Félagsráðsfundur FKS 10. jan. 2013

Fundur  haldinn í félagsráði Félags  kúabænda á Suðurlandi fimmtudaginn 10. janúar 2013 í fundarsal MS á Selfossi.

1. Fundarsetning
Starfandi formaður, Samúel U. Eyjólfsson í Bryðjuholti, setti fund kl 11.10 og bauð fundarmenn velkomna. Sagði frá því að Þórir Jónsson fráfarandi formaður félagsins hefði sagt af sér stjórnarformennsku í félaginu vegna veikinda.   Gengið var til dagskrár í samræmi við útsent fundarboð.

2. Nýtt fyrirtæki í leiðbeiningarþjónustu og staða Bændasamtakanna eftir þessar breytingar.Eiríkur Blöndal framkvæmdastjóri BÍ.
Eiríkur sagði frá undirbúningi málsins. Fyrirtækið tók formlega til starfa 1.janúar sl. en í raun mun yfirfærsla verkefna  flytjast hægt og rólega yfir nýtt fyrirtæki  en í fyllingu tímans mun koma ný ásýnd, m.a. ný heimasíða. Ekki er gert ráð fyrir að starfsmenn flytji  milli starfsstöðva heldur muni hver og einn halda búsetu sinni eins og verið hefur.
Eiríkur fór síðan í forsögu málsins, m.a. í markmiðin samkvæmt stefnumótun Búnaðarþings frá síðastliðnum vetri – og gat um hvaða verkefni flytjist yfir í nýja fyrirtækið.
Jafnframt gat hann um ályktun aukabúnaðarþings um skipan starfshóps um félagsstarf og verkefni búnaðarsambanda og BÍ eftir þessa breytingu að taka ráðgjafaþáttinn í sérfyrirtæki .
Spurt um mögulega starfsemi og ráðgjöf til hliðar við nýja fyrirtækið, væntanlega mun sú starfsemi halda áfram, t.d. eins og söluráðgjöf einstakra fyrirtækja, hins vegar væri samkvæmt búnaðarlögum gert ráð fyrir ákveðinni ráðgjöf á tilteknum sviðum sem þetta nýja fyrirtæki sæi um.

 

3. Lífeyrissjóður bænda.Ólafur K. Ólafs framkvæmdastjóri
Ólafur gat fyrst um þróun markaða á liðnu ári  og sagði m.a. að íslenska krónan hefði  veikst um 6,3% á árinu 2012. Vísitala neysluverðs hækkaði á móti um 4,2% á árinu 2012. Ræddi síðan um þróun íbúðabréfa á markaði og  óverðtryggð ríkisbréf. Hlutabréfaverð innanlands hefur hækkað mjög mikið á liðnu ár. Þá hafa erlend hlutabréf hækkað í íslenskum krónum um 18,2% á sama tíma.
Þá ræddi hann síðustu ársskýrslu Lífeyrissjóðsins og ávöxtun sjóðsins síðustu ár. Eins gat hann um skýrslu úttektarnefndar um lífeyrissjóði. Þar kom m.a. fram í niðurstöðum  að sjóðurinn tapaði um 18% árin 2008 til 2010 sem hlutfall af hreinni eign 2007. Það var mun minna tap en meðaltal sjóðanna í heild á sama tímabili sem var metið  upp á 28,4%.
Hrein raunávöxtun Lífeyrissjóðs bænda  var 2,9% 2011. Eftir samþykktar breytingar  á auka ársfundi 8.júní 2012  hefur tryggingafræðileg staða sjóðsins breyst til batnaðar.
Alls voru virkir sjóðfélagar árið 2011 2.820 en fjöldi lífeyrisþega var sama ár 3.507.
Þá fjallaði Ólafur um lánakjör sjóðsins. Í boði eru verðtryggð lán með breytilegum vöxtum sem eru núna 4,5% og hins vegar verðtryggð kjör með föstum vöxtum  upp á 4,5%. Loks eru óverðtryggð lán í boði núna til 5 ára með 9,75% vöxtum.
Loks ræddi Ólafur  áhuga bænda að sjóðurinn geri sig meira gildandi varðandi jarðakaup, meðal annars hafa fulltrúar LK rætt málin við sjóðinn og fulltrúar ungra bænda.

 

4. Undirbúningur fyrir aðalfund FKS.
Samúel í Bryðjuholti sagði frá nauðsynlegum undirbúningi fyrir aðalfund, m.a. varðandi formannskjör og í stjórn félagsráðs. Reiknað er með aðalfundi þann 28.janúar í Árhúsum.
Elín í Egilsstaðakoti velti fyrir sér kosningu fulltrúa inn á aðalfund LK. Spurning hvort kosið yrði á aðalfundinum sjálfum (FKS) eða að félagsráðið kjósi um slíkt sjálft. Ákveðið að lkjósa um fulltrúana á aðalfundinum.
Rætt um aðfengna fyrirlesara  inn á aðalfund FKS. Stungið upp á að fá nýjan framkvæmdastjóra Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins sem aðalfyrirlesara   auk þess að fá Sigurður Loftsson formann LK með stutt innlegg.  Jafnframt yrði veitt sambærileg viðurkenning og var gert í fyrra  varðandi  góðan rekstur á SUNNU-búunum. 

 

5. Önnur mál
Jórunn á Drumboddsstöðum ræddi mál fyrir Búnaðarþing til dæmis  sem snertir mótframlag í Lífeyrissjóðinn.  Ákveðið að beina þessu erindi til Búnaðarþingsfulltrúa á Suðurlandi.
Jafnframt rætt um tímasetningu Búnaðarþings með tilliti til aðalfunda aðildarfélaga. Eðlilegra væri að aðalfundir búgreina- og búnaðarsambanda væri á undan Búnaðarþingi.
Samúel  í Bryðjuholti ræddi fækkun sæðingarmanna á svæðinu og hvort sú fækkun hefði haft áhrif á þjónustuna.  Einhver misbrestur hefur orðið   á símsvörun  eftir síðustu breytingu.
Bóel Anna á Móeiðarhvoli ræddi tilkynningu sem kom um áramót um fleiri sýnatökur m.t.t. gæðastýringar.  Betra hefði verið að undirbúa þessa breytingu betur.  Jafnframt væri gott að fá upplýsingar um hvaðan þessi ákvörðun kom upphaflega.

 

Rætt um hvað liði skýrslu nefndar um innflutning á erfðaefni  í holdanautaræktunina.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið 15.30

 

Runólfur Sigursveinsson


back to top