Árni Snæbjörnsson er nýr aðstoðarmaður ráðherra

Árni Snæbjörnsson verður nýr aðstoðarmaður Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann tekur við af Gunnfríði Elínu Hreiðarsdóttur sem lét af störfum fyrir skömmu. Þetta kemur fram á vef Bændablaðsins.
Árni er sveitamaður í húð og hár. Hann er fæddur og uppalinn á Stað í Reykhólasveit. Árni tók kandidatspróf í búfræðum frá Hvanneyri og masterspróf í náttúrufræðum frá Edinborgarháskóla. Síðustu ár hefur Árni starfað sem framkvæmdastjóri Bjargráðasjóðs og einnig sem framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga.
Hann starfaði áður sem ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, áður Búnaðarfélagi Íslands, frá árinu 1985 til 2008. Áður kenndi Árni við Bændaskólann á Hvanneyri um tólf ára skeið og vann einnig hjá bútæknideild Rannsóknarstofnunar Landbúnaðarins.

Árni segist hlakka til að takast á við ný verkefni. „Þetta er spennandi verkefni. Ég hef unnið um langt skeið hjá Bændasamtökunum við mjög fjölbreytt verkefni og ég tel að þetta starf sé að því leyti keimlíkt því sem ég hef verið að sýsla við.“ Árni hefur þegar tekið til starfa en mun næstu vikurnar ganga frá lausum endum í fyrri störfum sínum áður en hann flytur sig í ráðuneytið.


back to top