Eiga 45 jarðir víða um land

Landsbanki Íslands er stærsti eigandi fyrirtækisins Lífsvals sem á 45 jarðir víða um land. Bankinn eignaðist hlut í félaginu við stofnun þess 2002. Bankinn er líka stærsti lánardrottinn félagsins, en það skuldaði í árslok 2008 um þrjá milljarða króna. Fyrirtækið tapaði á síðasta ári um 1,2 milljörðum króna. Bókfærðar eignir félagsins nema 5,2 milljörðum.
Á síðustu árum hafa orðið til nokkur félög sem kaupa og selja bújarðir. Stærst þessara félaga er Lífsval. Fyrirtækið er í eigu nokkurra einstaklinga. Stærsti eigandinn er hins vegar Landsbanki Íslands með 19% hlut. Bankinn kom inn í félagið við stofnun þess árið 2002 og hefur því verið fjárhagslegur bakhjarl þess frá upphafi. Skuldir Lífsvals við Landsbanka Íslands í árslok 2008 námu rúmlega 2,4 milljörðum króna.

Hermann Már Þórisson, sem situr í stjórn Lífsvals fyrir hönd Horns, fjárfestingafélags Landsbankans, segir að bankinn áformi að eiga hlut sinn í Lífsvali áfram. Um sé að ræða góða fjárfestingu.


Verð á jörðum hækkaði mikið og lækkaði aftur
Verð á jörðum hækkaði mjög mikið á árunum 2004-2007. Síðan hefur verðið lækkað aftur. Erfitt er að átta sig á hve verðlækkunin er mikil því að viðskipti með jarðir hafa verið lítil eftir hrun bankakerfisins haustið 2008. Enginn vafi leikur á að áhugi fjársterkra einstaklinga og jarðafélaga eins og Lífsvals á jörðum átti stóran þátt í að þrýsta upp verði á jörðum þegar þenslan var sem mest í efnahagslífinu. Þessi mikla hækkun hefur haft umtalsverð áhrif í landbúnaði því að erfitt er fyrir venjulega bændur að kaupa jarðir á þessu háa verði og láta hefðbundinn búskap borga jarðaverðið. Það þarf þó að hafa í huga að verð á jörðum á Íslandi hefur lengst af verið tiltölulega lágt og mun lægra en í nágrannalöndum okkar.


Jón Björnsson, framkvæmdastjóri Lífsvals, segir að þó að Lífsval eigi 45 jarðir sé það lítið brot af öllum jörðum á landinu, en þær séu um 6.500. Hann segir að búið sé á öllum jörðum Lífsvals þar sem ræktað land og húsakostur bjóði upp á búskap. Félagið stundi sjálft búskap á um 20 jörðum.


»Félagið hefur farið í mikla uppbyggingu á jörðum sem ekki hafa verið nýttar til fullnustu árum saman, bæði hvað varðar ræktað land og húsakost. Félagið leigir út fiskeldisstöð á einni jörð og kjúklingaeldi á annarri, auk þess sem viðamikil skógrækt fer fram á fjórum af jörðum Lífsvals. Þar sem um er að ræða ræktað land eru tún félagsins slegin af bændum á samliggjandi jörðum.«


Á um 1,2 milljónir lítra kvóta
Lífsval rekur þrjú kúabú og mjólkurkvóti félagsins er um 1,2 milljónir lítra sem er um 1% af öllum mjólkurkvóta í landinu. Félagið rekur auk þess tvö sauðfjárbú.


Jón segir að félagið hafi selt jarðir frá því að félagið var stofnað, en þó ekki í miklum mæli. Lífsval ehf. er stofnað árið 2002, en félagið hefur ekki enn skilað hagnaði. »Grunnhugmyndin að baki félaginu er að fjárfesta í landi enda er það örugg fjárfesting til langtíma. Jafnframt er það markmið félagsins að nýta landið m.a. með markvissri uppbyggingu landbúnaðar. Áætlanir okkar gerðu ráð fyrir því að félagið myndi sýna hagnað á síðasta ári, en það gekk ekki eftir vegna alþekktra erfiðleika í íslensku efnahagslífi. Velta félagsins hefur aukist ár frá ári og gera okkar áætlanir ráð fyrir jákvæðri framlegð og hagnaði. Eiginfjárstaða félagsins er sterk.«


Jón segir að bókfært verð jarða Lífsvals taki mið af markaðsverði og sé bókfært virði jarðanna fært varfærnislega í bókum félagsins í ákveðnu hlutfalli við markaðsverði á hverjum tíma. Ýmsir hafa tortryggt starfsemi jarðafélags á borð við Lífsval. Það er því kannski ekki óeðlilegt að spurt sé hver sé viðskiptahugmyndin á bak við Lífsval?


Margir tekjumöguleikar
Jón segir að það séu margir og mismunandi tekjumöguleikar sem tengjast landnýtingu á Íslandi. »Markmið félagsins er að auka verðmæti jarðanna og nýta þá möguleika sem í þeim felast. Lífsval mun einbeita sér að uppbyggingu landbúnaðar og við teljum möguleikana þar mikla. Íslenskar landbúnaðarvörur eru einstakar að gæðum af ástæðum sem við þekkjum, s.s. vegna hreinleika íslenskrar náttúru, gæði fóðurs eru meiri hér en þekkist og vatnið er einstakt. Við sjáum því mikla möguleika fólgna í uppbyggingu á íslenskum landbúnaði og að fleiri en eitt rekstrarform styrki greinina til framtíðar.


Morgunblaðið 21. janúar 2010, Egill Ólafsson egol@mbl.is
 


back to top