflutningi þessara vara á næstu árum. Mikilvægt er að  Matvælastofnun skerpi á eftirliti sínu með aðföngum.


Þá var fundarmönnum skipt í þrjá hópa til að ræða og undirbúa tillögugerð vegna aðalfundar.


4. Framtíð framleiðslustýringar mjólkurframleiðslunnar
– Daði Már Kristófersson hagfræðingur BÍ
Ræddi núverandi stýrikerfi í framleiðslunni. Nefndi að þó svo hagræðing hafi átt sér stað í núverandi kerfi þá er þetta dýr hagræðing. Styður fyrrverandi og suma núverandi bændur en bitnar á nýjum bændum og neytendum. Spurningin er því; er þetta nokkuð slæmt ! Gott fyrir suma, aðra ekki.
Samkvæmt búvörulögum eru ýmis markmið sett fram um landbúnaðarstefnuna. Lagði áherslu á það markmið „að tryggja bændum viðunandi afkomu“ yrði að líta á sem aðalmarkmið því ef ekki er afkoma er í greininni, þá hrynur hún.
Nefndi að síðustu ár hafa farið einn til tveir milljarðar í kvótakaup ár hvert sem setja þyrfti í samhengi við beingreiðslur ríkisins á hverjum tíma. Verð á greiðslumarki nemur núvirði beingreiðslna næstu 8-10 árin. Að mati  Daða er núverandi kerfi hannað fyrir fyrrverandi bændur.
Ræddi mismunandi stuðningskerfi í landbúnaði; lágmarksverð, verðuppbætur, niðurgreiðslur aðfanga, land- og gripagreiðslur, framleiðsla almannagæða og loks beinn tekjurstuðningur. Skilvirkni einstakra leiða er mismunandi, mest virðist yfirfærsluskilvirkni  vera á land-og gripagreiðslu og á beinan tekjustuðning. Engin þjóð er núna  að fara í leiðir sem tengjast lágmarksverði og/eða verðuppbætur.
Yfirfærslugildi núverandi kerfis hér á landi í mjólkurframleiðslunni, var mikið í upphafi en hefur lækkað og er núna í kringum 65%, bændur hafa fórnað um 35% af tekjum sínum til að viðhalda þessu kerfi.
Hvað er þá hægt að gera ?
– Afnám lágmarksverðs og magnstýringar er forsenda þess að leggja kvótakerfi niður. Eina kerfið sem ekki leiðir til þjóðhagslegs taps er frjáls mjólkurmarkaður. Slíkt er vel framkvæmanlegt sbr. Nýja Sjáland (lágmarksverð gefið út + verðuppbætur eftir sölu). Núverandi kerfi er „stöðugt“ en getur komið mönnum í koll ef t.d. innflutningur yrði leyfður að einhverju marki, þá geta menn ekki keppt í verði með því að gefa afslátt frá lágmarksverði. Hinn þátturinn er,  þegar snöggar verðhækkanir verða á aðföngum þá gengur illa koma þessu í gegnum opinbera verðlagningu.


Einfaldasta lausn úr kvótakerfi er afnám framleiðsluskyldu eða uppkaup. Núverandi bændur fá fullar beingreiðslur óháð framleiðslu um ákveðinn tíma. Bændur þurfa ekki að kaupa beingreiðslur þegar framleiðsla er aukin – en njóta þeirra ekki heldur. Kemur vel út fyrir núverandi bændur en hæpið fyrir framtíðarbændur. Önnur leið er land- og gripagreiðslur, þær gagnast bændum framtíðarinnar en geta leitt til hærra landverðs og eins erfitt gagnvart WTO. Þriðja lausnin væri greiðslur fyrir framleiðslu almannagæða. Getur verið þjóðhagslega hagkvæmt (fræðilega) – greitt fyrir t.d. landbætur. Skilar sér til núverandi og framtíðarbænda en eftirlitskostnaður óhemjumikill. Fjórða leiðin væri beinn tekjustuðningur, mjög góð skilvirkni, skilar sér til allra sem eiga rétt á greiðslum en erfitt að skilgreina hverjir eiga á fá þessa peninga.
Spurningin er hvaða leiðir eru líklegastar til að stuðla að því að þessi kynslóð kúabænda sé ekki sú síðasta ?
Að mati Daða er hættan sú að ef ekki verður horfið frá núverandi kerfi þá verða kynslóðaskipti mjög erfið  og eins hitt að innbyggður kostnaður innan greinarinnar vegna kerfisins er það mikill að hún mun aldrei geta keppt við innflutning og/eða útflutning vegna þessa aukakostnaðar sem hún ber í formi fjárskuldbindinga vegna kvótans.


Töluverðar umræður urðu um erindi Daða og hvernig framtíðin gæti litið út frá mismunandi leiðum sem yrðu farnar ef horfið yrði frá núverandi kerfi. Þær leiðir yrðu að vera vandlega útfærðar áður en núverandi kerfi yrði aflagt


5. Drög að tillögum  fyrir aðalfund LK og Bssl
Formaður sagði að vinnuhópar fundarins hefðu skilað inn drögum að fimm tillögum sem færu inn á aðalfund LK. Samþykkt að stjórn yfirfæri tillögurnar og sendi félagsráðsmönnum til skoðunar áður en þær yrðu birtar. Jafnframt að unnin yrði tillaga um mikilvægi  þess að viðhalda núverandi ræktunarlandi til nota fyrir hefðbundinn landbúnað.


Formaður  velti vöngum um tillögur á aðalfund Bssl, ræddi líka starf í nefnd um endurskoðun á starfsemi Búnaðarsambandsins sem lítillega er farin af stað. Mun leggja til að nefndin starfi áfram eftir næsta aðalfund. Eins ræddi formaður um hugsanlega tengingu við endurskoðun á starfi Bændasamtakanna.


Samúel í Bryðjuholti spurði um tengingu starfs  á St-Ármóti við Félag kúabænda á Suðurlandi.
Formaður sagði frá því að í stað þess að viðhalda tilraunanefndinni hefði verið ákveðið að stofna samráðshóp sem rækti tengsl við tilraunastarfið. Enginn fundur hefur verið haldinn enn.
Rætt um að lítið kæmi til bænda frá St-Ármóti, ákveðið að vinna tillögu að ályktun inn á aðalfund Bssl um nauðsyn þess á að koma á framfæri á hverjum tíma hvað væri að gerast í tilraunaststarfinu.


6. Önnur mál
Rætt stuttlega um komandi aðalfund Bssl og væntanlega breytingu í stjórn Bssl.
Katrín Birna á Ásólfsskála þakkaði fyrir samstarf við samstjórnendur sína en hún hafði verið í stjórn félagsins fram að síðasta aðalfundi  og óskaði nýrri stjórn heilla.


Fleira ekki gert og fundi slitið um kl 16


Runólfur Sigursveinsson skrifaði fundargerð


back to top