Ein rúlla bætist við á hektara annan hvern dag

Bændur í Landeyjum, undir Eyjafjöllum og trúlega víðar hafa nú hafið fyrsta slátt sumarsins og er það vel. Hey sem aflað er svo snemma er án nokkurs vafa mikið framleiðslufóður, orkuríkt og lystugt. Gæðin eru hins vegar eðlilega á kostnað magnsins þegar svo snemma er slegið á vaxtartímanum og vekur það spurningar bænda um hvað ætla megi að sprettan sé á þessum hluta vaxtartímans.

Undanfarin ár hefur verið fylgst með þroskastigi grasa víða á landinu með skipulögðum hætti á vegum ráðgjafaþjónustunnar. Á liðnu ári (2008) var einnig mæld uppskeran á sama tíma á sömu spildum. Á tilraunabúinu á Stóra-Ármóti var uppskeran mæld bæði á tveggja ára gamalli nýrækt og hins vegar eldra túni sem ekki hefur verið endurræktað í á annan áratug. Niðurstöðurnar sýna að á tveggja vikna tímabili, frá 9. júní til 23. júní það ár jókst uppskeran úr 1,7 tonn þe á hektara í 3,9 tonn þe á hektara í nýræktinni en úr 1,4 tonn þurrefni s á hektara í 2,9 tonn þurrefnis á hektara í eldri spildunni. Á sama tíma lækkaði orkustyrkurinn úr 0,92 FEm/kg þe í 0,83 FEm/kg þe í nýræktinni og úr 0,90 FEm/kg þe í 0,81 FEm kg þe í eldra túninu.


Þessar upplýsingar gefa okkur nokkrar mjög áhugaverðar niðurstöður.  • Í fyrsta lagi að meðalvöxtur á dag þessa 14 daga var í nýræktinni 157 kg þe/ha á sólarhring sem þýðir með öðrum orðum að ríflega ein rúlla bættist við á hektara annan hvern dag í nýræktinni. Í eldra túninu var meðalvöxturinn 107 kg þe/ha á sólarhring sem þýðir að ein rúlla bættist að meðaltali við á hverjum hektara þriðja hvern dag.
  • Í öðru lagi gefa þessar upplýsingar til kynna að ef túnin hefðu verið slegin þann 23. júní það ár má ætla að uppskeran hefði verið um 14 rúllur á hektara á nýræktinni en um 10 rúllur á eldra túninu ef miðað er við að hver rúlla innihaldi um 280 kg/þe.
  • Í þriðja lagi gefa þessar upplýsingar til kynna þann mun í uppskeru sem fæst af nýrækt í góðri rækt og af eldra túni. Fjórar rúllur á hektara er alls ekki svo lítið og ætla má að heyið af nýræktinni sé sykruríkara og þar með lystugra en heyið af eldra túninu. Þessi munur réttlætir og borgar upp endurræktun á túni á um fjórum árum ef við gefum okkur að hver rúlla kosti um 6.000 krónur í framleiðslu. Er þá ótalin minni yfirferð véla til að ná sama magni af heyi.
  • Í fjórða lagi gefa þessar upplýsingar til kynna að fóðureiningar á nýræktinni fóru á þessum 14 dögum úr 1.564 FEm á hektara í 3.237 FEm á hektara sem er tvöföldun þrátt fyrir lækkun orkugildis um 0,09 FEm í kílói þurrefnis. Á eldra túninu fjölgaði fóðureiningunum á hektara úr 1.260 FEm í 2.350 FEm sem er 86% aukning á þessum 14 dögum á meðan orkugildið lækkaði líka um 0,09 FEm í kílói þurrefnis.

Ætla má að vaxtarferill túngrasa í ár sé nokkuð svipaður og á liðnu ári víðast hvar, jafnvel heldur á undan vaxtarkúrfu liðins árs ef eitthvað er.


back to top