Erfðabreytt aðföng í landbúnaði

Landbúnaðarráðherra hefur svarað fyrirspurn Þuríðar Backman um erfðabreytt aðföng í landbúnaði á Alþingi. Fyrirspurn Þuríðar og svö landbúnaðrráðherra fara hér á eftir en fyrirspurnin var í sjö liðum:

1. Hvað líður innleiðingu reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins 1829/2003/EB, um erfðabreytt matvæli og fóður, og 1830/2003/EB, um rekjanleika og merkingar á erfðabreyttum lífverum og rekjanleika á matvæla- og fóðurvörum sem framleiddar eru af erfðabreyttum lífverum?
    Unnið er að upptöku þessara reglugerða í EES-samninginn og má vænta þess að þær verði innleiddar í íslenskan rétt á næsta ári.


2. Telur ráðherra ásættanlegt að íslenskir bændur hafi, ólíkt bændum í öðrum Evrópulöndum, ekki möguleika á að velja á milli venjulegs og erfðabreytts fóðurs vegna skorts á merkingum?
    Í framangreindum reglum eru ákvæði um merkingar á fóðri og matvælum og eftir innleiðingu þessara reglna munu íslenskir bændur því hafa sömu möguleika og aðrir Evrópubúar á EES til að velja á milli vörutegunda.


3. Telur ráðherra ásættanlegt hve hátt hlutfall af innfluttum maís og soja í fóðri og til fóðurframleiðslu er erfðabreytt?
    Markmið lagasetningar hér á landi um fóður, sem unnið er úr erfðabreyttum nytjaplöntum á grundvelli EES-löggjafar, er að tryggja að aðeins sé notað fóður sem er viðurkennt og hefur því staðist þær prófanir sem gerð er krafa um í Evrópu. Þegar þessar kröfur eru uppfylltar er það á valdi innflytjenda og bænda að ákveða hvaða fóður eða hráefni til fóðurgerðar þeir vilja nota eða stunda viðskipti með. Stjórnvöld hafa ekki afskipti af slíkum viðskiptum þegar allar kröfur um öryggi og merkingar eru uppfylltar.


4. Telur ráðherra að notkun erfðabreytts fóðurs geti skaðað markaðssetningu íslenskra landbúnaðarvara erlendis sem töluverð vinna og fjármagn hefur verið lagt í á grundvelli þess að þær séu náttúrulegar og hreinar?
    Íslenskar landbúnaðarvörur hafa verið í nokkurri sókn, t.d. á mörkuðum í Bandaríkjunum á síðustu árum. Þar á bæ eru menn meðvitaðir um stöðu mála á Íslandi hvað merkingar á fóðri áhrærir og virðist það ekki hafa haft skaðleg áhrif á markaðsaðgang.


5. Er ráðherra kunnugt um að evrópskar smásöluverslanir bregðast í sívaxandi mæli við kröfum neytenda um að búfjárafurðir séu ekki af búfé sem hefur verið alið á erfðabreyttu fóðri með því að úthýsa slíkum vörum?
    Í landbúnaðarráðuneytinu liggja ekki fyrir upplýsingar um þróun smávöruverslunar í Evrópu hvað varðar markaðssetningu afurða búfjár sem alið hefur verið á fóðri sem unnið er úr uppskeru plantna sem kynbættar hafa verið með erfðatækni, sem leiðir til þess að þær kallast erfðabreyttar.

6. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að fylgt verði fordæmi Norðmanna í vörnum við hættum af notkun erfðatækni í landbúnaði en Norðmenn girða fyrir innflutning á erfðabreyttu fóðri, hafna umsóknum um ræktun erfðabreyttra plantna og starfrækja óháða vísindastofnun um rannsóknir á áhrifum erfðatækni?
    Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum munu reglur ESB um erfðabreytt matvæli og fóður verða teknar upp í EES-samninginn, þannig að þær muni í framhaldinu gilda með sama hætti í Noregi og hér á landi eftir lögformlega innleiðingu þeirra. Afstaða landbúnaðarráðherra er sú að samræmdar EES-reglur komi til framkvæmda á Íslandi og að ekki sé tilefni til aðgerða sem teljist meira takmarkandi en þær gera ráð fyrir. Evrópudómstóllinn felldi nýlega dóm sem kveður á um að einstökum ríkjum eða sveitarfélögum innan sambandsins er ekki heimilt að setja strangari kvaðir en í reglum þessum er að finna, svo sem að lýsa því yfir að í tilteknum héruðum eða jafnvel þjóðlöndum skuli ekki rækta lífverur sem kynbættar hafa verið með aðferðum sem gerir að þær flokkast sem erfðabreyttar.


7. Mun ráðherra beita sér fyrir upplýstri umræðu um áhrif erfðabreytts landbúnaðar á umhverfi og heilsufar?
    Þessi málefni eru í stöðugri umræðu og landbúnaðarráðuneytið kom ásamt Landbúnaðarháskóla Íslands, Bændasamtökum Íslands og valinkunnum sérfræðingum úr vísindasamfélaginu að opinni ráðstefnu um þessi mál á síðasta ári. Á þeim fundi fluttu erindi, auk íslenskra fræðimanna, breskur og bandarískur sérfræðingur, sem báðir eru oddvitar um mál þessi í sínum heimalöndum. Góður rómur var gerður að ráðstefnunni. Á þessari stundu liggja ekki fyrir áform um fleiri fundi, en landbúnaðarráðuneyti mun taka vel í aðkomu að opinni umræðu um þessi mál sem og önnur sem varða hag íslensks landbúnaðar og gæði íslenskra landbúnaðarafurða.


back to top