7. fundur – haldinn 23. október

Stjórnarfundur BSSL 7/2014.

Á fundinn sem haldinn var í fundarsal BSSL mættu Erlendur Ingvarsson, Ragnar Lárusson formaður, Jón Jónsson, Baldur Indriði Sveinsson og Gunnar Kr. Eiríksson. Sveinn Sigurmundsson sat fundinn og ritaði fundargerð. Þórir Jónsson Selalæk mætti á fundinn þegar umfjöllun var um hlutverk og framtíð.

1. Rætt um tillögu frá síðasta aðalfundi um innheimtu árgjalda fyrir aðildarfélögin. Samþykkt var að bjóða aðildarfélögunum upp á að BSSL tæki að sér innheimtu félagsgjalda fyrir þau en yrðu að bera útlagðan kostnað sem gæti numið 260 krónum á aðila.

2. Kynbótastöð Suðurlands var næst til umfjöllunar. Fjárhagurinn stendur vel og Sveinn fór yfir innheimtukerfið á sæðingagjöldunum sem kalla má áskriftarleiðina. Fast gjald á grip óháð fjölda sæðinga. Þessi aðferð hefur skapað nærri 100 % þátttöku hér á Suðurlandi. Lagðar voru fram hugmyndir um að bjóða kúabændum á Austurlandi að þessi aðferð verði viðhöfð við innheimtu sæðingagjalda þar eftir áramótin en þá er ráðgert að Kynbótastöð Suðurlands yfirtaki sæðingarnar þar. Samþykkt að kaupa nýjan Toyota Hilux fyrir frjótækni á Austurlandi.

3. Fram kom að tilraunastjórastaðan á Stóra Ármóti verður lögð niður um áramót en frá sama tíma lætur Grétar Hrafn tilraunastjóri af störfum. Tilraunaverkefnin hefjast um áramót og mun Baldur I Sveinsson sinna þeim. Rektor LbhÍ lýsti yfir góðum hug til Stóra Ármóts til tilraunaverkefna. Fjárhúsbyggingin Stóra Ármóti gengur samkvæmt áætlun en nú er verið að ljúka við að klæða húsið að utan. Stjórnin var sammála um að reyna að nýta þá góðu aðstöðu sem skapast hefur til námskeiðahalds á Stóra Ármóti og reyna að efla tilraunastarf með því að fá búgreinafélögin ennfrekar að tilraunastarfinu.

4. Nýir hrútar eru að koma á stöðina þessa dagana eftir afkvæmarannsóknir haustsins. Til umfjöllunar kom mismunandi sæðingaárangur sæðingamanna en 15 bændur á Suðurlandi ná 85 % árangri eða meira.

5. Til fundarins mætti Þórir Jónsson Selalæk en þá var tekin umræða um framtíð og hlutverk Búnaðarsambandsins. Þórir ræddi um að skrá um ríkisjarðir sem væru ekki í ábúð væri tiltæk hér.

Sveinn Sigurmundsson

 


back to top