Brottflutningur sauðfjár af öskufallssvæðinu hefst í vikunni

Á þriðja hundrað fjár var flutt frá öskufallssvæðinu undir Eyjafjöllum í gær, nánar tiltekið frá Hrútafelli. Hrútafell er á því svæði sem orðið hefur hvað verst úti hvað öskufall snertir. Sauðféð, á annað hundruð fjár með lömbum, var flutt vestur í Mosfellsdal sem þýðir að féð á ekki afturkvæmt enda um flutning yfir sauðfjárveikivarnarlínur að ræða.
Á morgun verður svo hafist handa við að flytja sauðfé austur á bóginn af öskufallssvæðinu. Búið er að útvega beitarlönd á Þverá á Síðu og síðan er verið að yfirfara og endurbæta girðingar um landgræðslusvæðið á Leiðvelli. Því ætti að ljúka á allra næstu dögum. Hjá Búnaðarsambandinu er áfram unnið að því að útvega beitarlönd.

Allt verður gert til að halda jörðum í byggð, þótt bændur þurfi mögulega að yfirgefa þær tímabundið. Í dag fjallar Alþingi um frumvarp landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar, þar sem bætt verður í fjárheimildir til Bjargráðasjóðs, heimilað að flytja framleiðsluheimildir og þar með beingreiðslur eða tryggja ábúendum greiðslur, þótt þeir leggi niður búskap tímabundið.


back to top