Búast má við talsverðu öskufalli allvíða suðaustanlands í dag

Kraftur í gosinu í Grímsvötnum er nokkuð minni en í gær og hefur haldist nokkuð stöðugur í nótt. Gosmökkurinn nær nú í um 10 kílómetra hæð, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Askan hefur verið að berast í suður og suðvestur. Aska hefur fallið mjög víða á Suðurlandi. Öskufall er einna mest á og í grennd við Kirkjubæjarklaustur og er skyggni þar ekki nema um 5-50 metrar, að sögn lögreglu- og björgunarsveitarmanna.

Vindur er nú að snúast í hánorðannátt og gert ráð fyrir að öskufall verði aðallega sunnan Vatnajökuls næsta sólarhringinn. Búast má við talsverðu öskufalli allvíða suðaustanlands og einnig má gera ráð fyrir öskufalli austantil á Suðurlandi fram eftir degi.


back to top