Einkunn fyrir gerð aldrei verið hærri

Landssamtök sauðfjárbænda hafa birt helstu niðurstöður kjötmats á dilkakjöti í sláturtíðinni 2008 þ.e. 1. september til loka október. Alls var slátrað á þessum tíma tæplega 491.000 dilkum í 8 sláturhúsum. Það er tæplega 10 þúsund fleiri en í fyrra. Meðalvigt var nú talsvert hærri en í fyrra eða 15,90 kg samanborið við 15,31 kg í fyrra eða 0,59 kg þyngri. Heildarframleiðsla á þessu tímabili er 7.802 tonn af kjöti, eða 440 tonnum meira en í fyrra.

Til jafnaðar reyndust dilkar nokkru feitari í ár en í fyrra en þungi nokkru meiri. Hlutfall þeirra dilka sem fóru í fituflokka 3+, 4 og 5 lækkaði samt sem áður úr  12,1% í 11,8%.  Það er lægsta hlutfall frá árinu 1999 en þetta hlutfall fór mest upp í 18,4% árið 2003.  Meðaltal fituflokkunar hækkaði úr 6,57 í 6,72 (um 2,3%).


Einkunn fyrir gerð hækkaði á milli ára, úr 8,19 í 8,43.  Hlutfall dilka í gerðarflokkum E og U hækkaði úr 23,7% í 25,6% og er það hæsta hlutfall frá upphafi EUROP kjötmatsins.  Sem dæmi þá var þetta hlutfall 5,4% árið 1999 og hefur því næstum fimmfaldast á þessum 9 árum. Hlutfallið hefur hækkað óslitið frá 2001.

back to top