Árangur í sauðfjársæðingum

Nú liggja fyrir tölur um fanghlutfall úr sauðfjársæðingum fyrir síðasta haust. Árangurinn er 69 % fanghlutfall með fersku sæði án samstillinga yfir landið. Meðalfjöldi lamba eftir á er 1,85. Árangur þegar um samstillingar er að ræða er alltaf lakari og nú er það 50 %. Dagsgamla sæðið gefur 50 % árangur og frosið sæði 45 % árangur. Sem fyrr er mikill breytileiki í fanghlutfalli hjá sæðingamönnum. Hér á Suðurlandi ná 5 einstaklingar sem sæddu 10 ær eða fleiri 90 % árangri eða meira. Þá eru 8 aðilar með milli 85 % og 90 % árangur. Minni breytileiki er milli hrútana. Bestur er árangurinn hjá forystuhrútunum eða um 80 % en lakast fer hann í 60 %. Athygli vekur hátt fanghlutfall þeirra hrúta sem langmesta notkun fengu í fyrra á stöðinni í Laugardælum. Bósi frá Þóroddstöðum var með 72 % fanghlutfall, 1,85 lamb eftir á og útsent sæði í nærri 2500 ær. Saumur frá Ytri-Skógum var með útsent sæði í 2310 ær og fanghlutfall 73 % og 1,85 lamb fætt eftir á. Til lambaskoðunar í haust ætti því að koma hópur af lömbum undan þeim.

 


back to top