Dýralæknar áhyggjufullir

Á aðalfundi Dýralæknafélags Íslands lýstu dýralæknar áhyggjum vegna þess hvert stefndi varðandi dýralæknaþjónustu í dreifðari byggðum landsins.

„Aðalfundur Dýralæknafélags Íslands, haldinn í Stykkishólmi þann 5. júní 2011, átelur harðlega seinagang Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis varðandi útgáfu reglugerðar sem er ætlað að kveða á um stuðning við dýralæknaþjónustu í dreifbýli. Aðalfundur skorar á ráðherra að láta málið til sín taka sem allra fyrst; þannig að velferð dýra verði ekki stefnt í voða við þá kerfisbreytingu sem tekur gildi þann 1. nóvember 2011.”

Sú breyting verður 1.nóvember 2011 að störf héraðsdýralækna sem sinna bæði opinberu eftirliti og almennri dýralæknaþjónustu verða lögð niður. Þetta á við um héraðsdýralæknana sem nú eru staðsettir í Borgarnesi, Stykkishólmi, Búðardal, á Ísafirði, Hvammstanga, Blönduósi, Húsavík, Egilsstöðum, Breiðdalsvík, Höfn og á Kirkjubæjarklaustri. Í stað þess koma stærri opinber eftirlitssvæði þar sem Matvælastofnun hefur umdæmisskrifstofur og ákveður stofnunin staðsetningu héraðsdýralækna og annarra eftirlitsaðila sem þar verða ráðnir til opinberra eftirlitsstarfa og sóttvarna. Með þessari breytingu verður jafnframt nauðsynlegt að tryggja almenna dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum landsins með öðrum hætti en verið hefur.


Markmiðið er að tryggja dýraeigendum um allt land nauðsynlega dýralæknaþjónustu og þar með, m.a. af dýraverndarástæðum, að veik og slösuð dýr fái rétta meðhöndlun eins fljótt og kostur er.
Ólíklegt er að dýralæknar fáist til starfa þar sem dýrafjöldi er takmarkaður og verkefni við lækningu dýra fremur fá.


Til að ná markmiðum greinarinnar um að tryggja dreifðum byggðum reglubundna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu verður að stuðla að því að fyrir hendi verði nauðsynleg starfsaðstaða fyrir sjálfstætt starfandi dýralækna á Snæfellsnesi, í Dalasýslu, á Vestfjörðum, í Austur- og Vestur-Húnavatnssýslum, í Suður- og Norður-Þingeyjarsýslum,í Norður- og Suður-Múlasýslum og í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslum.


Jafnframt þarf hið opinbera að greiða einhverja staðaruppbót og/eða kostnað við ferðir dýralækna á þessum stöðum. Að öðrum kosti er ekki tryggt að dýralæknaþjónustan verði nægileg til að tryggja heilbrigði og velferð dýra.


Þar sem samkvæmt framanrituðu er verið að gera verulegar breytingar á dýralæknakerfinu með því að fækka héraðsdýralæknum sem áður hafa annast þjónustu við dýraeigendur er talið nauðsynlegt að gefin verði út reglugerð um hvernig dýraeigendum í hinum dreifðu byggðum landsins verði tryggð dýralæknaþjónusta. Gert er ráð fyrir því að ráðherra skuli hafa samráð við Dýralæknafélag Íslands, Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Matvælastofnun,“ segir í ályktun frá félaginu.


 


back to top