Dauðadómar vegna mjólkurhneykslis

Kínverskur dómstóll hefur kveðið upp dauðadóma yfir tveimur mönnum sem fundnir voru sekir í tengslum við mjólkurhneykslið þegar melamínmenguð mjólk fór á markað. Að minnsta kosti sex ungbörn létust og um 300 þúsund veiktust vegna mjólkurblöndunnar.
Millidómstóll alþýðunnar í Shijiazhuang kvað upp dauðadóminn yfir Zhang Yujun í gær. Hann var fundinn sekur um að hafa rekið verksmiðju sem talin er hafa verið helsta uppspretta melamíns í Kína. Melamíni var blandað í mjólk sem skaðaði heilsu margra barna og olli einnig dauðsföllum.

Geng Jinping var einnig dæmdur til dauða. Hann var sakfelldur fyrir að hafa framleitt og selt mjólkurbúum eitruð matvæli. Félagi hans, Geng Jinzhu, var dæmdur í átta ára fangelsi.


Annar maður, Zhang Yanzhang fékk ævilangan dóm fyrir að hafa ógnað öryggi almennings. Hann var sakfelldur fyrir að selt próteinduft sem Zhang Yujun framleiddi.


Tian Wenhua, fyrrverandi framkvæmdastjóri mjólkurfélagsins sem framleiddi menguðu mjólkina, var dæmd í ævilangt fangelsi í dag. Hún játaði fyrir rétti í desember síðastliðnum að vera sek um að hafa framleitt og selt svikna vöru.

Mjólkurblöndu fyrir ungbörn, sem menguð var með melamíni, var kennt um dauða a.m.k. sex ungbarna og veikindi nærri 300 þúsund barna.


back to top