Búnaðarþing var sett í dag

Búnaðarþing var sett í dag við hátíðlega athöfn í Súlnasal Hótels Sögu. Setningarathöfnin fór fram undir yfirskriftinni „Að lifa af landsins gæðum“ og hófst með ræðum þeirra Haraldar Benediktssonar formanns Bændasamtaka Íslands og Einars Kr. Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Báðir fjölluðu þeir um þær breytingar sem orðið hafa á rekstrarumhverfi landbúnaðarins á undanförnum mánuðum og lögðu áherslu á að menn legðust á árarnar til þess að koma atvinnugreininni í gegnum þann skafl sem nú er við að etja. Forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson hélt hátíðarræðu þar sem hann meðal annars lagði til að gerður yrði sáttmáli um fæðuöryggi Íslendinga.

Að lokinni hátíðarræðu forsetans afhenti ráðherra landbúnaðarmála tólf bændum Landbúnaðarverðlaunin 2008. Fyrst voru kölluð upp hjónin Eiríkur Snæbjörnsson og Sigfríður Magnúsdóttir á Stað í Reykhólasveit og nágrannar þeirra, Þórður Jónsson og Ása Björg Stefánsdóttir í Árbæ. Næst var röðin komin að Þórisholti í Mýrdal en þar búa bræðurnir Guðni og Grétar Einarssynir ásamt eiginkonum sínum, Höllu Ólafsdóttur og Sædísi Ívu Elíasdóttur. Loks voru það tvær kynslóðir bænda í Möðrudal á Efra-Fjalli, Vernharður Vilhjálmsson og Anna Birna Snæþórsdóttir, sonur þeirra Vilhjálmur og eiginkona hans Elísabet Svava Kristjánsdóttir. Þessi fjögur býli endurspegla þá miklu fjölbreytni sem er í íslenskum landbúnaði því á þeim er að finna kúabúskap, sauðfjárbúskap, geitur, æðarvarp og önnur hlunnindi, grásleppuveiðar, gulrófnarækt, ferðaþjónustu og heimavinnslu dilkakjöts, svo fátt eitt sé talið.


Athöfnin var með hefðbundnu sniði og þegar þinghaldi hafði verið frestað að loknum ávörpum þeirra Haraldar og Einars Kristins var boðið upp á kaffi og með því, söng og hljóðfæraslátt. Þar voru á ferð Grundartangakórinn undir stjórn Atla Guðlaugssonar og Blásarakvintett Reykjavíkur sem vakti mikla lukku þegar hann lék lagið „Spjallað við bændur“.


Ræðurnar þrjár sem fluttar voru er hægt að nálgast á vefsíðu Búnaðarþings með því að smella hér.

Búnaðarþing mun standa fram á fimmtudag.


back to top