Aðalfundur HS 2011

Fundargerð

Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn 31. mars 2011 í félagsheimili Hestamannafélagsins Sleipnis, Hliðskjálf


Dagskrá:
1. Fundarsetning, skipun starfsmanna fundarins
2. Skýrsla stjórnar, formaður HS, Sveinn Steinarsson
3. Ársreikningur, María Þórarinsdóttir
4. Umræður og afgreiðsla skýrslu stjórnar og reikninga
5. Tekin ákvörðun um félagsgjald 2011, tillaga frá stjórn
6. Kosningar, kosið verður um formann og þrjá varamenn. Einnig kosið um tvo aðalmenn í stað Berthu og Halldórs.
7. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara
8. Kosning  um aðal- og varafulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurl.
9. Kosning aðal- og varamanna á aðalfund Félags hrossabænda.

Kaffihlé

10.  Sumarexem, möguleikar á meðferð, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir Dr.Med.Sc
11.  Umræður
12.  Önnur mál


1. Fundarsetning, skipun starfsmanna fundarins
Sveinn Steinarsson setti fundinn kl. 20:00. Stakk upp á Hrafnkatli Karlssyni sem fundarstjóra og Höllu Eygló Sveinsdóttur sem fundarritara. Samþykkt.


2. Skýrsla stjórnar, Sveinn Steinarsson
Ágætu fundarmenn velkomnir á aðalfund HS


Á liðnu starfsár kom stjórn HS fimm sinnum saman, auk þess sem stjórnarfólk hittist gjarnan í kringum  þá viðburði sem samtökin standa fyrir hverju sinni. Þeir viðburðir sem  hafa verið á dagskrá í vetur eru fræðslukvöld um kynbótamatið og námskeið í bygginga- og hæfileikadómum. Þessir viðburðir hafa verið vel sóttir og nægur áhugi fyrir hendi. Það er að mínu mati mikilvægt hlutverk HS að beita sér fyrir fræðslu- og uppbyggingarstarfi er varða hrossarækt og velferð hrossa. Í því sambandi eigum við að nýtt okkur þá góðu tengingu sem hefur myndast á milli  HS og LbhÍ á Hvanneyri í samstarfi og samvinnu í námskeiðahaldi og fræðslustarfi. Það hefur fylgt haustverkefnum stjórnar að setja saman vetrardagskrá HS og eru allar ábendingar um efni námskeiða og viðburða frá félagsmönnum vel þegnar.

Það reyndi á hesta og hestamenn á síðasta ári, margt fór á annan veg en áætlað hafði verið. Smitandi hósti fór sem faraldur um allt land með afleiðingum sem við þekkjum. Hestatengd starfsemi varð fyrir áfalli, fresta varð landsmóti o.s.frv. Af þessu þurfum við að draga lærdóm bæði hvað varðar fyrstu viðbrögð og viðbragðsáætlanir. Þannig hægt verði að lágmarka tjón ef svona atburðir endurtaka sig. En umfram allt þá þurfum við að virða það umhverfi sem íslenski hestur lifir í, hann er berskjaldaður gagnvart hinum ýmsu smitsjúkdómum sem mjög auðvelt er að bera til landsins. Því segi ég virðum sóttvarnir og áminnum hvort annað. Í mínum huga getur það ekki verið viljaverk að bera til landsins smitefni heldur hugsunarleysi og vítavert kæruleysi. Það bendir ekkert til annars þessa dagana en hrossin séu heilsuhraust og hugur sé í hestamönnum  það er mikið um hverskyns uppákomur meðal hestamanna og stórviðburðurinn landsmót á næsta leyti.
Það sem framundan er hjá HS er ungfolasýning þann 9.apríl en hún er haldin í tengslum við stóðhestaveislu hrossaræktar.com svo og Ræktun 2011  sem verður 23.apríl. Hvetjum við félagsmenn til að taka þátt í þessum sýningum til að kynna og sýna ræktunargripi og sjá aðra. Eins og kynnt var í dagskrá aðalfundar þá verður Sigurbjörg Þorsteinsdóttir verkefnastjóri í rannsóknum á sumarexemi með erindi hér síðar á fundinum þar sem hún gerir grein fyrir þeim árangri sem rannsóknarvinnan hefur skilað. Það er mikið heilbrigis- og velferðarmál fyrir íslenska hestinn erlendis að við fáum góða niðurstöðu gagnvart sumarexeminu. Auk þess sem staða okkar á markaði erlendis myndi gjörbreytast ef unnt reynist að gera hestinn ónæmann fyrir sumarexemi.
  Ég vona að við eigum hér góðan og gagnlegan fund í kvöld.


3. Ársreikningur
María Þórarinsdóttir fór yfir reikninga samtakanna.

Niðurstaða reikninga:
Gjöld:      4.424.249 kr
Tekjur:      5.429.673 kr
Hagnaður:     1.005.424 kr


Eignir:               27.411.851 kr
Skuldir:                   339.492 kr


4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Karl Wernersson kvaddi sér hljóðs, taldi að samtökin væru mjög vel rekin. Spurði hvers vegna tekur af sýningum og folatollum hefðu aukist þetta mikið milli ár. María svaraði að tekur af folatollum væru bæði fyrir árið 2009 og 2010. Það hefði verið seinagangur á því að innheimta folatollana árið 2009, þannig megnið af þeim hefði ekki verið innheimt fyrr en á árinu 2010. Varðandi tekur af sýningum væri skýringanna að leita í því að þetta væri bókað á annan hátt. Árið 2009 hefði verið búið að draga hluta kostnaðar frá áður en tekjurnar voru bókaðar.

Viðar Steinarsson spurði út í efnahagsreikninginn hvaða eign þetta væri upp á 250.000kr í Sæðingastöðinni ehf.

Hrafnkell Karlsson svaraði fyrir það sagði þetta vera það hlutafé sem samtökin lögðu til þegar Sæðingastöðin ehf var stofnuð í samstarfið við Dýralæknaþjónustuna á Stuðlum.

Kristinn Guðnason spurði hvort samtökin ættu djúpfrystitækin að öllu leyti eða með Dýralæknaþjónustinni.

Helgi Eggertsson sagðist halda að samtökin ættu tækin ein því þau hefðu verið keypt fyrir styrk frá Stofnverndarsjóði. Þess vegna hefðu samtökin ekki kunnað við að selja tækin þegar sæðingum var hætt í Gunnarsholti. Tækin stæðu hins vegar til boða fyrir þá sem hefðu áhuga á að fara út í að djúpfrysta sæði.

Reikningar að lokum afgreiddir og samþykktir samhljóða.


5. Tekin ákvörðun um félagsgjald 2011, tillaga frá stjórn
Tillaga frá stjórn um að árgjald verði óbreytt 5.000 kr auk seðilgjalds. Hrafnkell Karlsson las upp tillögu um félagsgjaldið og hún var samþykkt.


6. Kosningar, kosið verður um formann og þrjá varamenn í stjórn. Einnig kosið um tvo aðalmenn í stað Berthu og Halldórs
Úr stjórn á að ganga Sveinn Steinarsson, formaður. Hann gefur kost á sér áfram. Sveinn Steinarsson endurkjörinn með lófaklappi.

Halldór Guðjónsson og Bertha Kvaran gefa ekki kost á sér lengur en Halldór átti eftir eitt ár af sínum stjórnartíma en Bertha tvö ár, tillaga kom um að Sigríkur og Birgir Leó taki þeirra sæti en þeir hafa verið í varastjórn. Samþykkt með lófaklappi.

Tillaga kom um að kjósa Katrínu Ólínu Sigurðardóttur, Ólaf Þórisson og Þórdísi Erlu Gunnarsdóttur sem varamenn. Samþykkt með lófaklappi.


7. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara
Tillaga frá stjórn um að skoðunarmenn verði Guðmundur Gíslason og Sveinn Sigurmundsson og til vara Pétur Ottósson og Sigurbjartur Pálsson. Samþykkt.


8. Kosning  um aðal- og varafulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands (6)
Tillaga frá stjórn um að á aðalfund BSSL mæti Helgi Eggertsson, Sveinn Steinarsson,  María Þórarinsdóttir, Þuríður Einarsdóttir, Bjarni Þorkelsson og Birgir Leó Ólafsson. Til vara verði,  Ólafur Einarsson, Sigríkur Jónsson og Hrafnkell Karlsson. Ekki komu fram fleiri tillögur og tillagan því borin undir atkvæði. Samþykkt.


9. Kosning aðal- og varamanna á aðalfund Félags hrossabænda (11)
Tillaga frá stjórn um fulltrúa á aðalfund FH, þar mæti  aðal- og varastjórn HS, Helgi Eggertsson, Bjarni Þorkelsson og Anton Níelsson. Til vara, Viðar Steinarsson Gunnar Arnarson, Svanhildur Hall, Gunnar Dungal. Ekki komu fram fleiri tillögur og tillagan því borin undir atkvæði. Samþykkt.


10. Sumarexem (smámýsofnæmi í hestum) möguleikar á meðferð / Sigurbjörg Þorsteinsdóttir
Rannsóknir á sumarexemi í hrossum er samstarfsverkefni Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Háskólans í Bern í Sviss. Rannsóknirnar hafa staðið frá árinu 2000 og eru styrktar af Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Rannís,Vísindasjóði Háskóla Íslands, Svissneska vísindasjóðnum og WETSUISSE.

Sumarexem er ofnæmi gegn prótínum sem berast í hross við bit mýflugna af ættkvíslinni Culicoides (smámý), en tegundir af þeirri ættkvísl lifa ekki hér á landi. Hross af öllum kynjum geta fengið ofnæmið en það er sérstaklega algengt í íslenskum hrossum sem flutt hafa verið úr landi. Um helmingur útfluttra hrossa sem hafa verið 2 ár eða lengur á flugusvæðum fá sumarexem ef ekkert er að gert til að verja þá flugnabiti. Íslensk hross sem fædd eru erlendis virðast ekki í meiri hættu á að fá sumarexem en hross af öðrum kynjum.

Markmið rannsóknanna er þríþætt:
• Finna og greina prótínin sem valda ofnæminu (ofnæmisvakana)
• Rannsaka ónæmissvarið og feril sjúkdómsins
• Þróa ónæmismeðferð það er bólusetningu eða afnæm

Í dag er verið að vinna í að þróa ónæmismeðferð. Þrír möguleikar; próteinbóluefni, genabóluefni (veiruferjubóluefni) og slímhúðar bólusetning/ afnæming. Með afnæmingu er verið að auka þol gegn ónæmisvakanum. Í dag sjá menn mestu vonina í afnæmingu. Byrjað verður að prófa afnæmingu með því að fóðra hesta á byggi sem hafa að geyma þessa ofnæmisvaka. Tekur heilmikinn tíma því byggið þarf að fara í gegnum þrjár kynslóðir. Gríðarlega dýrt og tímafrekt verkefni því það gefur auga leið að rannsóknir sem hægt er að gera inni á tilraunastofu eru mikið ódýrari en þar sem gera þarf tilraunir á stórum dýrum eins og hrossum. Hugmyndin er að afnæma um slímhúð meltingarfæra með því að fóðra á byggi. Einnig er í prófun að sprauta í húð eða eitla ofnæmisvökum. Enn er langt í land en ef það tekst að halda þessu verkefni áfram gætu þetta orðið tímamóta niðurstöður.


11. Umræður
Viðar Steinarsson spurði hverngi Sigurbjörg sæi framtíð þessa verkefnis fyrir sér. Hvenær hægt verði að fara að afnæma eða bólusetja hross.

Sigurbjörg svaraði því til að hún vildi nú bara taka eitt skref í einu. Núna væri brýnast að fjármagna verkefnið þannig þau yrðu ekki stopp því þá yrði erfitt að hefjast handa á nýjan leik. Tilraunir með hross væru ákaflega dýrar en um leið og hægt verður að sýna fram á árangur þá munu einkaaðilar sjá sér hag í að styrkja verkefnið. Þurfum stóran hóp hrossa sem flutt verða erlendis, helst þurfa þau öll að vera a svipuðum slóðum í að minnsta kosti þrjú ár.

Guðlaugur Antonsson spurði hvort ekki væri best að leggja höfuðáherslu á afnæmingu úr því að það væru bara 50% þeirra hrossa sem flutt væru úr landi sem fengju sumarexem. Þá væri varla ástæða til að bólusetja öll hross sem færu úr landi.

Sigurbjörg sagði að forvarnarleiðin væri mun erfiðari og þess vegna væri fóðrun á byggi mjög spennandi kostur.

Anton Páll Níelsson spurði hversu langa tíma tæki að þróa meðferð gegn sumarexemi ef ekki vantaði fjármagn.

Sigurbjörg sagði að það væri erfitt að svara því, best væri að taka bara eitt skref í einu.

Óðinn Örn Jóhannsson spurði hvort sumarexem hrjáði ekki önnur hrossakyn? Einnig hvort meðhöndlunin yrði mjög dýr, þannig menn myndu aðeins meðhöndla dýrustu hrossin. Að lokum spurði hann hvort folöld fengju sumarexem.

Sigurbjörg sagði að sumarexem finndist í öðrum hestakynjum í 10% tilvika sem væri sama hlutfall og í íslenskum hrossum sem fædd væru erlendis. Lengi býr að fyrstu gerð, folöld sem ekki frá mótefni frá móður í móðurkvið eru næm fyrir sumarexemi. Hryssa sem ekki hefur komist í kynni við smámý myndar ekki mótefni gegn því.  Gaman að segja frá því að bandarísk kona er að fara af stað með tilraun á sumarexemi á íslenskum folöldum. Búið er að finna hryssur í verkefnin og fyrstu folöldin fæðast í vor. Verkefnið er styrkt af bandarískum aðilum.

Kristinn Guðnason sagði sumarexemverkefnið væri ekki dýrt vegna þess að Sigurbjörg Þorsteinsdóttir og Vilhjálmur Svansson væru svo frek til fjárins. Hann skildi í raun ekki hvað þau hefðu komist langt með svo takmarkað fjármagn. Hrossaræktendur hafa staðið mjög vel við bakið á þessum rannsóknum. Má bara ekki gerast að þetta verkefni stoppi vegna fjármagnsskorts. Verðum að vera með sérstaka tilraunahesta, fólk lánar ekki hestana sína í verkefni sem tekur svona langan tíma og er að auki sársaukafullt fyrir hestana. Allir hesteigendur reyna að komast hjá því að hestur fái sumarexem með því að hafa á honum ábreiðu og hafa hann inni á þeim tíma sem flugan er verst.

Sveinn Steinarsson, þegar kemur að því að bólusetning verði raunhæf, hversu oft má búast við að þurfi að bólusetja hestinn.

Sigurbjörg sagði að það færi vissulega eftir bóluefninu en vonandi myndu þrjár sprautur duga á tveggja mánaða fresti áður en hrossið færi úr landi.

Sveinn Steinarsson spurði hvort byggið væri lausnin?

Sigurbjörg svaraði því til að það væri langflottasta lausnin en enn væri ekki komið í ljós hvort hún myndi virka.

Birgir Leó Ólafsson spurði hvort þetta smámý ætti ekki eftir að koma til Íslands.

Sigurbjörg sagði að það gæti alveg gerst en sennilega yrði umhleypingasöm tíð erfið fyrir hana, kuldi væri ekki vandamál.

Kristinn Guðnason spurði hvað hvað myndi taka langan tíma að afnæma hest ef allt gengi upp.

Sigurbjörg svaraði því til að það ætti ekki að taka lengri tíma en ca. tvo mánuði.

Karl Wernersson spurði um árlegan kostnað við verkefnið.

Sigurbjörg sagði að til þessa að geta haldið tveimur doktorsnemum í vinnu og útvegað það sem þeir þyrftu væri árlegur kostnaður trúlega um 12 milljónir á ári. Núna væri staðan sú að þau væru bara búin að tryggja sér fjármagn upp á 6 milljónir sem væri áhyggjuefni.

Helgi Eggertsson spurði hvort þessi meðferð myndi virka á alla hesta.

Sigurbjörg sagði að það myndi hún gera.

Helgi Eggertsson spurði hvort erfðir stýrðu því að einhverju leyti hvað hross væru næm fyrir sumarexemi.

Vilhjálmur Svansson sagði að það hefði verið sýnt fram á það erlendis að sumarexem stýrðist af erfðum og því væri sumstaðar bannað að nota stóðhesta sem hefðu fengið sumarexem. Íslenskir hestar fæddir á Íslandi hafa hins vegar ekki myndað mótefni gegn þessu smámýi og þar af leiðandi hefðu erfðir ekkert með það að gera hvort þeir fengju sumarexem þegar þeir væru fluttir úr landi. Þessu mætti alls ekki rugla saman.

Kristinn Guðnason sagði að það væri klárt að þegar búið væri að þróa aðferðir til að lækna eða koma í veg fyrir sumarexem í hrossum fæddum á Íslandi yrði það mikilvægasta markaðstæki okkar og myndi opna nýja markaði.

Ólafur Einarsson lagði til að HS myndi styrka þetta verkefni myndarlega þannig hægt væri að halda því áfram.

Hrafnkell Karlsson þakkaði þeim Sigurbjörgu og Vilhjálmi kærlega fyrir þeirra innlegg á fundinum og sagði brýnt að hrossaræktendur héldu áfram að styrka þetta verkefni. Það mætti ekki stranda á fjárskorti.


12. Önnur mál
Hrafnkell Karlsson sagði að það lægi fyrir því samþykkt frá aðalfundi 2008 að ekki mætti ganga á höfuðstól samtakanna nema með samþykki aðalfundar. Nú væri opið fyrir önnur mál þannig fundarmenn skyldu endilega tjá sig.

Eftir nokkrar umræður um rannsóknir á sumarexemi, þar fundarmenn lýstu þeirri skoðun sinni að nauðsynlegt væri að tryggja nægt fjármagn til áframhaldandi rannsókna, varð eftirfarandi tillaga til: 

„Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn 31. mars 2011 samþykkir að styrkja rannsóknir á sumarexemi í íslenska hestinum um 6.000.000 kr. Jafnframt skorar fundurinn á önnur hrossaræktarsamtök í landinu að leggja verkefninu lið“.

Tillagan var samþykkt með þorra atkvæða.

Viðar Steinarsson sagði málið brýnt og spurði hvort ríkissjóður hefði ekki komið að því að styrkja þetta verkefni. HS þyrfti að berjast fyrir því að koma þessu á föst fjárlög hjá ríkissjóði svo tryggt væri að ljúka mætti verkefninu.

Hrafnkell Karlsson skoraði á Óðinn Örn Jóhannsson að skrifa um þetta verkefni og vinna því fylgi meðal hestamanna.

Kristinn Guðnason sagði að það væri mikilvægt að greinin léti í sér heyra og nú styttist í formannafund hrossaræktarsamtakanna í landinu. Þar þyrfti að mótmæla því hvernig allt fjármagn var skorið niður hjá Framleiðnisjóði landbúnaðarins, það væri óásættanlegt að taka allt fjármagn af sjóðnum. Bráðnauðsynlegt væri að hafa fjármagn til rannsókna.

Sveinn Steinarsson taldi að niðurstaða fundarins væri góð. Þakkaði traustið sem honum hefði verið sýnt með endurkjöri. Þakkaði Halldóri, Berthu og Hannesi fyrir þeirra framlega til samtakanna en þau væru nú stödd erlendis. Fagnaði nýjum liðsmönnum í varastjórn og sagðist vænta mikils af þessu unga fólki. Til að halda samtökunum lifandi væri mikilvægt að fá ungt fólk til starfa fyrir samtökin sem víðast af svæðinu. „Vona að við höfum blásið í glæðurnar“, sagði Sveinn. Þakkaði að lokum fundarmönnum og starfsmönnum fundarins fyrir góðan fund og sagði fundi slitið kl. 22:30.


/Halla Eygló Sveinsdóttir


back to top