Aðalfundur FKS 28. janúar 2014

Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi
haldinn í Árhúsum, Hellu, mánudaginn 28. jan. 2014.
Fundur hófst kl. 12:15

Valdimar Guðjónsson, formaður, bauð fundarmenn velkomna og bar upp tillögu um fundarstjóra Ólaf Helgason og fundarritara Jónu Þórunni Ragnarsdóttur. Tillaga formanns samþykkt samhljóða.
Ólafur tók við stjórn fundarins og kynnti dagskrá.

1.Skýrsla formanns.
Veturinn fór mildum höndum um Sunnlendinga. Sömu sögu var ekki að segja úr öðrum landshlutum. Norðlendingar og Austfirðingar urðu fyrir barðinu á náttúruöflunum svo um munaði. Snjóþyngsli, fjárskaðar, harðæri og kal í kjölfarið. Hér var hægt að komast snemma vors um tún til vorverka enda óvenju þurrt og snjólétt. Í lok júní tók hinsvegar við hér á Suðurlandi gamalkunnugt rakastig í loftinu og úrkoma sem eldri bændur þekkja vel frá fyrri tíð. Er vikurnar liðu fram í júlí má segja að brostið hafi á sunnlenskur rosi. Hitastigið var á löngum kafla á bilinu 8 til 12 gráður. Kornuppskera leið fyrir lágt hitastig og sólarleysi. Gisnari akrar buðu síðan hættunni heim með enn meiri ágangi álfta og gæsa sem bætti ekki úr skák. Haustuppskera á flestum ræktunargróðri var því slök og heygæði misjafnari að gæðum en þekkst hefur síðari ár. Þó eru hey í kýr sem náðust snemma með ágætum, en magn þess misjafnt á búum.

Starf félagsins.
Félagið tók þátt í sunnlenskum i sveitadögum og kótilettunni á Selfossi. Þar var sem fyrr heilgrillað naut í boði og það beinlinis rennur ofan í gesti á stuttum tíma. Félagið hélt fjóra félagsráðsfundi á árinu og stjórn marga símafundi. 14. nóvember var haldinn í lok fundar félagsráðs opinn fundur með ráðunautum um fóðrun mjólkurkúa sem var mjög vel sóttur af bændum.

Mjólkurframleiðslan.
Mjólkurverð hækkaði (lágmarksverð til bænda) 1.október 2013 um 3.1 % Afurðastöðvaverð er nú 82.92 kr. Á stjórnarfundi í LK þann 16.8 er talað um að hugsanlega þurfi greiðslumarkið að fara í 117 milljónir lítra vegna góðrar sölu. Einnig er minnst á að spár um framleiðslu fram í tímann séu ekki fullnægjandi og minnst á minnkandi innlegg sem væri áhyggjuefni. Niðurstaðan í lok árs var ekki 117 milljónir lítra í greiðslumark heldur skv. greiðslumarksreglugerð nr. 1037/2013 alls 125 milljónir lítra. Fáir sáu þessa miklu söluaukningu fyrir. En þó var þar stígandi. En aðvörunarbjöllur varðandi innlegg og framleiðsluaðstæður á búunum klingdu of seint á Bitruhálsi.
Harðæri á hluta framleiðslusvæða og rigningarsumar á Suðurlandi er strax ávísun á einhverskonar samdrátt á aðal beitartíma kúnna, jafnvel áður en beinharðar framleiðslutölur eru komnar í hús. Vantaði þarna betra aunveruleikatékk. Rétt að hafa slíkt í huga ef veðurguðir ætla að breyta sumartíð hér sunnan heiða.

Ég vil hinsvegar taka fram, að ég hef alls ekki hvatt til þess að einhver segi af sér vegna þessa máls og hliðarverkana þeirra. Þar er verið að rugla mér saman við einhvern annan. Hvernig kæmi það líka eiginlega heim og saman? Sala okkar framleiðsluvara er nefnilega frábær. Maður upplifir í fyrsta skipti á 30 ára búskap að mega framleiða eins og maður getur.Það sýnir hvað við eigum öflugt sölufyrirtæki sem MS er, þó öllum getum við endalaust bætt okkar vinnubrögð.

Vægi lágmarksframleiðslu til að halda óskertum beingreiðslnum er nú 95%. Var áður 90% sem framleiðsluskylda í greiðslumarksreglugerð.

Til umsagnar er þessa dagana reglugerðarbreyting hjá ráðherra landbúnaðarmála. Þar er fjallað um drög að breytingum á reglugerð um fjölgun markaðsdaga í mjólk um einn. Verða þeir þá 1.apríl, 15. ágúst og 1. nóvember. Þetta er til bóta en aðalfundur LK hefur ályktað um þessi mál oftsinnis. Talið lágmark að þeir væru fjórum sinnum á ári.

Efnahlutföllum milli fitu og próteins hefur verið breytt. Er nú greitt jafnt 50 / 50. Hlutföllin voru áður fita 25% og prótein 75%.

Nautakjötsmál
Sala á nautgripakjöti var 4.098 tonn á nýliðnu ári, samkvæmt upplýsingum frá Landssamtökum sláturleyfishafa. Það er nánast sama magn og árið 2012 þannig að hin góða sala virðist stöðug. Aukin mjólkurframleiðsla og að halda lengur í kýr, þ.e seinka slátrun, breytir fljótt jafnvægi á markaðnum og nokkur vöntun hefur verið á hakkefni
síðustu vikur.

Nú er í ferli áhættumat á innflutningi holdanautasæðis. Annars vegar innflutningi sæðis og fósturvísa beint á býli. Hinsvegar innflutningur sæðis og fósturvísa i gegnum einangrunarstöð. Það er MAST sem framkvæmir verkefnið.

Umtalsverðum fjölda af nýfæddum nautkálfum er slátrað á hverju ári. Flestir koma þeir af öflugustu svæðunum í mjólkurframleiðslu, þar sem bændum víða veitir ekki af plássinu fyrir stórt kvíguuppeldi. Ég vil nota tækifærið og hvetja bændur á þeim svæðum að bjóða sína nautkálfa ef einhver vildi ala þá. Vissulega aðeins vesen. En sjálfsagt að fara fram á að þeir verði sóttir um hæl, ef einhver hefur áhuga. Það er, þrátt fyrir allt, nokkuð stórt svæði í Árnessýslu sem eru möguleg tiltölulega hindrunarlaus miðlun á nautgripum út frá sóttvörnum. Eins eru nokkur dæmi þess að kálfar séu aldir í heimafjósi á mjólkurgjafatímabilinu en seldir síðan. Þá verða þeir sem kaupa að vera tilbúnir að borga rétt verð. Kostnaðartölur við að ala ungkálf á dag á að vera auðvelt að nálgast. Þvi má vissulega halda fram að hækkanir á verði nautakjöts til bænda hafi ekki verið í samræmi við mikla eftirspurn. Það má þó heyra á þeim sem eru eingöngu í nautaeldinu að tilkoma gripagreiðslna hafi skipt miklu máli varðandi skárri afkomu i greininni.

Við í félaginu höfum komið á gegnum tölvupóst auðvelda leið til að bjóða /kaupa / selja og miðla gripum milli bænda. Erum þá með á póstlitsta þá sem eru í mjólkurframleiðslu og með nautaeldi. Hefur þetta farið vel af stað. Kosturinn er líka sá að þetta truflar ekkert þá bændur sem eru í beinum samskiptum og hafa verið lengi i viðskiptum með gripi sín á milli. Það er vissulega stór hópur á öllum svæðum. En endalinan er sú og ástæðan fyrir að ég ræði þetta hér er að
það er illásættanlegt að við náum ekki að framleiða nóg magn fyrir innanlandsmarkaðinn.

Sæðingamál.
Við sunnlenskir fulltrúar á aðalfundi LK og einnig þau sem sitja búnaðarþing deildum ekki þeim skoðunum dreifbýlla svæða að um nauðsyn þess nú að sameina sæðingastarfsemina undir eina stjórn á þessum tímapunkti. Við erum í dag með ódýrasta kostnað á sæðingu per kú á landinu. Tekist var nokkuð á um þetta á síðasta LK fundi. Niðurstaðan var að fyrst yrði að leita allra leiða til hagræðingar á svæðunum. Einnig væru smærri skref , t.d minni sameiningar leið til þess. Það skal einnig hreinskilnislega viðurkennt að miklar skuldir eftir dýrar framkvæmdir og nokkur óvissa um framtíðar skipan Nautastöðvarinnar á Hesti í Borgarfirði gera málið ekki fýsilegra fyrir okkur á þessu stigi.

Búnaðarþingsmál – tjón af völdum álfta.
Ég vil vekja athygli á tillögu Þóris Jónssonar á Selalæk inn á væntanlegt Búnaðarþing. Hún fjallar um 5 ára samstarfsverkefni við MATIS um leyfi til veiða á álft. Veiðitímabil yrði á vorin og haustin með tilteknum dagsetningum. Haldið yrði skráningu um magn veiddra fugla. Á fundi með fulltrúum á Búnaðarþingi og formönnum búnaðarfélaga fyrir stuttu mætti skrifstofustjórinn í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Ég hygg að hann hafi farið margs fróðari um síaukinn ágang álfta í ökrum og túnum okkar bænda. Vonandi hlýtur þessi tillaga framgang í kerfinu. Búnaðarþing hefur margályktað um þessi mál. Hugsanlega hefur samt vantað þar ákveðinn farveg fyrir
framhald og staðreynda ítarefni fyrir lítt kunnuga. . Á fundinum rakti Grétar Þorkelsson ágæta og fróðlega samantekt, bæði myndir og tölfræði varðandi umfang tjóns af völdum fugla austur á Hornafirði. Það virðist vel hægt að heimfæra vandann þar, yfir á aðra landshluta einnig.

Að lokum.
Erindi Torfa Jóhannessonar sérfræðings í Atvinnuvega – og nýsköpunarrráðuneytinu og efni hans á aðalfundi var hugsað sem upptaktur í umræðu um framtíðina. Nú eru tvö framlengingar ár eftir af búvörusamningi sem viðsemjendur í síðustu ríkisstjórn sýndu okkur lipurð við að framlengja. Vinna við þann næsta er ekki farin af stað.
En við komumst ekki hjá því að velta fyrir okkur framtíðinni og gagnlegt er einnig að fræðast um skipan mála annarsstaðar.

Ég vil að lokum þakka öllum gott samstarf á árinu 2013. Í Félagsráði hefur starfað góður hópur með breidd í starfsaldri. Það er mikilvægt að hafa einnig í starfinu sjónarhól hinna yngstu í stéttinni. Óska ég öllum farsældar í búskap og starfi á þessu nýbyrjaða ári.

Fundarstjóri gaf orðið laust.
Egill á Berustöðum flutti kveðju stjórnar MS og Auðhumlu og sagði að framleiðsla og sala gengi mjög vel. Reifaði aðeins innflutning smjörs í nóvember og desember. Framleiðsla bænda væri að aukast að nýju, en að verðefnin (sérstaklega fita) færi fallandi. Ef ekki yrði brugðist við þessu 2-3 millj. lítra í viðbót til að tryggja að næg verðefni komi til vinnslu. Þá ræddi hann það að ólíkar búgreinar þyrftu að standa sama og vinna sameiginlega að heildarhagsmunum landbúnaðarins. Þá þyrftu kúabændur að tryggja hráefnisframboð til vinnslu til að hægt verði að fullnægja markaðinum, hvort sem þessi mikla söluaukning fituríkra afurða er framtíðarstaða eða bóla sem á eftir að springa. Þá þurfi að samþætta leiðbeiningaþjónustu, kúabændur og mjólkuriðnaðinn til að hægt sé að framleiða sem mest til að nýta framleiðslutækifærin. Nú þegar sé búiða að lækka úrvinnslukostnað og næst þurfi auka framleiðsluna Einnig hyllir undir lok mjólkurssamnings og því þurfi samningsvinna að fara af stað sem fyrst svo tækifærin sem hafa gefist núna nýtist sem best. Deildarfundir Auðhumlu verða haldnir í byrjun mars en á þeim verður farið ítarlega yfir mál mjólkuriðnaðarins.
Guðbjörg á Læk: Skilaði kveðju frá stjórn BSSL og ræddi um breytta starfsemi BSSL. Þá hefur fyrsta ár RML gengið vel en nú eru BSSL og RML samstarfsaðilar og vinna vel fyrir bændur. Þá eru Austur-Skaftfellingar komið undir sæðingastarfsemi Kynbótastöðvar Suðurlands frá 1. janúar, einnig hefur komið formlegt erindi frá Austlendingum að taka við sæðingastarfsemi þar. Guðbjörg lýsti yfir ánægju sinni með fundarsókn og að hann væri vel sóttur af nóg af ungu fólki og konum. Þá ræddi hún frumkvæði FKS um miðlun kálfa, þó hefur það ekki gengið nóg vel að hennar mati að koma kálfum í uppeldi hjá öðrum bændum. Þá voru breytingar á grundvallarverði mjólkur kynntar seint og kom sú breytingum bændum í opna skjöldu. Hvað beit álfta og gæsa í ræktuðu landi bænda varðar þá þurfa bændur að vera duglegir að tilkynna tjónið og vonandi verður unnin bót á máli, sbr. tillögu Þóris Jónssonar inn á komandi Búnaðarþing.
Fleiri tóku ekki til máls undir þessum lið.

Fundarstjóri kynnti næsta lið.
2. Reikningar félagsins
Elín Bjarnveig Sveinsdóttir, gjaldkeri félagsins, kynnti og lýsti reikningum (ársreikningur/efnahagsreikningur) – sem þegar hafði verið dreift til fundarmanna. Rekstrarhagnaður árins 2013 var alls 282.166 kr. Eignir alls í lok árs 2013 var 2.010.224 kr. Eigið fé í lok árs var 1.710.336 kr og skammtímaskuldir (ógreidd félagsgjöld) 17.722 kr. Skoðunarmenn reikninga voru María Hauksdóttir og Einar Helgi Haraldsson.
Fundarstjóri þakkaði Elínu fyrir yfirferðina og gaf orðið laust. Enginn bað um orðið undir þessum lið.
Fundarstjóri bar reikninga undir atkvæði – með handauppréttingu. Reikningar samþykktir samhljóða.

3. Kosningar (fyrri hluti)
a) Kosning formanns
Formaður kosinn leynilegri kosningu en talning atkvæða í heyranda hljóði. Allir félagsmenn eru í kjöri, og ef einhver vill lýsa framboði er orðið laust. Enginn tekur til máls.
Valdimar Guðjónsson: 48 atkvæði
Jóhann Nikulásson: 2 atkvæði
Hörður Guðmundsson: 1 atkvæði
Samúel U. Eyjólfsson: 1 atkvæði
Auðir og ógildir: 1 atkvæði
Fundarstjóri lýsir Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ, réttkjörinn formann félagsins.
b) Kosning 9 fulltrúa í félagsráð og 3 varamenn
Kjörnefnd hefur undirbúið kjörseðil. Kosning fer þannig fram að allir félagsmenn eru í kjöri, 9 efstu menn að atkvæðum hljóta síðan kjör sem aðalmenn en 3 næstu varamenn.
Tilbúnu kjörblaði dreift meðal fundarmanna til kosningar. Fundarstjóri ítrekar að allir félagsmenn séu í kjöri þó tillaga hafi verið lögð fyrir um fólk sem sé tilbúið að takast starfann á hendur. Skipuð talningarnefnd en hana skipa Arnheiður Dögg Einarsdóttir á Guðnastöðum, Jóhanna Gunnlaugsdóttir í Stíflu, Þórunn Andrésdóttir í Bryðjuholti, Borghildur Kristinsdóttir í Skarði, Gísli Hauksson á Stóru-Reykjum og Sigríður Jónsdóttir á Fossi.
Niðurstaða kosninga í félagsráð:
Elín Heiða Valsdóttir: 48 (1)
Samúel U. Eyjólfsson: 43 (2)
Bóel Anna Þórisdóttir: 42 (3)
Jóhann Nikulásson: 40 (4)
Kjartan Magnússon: 38 (5)
Pétur Guðmundsson: 37 (6)
Jórunn Svavarsdóttir: 35 (7)
Guðmundur Jónsson: 34 (8) – hlutkesti réð um röð
Ragnar Finnur Sigurðsson: 34 (9)
Páll Jóhannsson: 34 (1. varamaður)
Sævar Einarsson: 28 (2. varamaður)
Anna María Kristjánsdóttir: 28 (3. varamaður)
c) Niðurstöður kosninga á aðalfund LK:
Kosning fer þannig fram að allir félagsmenn eru í kjöri, 12 efstu menn að atkvæðum hljóta síðan kjör sem aðalmenn en 12 næstu varamenn.

Valdimar Guðjónsson: 46 (1)
Elín Bjarnveig Sveinsdóttir: 45 (2)
Bóel Anna Þórisdóttir: 44 (3)
Samúel U. Eyjólfsson: 43 (4)
Pétur Guðmundsson: 39 (5)
Ólafur Helgason: 38 (6)
Ásmundur Lárusson: 33 (7)
Jóhann Nikulásson: 31 (8)
Sævar Einarsson: 28 (9)
Jórunn Svavarsdóttir: 27 (10)
Borghildur Kristinsdóttir: 25 (11)
Elín Heiða Valsdóttir: 25 (12)
Guðbjörg Jónsdóttir: 22 (13) – 1. varamaður
Sigríður Jónsdóttir: 18 (14) – 2. varamaður
Reynir Þór Jónsson: 14 (15) – 3. varamaður
Kjartan Magnússon: 14 (16) – 4. varamaður
Ágúst Sæmundsson: 11 (17) – 5. varamaður
Björn Harðarson: 11 (18) – 6. varamaður
Ómar Helgason: 9 (19) – 7. varamaður
Katrín Birna Viðarsdóttir: 9 (20) – 8. varamaður
Jón Viðar Finnsson: 8 (21) – 9. varamaður
Guðmundur Jónsson: 6 (22) – 10. varamaður
Jóhann Jensson: 5 (23) – 11. varamaður eftir hlutkesti
Ragnar Finnur Sigurðsson: 5 (24) – 12. varamaður eftir hlutkesti
d) Kjör 5 fulltrúa á aðalfund BSSL og 5 til vara
Stjórn gerir tillögu til aðalfundar um að vísa kjöri þessara fulltrúa til félagsráðs.
Tillagan samþykkt samhljóða.
e) Kjör 2 skoðunnarmanna reikninga og 2 til vara
Fundarstjóri ber upp tillögu um að skoðunarmenn reikninga, María Hauksdóttir og Einar Helgi Haraldsson og varamennirnir Rútur Pálsson og Daníel Magnússon, verði kosin til áframhaldandi starfa.
Tillaga samþykkt samhljóða.

4. Staða nokkurra verkefna LK – Baldur Helgi Benjamínsson
Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK, fór yfir stöðuna hjá MS. Sala hefur haldist mjög góð, sérstaklega á fituríkum afurður. Til að uppfylla kröfur markaðarins árið 2014 þyrfti heildarframleiðsla að vera um 127-128 mill. lítrar. Það þýðir að innanlandsmarkaður með fitu hafi stækkað um 11 millj. lítra á tveimur árum. Á nýliðnu ári mældist aukning í sölu á nýmjólk (1%) sem hefur ekki sést svo áratugum skiptir. Áframhaldandi íbúafjölgun og fjölgun ferðamanna kallar á enn meiri framleiðslu. Til að fullnægja þessum markaði þyrfti að fjölga kúm um 3-400 kúm í ár, en einnig þyrfti meðalnyt að hækka um 2% (120 kg/kú). Á haustmánuðum hefur verið mikill samdráttur í slátrun á kúm, sem þó á eftir að draga úr nú þegar líður fram á vor. Næstu kvíguárgangar eru litlir og því von á heldur færri kvígum í framleiðslu á þessu ári og því næsta. Á komandi sumri er mikilvægt að koma í veg fyrir að innviktun taki sömu dýfu og gerði 2013, en því þarf að mæta með góðri beit. Þá velti Baldur fyrir sér hvar framleiðslugetan lægi; hver staða væri á fjósum, endurnýjunarþörf og fleira. Nú væri von á nýrri aðbúnaðarreglugerð, en LK hefur fengið hana til umsagnar. Hún gerir kröfur um betri aðbúnað og velferð, sem er meðal annars krafa frá samfélaginu. Þá vantar víða stærri mykjugeymslur til að uppfylla þessa aðbúnaðarreglugerð, jafnvel er þörf á að stofna svokölluð kvíguhótel fyrir bæi þar sem ekki er nægilega góð uppeldisaðstaaða.
Baldur ræddi næsta búvörusamning og vel þyrfti að renna yfir núverandi samning hvort markmiðum hans hafi verið náð.
Næstu verkefni LK eru meðal annars mat á stöðu greinarinnar og endurskoðun framleiðsluumhverfisins. Nú stækkar innanlandsmarkaðurinn hratt en lítið hefur verið fjárfest í framleiðsluaðstöðu frá hruni, kröfur um aðbúnað hafa verið hertar auk þess sem umhverfismál ber oftar á góma. Einnig þarf að ræða hvernig opinber stuðningur nýtist framleiðendunum sem best; hvort það sé beintengt framleiðslu eða hærru hlutfall á formi gripagreiðslna eða landgreiðslur.
Þá á Matvælastofnun að skila áhættumati 1. febrúar varðandi innflutning á nýju erfðaefni fyrir holdanautastofna. Einnig er von á áhættumati frá Veterinærinstituttet í Noregi fyrir innflutningi sæðis á bú en því á að skila fyrir aðalfund LK.
Fundarstjóri þakkaði Baldri Helga, gefur orðið laust.

Höskuldur á Stóra-Ármóti: Veltir upp hver á að tryggja markaðinn, eru það bara sumir framleiðindur eða allir? Hækkun 90%-reglunnar. Stuðningur ríkisins er tvíhliða samningur og okkar hlutverk er að sjá markaði fyrir vöru sem hann þarf. Vill sjá ennþá meiri framleiðsluskyldu, jafnvel allt að 100%. Þetta er langtímaframleiðsla, því þarf að vera sveigjanleiki í kvótaáramótum inni á búunum.
Bóel á Móeiðarhvoli: Spyr út í aðbúnaðarreglugerð; er það rétt að breidd á básum eigi að vera 120 cm?
Ómar í Lambhaga: Spyr af hverju eigi að vera 6 mánaða geymslurými á mykju? Í Þýskalandi sé gerð krafa um 2ja mánaða geymslurými og hér á Suðurlandi sé ekki endilega frost í jörðu í 6 mánuði í röð.
Jón Viðar í Dalbæ: Segir að hagsmunasamtök bænda séu ekki nógu dugleg að verja sína stöðu, tala í báðar áttir, að erfitt að fóðra að sumri til en þurfum að setja kýrnar út. Í Svíþjóð er dýrara að framleiða mjólk með kýrnar úti en inni, samlög eru tilbúin til að borga hærra verð því það sé betri ímynd að hafa kýrnar úti. Ný aðbúnaðarreglugerð sennilega galin miðað við nefndarmenn, rýmisþörf sé sú sama og fyrir mun stærri gripi erlendis. Haughús átti að stækka og nú er komið að því aftur, en það er mjög dýrt. Kvótastýring; 2015 leggur ESB niður kvótann, þurfum við ekki að bíða eftir því að þeir gangi í málin – ef gengur vel hjá þeim, gerum við þá ekki það sama?
Baldur Helgi svara Bóel um að rétt sé að básar þurfi að vera 120 cm á breidd, en bendir á að reglugerðin sé enn bara drög, en sennilega verða gerðar miklar og víðtækar athugasemdir við einmitt rýmisþörf og básastærðir. Við spurningu Ómars: Gerir ráð fyrir að svipuð ákvæði séu í gildi í nágrannalöndum, jafnvel lengri geymsluþörf. Árið 2000 var sett reglugerð um geymslurými búfjáráburðar og gefinn 10 ára aðlögunartími. Þá kom hins vegar frestur á gildistöku um 5 ár en 1. júlí 2015 á þetta ákvæða að taka gildi. Jón Viðar: Útivist búpenings er mikilvægt ímyndarmál fyrir greinina og að það sé útbreidd skoðun í samfélaginu (bæði hjá almenningi og kúabændum) að kýr eigi að komast út á beit.
Fundarstjóri þakkar Baldri og slítur þennan lið.

5. Mismunandi stuðningskerfi í mjólkurframleiðslu – Torfi Jóhannesson
Torfi Jóhannesson, sérfræðingur í Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu fór yfir mögulegar breytingar á núverandi stuðningskerfi í landbúnaði. Stuðningskerfi landbúnaðarins er margþætt og byggist á styrkjum, markaðsaðgerðum og tollum. Styrkir geta verið margskonar; rekstrarstuðningur (algengastur og á honum eru ýmsar leiðir), óbeinn stuðningur (við ráðgjöf, kynbótastarf, endurmenntun o.fl.) og loks sérstakur stuðningur (sem er fenginn með umsóknum). Þessu má líkja við tvær leiðir; annars vegar láttu bóndann fá peningana eða látta peningana vera í nánd við bóndann svo bóndinn þurfi að „leita“ að þeim (eða finna leiðir til að ná í þá).
Þá renndi hann yfir styrki í helstu löndum Evrópu og bar saman við styrki á Íslandi. Ísland er meðal þeirra landa sem hafa hæstu styrkina, þó ekki hæst. Hér á landi er 40-50% heildarverðmæta landbúnaðar styrkt; til samanburðar er ESB með tæplega 20%. Kúabændur hér fá meira en meðaltal allra kúabænda í ESB, en sauðfjárbændur lækka þetta meðaltal fyrir heildina og því er heildarstuðningur við bónda um það bil eins og Slóvakía og Pólland, s.s. frekar lágt. Hektarastuðningur á Íslandi myndi vera hvað lægstur sem myndi leiða til þess að landbúnaðarstuðningur á Íslandi yrði mjög lágur.
Hægt er að viðhafa ýmsar markaðsaðgerðir; s.s. opinber verðlagning, kvóti eða lágmarksverð og útflutningsbætur. Í ESB er sektað fyrir það að framleiða utan kvóta, ólíkt kerfinu hér. Þá ræddi hann kosti og galla við hvern og einn kost fyrir sig. Þannig er greiðslumark fjárbinding þar sem eini aðilinn sem græðir í slíkum viðskiptum er bankinn. Gripagreiðslur hafa ekki þennan galla þar sem hver og einn bóndi getur framleitt sína gripi. Að sama skapi geta bændur „framleitt“ tún ef stuðningur er við land. Þá eykur fjárfestingarstuðningur framleiðni enda hefur það sýnt sig í Finnlandi. Þar greindu Finnar fjárfestingaþörfina sem mikla fyrir inngöngu í ESB og bændur fengu endurgreiðslur fyrir nýbyggingu fjósa. Tollar geta verið bæði verndartollar fyrir innlenda framleiðslu en einnig tekjustofn fyrir ríkið. En svo er spurning hvað verndin á að vera há, og það er mjög erfitt að meta verðmæti tollverndar. Markaðsstuðningur hér á landi hefur fylgt markaðsstuðningi í Evrópusambandinu þar til árið 2008 þegar markaðsstuðningur í ESB lækkaði mjög mikið á meðan hann jókst hér á landi. Þessi markaðsstuðningur tryggir það að við fáum um 20% hærra verð fyrir afurðina en þar sem verðið er lægst í heiminum (Nýja-Sjálandi). Hins vegar er markaðsstuðningur við nautakjöt hér á landi hverfandi eins og í ESB.
Kvóti: Fjárbinding, einu sem græða eru bankarnir sem lána fjármagn til kvótakaupa. Þarf að vera rík ástæða til að viðhalda slíku sem hækkar framleiðlsukostnað án þess að nokkur græði nema bankar. Ríkisskuldabréf án ávöxtunar. ESB er með, í sumum löndum, framseljanlegt kvótakerfi með sömu vandamálum. Gripagreiðslur hafa ekki þennan galla, hver bóndi er síður að kaupa og selja gripi og getur framleitt gripina. Greiðslur á tún er ekki með sama galla og mjólkurkvóti, bændur geta framleitt tún úr ekki-túni, en landbændur myndu ekki sölsa undir sig jarðir. Fjárfestingarstuðningur eykur framleiðni: Finnar greindu fjárfestingaþörf; þarf mikla uppbyggingu og fengu endurgreiðslur fyrir nýbyggingu fjósa.
Ef yrði farið í stuðning út á landi þá myndi markaðurinn ráða hvað bóndinn notaði land sitt til að framleiða. Stuðningur yrði sennilega bara út á tún og til þeirra sem eiga greiðslumark núna. Hins vegar þyrfti að vera hægt að versla með greiðslumark eins og í núverandi kerfi. Þó gæti slíkt kerfi ekki komið alfarið í staðinn fyrir núverandi kerfi svo einhver hluti stuðnings þyrfti að vera út á framleiðslu og/eða gripagreiðslur til að tryggja fæðuöryggi og framleiðslugetuna í landinu. Þá þyrfti einnig að vera ríkulegur styrkur við nýliðun og kynslóðaskipti því fjárfestingastuðningur eykur framleiðni og nýliðun. Einhvers konar byggðatenging myndi einnig tryggja blómlegar byggðir um land allt.
Fundarstjóri þakkar Torfa fyrir fyrirlesturinn.

Guðbjörg á Læk: Spyr út í fjárfestingastuðning; er hann tímabundinn á meðan aðlögun á sér stað eða varanlegur? Það þarf að huga að nýfjárfestingum og nýliðun.
Sigurður í Steinsholti: Spyr um framseljanleika landgreiðslna á ræktað land. Kaup á greiðslumarki er stór biti nú þegar og þá bætist við samkeppnishæfni greinarinnar um ræktað land. Hér væri verið að fara úr einu kostnaðarsömu styrkjakerfi í annað kostnaðarsamt styrkjakerfi.
Höskuldur á Stóra-Ármóti: Ræðir kostnað við eftirlit með landbúnaðarkerfi, reglugerðabreytingar og fleira. Stuðningur ætti að vera á því sem ætti að framleiða; beintenging við framleiðslu.
Jón Viðar í Dalbæ: Ræðir stærðarmörk búanna út frá stærðarhagkvæmni og segir að í síðasta mjólkursamningi hefði átt að setja stærðarmörk (minnkandi stuðningur með auknum fjölda mjólkurlítra). Svipað og í gripagreiðslum. Stærðarmörk eru mikil í mjólkurframleiðslu. Takmörk á stærð yrði til að koma í veg fyrir landsöfnun.
Hörður í Haga spyr hvernig sé hægt að svindla á þessu kerfi? Það sé víða verið að svindla á kerfum nú þegar og ræðir stuðning við skógrækt. Nú sé hægt að stofna til skógræktar á eyðibýlum.
Jóhann í Stóru-Hildisey: Þakkar fyrir áhugavert erindi hjá Torfa. Talar um að gallar á okkar kerfi er kostnaður við kvótaviðskipti; en sitjum uppi með svipað kerfi ef skipt er yfir í landgreiðslur. Halda fjármunum fyrir greinina sjálfa, ef stærra hlutfall er flutt út þá lækkar verð til bænda ekki svo mikið. Hvað er svona vont við að greiða út á gripi og magn?
Bóel á Móeiðarhvoli: Veltir fyrir greiðslumarkskerfi út á land: erum þegar farin að tapa peningum úr greininni út á kornstuðning (svínabændur o.fl. sem eru að rækta fóður). Henni fannst Norðurlöndin vanta inn í samanburð á styrkjum og nefndi að styrkir í Finnlandi séu talsvert hærri en hjá okkur.
Ásgeir í Stóru-Mörk: Spyr hvort sé ekki hagkvæmt að hækka gripagreiðslur? Þær séu búnar að vera í frosti í langan tíma og segir að hækka þurfi 40 kúa viðmiðið og á móti ætti að minnka hlutfall sem greitt er út á framleidda lítra.
Torfi svarar spurningum og fer yfir veiklega og styrkleika við nokkrar tegundir stuðnings. Hvernig er hægt að fara með okkar kerfi? Hann er ekki beint að mæla með því að styrkja land, heldur fara yfir það hvernig er best að fara með þessa leið. Slíkt kerfi losar okkar ekki við kostnaðinn við að selja og kaupa greiðslumark. Hins vegar sé landbúnaður að þróast og inn koma nýjar búgreinar sem byggja mikið á ræktun. Háar greiðslur eru bara til mjólkurframleiðslu nú þegar, en á ekkert að styrkja kornbændur? Eins og staðan er í dag þá flytjum við inn mikið bygg sem við gætum sjálf ræktað. Þá sé ekki gott að vera kúabóndi ef samfélaginu finnst of miklir styrkir fara til kúabænda. Nú flytjum við út lambakjöt sem er að hluta til ríkisstyrkt. Nýjar búgreinar? Útflutningi á byggi eða á heyi gæti orðið mjög arðbært. Það þurfi að hætta að horfa á það hvert peningur fer, frekar að segja að þetta sé stuðningur við landbúnaðinn í heild sinni. Ætti að taka upp gripagreiðslur á allt framleitt magn? Viljum ekki styrkja það sem er flutt út. Ef við færum að flytja 40% út þá yrði samfélagið ekki sátt með það. Við seljum kvikmyndir með ríkisstuðning úr landi, af hverju má ekki flytja ríkisstudda mjólk úr landi? Eftirlitskostnaður er víða hár í ESB, eftirlitið er peningar til þriðja aðila. Hér þarf enginn að hafa eftirlit með MAST eða BÍ því þeir eru ekki að svindla. Ef peningar koma frá Brussel þá þarf frekar að hafa eftirlit, en þarf ekki að vera mjög hár kostnaður. Kostnaður í öllum kerfum. Hámark á stuðning er fínt og er ein leið sem er víða farin. Stærstu kúabúin fá „óþægilega háar greiðslur“ eins og staðan er núna. Opinberir styrkir eru opinber gögn og jafnvel gæti komið fram krafa um að styrkir yrðu opinber gögn. Torfi nefndi að vel mætti ræða stærðarmörk í landbúnaði. Hvað spurningu Harðar varðandi sagði Torfi að svindla mætti á öllum styrkjum og bótum, og eins væri með landstyrki – ef viljinn fyrir svindli er til staðar er það hægt en er það endilega æskilegt? Þá þakkaði hann góðar umræður og góðan fund.
Fundarstjóri þakkar gott erindi.

Kaffihlé.

6. Viðurkenningar
Guðmundur Jóhannesson frá RML kynnir helstu niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir árið 2013. Breytingar á kúabúum voru óverulegar á árinu, en búin eru með um 38 árskýr að meðaltali. Meðalinnlegg um 190 þúsund lítrar á búa (miðað við bú sem leggja inn allt árið). Flestar kýr bera seinni hluta ársins (á vetrarmánuðum), en kvígur bera langmest á haustin. Burðir hjá mjaltaþjónabúum með allt aðra dreifingu, mjög jafnt allt árið. Guðmundur velti fyrir sér af hverju kúabændur kjósa að láta bera á haustin? Það væri enginn munur per lítra á greiðslum , það er aðallega verið að spara sér vinnu að sumrinu og mjólka meira yfir veturinn. Hæsta dagsnyt hjá kúm sem ber yfir sumarið er miklu lægri en aðra mánuði, beitarstjórn er alls ekki nógu góð. Með betri beitarstjórnun væri hægt að ná meiri sumarmjólk en hana er ódýrt að framleiða. Aldur við 1. burð er allt of hár; eru 2,5 ára að meðaltali – meðal annars vegna þess að það er verið að færa vorfæddar kýr aftur að hausti til burðar. Nú er rétta tækifærið til að nýta þessa „inneign“ á kvígum til að framleiða upp í það gap sem vantar upp á markaðinn. Þá minnti hann á mikilvægi þess að fóðra kvígur og láta þær bera 2ja ára.
Árið 2013 jukust afurðir um 15 kg/árskú. Í sumar var ekki auðvelt að láta mjólka (gríðarlegt fall í innleggi) en hins vegar spýttu kúabændur í síðla árs og seinkuðu förgun margra kúa. Því eru margar kýr í lágri nyt í framleiðslu lengi. Nú er von á stökki í afurðum á næstu árum. Afurðir á Suðurlandi aðeins lækkað, sennilega út af sumrinu sem aldrei kom. Afurðahæsta búið á Íslandi var Brúsastaðir í Austur-Húnavatnssýslu en af 5 efstu búunum yfir landið voru 2 af Suðurlandi. Afurðahæsta kýr á Íslandi var Tígulstjarna frá Ytri-Skógum, ef 4 af 5 afurðahæstu kúm landsins voru sunnlenskar
Sveinn Sigurmundsson og Guðbjörg Jónsdóttir frá BSSL veittu verðlaun fyrir afurðahæsta kúabúið á Suðurlandi, með tilliti til mjólkurfitu og próteins, Huppustyttuna. Hana hlutu Eggert, Jóna, Páll og Kristín á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð, með 575 kg MFP.
Afurðahæsta kýr á Suðurlandi 2013 var Tígulstjarna frá Ytri-Skógum með 12.112 kg.
Þyngsta ungneytið af Suðurlandi var holdablendingur frá Jóhannesi Sigurðssyni á Ásólfsstöðum, sem var 442,8 kg í UN1+ (23 mánaða). Til samanburðar var næsti gripur á eftir 433,4 kg.

7. Önnur mál
Hrafnhildur á Litla-Ármóti ræddi um ákall MS um meiri mjólk og fagnaði því að erlendum afurðum yrði ekki blandað saman við íslenskar afurðir aftur án þess að tilgreint yrði á umbúðum. Þá ræddi hún stuttan fyrirvara á breytingum innbyrðis milli hlutfalla fitu og próteins í mjólkurverði til bænda. Bréf hafi borist til bænda fyrst 15. janúar um breytingu og að hún hafi verið afturvirk frá áramótum. Margir bændur hafi lagt upp með framleiðsluna í haust að framleiða meira magn og stíla á fóðrun kúnna eftir því. Hún spyr hvort þetta séu vinnubrögð sem kúabændur sætti sig við og teljast eðlileg?
Guðbjörg á Læk: Sagðist ekki gefa ekki kost á sér í félagsráð að þessu sinni en sé mjög ánægð með að sjá ný andlit í pontu. Þakkar fyrir samstarfið undanfarin ár. Vorkennir fólki í talningnefnd (þau missa bara af fundinum), þarf ekki bara skipa í félagsráð í stað þess að vera að kjósa. Þá segir hún opna félagsráðsfundi skemmtilega og sniðuga lausn til að fá fleiri til þátttöku.
Egill á Berustöðum: Svarar Hrafnhildi að það hefði þurft að vera meiri fyrirvari vegna bændanna. En það skortir mjólkurfitu á markaðinn og MS fékk enga fyrirvara á sölunni. Engin kúfvending, lágmarksverð breytist ekki. Hvað getur þetta breytt fyrir raunveruleg bú? Breytileiki milli búa mjög mikill hvað verðefnin varðar. Umhugsunarvert að framleiðsluskylda var hækkuð, 176 framleiðendur á okkar svæði sem ekki framleiddu upp í sitt greiðslumark (alls 2,6 milljón lítrar). Þegar markaður kallar eftir mjólk þá má ekki vera framleiðslugeta sem fyllir ekki upp í kvóta. Framleiðsluskylda við núverandi markaðsaðstæður þyrfti að vera 100%.
Hörður í Haga: Þakkar Guðbjörgu fyrir að minnast á kosningar og óskar formanni til hamingju með kjörið. Þakkar fólkinu sem gefur sig í félagsstarfið. Hann leggur fram tillögu:
Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn á Hellu 28. janúar 2014 samþykkir að fela stjórn félagsins að kanna möguleika á rafrænum kosningum félagsins í félagsráð félagsins og fulltrúum á aðalfund LK og verði kosið með þeim hætti á næsta aðalfundi.
Greinargerð: Jafnframt eru félagsmenn hvattir til að bjóða sig fram og lýsa áhuga á að vinna fyrir félagið. Þau verði kosnin sem mestan áhuga hafa á, en ekki hinir.
Tillagan samþykkt síðan samhljóða.
Valdimar í Gaulverjabæ: Þakkar uppstillinganefnd, Pétur, Bóel og Kjartan. Þau höfðu samband við fólk í sinni sýslu til að velja fólk sem hefur virkilega áhuga á því starfi sem er unnið. Varðandi erindi Torfa: ESB-kerfið er flókið, ekki verið að einfalda hlutina ef farin er sú leið. Þá kvað hann vera sammála Hrafnhildi: að breytingarnar hafi verið brattar en margt hefði gerst hratt þetta haustið þegar MS kallaði á meiri mjólk. Hann spurði einnig hvort kynbótaáherslur myndu breytast hvað verðefnin varðar.
Jórunn á Drumboddsstöðum: Spyr hvernig sé fylgst með árangri sæðingamanna og hvar eru sett mörk við ásættanlegan árangur?
Daníel í Akbraut: Segir að allt of lítið sé gert úr verðmætum í búfjáráburði og að tími áburðargjafar einnig mikilvægur. Víða eru djúpir sökklar undir fjósum sem frekar myndu nýtast sem áburðarkjallarar. Þá veltir hann fyrir sér hvort beri að hætta að sæða kýr sem hafa ekki haldið við 3ju sæðingu?
Samúel í Bryðjuholti: Þakkar þeim sem eru að hætta í félagsráði fyrir samstarfið og býður nýja velkomna. Þá veltir hann sér fyrir breytingar á heildargreiðslumarki og lækkun á greiðslumarki út á hvern líter. Þessir lítrar sem vantar inn á markaðinn verða ekki framleiddir af loftinu einu saman.
Jökull á Ósabakka: Segir að illa gangi að fá tíma í kvígurnar, gengur betur með heimanautið. Finnst skrítið að borga sæðingu fyrir kvígur sem eru hjá nauti, frekar að hafa hærra verð fyrir hverja sædda kú.
Jón Viðar í Dalbæ: Ræðir um sæðingakostnað og segir að ósanngjarnt sé að hækka sæðingagjöld til allra á landinu – eina lausnin sé að hækka gjöld annars staðar. Þar sem hefur gengið vel (t.d. hér á Suðurlandi), væri nær að senda fulltrúa á þá staði þar sem sæðingar eru dýrar. Búið að hagræða í mjólkuriðnaði, væri gott að gera í þessum efnum líka. Spyr af hverju eru veitt verðlaun fyrir afurðahæsta kúabúið mælt í MFP en afurðahæsta kýrin veitt eftir kg mjólk. Þá er hann ósáttur með að niðurstöður skýrsluhaldsins sýni ekki lengur MFP fyrir hvert einstakt bú og lýsir því sem metnaðarleysi að hafa þetta ekki inni því þetta sé aðalmálið í skýrsluhaldi erlendis. Þetta eru peningarnir. Þá spyr hann hví sé ekki hægt að fylgjast með gripum sem hafa verið seld frá búinu í Huppu? Í Worldfeng er hægt að skoða allt um hross. Árgjald fyrir Huppu, lítið hægt að skoða miðað við hátt árgjald, allavega miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir í Worldfeng. Þá spyr hann hvort hvaða kennitala sem er geti leigt sér land og fengið kornræktarstyrk?
Hrafnhildur á Litla-Ármóti: Orkuleiðrétt mjólk, væri gaman að sjá þetta tekið saman fyrir allt landið. Þá nefnir hún kjarnfóðurmál: Breytileiki milli sendinga mikill, át misjafnt og kýr í hárri nyt viðkvæmar fyrir slíkum sveiflum. Hvernig er eftirlit haft með kjarnfóðri á Íslandi, erum við að fá allt sem við eigum að fá í sendingunni? Erlendis er eftirlit á hverju búi með hverri sendingu, og smá sýnishorn geymt til 12 mánaða. Getur félagið beitt sér fyrir eftirliti eða er það eitthvað fyrir Búnaðarþingsfulltrúa að fara með inn Búnaðarþing?
Sveinn Sigurmundsson: Menn þurfa að borga búnaðargjald og vera með vsk-starfsemi til að fá jarðræktarstyrki. Það er fylgst með árangri sæðinga í gegnum Huppu. Almennt er árangur frjótækna góður, ívið lægri á austurkantinum, Eyjafjöll, Mýrdalur, Land. Eins hjá afleysingamönnum. Hann segir að það vanti frjósemisráðgjöf og dýralækni sem sinnir slíkum verkefnum. Segist sakna þess þegar Þorsteinn Ólafsson starfaði að þessum efnum. Sæðingagjöld: einfalt kerfi, 2500 kr/kú, 25% álag á kvígusæðingar, óháð fjölda sæðinga. Ódýrar sæðingar á okkar svæði, og þó misjafnt milli svæða. Hann nefnir útjöfnun fjármuna til niðurgreiðslu sæðinga annars staðar á landinu.
Fundarstjóri ber tillögu Harðar undir atkvæði, samþykkt.
Formaður þakkar fyrir góða fundarsetu og þakkar þeim sem störfuðu við talningu atkvæða. Fundinum lauk kl. 16.30.
Fundargerð ritaði Jóna Þórunn Ragnarsdóttir

 


back to top