Aðalfundur FKS 29. jan. 2008

Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi 2008
haldinn í Árhúsum Hellu þriðjudaginn 29. janúar 2008 boðaður kl: 11.30 og
hófst hann með súpu og brauði í boði FKS, formlegur fundur hófst kl.12.00.


Formaður FKS Sigurður Loftsson Steinsholti setti fund, bauð fundarmenn velkomna, þ.á.m. gesti fundarins sem eru Elín Björg Jónsdóttir fulltrúi BSRB í verðlagsnefnd, Þórólfur Sveinsson formaður Landssambands kúabænda og Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri LK.
Einnig gerði hann tillögu um starfsmenn fundarins, þau Katrínu Birnu Viðarsdóttur Ásólfsskála sem ritara og Valdimar Guðjónsson Gaulverjabæ sem fundarstjóra. Var það samþykkt af fundarmönnum.


1.Skýrsla formanns 2007, Sigurður Loftsson.
Óhætt er að segja að undangengin ár hafi verið viðburðarík hvað starfsumhverfi íslenska kúabænda áhrærir og síðasta starfsár var engin undantekning hvað það varðar.
Ný ríkisstjórn komst til valda og nýr ráðherra landbúnaðarmála í sameinuðu ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndir voru sameinaðar og Landbúnaðarstofnun varð að Matvælastofnun með sameiningu og tilflutningi ýmissa málaflokka. Skógrækt og Landgræðsla fluttust í umhverfisráðuneyti og landbúnaðarháskólarnir til menntamálaráðuneytis.
Eins var veðurfarið sviptingasamt. Eftir óvenju sólríkt og þurrt sumar sem væntanlega skilaði flestum góðu fóðri fylgdi mjög úrkomu- og vindasamur vetur.

Félagsráð hélt alls 5 fundi á árinu og var á þeim fjallað um það sem hæst bar á vettvangi félagsins og í málefnum greinarinnar hverju sinni. Hins vegar voru engir formlegir stjórnarfundir haldnir, en mál afgreidd jöfnum höndum í tölvupósti eða síma.


Aðalfundur Landssambands kúabænda var haldinn á Akureyri 13. og 14. apríl og sendi félagið þangað 8 fulltrúa. Þar var gjaldkeri félagsins Jóhann Nikulásson kosinn í stjórn Landssambandsins í stað Egils Sigurðssonar, sem þá var tekinn við stjórnarformennsku í Auðhumlu. Eins hefur formaður félagsins verið varaformaður Landssambandsins nú um nokkurt árabil, þannig að tengsl þessara tveggja samtaka eru mikil.


Í kjaramálaályktun sem samþykkt var á fundinum kom m.a. fram að:
“Fundurinn telur það grundvallaratriði að ekki sé óvissa um þau réttindi og þær skyldur sem fylgja greiðslumarki til mjólkurframleiðslu og/eða greiðslum á grundvelli samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar.”

Nú liggur fyrir að birgðastaða mjólkurvara er orðin það góð, að ekki er þörf á umframmjólk vegna innlenda markaðarins. Á þessu verðlagsári mun því reyna á þá útflutningsskyldu sem fylgir greiðslumarki í mjólk. Það verður að vera alveg öruggt að sömu lög og reglur gildi fyrir alla mjólkurinnleggjendur og öll mjólkursamlög hvað þetta varðar, en um það hefur ríkt óvissa frá stofnun Mjólku ehf árið 2005. Félag kúabænda á Suðurlandi hefur ítrekað knúið á um það við Landbúnaðarráðuneytið að þessari óvissu verði eytt. Þaðan hafa enn engin svör borist, þó vitað sé að aðilum þar sé full kunnugt um alvöru málsins.


Eins var á fundinum knúið á um fullt afnám kjarnfóðurtolla, enda að verða mikilvægt við þær aðstæður sem nú ríkja að auka aðhald á fóðurvörumarkaði. Í viðræðum við landbúnaðarráðherra hefur komið fram, að hann vilji nýta afnám þessara tolla sem skiptimynt í samningum við Evrópusambandið um lækkun tolla á íslenskar landbúnaðarafurðir. Það er vissulega jákvæð aðferðafræði en þeir samningar mega þó ekki dragast úr hömlu. Nú hefur þó heyrst að til standi að fella niður þessa tolla á útmánuðum og er það sannarlega gott ef satt reynist.


Landssamband kúabænda hélt þrjá almenna bænda fundi á félagssvæðinu 22. og 23. október. Þar var að venju fjallað um þau mál sem unnið hefur verið að á vettvangi Landssambandsins. Af þeim efnistökum sem fyrir fundunum lá, hefur trúlega mesta athygli vakið kynning á niðurstöðum mats á hagkvæmni þess að nota annað kúakyn við mjólkurframleiðslu hér á landi. Aðdraganda þessa verkefnis má rekja aftur til aðalfundar LK 2006, sem fól stjórn að framkvæma það. Áfanganiðurstöður voru kynntar fyrir aðalfundi 2007, sem áréttaði mikilvægi þess að verkefninu yrði lokið hið fyrsta. Verkefnið var all viðamikið og tók til bæði mats á líklegum framleiðslukostnaði mjólkur, annars vegar með núverandi íslensku kúakyni og hins vegar fjórum öðrum kúakynjum, sem og áhrifa á markað og úrvinnslu mjólkurvara. Niðurstöður verkefnisins sýndu, út frá þeim forsendum sem gefnar voru, að umtalsverðan hagrænan ávinning megi sækja með innflutningi afkastameira kúakyns. Viðbrögð við niðurstöðunum hafa hinsvegar ekki látið á sér standa og eins og búast mátti við sýnist þar sitt hverjum. Ólíklegt verður því að telja að samstaða verði um innflutning nýs kúakyns á félagslegum forsendum í bráð. Hvort einstaklingar eða ræktunarfélög láta reyna á umsókn um slíkt verður hinsvegar að koma í ljós.


Annað mál kom talsvert til umræðu á haustfundunum og þá einkum á eystri hluta félagssvæðisins. En það voru reglur um flutning nautgripa milli varnarhólfa og meðhöndlun Landbúnaðarstofnunar á þeim. Núverandi varnarhólf eru arfur frá fyrrihluta síðustu aldar, þegar barattan við mæðiveiki í sauðfé stóð sem hæst. Mæðiveikin hvarf eftir erfiða baráttu, en varnarhólfin sitja eftir sem einhverskonar dauðalína útvaldra búfjártegunda. Á síðustu misserum hafa komið upp nokkur mál þar sem synjun Landbúnaðarstofnunar á flutningi nautgripa milli hólfa hefur haft umtalsverð og jafnvel veruleg efnahagsleg áhrif fyrir eigendur gripanna. Á tímum eins og nú, þegar samþjöppun og stækkun búa er jafn mikil og raun ber vitni, geta reglur af þessu tagi og beiting þeirra orðið til þess að hefta framþróun hinna svokölluðu hreinu svæða og það getur tæpast verið tilgangurinn. Á sínum tíma skipaði Landbúnaðarráðherra nefnd, til að endurskoða varnir gegn búfjársjúkdómum. Nefndin skilaði skýrslu í júlí 2006 og eftir umfjöllun búnaðarþings 2007, var svo skipuð önnur nefnd til að skoða betur ýmsa þætti málsins. Hvað nautgriparæktina varðar þá er málið þannig statt, að LK hefur óskað þess við Landbúnaðarráðuneytið, að skipaður verði starfshópur til að gera nýtt áhættumat vegna þeirrar hættu sem nautgripum stafar af sjúkdómum. Einnig verði skoðað hvernig þessum málum er háttað í löndum þar sem svipað ástand er og hér. Að því loknu þarf að fara yfir reglur og verkferla Matvælastofnunar, sem áður hét reyndar Landbúnaðarstofnun. Enda grundvallaratriði að bændur geti treyst því að vinnubrögð þessarar mikilvægu stofnunar, séu hafin yfir efasemdir um sanngirni, jafnræði og fagmennsku í vinnubrögðum.


Félagið sendi 5 fulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands, sem að þessu sinni var haldinn á Heimalandi 20. apríl. Þar lagði félagið fram tillögu um að skipuð verði nefnd til að endurskoða starfsemi og fjármögnun búnaðarsambandsins og var hún einróma samþykkt. Samkvæmt tillögunni skal einkum litið til eftirfarandi þátta.

1. Hvaða verkefni skuli kostuð af búnaðarlagasamningi.
2. Hvert sé eðlilegt grunngjald hverrar búgreinar af búnaðargjaldi.
3. Hvað skuli teljast grunnþjónusta hverrar búgreinar og hvaða þjónusta skuli seld.

Nefndin var skipuð nú í haust, en hefur vegna anna ekki náð að hefja störf.


Búnaðarsamband Suðurlands var stofnað 6. júlí 1908 og er því 100 ára á þessu ári. Af þessu tilefni verður ýmislegt gert til hátíðabrigða og var t.d. þann 18. janúar sl. haldinn sérstakur hátíðarformannafundur með kvöldverði. Þar voru m.a. kjörnir heiðursfélagar og rifjuð upp ágrip af sögu sambandsins, sem Páll Lýðsson hefur unnið að og til stendur að komi út nú á vordögum. Stærsti viðburður afmælisársins verður þó vafalaust Landbúnaðarsýningin sem til stendur að halda á Hellu 22. – 24. ágúst og er undirbúningur hennar kominn á fullan skrið. Þetta á að verða metnaðarfull og glæsileg alhliða landbúnaðar- og neytendasýning, þar sem ekkert verður til sparað. Til stendur að kúasýningin Kýr 2008 verði hluti sýningarinnar og mun félagið koma mjög að því starfi.
Hin seinni ár hafa tengsl félagsins við Búnaðarsambandið verið afar góð. Enda hefur stjórn og starfsfólk sambandsins haft mikinn metnað fyrir hönd greinarinnar og skilning á mikilvægi þess að rækta þann áhuga sem félagið hefur sýnt á starfi þess. Fyrir þetta ber að þakka, um leið og Búnaðarsambandi Suðurlands eru færðar árnaðaróskir vegna þessara tímamóta.


Eins og flestum mun kunnugt, eru í núgildandi búvörusamningi ákvæði um ráðstöfun fjármuna til óframleiðslutengdra og eða minna markaðstruflandi stuðnings. Nokkrir fundir voru haldnir um málið síðasta vor og var gengið frá ráðstöfun fjármuna vegna yfirstandandi verðlagsárs þannig, að 8 milljónum var ráðstafað sem þróunarfé en 49 milljónir greiddar sem eingreiðsla á allt greiðslumark eins og það stóð 1. sept. sl. Meira hefur ekki verið ákveðið en rætt hefur verið um útfærslur og upphæðir út á jarðrækt og kynbótastarf. Engir fundir hafa verið haldnir í samninganefnd frá því síðasta vor og málið því í biðstöðu.


Heildarframleiðsla síðasta verðlagsár var um 125 milljónir lítra en það er aukning um nálægt 10 %. Þá er áætlað að innvegið magn hjá Mjólku ehf hafi verið 1,5 milljón lítra. Greiðslumarkið var 116 milljónir lítra og umframmjólk því u.þ.b. 9 milljónir lítrar. Greitt var fullt afurðastöðvaverð fyrir alla umframmjólkina á verðlagsárinu.
Sala mjólkurvara var þannig að á próteingrunni seldust nálægt 116 milljónir lítra en miðað við fitu nálægt 109 milljónir lítra. Það er aukning á báðum liðum frá fyrra ári og þó einkum á fitunni, sem hljóta að teljast góðar fréttir. Eins eru horfur í sölu góðar á yfirstandandi ári.


Ekki verður annað séð en framleiðsla mjólkur hafi gengið vel það sem af er þessu ári. Innvigtun nú í lok desember hjá Auðhumlu var komin í 38 mill./ltr. á móti tæpum 37 mill./ltr. í fyrra. Greiðslumarkið nú er 117 mill./ltr. eða 1 mill./ltr. meira en í fyrra og þegar er því búið að vinna upp ríflega þá aukningu. Framleiðsla ársins ætti því að geta orðið talsvert umfram greiðslumark. Hins vegar er birgðastaða innanlands orðin það góð að væntanlega er ekki þörf á umframmjólk fyrir heimamarkað. Útflutningur mjólkurvara síðasta verðlagsár gekk ekki með þeim hætti sem vænst var. Sala á Bandaríkjamarkað var stöðug en hefði þurfti að vera vaxandi og aðrir markaðir gáfu ekki viðunandi verð. Í þessu ljósi gaf MS út í júní sl. að greiðisla fyrir umframmjólk á þessu verðlagsári yrði 27 kr/ltr. Aukin eftirspurn og verulegar hækkanir á erlendum mörkuðum síðustu misseri hafa hinsvegar leitt til þess, að nú um miðjan janúar var þetta verð hækkað í 35 kr/ltr. Í síðasta Sveitapósti, þar sem umrædd hækkun var tilkynnt sagði Guðbrandur Sigurðsson framkvæmdastjóri Auðhumlu eftirfarandi “Verð þetta endurspeglar útflutningsverð okkar þegar við flytjum út skyr og smjör að frádregnum breytilegum kostnaði. Það er mikilvægt að iðnaðurinn og framleiðendur taki höndum saman og vinni skipulega að því að byggja upp útflutningsmarkað fyrir íslenskar mjólkurafurðir. Eðlilegt markmið væri að byggja upp útflutningsmarkað fyrir um 15 milljónir lítra af mjólk á næstu árum.”
Ástæða er til að taka undir þessi orð Guðbrandar, enda gífurlega mikilvægir hagsmunir fyrir greinina, þegar jafnvel gengur og nú við framleiðsluna, að stækka markaðinn. Auk þess, að með þessu móti er verið að skapa mótvægi gegn hugsanlegum auknum innflutningi mjólkurafurða. Hinsvegar má öllum vera ljóst að framleiðendur munu ekki til lengdar framleiða mjólk á erlenda markaði, nema hún skili talsverðu umfram þann breytilega kostnað sem til fellur við hana.


Lágmarksverð mjólkur til framleiðenda hækkaði hinn 1. júní um 1,19 kr/ltr. og þann 1. nóvember um 62 aura/ltr. vegna launaliðar í samræmi við yfirlýsingu SAM frá haustinu 2006. Verðlagsnefnd ákvað síðan hækkun til framleiðenda um sem nemur 70 aura/ltr. þann 1. janúar sl. og er þar miðað við framreikning á hækkunarþörf eins og hann birtist í verðlagsgrundvelli mjólkur 1. september sl. Frá því í haust hafa miklar kostnaðarhækkanir dunið á greininni, sem ekki hefur fengist leiðrétting fyrir ennþá. Munar þar einkum um miklar hækkanir á kjarnfóðri sem ekki sér fyrir endann á auk þess sem boðaðar eru gífurlegar hækkanir á áburðarverði. Þessar hækkanir eru ekki síst til komnar vegna breyttra aðstæðna á heimsmarkaði fyrir landbúnaðarvörur, sem flest bendir til að séu komnar til að vera. Því er algerlega nauðsynlegt að mjólkurverð á markaði verði leiðrétt þeirra vegna.


Innlagt nautakjöt síðastliðið ár var 3.557 tonn, sem er aukning um 11,3% og salan 3.563 tonn sem er aukning um 11.9% Biðlistar eftir slátrun eru nær engir og eftirspurn áfram mikil. Innflutningur fyrstu 11 mánuði ársins var 284 tonn.
Verð hjá sláturleyfishöfum hækkuðu mikið á árinu 2006 en hafa verið óbreytt síðan í febrúar s.l. Fyrverandi ríkisstjórn samþykkti tvöföldun gripagreiðslna fyrir holdakýr sl. vori og kemur það nautakjötsframleiðslunni til góða. Framleiðendur í þessari grein finna þó fyrir kostnaðarhækkunum eins og aðrir, en óvíst er um hvernig ganga muni að sækja leiðréttingar á markaðsverðum þar sem lækkun tollkvóta 1. mars sl. setja þar væntanlega einhverjar skorður. Eins er óljóst hvort og þá hvenær afnám útflutningsskyldu kindakjöts fer að gæta á þessum markaði.
Nú um áramót gerði Auðhumla samning við Sjóvá um hóprekstrarstöðvunartryggingu fyrir mjólkurframleiðendur. Þannig eiga allir félagsmenn Auðhumlu nú að vera tryggðir gagnvart rekstrastöðvun sem stafar af bruna eða óveðrum, auk þess sem stefnt er að því að bæta inn atriðum eftir því sem hagkvæmt þykir. Eins hefur á vettvangi stjórnar LK verið unnið eftir þeirri stefnu að þátttöku greinarinnar í B-deild Bjargráðasjóðs verði hætt. Í því augnamiði er í gangi undirbúningur að gerð trygginga sem koma munu í stað Bjargráðasjóðs og verða boðnar kúabændum á almennum markaði. Þannig er ljóst að hraðar dregur nú en áður að því að búið verði að koma tryggingavernd B-deildar Bjargráðasjóðs sem varða kúabændur fyrir á almennum tryggingamarkaði. Undanfarið hefur verið í gangi nefnd á vegum Félagsmálaráðuneytisins sem hefur haft það verkefni að skoða framtíð sjóðsins, eins hefur það sjónarmið komið fram hjá samtökum sveitarfélaga að hætta þátttöku í rekstri sjóðsins. Hvert það leiðir er hinsvegar óljóst.


Stjórn LK hóf nú á haustdögum undirbúning að stefnumótun vegna næsta mjólkursamnings. Skipaður hefur verið 9 manna hópur til að vinna með stjórn, varastjórn og framkvæmdastjóra að þessari stefnumörkun. Sem fyrsta skref í þessu starfi mun Landssamband kúabænda standa fyrir málþingi á Hótel Loftleiðum n.k. föstudag 1. febrúar sem hlotið hefur vinnuheitið „Íslensk mjólkurframleiðsla árið 2020“. Markmið þess er að varpa ljósi á framtíðarsýn og horfur í nautgriparækt og mjólkurframleiðslu hér á landi næstu 10-15 ár.
Það eru að sönnu miklar hræringar í starfsumhverfi okkar um þessar mundir og ör framþróun í uppbyggingu og tækni. Eins eru mikil umrót í matvælaframleiðslu heimsins, sem án nokkurs vafa mun hafa mikil áhrif rekstrarumhverfi okkar í framtíðinni. Við verðum því vafalaust að reyna að horfa sem víðast yfir við þessa stefnumörkun.


Góðir félagar hér hefur verið drepið á því helsta sem komið hefur verið að í störfum og umræðum innan félagsins á liðnu ári. Ég vil að lokum þakka stjórn, félagsráði, félagsmönnum sem og öllum öðrum sem ég hef átt samskipti við á vettvangi félagsins liðið ár.


2. Reikningar félagsins.
Jóhann Nikulásson
gerði grein fyrir reikningum félagssins 2007 sem voru réttu megin við núllið. Tekjur – 988.171 kr., gjöld – 824.844 kr. hagnaður ársins alls -163.327 kr.


3. Umræður um skýrslu og reikninga.
Guðmundur Stefánsson Hraungerði
þakkar stjórn, finnst félagsskapurinn megi ekki gefast upp á innflutningi nýs kúakyns í tilraunaskyni og telur ekki þurfa neina atkvæðagreiðslu til þess frekar en á öðru s.s. nýjum grasstofnum. Tekur undir að óvissu gagnvart Mjólku þurfi að eyða. Þar þarf að vera unnið á sama grunni svo ekki séu tvö kerfi.
Fundarstjóri bar upp reikninga sem voru samþykktir samhljóða.


4. Erindi: Verðlagning mjólkur – áherslur BSRB – Elín Björg Jónsdóttir
Elín Björg Jónsdóttir er fulltrúi BSRB í verðlagsnefnd og varaformaður BSRB, formaður FOSS og tekið þátt í nefndarstarfi á sviði landbúnaðarmála
Segir hagsmuni okkar fara saman í fæðuöryggi landsmanna, áhersla er lögð á hreinlæti, heilnæmi, hollusta, dýravernd, ásættanlegt verðlag.
BSRB hefur átt fulltrúa í Verðlagsnefnd búvara frá þjóðarsáttarsamningum, hefur ávallt látið kjör bænda sig miklu varða, telur mikilvægt að bændur geti framleitt hágæða matvöru á ásættanlegu verði. Þess vegna koma fulltrúar BSRB að opinberri verðlagningu.
Stefna BSRB í landbúnaðarmálum var samþykkt á 41. þingi í október 2006.
Treysta þarf grundvöll landbúnaðarframleiðslunnar og gefa bændum svigrúm til að laga sig að breyttu umhverfi. Á síðustu árum hafa miklar breytingar orðið innan greinarinnar BSRB vill að í landinu verði jafnan í boði heilnæm matvara á hagstæðum kjörum.
Til að svo megi verða til framtíðar þarf að tryggja samstillt átak framleiðenda, neytenda, söluaðila og stjórnvalda. Mikilvægt er að tryggja bændastéttinni viðunandi afkomu og verður að ríkja sátt við hana og samtök hennar þegar ráðist er í breytingar á kjaraumhverfi bænda. Huga þarf að byggðasjónarmiðum, matvælaöryggi og framleiðslu vistvænna afurða og stefnumótun í landbúnaðarmálum.

Í vinnu verðlagsnefndar þarf að hafa sameiginleg markmið á hreinu, verðleggja með hagsmuni allra að leiðarljósi og að traust ríki milli aðila, takast á við breytingar sem eru; fæðuval, auknar kröfur, alþjóðasamningar og órói á mörkuðum.
Ýmis hjálpartæki er notuð við verðlagningu; verðlagsgrundvöllur kúabús, framreiknaður samkvæmt vísitölum, niðurstöður búreikninga, ársreikningar afurðastöðva, kjarasamningar á almennum markaði, verðlagsþróun í landinu og viðhorf neytenda.
Til hvers er verðtilfærsla, vörur sem hafa verðþol greiða niður viðkvæmari vörur s.s; “grunnvörur” nýmjólk, skyr og smjör og iðnaðarduft. Í duftið fer framleiðsla sem svarar til framleiðslu 30 meðalbúa Spurningar sem vakna um verðtilfærslu eru m.a:
Á rjómi að niðurgreiða mjólk? Á prótein að vera verðmætara en fita? Á að verðleggja á kostnaðarverði? Hvaða afleiðingar hefði það?
Hættur í verðtilfærslu.
Einstaka vörur kosta meira en framleiðslukostnaður þeirra gefur tilefni til, samkeppnisaðilar eiga þá auðveldara með að koma með þær vörur á markaðinn.
Hvað gerist ef við hættum verðtilfærslu?
Samkeppniseftirlitið hefur gert athugasemd við störf verðlagsnefndar vilja að samkeppnislög gildi, líka um landbúnaðarvörur.

Framtíðin; Alþjóðasamningar spurningin hvenær þeir taka gildi og hvað þeir innihalda, stefna stjórnvalda, munu þau laga sig að alþjóðasamningum um afnám tollaverndar og innflutningshafta. Allt þetta hefur áhrif.
Samningar við framleiðendur, munu taka mið af breyttum áherslum, afnám opinberrar verðlagningar, tollavernd afnumin, ríkisstuðningur minnkar, búin stækka og verða sérhæfðari, framleiðslan verður svæðisbundnari.
Mun verðlagning á mjólk og mjólkurvörum verða sanngjarnari?
Mikilvægt að framleiðendur verði sem best undirbúnir undir breytingar, það þarf að ríkja sátt í landinu um verð og val á landbúnaðarvörum, til að svo megi verða til framtíðar þarf að tryggja samstillt átak framleiðenda, neytenda, söluaðila og stjórnvalda.


5. Erindi. Verðlagning mjólkur – Þórólfur Sveinsson formaður LK
Þórólfur hóf mál sitt á að sýna töflu til að sýna verðlagsgrundvöll kúbús nú og áður.
Hinn 1. okt. “06 var afurðarstöðvarverð hækkað í 47,45 kr/lítr. Við mat á hækkunarþörf þurfti því að hækka það verð um sama hlutfall og nemur hækkun á kostnaði alls um 2,51 kr/lítr. Samtals 49,96 kr/lítr.Verðlagsgrundvöllur kúabús

Liðir: Grundvöllur 1.9.2006: Kr./l. Grundvöllur 1.9.2007: Kr./l. Mismunur, kr. Mism. %
Kjarnfóður

1.645.938


8,75


1.834.396


9,76


188.458


11,45

Áburður

865.133


4,60


967.217


5,14


102.084


11,80

Rekstrarvörur

569.370


3,03


552.147


2,94


-17.223


-3,02

Vélar

1.526.882


8,12


1.587.982


8,45


61.100


4,00

Flutningur

886.885


4,72


789.410


4,20


-97.475


-10,99

Þjónusta

788.598


4,19


786.767


4,18


-1.831


-0,23

Viðhald

634.072


3,37


690.038


3,67


55.966


8,83

Ýmis gjöld

1.093.018


5,81


1.173.259


6,24


80.241


7,34

Afskriftir

2.468.547


13,13


2.493.671


13,26


25.124


1,02

Vextir

2.026.754


10,78


2.065.047


10,98


38.293


1,89

Laun

7.538.442


40,10


8.162.230


43,42


623.788


8,27

Alls 20.043.639 21.102.164 1.058.525 5,28


Mjólkurverðið var hækkað um 1,19 kr/ltr þann 1.6. 2007, og um 0,62 kr/ltr þann 1.11.2007. Alls um 1,81 kr/itr. Þessar hækkanir tók mjólkuriðnaðurinn á sig og þær fóru ekki út í verðlag. Þessar hækkanir þarf að draga frá þegar hækkunarþörfin er metin.
Því var hækkunarþörfin 2,51 – 1,81 = 0,70 kr/ltr.


Ekki náðist samkomulag um að leiðrétting á mjólkurverði 1.1.2008 tæki mið af framreikningi 1.12. Ef það hefði verið gert, hefði afurðastöðvaverðið hækkað um 1,70 í stað 70 aura.
Það er mat SAM að sú hækkun heildsöluverðs sem tekur gildi um áramótin eigi að auka tekjur mjólkuriðnaðarins um ca. 360 milljónir m.v. heilt ár. Það er í viðunandi samræmi við tap iðnaðarins af reglulegri starfsemi fyrstu átta mánuði ársins 2007.


Verðlagsgrundvöllur kúabús
Þetta er spá. Það er venju fremur erfitt að sjá fyrir
þróun gengis og verðlags almennt.

Liðir:

Grundvöllur 1.9.2007:


Kr./l.


Hugsanleg hækkun


Grundvöllur 1.6.2008:


Kr./l.


Hækkun

Kjarnfóður

1.834.396


9,76


1,15


2.109.555


11,22


275.159

Áburður

967.217


5,14


1,73


1.673.285


8,90


706.068

Rekstrarvörur

552.147


2,94


1,10


607.362


3,23


55.215

Vélar

1.587.982


8,45


1,10


1.746.780


9,29


158.798

Flutningur

789.410


4,20


1,01


797.304


4,24


7.894

Þjónusta

786.767


4,18


1,03


806.436


4,29


19.669

Viðhald

690.038


3,67


1,03


710.739


3,78


20.701

Ýmis gjöld

1.173.259


6,24


1,05


1.231.922


6,55


58.663

Afskriftir

2.493.671


13,26


1,06


2.643.291


14,06


149.620

Vextir

2.065.047


10,98


1,06


2.188.950


11,64


123.903

Laun

8.162.230


43,42


1,05


8.570.342


45,59


408.112

Alls

21.102.164
23.085.9671.983.803

Hækkun í % frá 1.9.2007: 9,40
Mjólkurverð m.v. 1.9.2007 49,96 kr./ltr.
Hækkunarþörf, kr/ltr. 4,70 kr./ltr.
Afurðastöðvaverð, kr./ltr. 54,66 kr./ltr.


Ef raunin verður þessi, þá er þetta væntanlega hækkun talsvert umfram hækkun á vísitölu neysluverðs en beingreiðslur miðast við þá vísitölu.
Verður þörf á sérstakri hækkun afurðastöðvaverðs vegna þessa?

Atriði sem verðlagsnefnd þarf að skoða;
-verður haldið áfram að ákveða lágmarksverð á mjólk til framleiðenda?
-verðlagning einstakra vörutegunda, t.d. drykkjarmjólk?
-hvað af hækkunarþörfinni þarf að fara út í verðlag og hvað geta bændur og mjólkuriðnaðurinn tekið á sig ?
-hvort núverandi verðlagsgrundvöllur er miðaður við rétta bústærð og tæknistig?
-samanburður á þróun verðlagsgrundvallar annars vegar og niðurstöðum búreikninga hins vegar og sérstök skoðun á fjármagnskostnaði.
Það sem gerir stöðuna erfiða núna er; aðföng hækka hratt í verði, það kostar verulega mikið fjármagn að mæta þeim hækkunum, samhliða því hefur fjármagnskostnaður hækkað óheyrilega 50-90% sé miðað við vexti á verðtryggðum lánum m. breytilega vexti, framboð á lánsfé hefur minnkað hratt.
Rekstrarforsendur mjög skuldsettra búa þurfa að taka á sig fjármagnstekjukostnaðinn og að auki hækkun aðfanga hefur versnar mjög hratt síðustu mánuði.
Mikil óvissa er á fjármálamörkuðum og í efnahagslífinu, gengi og aðgengi á lansfé og svo þróun á jarðaverði.
Mjólkurframleiðslan er mjög fjármagnsfrek atvinnugrein og því getur getur þróun þessara þátta haft mikil áhrif á næstu misserum.
Varfærni við allar ákvarðanir sem snerta fjármál eru engu minni nauðsyn en hagræðing í notkun rekstrarvara.
Munu einhverjir mjólkurframleiðendur þurfa að taka þvingaðar ákvarðanir ?
Rekstrarforsendur kúabúa getur ekki verið góðar þegar ráðist er að greininni frá tveimur hliðum, launagreiðslugeta er alls ekki góð, hefur áhyggjur af kjarasmningum og vaxtastig hátt svo sé spá er um að gengið lækki, þrenging á fjármálamörkuðunum, aðföng eru uppávið en tekjur niður á við.


6. Umræður um erindi Elínar Bjargar og Þórólfs.
Runólfur Sigursveinsson ráðunautur BSSL þakkaði innleggið frá þeim Elínu og Þórólfi. Vill þakka Elínu vinnulag hennar við ákvarðanir á því sem skiptir kúabændur svo miklu en vill skoða tölurnar úr gögnunum sem liggja á bak við “grundvöll á kúabúi”, því að úr meðaltali 79 búa á Suðurlandi árið 2006 er 12,20 kr/lítr.í kjarnfóður. Þetta eru tölur úr Sunnuverkefninu, þarna ber tölum illa saman úr mismunandi gagnasöfnum, í verðlagsgrundvelli er kjarnfóðurliður 8,75 kr/l. Ef litið er á tölur úr Hagþjónustunni 2006 þá er meðaltalið um 11,90 kr/lítr. Rauntölurnar eru hærri en grundvöllurinn er að meta, svipað er með áburðarverðið.

Greinilegt vanmat er á vaxtaþætti grundvallarins. Vextir á innlendum lánum hafa snarhækkað á síðustu misserum. Þá hafa grunnvextir á erlendu lánunum hækkað svo og álag sem innlendu bankarnir taka til að endurlána til kúabænda, kúabændur eru að taka á sig óheyrilega mikla greiðslubyrði, vaxtakostnað af fjárskuldbindingum af ákvörðunum sem teknar voru við allt aðrar forsendur en eru í dag.
Fjármagnskostnaður og aðföng hækkað alveg gífurlega mikið, því eru nokkur bú í dag sem eiga í fjárhagserfiðleikum þó rekstur þeirra sé góður.


Fundarstjóri, Valdimar Guðjónsson tekur undir þetta og segist þekkja þetta úr eigin ranni, miklar breytingar á stuttum tíma, fjárfmagnskostnaður og aðföng hækka upp úr öllu valdi, sem enginn sá fyrir.

Guðbjörg Jónsdóttir Læk þakkar Elínu Björgu og Þórólfi sín erindi.
Er ósátt við samanburð áburðarverðs hjá Bændasamtökunum, því ekki sé sambærilegt að bera saman janúar og júníverð.
Eftir að hafa skoðað fyrstu áburðarverð þá hefur “nían” hækkað um 83 % og tvígildur áburður 88,2 %. Á hennar búi mun hækkunin verða 77% hækkun eða 23 þúsund krónur á tonn. Ef horft er á verð í Danmörku er hækkun frá 2% uppí 30%, sem sýnir að það er eitthvað að á þessum markað. Hún óskar eftir umræðum um þessi mál sem og kjarnfóður hækkanir.
Telur möguleika að sporna eitthvað við þessu en erfiðar að bregðast við kjörum bankanna.

Sigurðjón Hjaltason Raftholti þakkar Elínu Björgu fyrir sín orð og jákvæðni í garð kúabænda. Finnst athyglivert að í umræðu um verðtilfærslu mjólkur hefur því verið haldið fram innan stéttarinnar að sé ekkert mál sé að falla út þann lið. Elín færi hinsvegar rök fyrir öðru og finnst að því þurfi að halda til haga. Spyr Elínu hvernig henni lítist á og horfur á verðlagningu búvara eftir lestur Þórólfs, Runólfs og Guðbjargar.

Elín Björg Jónsdóttir segist finna áhyggjutóninn hjá kúabændum, hefur áður heyrt Þórólf halda svipaða ræðu í töluvert langan tíma, þar er ekki margt sem kemur á óvart. En segir það ekki breyta því að blikurnar séu verri nú en oft áður. Langar að bæta þvi við sitt mál að á fundi verðlagsnefndar 11. desember 2007 var tekin ákvörðun um verðlagningu sem tæki gildi 1. jan. 2008, þá var einnig bókað samkomulag um að endurskoða verðlagninguna í vor, þar sem fyrir lágu hækkanir á vaxtakjörum og aðföngum nú í haust. Þetta sé hinsvegar ekki venjulegt vinnulag hjá nefndinni. Það eru ekki bara kúabændur einir sem finna fyrir breyttum vaxtakjörum á fjármagnsmarkaði, þau bitna einnig á launþegum.
Kúabændur hafa stækkað og vélvætt bú sín mikið svo þeir verði tilbúnir að takast á við aukna samkeppni m.a. frá innflutningi og eru því skuldsettir. Framundan eru kjarasamningar sem virðast stefna í átök og óvíst hvenær þeim lýkur. Þegar því er lokið mun nefndin setjast niður og reyna að gera betur.

Þórólfur Sveinsson telur nauðsynlegt að skoða athugasemdir Runólfs og leita skýringa á þeim mun sem þar kemur fram. Óskar eftir samvinnu hjá BSSL við það. Spurning hvort munurinn á kjarnfóðurliðnum felist í því að þessi 79 bú séu með hærra afurðarstig? Segist hafa svolítið á tilfinningunni að kjarnfóðurnotkun hafi aukist meira en sem nemur framleiðsluaukningunni undanfarið.
Segir vaxtastigið alvarlegustu skekkjuna í grundvellinum eins og hann standi núna, það er hlutur sem verður að taka til algerrar endurskoðunar á næstunni.
Tekur undir orð Elínar varðandi vexti hjá almenningi, þó eru sviptingarnar á íbúðarlánunum heldur minni en á fjárfestingalánum bænda.

Grétar Einarsson Þórisholti þakkar Elínu Björgu fyrir sitt innlegg, finnst mun ljósara nú hvernig verðlagsnefndin vinni. Telur mikilvægt að innflutningstollarnir verði áfram, mikið hafi verið rætt um lækkun eða afnám þeirra í mörg ár. Telur ljóst að nyti þeirra ekki við væri mun færra fólk saman komið á þessum fundi.

Baldur Helgi Benjamínsson þakkar framsögumönnum fyrir. Segir nauðsynlegt að verðtilfærslan verði tekin til endurskoðunar. Var staddur í Danmörku og Noregi s.l. viku og fór þar í 4 verslanir. Í Danmörku kostaði nýmjólk í einni verslun 109 kr. og annarri 90 kr. Í einni verslun í Noregi kostaði mjólkin tæpar 150 kr. og í annarri 130 kr. Á Íslandi kostaði mjólkin hinsvegar 73 kr. í Krónunni og 83 kr. í Hagkaup.
Segir gengið allt of langt í verðtilfærslu milli mjólkurvara á markaði hér og útsöluverð drykkjarmjólkur verði að hækka. 30 milljónir lítra eru seldir af drykkjarmjólk og skapar verðtilfærslan vegna hennar meiri þörf fyrir tolla á aðrar vörur s.s. osta og fleira svo afurðastöðvarnar geti borið sig. Finnst þetta ekki síður brýnt mál að taka á en verði aðfanga og vaxtamálum.

Egill Sigurðsson Berustöðum þakkar Elínu hennar störf í Verðlagsnefnd. Hún hafi alltaf sýnt fullan skilning á landbúnaðarmálum fyrir það beri að þakka. Óskar eftir samstarfi við að breyta verðlagningarkerfinu og biður hana að sannfæra sitt fólk svo og fulltrúa ASÍ um mikilvægi þess. Ekki verði komist hjá að fara í þá vinnu. Nýta þarft markaðinn til fulls.
Verðlagsgrundvöllurinn virðist alltaf verða út úr kortinu og þurfi að fara í grunnforsendur hans til að hann sýni rétta stöðu.

Karl Jónsson Bjargi vill meina að áburðarsamsetningin sé ekki rétt og verðið sé ekki rétt, hvetur til þetta sé vandlega tekið til skoðunar.

Guðbjörg Jónsdóttir Læk spyr hvort verðlagsnefndin skoði heimsmarkaðsverð mjólkur og hvort það hafi eitthvað vægi á verðlagningu.

Þórólfur Sveinsson segir það ekki hafa sjálfkrafa vægi þar inni, hefur væntanlega einhver áhrif á duftverðið. Segir eðlilegt að taka grundvöllinn til endurskoðunar.

Elín Björg Jónsdóttir segir að hagsmunir bænda og neytenda fari saman. Ef bændastéttin vill ekki afnema innflutningsvernd, þá er eins komið með BSRB. Þau standi með bændum í þessari vörn nú sem fyrr.
Segir sífelldan vandi á höndum hjá Verðlagsnefnd. Bændur hafi vilja til að framleiða hollustuvöru fyrir landsmenn, sem vilja fá vöruna á sem ásættanlegustu verði. Þetta sé eilífur darraðardans.
Reynt er að halda nýmjólkurverði niðri ekki síst fyrir stórar fjölskyldur með mörg börn á heimili.

Baldur Helgi Benjamínsson hvetur menn að mæta á málþingið n.k. föstudag 1.febrúar 2008.


7. Kosningar

Kosning til formanns:
Sigurður Loftsson Steinsholti 30 atkv.
Kristinn Guðnason Þverlæk 2 atkv.
Guðmundur Lárusson Stekkum 1 atkv.
Auðir seðlar 2 stk.
Alls greiddu 35 atkvæði.


9 fulltrúar í félagsráð og 3 varamenn
Eftirtaldir hlutu kosningu:

Aðalmenn:
Bóel Anna Þórisdóttir Móeiðarhvoli. 32 atkv.
Grétar Einarsson Þórisholti 30 atkv.
Jóhann Nikulásson Stóru- Hildisey. 30 atkv.
Katrín Birna Viðarsdóttir Ásólfsskála. 30 atkv.
Guðbjörg Jónsdóttir Læk. 28 atkv.
Ólafur Kristjánsson Geirakoti 23 atkv.
Björn Harðarson Holti. 21 atkv.
Jórunn Svavarsdóttir Drumboddsstöðum 21 atkv.
Björgvin Guðmundsson Vorsabæ 20 atkv.
Varamenn:
Samúel U Eyjólfsson Bryðjuholti 19 atkv.
Reynir Þór Jónsson Hurðarbaki 14 atkv.
Brynjar Sigurðsson Heiði. 13 atkv.

5 fulltrúar á aðalfund BSSL og 5 til vara.
Formaður Sigurður Loftsson
kvaddi sér hljóðs og kynnti tillögu frá stjórn:

Tillaga varðandi aðferð við kjör fulltrúa á aðalfund Bssl.
„Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn í Árhúsum Hellu 29. janúar 2008, samþykkir að vísa kjöri fulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands til félagsráðs. Kosningin skal vera skrifleg og leynileg.“
Samþykkt samhljóða.


8 fulltrúar á aðalfund LK og 8 varamenn.
Aðalmenn:
Grétar Einarsson Þórisholti. 32 atkv.
Katrín Birna Viðarsdóttir Ásólfsskála. 28 –
Arnheiður Dögg Einarsdóttir Guðnastöðum. 27 –
Valdimar Guðjónsson Gaulverjabæ. 26 –
Guðbjörg Jónsdóttir Læk. 24 –
Gunnar Eiríksson Túnsbergi. 18 –
Bóel Anna Þórisdóttir Móeiðarhvoli. 17 –
Þórir Jónsson Selalæk. * 15 –
Varamenn:
Ragnar Magnússon Birtingaholti. * 15 –
Guðrún Helga Þórisdóttir Skeiðháholti * 15 –
Samúel U Eyjólfsson Bryðjuholti * 15 –
Björn Harðarson Holti. 13 –
Sigurjón Hjaltason Raftholti. ** 12
Ólafur Kristjánsson Geirakoti ** 12 –
Jórunn Svavarsdóttir Drumboddsstöðum 9 –
Einar Gestson Hæli 2 6 –
* Dregið var um 8. 9. 10. 11. mann sem fengu 15 atkvæði, ** Dregið var um 13. og 14. mann sem fengu 12 atkv.

2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.
Skoðunarmenn:
María Hauksdóttir Geirakoti
Einar H. Haraldsson Urriðafossi
Til vara:
Rútur Pálsson Skíðbakka
Daníel Magnússon Akbraut


8. Önnur mál
Formaður lagði fram eftirfarandi tillögu og útskýrði hana.


Tillaga að breytingu á samþykktum LK
Félag kúabænda á Suðurlandi óskar þess að gerð verði eftirfarandi breyting á 5. grein laga Landssambands kúabænda málslið 2. þar sem fjallað er um kjör aðalfundafulltrúa. Greinin hljóðar svona í dag.

,,5.2. Aðalfund sitja með fullum réttindum fulltrúar aðildarfélaganna kosnir á aðalfundum þeirra í leynilegri kosningu”.

Við greinina bætist eftirfarandi:
„Sé starfrækt innan viðkomandi aðildarfélags trúnaðarmannaráð, sem kosið er á aðalfundi með framangreindum hætti og innifelur a.m.k. tvöfaldan þann fjölda fulltrúa sem félaginu ber, er aðalfundi þess heimilt að vísa fulltrúakjörinu þangað.“


Guðmundur Stefánsson telur rétt að þeir sem fari á aðalfund LK, að það sé sami kjarninn og sem sækir fundi kúabænda almennt, en veltir því fyrir sér hvort þetta verði of lokað ef þessi tillaga verði samþykkt.
Formaður Sigurður Loftsson álítur núverandi fyrirkomulag koma vel út. Segir félagsráðið vera kjarna félagsins og rótina sem nærir starf þess. Aðalfundur sé hins vegar æðsta vald félagsins og á alltaf að hafa lokaorð um hvernig málum er háttað. Mælir með samþykkt tillögunar.


Fundarstjóri bar tillöguna undir atkvæði og hún samþykkt samhljóða.


Formaður þakkar stuðning í formannskjöri og býður nýkjörna fulltrúa velkomna til starfa.


Fleira ekki rætt. Fundi slitið kl: 15:26

Fundarritari Katrín Birna Viðarsdóttir.


back to top