Blíða í Flatey afurðahæst það sem af er ári

Niðurstöður afurðaskýrsluhalds nautgriparæktinnar fyrir mars hafa verið reiknaðar og birtar á nautgriparæktarsíðum vefs Bændasamtakanna. Við uppgjör höfðu borist skýrslur frá 94% búanna sem skráð eru í skýrsluhald. Rétt er að minna á það hér að einungis bú sem búið var að skila skýrslum frá fyrir miðnætti hinn 10. apríl geta birst á listanum yfir bú þar sem nytin var yfir 4000 kg eftir árskú. Helstu niðurstöður eru þær að 22.070,4 árskýr mjólkuðu að meðaltali 5.549 kg sl. 12 mánuði, sem er hækkun um 23 kg frá síðasta uppgjöri. Hæsta meðalnytin við lok mars var á Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði 7.923 kg eftir árskú. Næst á eftir kom búið í Hraunkoti í Landbroti, V-Skaft. en þar var nytin 7.867 kg. Þriðju hæstu meðalafurðirnar voru á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð, Rang., þar sem meðalnytin var 7.819 kg. Þetta eru sömu þrjú bú og voru efst á listanum í síðasta mánuði, eina breytingin er að tvö þau efstu höfðu skipt um sæti. Á 22 búum fór meðalnytin yfir 7.000 kg eftir árskú.

Nythæsta kýrin á síðustu 12 mánuðum var hin sama og næstu tvo mánuði á undan, Blíða nr. 1151 í Flatey á Mýrum, A.-Skaft., nyt hennar var 12.689 kg. Önnur kýrin í röðinni yfir nythæstu kýrnar síðastliðna 12 mánuði var Samba nr. 257 í Útvík í Skagafirði, heldur sama og í síðasta mánuði, en hún mjólkaði 11.964 kg. Hin þriðja á þessum lista í marslok 2012 var Sunna nr. 338 á Syðri-Bægisá í Öxnadal, Eyj. sem mjólkaði 11.525 kg sl. 12 mánuði. Alls náðu 11 skýrslufærðar kýr að fara yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum og ein þeirra yfir 12.000 eins og fram hefur komið.

Sjá nánar:
Niðurstöður skýrsluhaldsins á vef BÍ


back to top