Aðalfundur FKS 13. febrúar 2017

Aðalfundur FKS 2017 – haldinn í Gunnarsholti 13. febrúar 2017
Valdimar Guðjónsson, formaður, setti fundinn kl. 12.00. Hann tilnefndi Jón Vilmundarson, Skeiðháholti, sem fundarstjóra og Jónu Þórunni Ragnarsdóttur sem fundarritara.
Skýrsla formanns – Valdimar Guðjónsson
Góðir fundarmenn. Ég vil bjóða ykkur velkomin á þennan aðalfund Félags kúabænda á Suðurlandi. Árið 2016 var bændum á Suðurlandi hlýtt og gjöfult. Uppskera var góð í öllum jarðargróðri má segja. Veturinn reyndar í kaldara lagi og svell lágu lengi í lágsveitum og sumsstaðar á Skeiðum. Var sumsstaðar aðeins kal af þeim sökum, en uppskera yfirleitt það góð að ekki hlaust stór skaði af. Kornuppskera var ágæt nú eftir nokkur mögur ár. Fugl var ekki eins ágengur , m.a. vegna þess að hægt var að uppskera mun fyrr en áður.
Félagið hélt einn fjölmennasta aðalfundum sinn til margra ára á Hótel Stracta Hellu. Fundað var í félagsráði og haldnir sex stjórnarfundir. Einnig voru hefðbundin tölvusamskipti. Hef ég reynt að halda félagsráðinu sem mest upplýstu jafnóðum um hvað sé helst í gangi á vettvangi stjórnar.

Búvörusamningar
Mikil umræða varð um búvörusamninga bæði út á meðal bænda, á Alþingi og meðal almennings. Þar eru nútíma samskiptamiðlar óspart notaðir til skoðanaskipta og stundum lítt ígrundaðra upphlaupa. Öll meðul voru notuð til að bjaga umræðuna. Til dæmis gert tortryggilegt að samningurinn var til lengri tíma en áður, þ.e. 10 ára, og heildaruppæðum þessa tímabils haldið á lofti. Það var vissulega léttir að samningar voru samþykktir á Alþingi fyrir kosningar. En stöðugleikinn reyndist ekki meiri en svo að strax á að hefja endurskoðun hans. Nýr landbúnaðarráðherra sem við buðum á fundinn, en komst ekki, skipti síðan strax út nokkrum fulltrúum í endurskoðunarnefnd fyrir aðila sér að skapi. Mjög sérkennilegt er, svo ekki sé meira sagt, að sumir þar og hagsmunasamtök þeirra, komu hvergi að vinnunni við samningana.
Kosið verður um meðal bænda eftir tvö ár hvort áfram verði framleiðslustjórnun líkt og verið hefur og hægt hafa viðskipti með framleiðslukvóta. Í álitamáli verður því lýðræðið virkjað. Það hefur áður gerst hjá LK í umdeildu máli.

Félagskerfið
Líkt og kynnt hefur verið á haustfundum og síðustu daga eru breytingar á fjármögnun félagskerfisins. Ég lái ekki að einhverjum finnist flækjustig því tengdu. En í sem stystu máli féll búnaðargjald niður um síðustu áramót. Fjármögnun BÍ og LK er því breytt frá sem var. Þarf að undirrita upplýst samþykki um félagsaðild og greiðslu árgjalda hjá LK. Í mínum augum er málið nokkuð einfalt; þurfum öfluga málsvara. Megum ekki missa þetta á það stig að, eftir verði formaður LK (hver sem hann er á hverjum tíma) verði með allt í rassvasanum og veik samtök að baki sér. Af ástæðum þess að of margir vilji ekki vera með að fjármagna samtökin, yppta öxlum og varpa sinni stéttarvitund yfir á Jón á næsta bæ. Ég er alls ekkert svartsýnn á að svo verði. Varpa þessu aðeins hér fram. Hitt er annað mál að LK þarf á hverjum tíma að gæta ítrasta aðhalds í rekstri. Breytingar kalla enn frekar á það.

Fjöldi framleiðenda
Nú fækkar okkur kúabændum, þe. mjólkurinnleggjendum aftur, býsna hratt á ný.
Á síðasta ári hættu 8 bú hér Sunnanlands að leggja inn mjólk, þar af sex í Vestur-Skaftafellsýslu. Alls voru þetta 38 framleiðendur á félagssvæði Auðhumlu. Þetta virðist að sumu leyti fylgja góðu atvinnuástandi í þjóðfélaginu. Sáum það sama gerast fram til ársins 2008. En ljóst er að hert aðbúnaðareglugerð hefur flýtt fyrir hjá mörgum að stíga það skref að hætta. Sem og öðrum að fara í framkvæmdir við fjósbyggingar.
Ekki er að mínu viti ekkert æskileg þróun að sjá skuldlítil, og meðalstór bú detta út. Að meðaltalið verði fundið út með öfgum. Þ.e. mjög lítil bú og síðan mjög stór á móti. En kúabúum mun enn fækka. Allir gera sér grein fyrir því.
Mér finnst áhyggjuefni hvað fækkar í Skaftafellssýslunni. Er í raun frekar brothætt svæði varðandi nautgriparæktina. Er það miður. Þar eru víða ágæt landfræðileg skilyrði og möguleikar til búskapar og aðrir kostir. Sem dæmi er ekki langt að sækja afurðir frá þjóðvegi 1, sama verður ekki sagt um mörg önnur afskekktari svæði vítt um landið.

Slátrun nautgripa
Bullandi biðtími er eftir slátrun. 4 til 7 vikur í bið. Örugglega til dæmi um enn lengri tíma. SS að slátra um 110 gripum á viku. Gætu annað meiru. Á Hellu eru þetta um 100 gripir. Vantar meiri sölu. Safnað birgðum. Óneitanlega klórar maður sér í höfðinu yfir þessu. Við sjáum allstaðar kröggt af ferðamönnum og munnum til að fæða, fjöldi gesta á vetrarmánuðum er sami og var á sumri fyrir örfáum árum. Ískyggilega óttast maður að innflutningur og birgðir hjá birgjum og smásölum ýti innlendri framleiðslu til hliðar, að ákveðnu marki.

Tilraunastarf á Stóra- Ármóti
Sem fyrri formenn FKS hef ég verið vel upplýstur um gang mála á búinu af hendi Sveins framkvæmdastjóra og sótt fundi. Ekki er lengur ráðinn tilraunastjóri á Stóra- Ármóti. Ástæðan er fjárskortur, lítill vilji og útstreymdi sérmenntaðra starfsmanna frá LBHÍ. Jóhannes Sveinbjörnsson að verða sá eini eftir og er hann að auki með stórt bú. Þetta er áhyggjuefni og breyting frá sem verið hefur.
Á fundi um tilraunastarfið sem Sveinn og stjórnin boðaði til og haldinn var á Stóra -Ármóti virtist samt þó vera vilji að kanna með sameiginlegan tilraunastjóra yfir landið. Hugsanleg leið. Tilraunir þá þar sem þykir henta. Undanfarin ár var t.d. Nautaeldistilraunin á Möðruvöllum og fóðurtilraunin sem Hrafnhildur Baldursdóttir stjórnaði framkvæmd á Stóra-Ármóti. En ótækt er að tilraunastjórinn þurfi sjálfur að skrapa saman aurum til að fjármagna verkefnin.
Að mínu mati (ekki verið ályktað um þetta enn) er nauðsynlegt að áfram verði tæknileg aðstaða til einstaklingstilrauna á búinu. Farið verður í viðhald á fjósinu á Stóra-Ármóti í sumar og breytt í lausagöngu. Taka þarf ákvörðun á næstu mánuðum hvort fengin verða tæki sem gefa möguleika til fóðrunarmælinga í lausagöngufjósi. En verði slíkt ákveðið fylgir því talsverður aukakostnaður.
Hugsanlega ekki mitt að þakka. Ég vil þó samt hér þakka stjórn BSSL og framkvæmdastjóra hversu vel þeir tóku í holdanautaverkefnið frá upphafi. Þar er vissulega framundan nýr og öflugur vettvangur á búinu sem og starfsemi á staðnum.

Lög FKS
Við leggjum ekki til samþykktarbreytingar á þessum aðalfundi. En slíkt þarf að ræða á þessu ári og framkvæma á næsta aðalfundi að mínu mati. Snýr það m.a. að 4. grein í lögum félagsins. En hún segir í dag í félagi okkar að „félagar geta þeir einir orðið sem stunda nautgriparækt í Vestur-Skaftafellssýslu, Rangárvallasýslu og Árnessýslu“, gleggra væri að bæta þarna fyrir aftan . „í atvinnuskyni“ á félagssvæðinu. Er það í anda þess sem stjórn LK hefur mælst til. Virki þá þannig að þegar framleiðandi gerist félagi í aðildarfélagi , gerist hann einnig aðili að LK.
Ágætu félagar. Ég hef um nokkurra ár skeið gegnt formennsku hér í félaginu. Einnig var ég áður í stjórn, tók hlé á því en hef setið samfellt í félagsráðinu síðan fyrir síðustu aldamót. Hef haft af því ánægju og unnið með frábæru fólki. Hefur það verið gefandi fyrir mann sem er svo skrýtinn að vera félagslyndur einfari. Nú er mál að linni. Ég þakka fyrir samstarfið.
Lýk þar með máli mínu.

Reikningar – Borghildur Kristinsdóttir
Borghildur Kristinsdóttir, gjaldkeri, fór yfir ársreikning félagsins 2016. Rekstrartekjur félagsins voru 1.211.280 kr -, rekstrargjöld 1.494.002 kr og fjármagnstekjur og -gjöld 40.318 kr. Tap ársins var því 242.404 kr. Eigið fé og skuldir ársins samtals 1.488.037 kr.
Styrkur frá LK fyrir 2016 kom í lok janúar 2017 og því ekki bókað á árinu 2016. Enginn stjórnarkostnaður bókaður 2016 en kemur fyrir árið 2017.
Samþykkt samhljóða.

Tillaga um árgjald FKS og stjórnarlaun – Borghildur Kristinsdóttir
Aðalfundur FKS haldinn í Gunnarsholti 13. febrúar 2017 samþykkir að árgjald verði miðað við útgefið lágmarksverð til bænda með greiðslumark í afurðastöð. Jafngildir 50 lítra mjólkur. Laun formanns verði árlega miðað við jafngildi 2500 lítra mjólkur. Laun ritara og gjaldkera verði árlega miðuð við lágmarksverð 1250 lítra mjólkur. Greitt fyrir akstur félagsráðsmanna og stjórnarmanna samkvæmt ríkistaxta per kílómeter.
Samþykkt samhljóða.
Kosningar
Kosning formanns
Samúel: Uppstillinganefnd hefur starfað og kandídat til formanns er Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu. Allir í framboði.
Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu, 33 atkvæði
Pétur Guðmundsson, Hvammi, 3 atkvæði
Þórunn Andrésdóttir, Bryðjuholti, 2 atkvæði
Aðrir fengu færri atkvæði.

Rafn Bergsson því réttkjörinn formaður félagsins.

Kosning 9 fulltrúa í félagsráð og 3 til vara
Borghildur Kristinsdóttir, Skarði; 43 atkvæði
Elín Heiða Valsdóttir, Úthlíð; 40 atkvæði
Karel Geir Sverrisson, Seli; 36 atkvæði
Reynir Þór Jónsson, Hurðarbaki; 36 atkvæði
Arnfríður S. Jóhannsdóttir, Herjólfsstöðum; 35 atkvæði
Anne B. Hansen, Smjördölum; 32 atkvæði
Jón Vilmundarson, Skeiðháholti; 31 atkvæði
Sigríður Jónsdóttir, Fossi; 31 atkvæði
Jóhann Jensson, Fit; 29 atkvæði

Til vara:
Jökull Helgason, Ósabakka; 1. varamaður eftir hlutkesti (20 atkvæði)
Magnús Örn Sigurjónsson, Eystri-Pétursey; 2. varamaður eftir hlutkesti (20 atkvæði)
Arnór Hans Þrándarson, Þrándarholti; 3. varamaður (18 atkvæði)

Kosning 8 fulltrúa á aðalfund LK og 8 til vara
Lagt til að þeir sem eru kjörnir á aðalfund LK verði að vera búnir að skrifa undir félagsaðild að LK og gefnir nokkrir dagar til samþykkis.

Pétur Guðmundsson, Hvammi: Óskar Rafni til hamingju með kjörið. Pétur segist vera búinn að vera fulltrúi á aðalfundi LK í þó nokkur ár og hvetur fundarmenn til að kjósa ungt fólk á aðalfund LK.

Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu
Borghildur Kristinsdóttir, Skarði
Samúel Unnsteinn Eyjólfsson, Bryðjuholti
Karel Geir Sverrisson, Seli
Elín Heiða Valsdóttir, Úthlíð
Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey 2
Ásmundur Lárusson, Norðurgarði
Arnfríður Sædís Jóhannesdóttir, Herjólfsstöðum
Ragnar Finnur Sigurðsson, Litla-Ármóti (varamaður)
Sigríður Jónsdóttir, Fossi (varamaður)
Jón Vilmundarson, Skeiðháholti 1 (varamaður)
Ágúst Guðjónsson, Læk (varamaður)
Pétur B. Guðmundsson, Hvammi (varamaður)
Sævar Einarsson, Stíflu (varamaður)
Guðmundur Jón Jónsson, Berjanesi (varamaður)
Reynir Þór Jónsson, Hurðarbaki (varamaður)

Kosning 5 fulltrúa á aðalfund BSSL og 5 til vara
Stjórn gerir tillögu um að vísa þessari kosningu til félagsráð. Samþykkt samhljóða.

Kosning 2 skoðunarmanna reikninga og 2 til vara
Valdimar stakk upp á Einari, Urriðafossi og Daníel, Akbraut sem skoðunarmenn reikninga og Grétari, Smjördölum og Arnfríði, Herjólfsstöðum sem varamenn skoðunarmanna reikninga. Samþykkt samhljóða.

Starfsumhverfi, m.t.t. tollamál og breytingar á búvörulögum – Erna Bjarnadóttir
Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtaka Íslands, ræddi um breytingar á tollaumhverfi landbúnaðarvara og eins um breytingar á búvörulögum.
Almennur stuðningur við landbúnað eru t.d. innanlandsstuðningur (markaðstruflandi stuðningur eða annar stuðningur s.s. grænn stuðningur), útflutningsbætur (hefur verið afnumið með samkomulagi þeirra innan WTO frá því í desember sl.) og tollvernd (ýmist í krónutölum eða prósentum). Margir samningar um tolla á landbúnaðarafurðir, s.s. WTO-samningur, samningar við ESB (heyrist mest um þá) sem bíða eftir samþykki hjá Evrópuþinginu, stofnsáttmáli EFTA, fríverslunarsamningur EFTA, aðrir tvíhliða samningar (samningar við Kína og Færeyjar sem dæmi).
Tollkvótar; almennt gagnkvæmir um útflutning og innflutning. WTO-kvótar eru almenn aðgerð aðildarlanda. Úthlutun tollkvóta er með ólíkum hætti, s.s. útboð, hlutkesti eða „fyrstur kemur, fyrstur fær“ (t.d. notað í ESB). Tollkvóta eru einnig opnir, s.s. þegar framboð er ekki nægilegt. Nú er t.d. verið að opna tollkvóta fyrir svínasíður (beikon), þetta hefur ekki sést svona snemma ársins hingað til (hefur oft verið í apríl).
Innflutningur hefur vaxið í kjölfar tollkvótanna frá 2007 (ESB-kvótar). Þróun frá þeim tíma sýnir að innflutningur hefur 4-5 faldast af innanlandsneyslu. Kjötmarkaður hefur breyst gríðarlega á nokkrum árum. Innflutningur kjúklingakjöts hefur aukist úr 7,5% árið 2010 í 19% árið 2016, svínakjöt úr 3,5% 2010 í 22% árið 2016 og nautakjöt hefur aukist 4,5% árið 2010 í 20% árið 2016 (en hefur lækkað frá 2015 svo það er aðeins að snúast við).
Áhrif breytinga á tollum: skýrsla frá Vífli Karlssyni gefur til kynna að áhrif tollasamnings metur tekjutap bænda í hundruðum milljóna króna. Kjötafurðir lækka um að meðaltali 11% til bænda á Íslandi. Eins er það ljóst að að verulegur innflutningur á svína- og nautakjöti er á opnum tollkvótum. Alifuglakjöt er að einhverju leyti á fullum tollum. Tekjufall mjólkurframleiðslu gæti orðið 8,7% vegna innflutnings á ostum.
Í búvörusamningum var samið að endurreikna ætti tolla á undanrennudufti , mjólkurdufti og ostum. Verður gert í febrúar á þessu ári.
Starfshópur um tollasamning; tillögur í 8 liðum. Afmarka tollkvóta ESB við vöruflokka sem skortur er á, umreikna beinlausan innflutning í ígildi kjöts með beini, úthluta tollkvótum oftar á ári, setja frekari reglur um gæðakröfur gagnvart innflutningi.
Hvað er framundan? Víglínan um hrátt kjöt, egg og aðrar hráar afurðir. Mjög mikilvægt að standa í lappirnar varðandi það að flytja ekki inn hráar afurðir sem geta borið með sér smit. ESA hefur höfðað staðfestingamál gegn íslenska ríkinu til að afnema þetta bann. Hæstaréttardómur er eini staðurinn sem er ekki búið að samþykkja bannið ólöglegt. Verður meiriháttarmál að gefa eitthvað eftir í þessu máli. Þetta var eitt af þeim málum sem steytti hvað mest á þegar samningsafstaða við ESB var í gangi.
Engar jafnvægisaðferðir í boði fyrir íslenska bændur því ríkið segist vera búið að samþykkja 5 ára fjármálaáætlun sem gerir ekki ráð fyrir því að hægt verði að styrkja fjárfestingar í svína- og alifuglarækt.
Samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga; fyrsti fundur boðaður í þessari viku. Fulltrúi samtaka atvinnulífsins kominn í nefndina. Áfram verður sótt að tollverndinni í þessari nefnd og eins undanþága MS frá samkeppnislögum.

Höskuldur, Stóra-Ármóti: Staðan í nautakjöti í haust, mynduðust biðlistar. Ein skýring var vegna útboðsmarkaður vegna tollkvóta í haust. Er þetta raunin? Er verslunin að búa til falska sveiflu í neyslu?

Margrét Gísladóttir, LK: Viðvarandi vandamál í slátrun síðan í haust, þá eru biðlistar sumsstaðar og vöntun á kjöti á sláturhúsum annarsstaðar á landinu. Svæðisbundið vandamál. Liggur hjá kaupendum afurða (verslununum). Fyrir áramót fengust þau svör að NV-lands væri mikill biðlisti en að það vandamál yrði horfið um miðjan febrúar, það hinsvegar gerðist ekki. Á Suðurlandi var staðan sú að biðlistar væru ekki óeðlilega langir. Það er ekki staðan. Innflutningur hefur minnkað, salan hefur aukist, eitthvað stærra og meira þarna á bak við.

Sigurður Loftsson, Steinsholti: Hrátt kjöt, erum á viðkvæmu stigi. Erum við ekki að lenda inni í horni með málið, hvað getum við gert til að standa í lappirnar þegar við erum að tapa þessu frá okkur? Miklir hagsmunir í húfi. Erum við ekki bara búin að tapa þessu?

Erna: Lítur þannig út, ekki margar leiðir eftir. En hlýtur samt vera eftir að stjórnvöld fari á fund viðsemjenda um EES-samning og reyni enn að þrýsta á um þetta mikilvæga mál. Komin gagnrýni á dóminn, að dómurinn hafi ekki tekið á reglum EES-samnings heldur dæmt eftir reglugerð ESB. Við þurfum að taka til varna í Hæstarétti og ef það tapast verða stjórnvöld að grípa til aðgerða.

Jóhann Nikulásson, St-Hildisey: Hafa forsvarsmenn rætt þetta við nýjan landbúnaðarráðherra og utanríkisráðherra?

Erna: Fóru á fund landbúnaðarráðherra um daginn og trúi ekki öðru en að þetta hafi borði á góma

Ágúst Guðjónsson, Læk: Hvað hefur ríkið innheimt í tollkvótum pr. ár.?

Erna: Tekjur ríkisins af sölu kvótanna kemur ekki skýrslu Vífils Karlssonar við, þetta er bara áhrif á tekjur bænda sem koma þar fram. Þetta eru nokkrir tugir milljóna á ári sem koma inn í ríkiskassann af þessum tollkvótum.

Staða nokkurra verkefna hjá LK – Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri LK
Félagsaðild – félagsgjald greitt í gegnum afurðastöðvarnar (verið að ganga frá því núna). Á haustfundum var byrjað að safna undirskriftum félagsmanna og nú þegar eru 200 framleiðendur búnir að skrá sig í LK. Þetta kallar á samþykktarbreytingar á aðalfundi LK.
Samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga; fyrsti fundur 16. febrúar, starfshópurinn skal ljúka störfum fyrir lok árs 2018 og skila skýrslu til ráðherra um niðurstöður sínar. Þetta gefur tækifæri til næstu tveggja ára að ræða landbúnað á breiðari grunni. Niðurstöður þessa hóps er ekki það sem bændur koma til með að kjósa um 2019 heldur verður hluti af gögnum sem verða lögð fram fyrir þá endurskoðunarkosningu. Áherslur bænda eru þeir 9 tölusettu liðir sem atvinnuveganefnd lagði upp með að yrði rætt í þessari nefnd. Lögð áhersla á að fara ekki út fyrir það efni sem upphaflega var lagt upp með að ræða. Hætt við að tollamál vilji upp á borð í þessum hópi. Það getur vel verið að það komi ekkert út úr þessari vinnu. Neytendavernd verður áhersluatriði í nefndinni. Tveir fulltrúar neytenda í hópnum, Andrés Magnússon og Brynhildur Pétursdóttir. LK og bændur þurfa að vera duglegir að koma fram í fjölmiðlum til að svara öðrum stéttum og greinum sem eru í nefndinni, þær koma til með að vera háværar í fjölmiðlum.
Nautakjötsmarkaðurinn: Í byrjun hausts urðu verðlækkanir á nautakjöti – kaupendur tóku ekki við innlendu nautakjöti vegna birgðasöfnunar á innfluttu. Verðlækkun dregin tilbaka 1. desember. En þá fór að heyrast að biðlistar væru gífurlega langir. Ástandið á NV-landi var hræðilegt, mikill þéttleiki í fjósum sem eftirlitsaðilar tóku á og bændur sátu uppi með skömmina þó þeir væru löngu búnir að panta fyrir gripi í sláturhúsi. Eins var erfið staða á Suðurlandi. Sláturleyfishafar sögðu að biðlistar væru langir á NV-landi en að biðlistar yrðu horfnir upp úr miðjum febrúar, það hefur ekki gengið eftir. Á Suðurlandi var 4-5 vikna biðlisti, og nú er staðan að verða graf-alvarleg. Það vantar ungnautakjöt, vandamálið er hins vegar í kúnum. Aukning sölu innlendrar framleiðslu hefur verið 20% síðasta árið. Innflutningur hefur breyst töluvert. Hver er ástæðan bak við þessa gríðarlegu biðlista? Neysla hefur aukist um 27% síðast árið. LK er þessa dagana í samtali við sláturleyfishafa við að leysa úr þessari flækju. Vantar gripi til slátrunar sumsstaðar á landinu, en annarsstaðar eru langir biðlistar.
Staða ályktana: Margt hefur gengið vel að koma í farveg. Helstu mál eru erfðamengisúrvalið, þar er búið að ráða verkefnisstjóra, styrkumsóknir hafa verið sendar út og jákvæð svör við því, undirbúningsvinna í fullri vinnslu. Einangrunarstöð á Stóra-Ármóti; tryggt fjármagn í búvörusamingi. EUROP-mat; ekki komið til notkunar, nautakjötsframleiðendur eiga að fá greitt út á ákveðna flokka samkvæmt búvörusamningi. Það þurfti að samlesa reglugerð við evrópsku matvælareglugeðr. Það er á lokametrum innan ANR, inni í reglugerð verður ákvæði um að þeir sem leggja inn gripi sem falla í UN1 Úrval eða UN1A fá styrk.
Framleiðsluráðssjóður; hvernig á að nýta það fjármagn sem rennur til LK? Gert ráð fyrir að LK fengi 100-120 miljónir og tekið af því í lífeyrisskuldbindingar. 75 milljónir runnu í hlut LK og fara í þróun og uppbyggingu nautgriparæktar, hægt að sækja um styrki í þann sjóð.
Tillögur stjórnar til aðalfundar LK; næst ekki að kynna drög að tillögum á þessum aðalfundi LK en fundur stjórnar LK er á morgun. Þarf að girða fyrir allt varðandi framkvæmd á fjármögnun LK. Ekki efnislegar breytingar, minniháttar atriði svo allt renni eins og það á að renna.

Kristinn Guðnason, Þverlæk: Reglugerð í smíðum um beingreiðslur á nautakjöt, af hverju er UN1B ekki á blaði til að fá úrvalsgreiðslur nautakjöts?

Guðný Halla, Búlandi: Lífræn nautakjötsframleiðsla, sláturleyfishafar hafa ekki fengið vottun. Lífrænt nautakjöt er ekki selt sem slíkt heldur eins og annað nautakjöt. Verður hægt að opna fyrir það eins og í lambakjötinu?

Margrét: Til að lífrænt nautakjöt sé selt og merkt sem slíkt þarf sláturhús að fá vottun sem slíkt. Ætlar að taka það upp í stjórn að ganga í þetta verk.

Ágúst, Læk: Hyggst LK veita sláturleyfishöfum aðhald varðandi verðskrár? Einangrunarstöð; það þyrfti að kynna þetta verkefni betur í nágrenninu. Meiri áhætta á þessu svæði, kynna betur verkefnið og sjúkdómavarnir.

Margrét: Varðandi verðskrár sláturleyfishafa þá verður að fylgjast vel með hvernig verður verðlagt og bera saman flokkana. Varðandi Stóra-Ármót, ágætis hugmynd og skoða það með aðilum sem eiga hlut að máli.

Pétur B. Guðmundsson, Hvammi: Hvar vantar kjöt? Er ekki hægt að taka sig saman og senda fullan bíl þangað?

Margrét: Norðlenska á Akureyri hefur verið að kalla eftir gripum sem dæmi.

Valdimar, Gaulverjabæ: Ráðstafanir, er verið að tala um að setja meira á frost í sláturhúsum?

Margrét: Sláturleyfishafar vilja það ekki, verður að finna einhverja lausn.

Guðni Ragnarsson, Guðnastöðum: Taka undir með flokkun á nautakjöti. Kjöt í fituflokkum B og C er eftirsóknarvert, sláturleyfishafar yfirborga C-gripi því það sé svo fitusprengt og gott.

Guðný Halla, Búlandi: Er LK tilbúið með varnarræðu ef upp koma sjúkdómar og um hreinleika okkar vöru ef við fáum inn sjúkdóma með influtningi hrás kjöts?

Margrét: Það er nú þegar hluti af málflutningi BÍ.

Brynjólfur, Kolsholtshelli: Innflutt nautakjöt, við erum að keppa við ódýrt fjármagn í öðrum löndum. Verðum að hafa sama rekstrargrundvöll og erlendis til að geta keppt.

Margrét: Við erum undir annnarri löggjöf, þetta er hluti af því sem hefur verið rætt og verður rætt þegar kemur að samkeppnismálum. Það er ómögulegt fyrir okkur að keppa í magni eða verði, en við getum keppt í gæðum. Verðum að tæpa á sérstöðu íslensks landbúnaðar. Rekstrarkostnaður íslenskra bænda er miklu hærri en bænda annarra landa.

Kristinn, Þverlæk: Hvernig gagnast skyldu-gripamerking, er hægt að sjá hvað eru margir gripir sem bíða slátrunar?

Margrét: Við erum með þau gögn. Það sem er að gerast núna í vetur er að það er verið að slátra kúm sem hefði verið fargað fyrir rúmu ári síðan en var haldið í vegna aukinnar eftirspurnar eftir mjólk á þeim tíma. Auk þess eru fleiri að hætta í mjólkurframleiðslu en hefur verið vegna búvörusamninga og aðbúnaðarreglugerða en hefur verið.

Guðný Halla, Búlandi: Í búðum er ekki hægt að sjá hvað er íslenskt og hvað er erlent. Getið þið farið fram á að íslenska kjötið sé betur merkt? Ræddi um að gæðamerkja íslenskt kjöt.

Margrét: Það eru upprunamerkingar, frekar smátt á pökkunun. Já, við höfum rætt þetta mikið. Upplýsingar til neytenda og krafa frá þeim að þetta sé rétt merkt. Á aðalfundi LK var rætt að hanna lógó til að merkja íslenskar nautgripaafurðir, flókið hvernig á að merkja og hvort allir seljendur vilji fara að merkja þetta þó þeir séu að uppfylla merkingar.

Erna: Í Svíþjóð hefur náðst að merkja þetta sameiginlega fyrir sænskt kjöt. Um að gera fyrir alla íslenska kjötframleiðendur að vinna saman og merkja sameiginlega íslenskt kjöt en ekki merkja íslenskt nautakjöt sér og íslenskt lambakjöt sér.

Jóhann Nikulásson, St-Hildisey: Samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga; afurðastöðvar ættu að hafa aðgang. Beita sér fyrir því að afurðastöðvar eigi fulltrúa. Hyggst LK beitt sér í því?

Margrét: LK hefur ekki beitt sér í því.

Erna: BÍ spurði ANR af hverju afurðastöðvar ættu ekki fulltrúa frekar en aðrar greinar og samtök.

Jóhann Nikulásson: Gott að heyra að margir vilji vera í LK. Hefur verið skoðað að allir framleiðendur séu í LK nema þeir segi sig frá því?

Margrét: Væri þægileg leið að þurfa ekki að fá samþykki félagsaðildar, en samt öruggari leið að fara þá sem farin er vegna þess að það er verið að rukka félagsgjald í gegnum þriðja aðila (afurðastöðvar).

Samúel: Samráðshópur; Elín í Fellshlíð, er stjórnarmaður í Auðhumlu en ekki beinn fulltrúi afurðastöðvanna þar sem hún er skipuð af ráðherra í nefndina.

Margrét: Elín í Fellshlíð skipuð af ráðherra með þeirri skýringu að það hafi ekki náðst sátt innan afurðastöðva. Lagalega séð telst hún ekki fulltrúi afurðastöðva þó hún í raun sé það.

Daníel Magnússon, Akbraut: Heimasíða LK, hægvirk og ekki setja flipa inn á mynd. Mynd af fjósi, skítugt þar sem eru geldar kýr að því virðist. Þessar myndir eru ímynd okkar út á við.

Margrét: Mikilvægt að nýta pláss á síðunni fyrir mál sem helst eru á döfinni.

Bóel Anna Þórisdóttir, Móeiðarhvoli: Síðan er þung, hafið þið ekki fengið kvörtun?

Margrét: Hafa ekki fengið kvartanir en þarf að skoða eftir þennan fund.

Höskuldur, Stóra-Ármóti: Getum við ekki farið í sama farveg og grænmetisbændur að sammerkja okkar afurðir? Það er fullt af neytendum sem vilja versla íslenskt en erfitt að velja slíkt í verslunum.

Jóhanna, Stíflu: Hver er það sem upprunamerkir?

Margrét: Vinnslan.

Viðurkenningar – Sveinn Sigurmundsson
Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri BSSL, veitti verðlaun fyrir afurðahæsta bú á Suðurlandi, afurðahæstu kúnna og þyngsta ungneytið.
Afurðahæsta bú á Suðurlandi – Huppustyttan – veitt fyrir hæsta MFP en það hlutu bændur í Reykjahlíð á Skeiðum. Meðalafurðir 2016 voru 7.914 kg (591 kg MFP).
Afurðahæsta kýrin á Suðurlandi – Hrísla í Austurhlíð mjólkaði 13.779 kg.
Þyngsta ungneytið var Angus-blendingur frá Greifabúinu, Guðnastöðum (427 kg, 28 mánaða gamall sem fór í Úrval A).

Önnur mál
Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu: Þakkaði fyrir traustið að vera kosinn formaður.

Daníel, Akbraut: Vildi frekar fá fullt verð fyrir mjólkina í gegnum afurðastöðina og að afurðastöðvarnar sæki beingreiðslur til ríkisins. Uppskera af túnum; nýju tún með hærra trénis-innihaldi en gömlu túnin og því verra fóður en af gömlu túnum. Hugsa um að rækta aftur blaðmeira gras. Afurðaskýrsla; langur listi yfir gripi sem ekki var búið að slátra út úr skýrsluhaldskerfinu sem eru löngu farnir í sláturhús. Eins má ekki líða meira en 20 dagar frá burði að skráningu burðar án þess MAST fari að fetta fingur út í það. Ræddi um að það þurfi að vera bremsur á nýjum vélum á borð við rúlluvél. Vill að LK fari að taka föstum tökum á því að það séu bremsur á tækjum. Dýraníð að þurfa að setja 2 merki í hvern smákálf.

Jökull Helgason, Ósabakka: Kyoto-samkomulag; mengun gerð að verslunarvöru. Fáránlegt að flytja matvæli til landa þar sem er nóg til af matvælum. Þarf að taka inn í samningaviðræður við milliríkjasamninga að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda og mengun. Samræma landbúnaðartryggingar og hafa eigin sjóð og hafa sama tryggingaskilmála til allra bænda og hafa lægri iðgjöld.

Brynjólfur, Kolsholtshelli: Tryggingar; má ekki búa til sjóð fyrir áföllum nema borga skatt af því, en tryggingar hjá tryggingafélagi eru frádráttarbærar til skatts.

Guðný Halla, Búlandi: Húsmæður eru 50% réttlægri í landbúnaðartryggingum. Konur, spáið í það hvernig þið eruð tryggðar.

Kristinn, Þverlæk: Félag atvinnurekenda er úlfur í sauðagæru, þetta er félag stórkaupmanna. Margir halda að þetta sé félag atvinnulífsins. Síðasta ríkisstjórn var stundum kölluð ríkisstjórn verslunar og þjónustu, það hefur ekki batnað með nýrri ríkisstjórn. Kúabændur eiga að reyna að ná mjólkurverði upp í vatnsverðið.

Valdimar, Gaulverjabæ: Byrjaði á að óska Rafni með kjörið. Vill þakka fyrir samstarfið við félagsráðsfélögum og félögum í stjórn.

Samúel, Bryðjuholti: Vildi þakka Valdimari fyrir samstarfið undanfarin ár. Býður nýjan formann velkominn. Vill þakka þeim sem hverfa úr félagsráði og fyrir þeirra störf undanfarin ár.

Fleira ekki rætt. Fundi slitið kl. 16.00
Jóna Þórunn Ragnarsdóttir ritaði fundargerð.


back to top