Ekkert í Lífeyrissjóð bænda

Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga er um verulegan niðurskurð að ræða á ýmsum framlögum til landbúnaðarins. Helst ber þar að nefna mikinn niðurskurð á framlögum sem falla innan svokallaðs búnaðarlagasamnings. Er þar um að ræða framlög til Bændasamtaka Íslands og til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Framlög til Bændasamtakanna eru þannig skorin niður um 144,6 milljónir króna frá yfirstandandi ári. Þar af er skorið niður um 94,6 milljónir í ráðgjafaþjónustu og búfjárrækt en um 50 milljónir í þróunarverkefnum og markaðsverkefnum. Heildarframlög til Bændasamtakanna verða þannig 394 milljónir króna ef frumvarpið nær fram að ganga en eru 468,6 milljónir króna á yfirstandandi ári.
Framleiðnisjóður landbúnaðarins er að segja má skorinn við trog. Gert er ráð fyrir að framlög ríkissjóðs til Framleiðnisjóðs verði 15,3 milljónir króna í stað 148 milljóna nú. Niðurskurðurinn er því 132,7 milljónir króna. Samtals er því niðurskurðurinn á greiðslum innan búnaðarlagasamnings 277,3 milljónir króna eða um 40 prósent.

Mótframlag til Lífeyrissjóðs bænda fellt niður
Mótframlag ríkissjóðs vegna lífeyrisgreiðslna í Lífeyrissjóð bænda skorið niður að fullu en á núgildandi fjárlögum er það framlag 178 milljónir króna.


Héraðsbundin skógræktarverkefni eru skorin niður um 9 prósent í öllum tilvikum. Á yfirstandandi fjárlögum var 424,8 milljónum varið í verkefnin samtals en á næsta ári er gert ráð fyrir að 387,6 milljónum verði varið til málaflokksins. Þess ber að geta að verulega hefur verið skorið niður í þessum verkefnum undanfarin tvö ár.


Í ýmsum verkefnum tengdum landbúnaði er einnig um skerðingu að ræða. Hins vegar er staðið við búvörusamninga. Þann 18. apríl 2009 var gildandi samningum breytt í kjölfar efnahagshrunsins og bændur tóku á sig umtalsverðar skerðingar. Staðið verður við þann samning ef frumvarpið nær fram að ganga en margir bændur höfðu óttast að við þeim yrði hróflað á nýjan leik..


back to top