Að lokinni sæðistökuvertíð

Sæðistökuvertíð þetta árið lauk í dag 21. desember. Þetta var 50. sæðistökuvertíð Sauðfjársæðingastöðvarinnar sem hóf starfsemi sína árið 1968. Veðrið var hagstætt og því gengu flutningar á hrútasæði að mestu mjög vel. Þátttakan var jöfn en að venju minnst ásókn fyrstu og síðustu dagana. Mikill samdráttur var í útsendingu á sæði en alls var sent sæði út frá stöðinni í 17.700 ær. Miðað við 70 % nýtingu á sæði er verið að tala um að 12.386 ær væru sæddar með fersku sæði frá stöðinni þetta árið sem er fækkun um liðlega 3.200 ær frá því í fyrra sem reyndar var metár. Sæðistakan gekk vel enda álagið á hrútana lítið fyrir utan Bergsson sem gaf ónothæft sæði nær alla daga og svo gaf Kubbur upp öndina 5. desember
Mest var sent úr Mávi frá Mávahlíð, eða 1.835 skammtar, þá var Lási frá Leifsstöðum Öxarfirði i með 1.500 skammta, þá Burkni frá Mýrum, Hrútafirði með 1.405 skammta, Óðinn frá Skörðum Miðdölum með 1.220 skammta, og Dreki frá Hriflu með 1.170 skammta.
Að lokum, þakkar það starfsfólk Kynbótastöðvar sem vann að sauðfjársæðingum bændum ánægjulegt samstarf á þessarri vertíð.

 

Mávur frá Mávahlíð (15-990) mest notaði hrúturinn 2017


back to top