8. fundur 2002

Stjórnarfundur Búnaðarsambands Suðurlands 18. desember 2002.
Mættir voru stjórnarmennirnir: Þorfinnur Þórarinsson, formaður, Eggert Pálsson, Egill Sigurðsson, Guðmundur Stefánsson og Guðni Einarsson. Einnig Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri.


 1. Þorfinnur setti fund og skýrði frá fundum sem hann hefur setið að undanförnu fyrir BsSl. og öðru sem unnið hefur verið að.
 2. Á fundinn komu Runólfur Sigursveinsson, Guðmundur Jóhannesson og Pétur Halldórsson og sögðu frá ferð til Danmerkur og hversu leiðbeiningakerfið þar er vel virkt í nautgriparæktinni og að þeir eru að vinna með dagsgamlar upplýsingar um sæðingar, innleggsmagn o.fl. Sýndu þeir útskrift af samanteknum upplýsingum fyrir kúabú. Stjórn BsSl hvetur til þess að hugað sé að því að taka upp hliðstætt fyrirkomulag hér fyrir landið í heild. Leggja þarf fram fjármuni tímabundið til þess að þróa slíkt kerfi hér og koma því á. Beinir stjórnin því til BÍ að hafa forgöngu í málinu.
  Í tengslum við þetta var rætt um leiðbeiningaþjónustuna víðum grunni.
 3. Á fundinn kom Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu. Hún sagði hraða þróun í ferðaþjónustunni. Var áður hliðarstarf en er nú í alvöru. Ferðamannafjöldi fer vaxandi og tekjur vaxandi. Tækifæri eru í sveitum í menningartengdri og heilsutengdri ferðaþjónustu auk þess sem sérstök náttúra dregur ætíð til sín ferðamenn. Sveitirnar þurfa að marka sína stefnu og hafa áhrif á Ferðamálaráð. Rætt var almennt um þetta svið og möguleika sunnlenskra sveita á því.
 4. Eftirfarandi menn voru tilnefndir í kúasýningarnefnd: Guðmundur Jóhannesson, Ásta Bjarnadóttir og Guðrún Helga Þórisdóttir.
 5. Guðmundur Stefánsson kynnti störf laganefndar.
 6. Bréf frá stjórn Félags kúabænda á Suðurlandi um stöðuna varðandi gerð nýs búvörusamnings um mjólkurframleiðslu. Stjórn BsSl leggur áherslu á að hraðað verði undirbúningi að gerð  nýs búvörusamnings um mjólkurframleiðslu til þess að eyða óvissu og koma í veg fyrir stöðnun í greininni.
 7. Sveinn skýrði frá starfseminni, húsnæðisráðstöfunum, sauðfjársæðingum o.fl.
 8. Egill spurði um styrkumsókn vegna tilraunar á Stóra-Ármóti og um launastefnu BsSl. Af því spannst nokkur umræða um launamál og launastefnu. Einnig spurði hann um reglur um meðferð og varðveislu persónugreinanlegra gagna, sem Búnaðarsambandið vinnur með. Óskaði hann eftir svari á næsta fundi.
  Eggert spurði hvaða aðili tæki við framlögum til hrossaræktarinnar á Suðurlandi. Upplýst var að Hrossaræktarsamband Suðurlands fær megnið af þeim, öfugt við framlög til nautgriparæktarinnar, sem fara til Búnaðarsambandsins, sem leggur mest vinnu í skýrsluhaldið.

Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt.
Guðmundur Stefánsson, fundarritari.


back to top